2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Reisa múra svo Uber og Lyft komist ekki á íslenskan markað

Ný lög um leigubíla, sem ætlað er að gera akstur slíkra bifreiða frjálsari, fela í sér hindranir sem gera farveitum á borð við Uber og Lyft ómögulegt að starfa hér á landi.

Fyrirhuguð lög voru kynnt eftir að eftirlitsstofnun EFTA, ESA, gerði athugasemdir við núgildandi lög sem þóttu takmarka um of aðgengi að markaði. Jóhannes Stefánsson, lögmaður, skrifar grein í Fréttablaðið í dag þar sem segir að engin önnur atvinnugrein búi við aðrar eins aðgangshindranir og þess vegna séu drög að nýjum lögum að mörgu leyti jákvætt skref.

Hins vegar sé að finna í frumvarpinu aðgangshindranir sem tryggja að farveitur á borð við Uber, Lyft og sambærilegar geta ekki boðið upp á þjónustu sína hér á landi. Ein slík hindrun er skylda um að í öllum leigubifreiðum skuli vera löggiltir gjaldmælar.

„Gjaldmælar eru tæki sem eru tengdir vél og hjólabúnaði bílsins og mæla ekna vegalengd og tíma. Mælirinn reiknar gjaldið jafnóðum þar sem hann er tengdur verðskrá. Þótt gjaldmælar þjóni sínum tilgangi eru þeir tæplega 130 ára gömul uppfinning, frá tíma þegar staðsetningarbúnaður í símum og tölvum voru vísindaskáldskapur,“ skrifar Jóhannes.

Þótt gjaldmælar þjóni sínum tilgangi eru þeir tæplega 130 ára gömul uppfinning, frá tíma þegar staðsetningarbúnaður í símum og tölvum voru vísindaskáldskapur.

Í frumvarpinu er að finna undantekningu frá þessari skyldu ef samið er um heildargjald ferðarinnar fyrir fram. Uber og aðrar farveitur gefa hins vegar upp áætlað heildarverð sem getur verið breytilegt eftir stöðu framboðs og eftirspurnar, áætlaðri vegalengd og tíma. Þær upplýsingar byggja á upplýsingum um umferð. Vegalengd og tími ferðarinnar eru þess vegna ekki mæld með gjaldmæli, heldur staðsetningarbúnaði og þótt heildarverð sé alla jafna mjög nærri því sem áætlað var í upphafi liggur endanlegt heildarverð ekki fyrir fyrr en í lok ferðar.

AUGLÝSING


Jóhannes segir að fleiri sambærilegar aðgangshindranir séu fyrirhugaðar í nýjum lögum og verði frumvarpin ekki breytt í meðförum þingsins er vandséð hvernig farveitur geti tekið þátt á íslenskum leigubílamarkaði.

„Ef ætlunin er virkilega að gera breytingar í þágu samfélagsins í heild, er brýnt að þessu ákvæði verði breytt. Reynum nú að láta sérhagsmuni ekki verða ofan á, fyrst við höfum tækifæri til þess,“ skrifar lögmaðurinn að lokum.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is