Laugardagur 20. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Rakel Þorbergsdóttir hættir á RÚV: „Það er óvægni í umræðunni og stutt í heykvíslar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það lá alltaf fyrir af minni hálfu að ég yrði ekki fréttastjóri lengur en  8-10 ár. Það er í takt við þá skoðun mína að stjórnendur eigi ekki að ílengjast of lengi í krefjandi stöðu sem þessari. Þetta er sólarhrings skuldbinding allt árið um kring og oftar en ekki í ólgusjó. Fréttastofan stendur sterk núna og er öflug samkvæmt öllum mælikvörðum sem gerði ákvörðunina auðveldari,“ segir Rakel Þorbergsdóttir sem hefur ákveðið að sækja á önnur mið eftir að hafa staðið vaktina sem fréttastjóri RÚV undanfarin ár. Hún viðurkennir að þessu fylgi blendnar tilfinningar.

Það þarf að hafa sterk bein í þessu starfi

„Já, tvímælalaust. Fréttastofur RÚV hafa verið svo stór hluti af mínu lífi samfellt í 22 ár og hér hef ég eignast mjög góða vini. Það eru ótrúlega skemmtilegir félagar sem hafa gert þetta ferðalag svo eftirminnilegt. Það verður erfitt að kveðja þá.“

Rakel Þorbergsdóttir

Starfinu fylgir ýmiss konar lærdómur

„Mesti lærdómurinn hefur komið í gegnum stór og erfið verkefni. Hvort sem um ræðir stór mál sem við höfum verið með til umfjöllunar sem framkallað hafa átök af einhverjum toga eða erfiðar ákvarðanir sem ég hef þurft að taka. Það þarf að hafa sterk bein í þessu starfi, en ég hef líka lært að það er ekki veikleikamerki að bogna í mestum átökunum og að þroskaferlið er mest þegar mótvindurinn er sterkastur. Maður lærir líka ýmislegt um mannlegt eðli og einnig að hávaði fárra í bergmálshellum endurspeglar ekki almenna skoðun.“

Hún er sem fréttastjóri búin að vera með puttana á púlsinum og er spurð hvernig henni finnist samfélagið hafa breyst á þessum árum.

„Það hefur orðið gríðarleg tækniþróun á þessum tveimur áratugum sem hefur gerbylt fréttaöflun, vinnslu og framsetningu. Beinar útsendingar eru tæknilega margfalt auðveldari, við eigum auðveldara með að fá ábendingar og efni frá almenningi og hlutirnir gerast hraðar en áður. Samfélagsmiðlar og sítengdur almenningur hefur breytt öllu umhverfinu; það er margt jákvætt við það en líka skuggahliðar. Það er óvægni í umræðunni og stutt í heykvíslar en líka ýmiss konar árásir og áreitni gagnvart blaða- og fréttamönnum sem hefur ekkert með málefnalega rökstudda gagnrýna að gera.“

- Auglýsing -

Aðspurð hvað sé eftirminnilegast, hvað standi upp úr og hvert sé eftirminnilegasta skúbbið, segir Rakel:

„Það hefur ótal margt gerst á þessum árum en auðvitað standa stór mál eins og Panamaskjölin og Samherjamálið upp úr í þeirri yfirferð. Panamaþátturinn fór í loftið í 3. apríl 2016 og sá sunnudagur var rafmagnaður hér í Efstaleitinu. Tveimur dögum síðar ritstýrði ég aukafréttatíma sem átti að vera hálftími en við vorum í loftinu í  fimm og hálfan klukkutíma. Þetta var mögnuð útsending þar sem sögulegri, pólitískri atburðarás var sjónvarpað í beinni útsendingu. Kveiksþátturinn um Samherjamálið 12. nóvember, sem 65% þjóðarinnar horfðu á, markaði einnig tímamót sem flestir þekkja. Ég var ritstjóri Kveiks á þessum tíma og er gríðarlega stolt af þríeykinu sem vann það erfiða mál sem enn sér ekki fyrir endann á.“

Þetta var mögnuð útsending þar sem sögulegri, pólitískri atburðarás var sjónvarpað í beinni útsendingu.

Blaða- og fréttamenn flytja stundum tilfinningaþrungnar sögur. Hafa viðtöl grætt Rakel?

- Auglýsing -

„Ekki viðtöl sem ég hef sjálf tekið, en ég hef tárast yfir mörgum viðtölum annarra sem hafa snert mig.“

Hvernig er hún svo sem yfirmaður?

„Það er ómögulegt að dæma um það sjálf. Ég er mjög hreinskilin, stundum of að sumra mati, og heiðarleiki skiptir mig miklu máli. Ég er kröfuhörð þegar kemur að fagmennsku og vönduðum vinnubrögðum og sumum finnst ég smámunasöm í gagnrýni um það sem betur má fara. Við erum frekar dugleg að hrósa því sem vel er gert og hvetja okkar fólk til góðra verka.“

Rakel sagði að fréttastjórastarfið væri sólarhringsskuldbinding allt árið um kring og oftar en ekki í ólgusjó. Hvað tekur núna við? „Ekkert sem liggur fyrir á þessari stundu annað en gott uppsafnað orlof. Það er ýmislegt sem kemur til greina, en ekki tímabært að ræða það,“ segir Rakel sem fór upphaflega í fjölmiðla þar sem henni fannst blaða- og fréttamannsstarfið mjög áhugavert. „Ég fór eftir menntaskóla í stjórnmálafræði sem undirbúning fyrir það. Fyrsta starfið var á Morgunblaðinu þegar ég var 26 ára og þaðan fór ég í nám í Broadcast Journalism í Boston, því ljósvakamiðlarnir heilluðu. Ég fór á vinna á RÚV á meðan ég var enn í námi og hef verið hér samfellt síðan. Fréttamannsstarfið er fjölbreytt, skemmtilegt og lifandi. Það snýst um að rýna samfélagið, spegla það og veita aðhald. Þegar vel gengur og fréttaflutningur er upp á sitt besta þá líður manni vel við dagslok.“ Starfið hefur gefið Rakel mikið, en hefur það tekið eitthvað frá henni? „Álagið er mikið og viðvarandi átök eru lýjandi til lengdar.“

Ég er mjög hreinskilin, stundum of að sumra mati, og heiðarleiki skiptir mig miklu máli.

Rakel Þorbergsdóttir

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -