Reynir Bergmann Reynisson, eigandi veitingastaða Vefjunnar, hefur auglýst sérstaka dvergahelgi hjá sér um næstu helgi. Hann lofar öllu dvergvöxnu fólki sem þá kemur fríum mat á staðnum.
Reynir birti myndband þar sem hann kynnti hið nýja tilboð staðarins. Myndbandið má sjá hér að neðan er þar segir hann: „Við ætlum að hafa þetta helgi dverganna, það er dvergahelgi hérna í Vefjunni um næstu helgi. Ef þú ert orginal dvergur, þá er ég að tala um bara hérna dvergur [setur hönd á maga í naflahæð] með svona stóran haus. Ég elska dverga, þá færðu frítt að borða þegar þú kemur hérna,“ segir Reynir.
Setja verður spurningamerki við hveru viðeigandi er að veitingahúsaeigandi birti svonalagað á auglýsingamarkaði. Sjálfsagt er auglýsingunni ætlað að hitta í mark hjá neytendum með húmornum. En Þuríði Hörpu Sigurðardóttur, formanni Öryrkjabandalagsins, er ekki skemmt. „Mér finnst þetta ákaflega sorglegt og ekki staðnum til framdráttar. Þetta er niðurlægjandi fyrir það fólk sem tilheyrir þessum hópi og því mjög undarleg skilaboð frá staðnum. Er svona tilboð fyrir homma og lesbíur næst? Mér finnst þetta sýna hvað fólk er illa upplýst og hefur litla samkennd með samborgurunum. En þetta verður sjálfsagt frekar á kostnað veitingastaðarins sjálfs. Ég myndi allavega aldrei nokkurn tímann versla við hann enda sit ég sjálf í hjólastól og er því almennt lágvaxnari en almennt gerist,“ segir Þuríður.