Mánudagur 9. september, 2024
5.1 C
Reykjavik

Reynir Hauksson flamenco-gítarleikari: „Ég er alger sökker fyrir rómantík“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Flamenco er eins og heill heimur út af fyrir sig. Flamenco er ekki einn stíll heldur er þetta regnhlífarhugtak yfir marga stíla sem eiga samt margt sameiginlegt. Það er mikill spuni í flamenco þannig að maður er svolítið mikið að búa til lögin á staðnum. Í flæðinu. Það er mjög gaman. Flamenco er krefjandi tónlist þannig að maður þarf að vera á tánum þegar maður flytur hana. Og hún er ofsalega dínamísk. Hún er hávær og hljóð, það er mikill hiti í henni og mikil hreyfing og ryþmarnir, taktarnir, eru eins og setning. Þeir eru ekki bara flöt slög. Flamenco dekkar allan tilfinningaskalann,“ segir Reynir Hauksson gítarleikari sem hefur einbeitt sér að flamenco-tónlist á Spáni þar sem hann hefur búið undanfarin ár. Á næstunni kemur hann fram á nokkrum tónleikum hér á landi ásamt spænska gítarleikaranum Jerónimo Maya og munu þeir meðal annars einmitt flytja flamenco-tónlist. „Með okkur verða dansarinn Daniel Caballero og söngvarinn Miguel Jimenez.“

Hvar verða tónleikarnir? Mál og menning 1. júní. Hvanneyri Pub 2. júní. Tjarnarbíó 3. og 4. júní. Svo er það flamenco-dansnámskeið í Dansverkstæðinu 3. og 4. júní.

„Þetta verður svolítill bræðingur. Við erum með nokkur íslensk lög sem við erum búnir að snara yfir í flamenco-búning eins og til dæmis Vísur Vatnsenda Rósu. Svo kem ég til með að spila líka einleiksstykki sem ég hef samið og Jerónimo spilar líka sóló á gítar. Þannig að þetta verður sambland af hefðbundnu flamenco með dansi eins og maður sér á Spáni og svo þessi nýjung sem við erum að vinna með, sem er þessi bræðingur á íslenskri tónlist og flamenco.

Reynir Hauksson

Flamenco

Reynir ólst upp á Hvanneyri. Píanó stóð í stofunni á æskuheimilinu og lærði hann á píanó sem og fimm systkini hans. Svo fór hann að læra á gítar; fyrst og fremst rafmagnsgítar. Hann spilaði mikið þungarokk. „Þungarokkið er ennþá í hjartanu mínu.“ Hann fór síðar í formlegt tónlistarnám og fór þá í FÍH og tók tvær brautir þar. „Bæði klassík og djass.“ Svo flutti hann til Noregs þar sem hann bjó í eitt og hálft ár og spilaði og kenndi í tónlistarskóla?

- Auglýsing -

„Svo kveikti ég á perunni með flamenco-tónlist og áttaði mig á því að flamenco-tónlist inniheldur nokkurn veginn allt það sem ég fíla í tónlist: Ryþmann, þessa ákefð, tónana og þessa túlkun. Þetta kemur allt heim og saman í flamenco fyrir mér þannig að ég pakkaði niður í tösku og flutti til Spánar og fór að læra flamenco; ég fór gagngert til að læra flamenco því ef maður vill læra flamenco þá verður maður að fara til Spánar til þess að læra það og helst þarf maður að vera í Andalúsíu. Þar er langmest um þetta. Þar er flamenco einhvern veginn út um allt og tilheyrir bara þeirra daglega amstri í raun og veru.“

Þetta var fyrir sex árum.

Ég lærði spænsku í raun og veru til þess að geta lært flamenco.

„Ég kunni ekki spænsku áður en ég flutti út. Ekki neitt. Ég lærði spænsku í raun og veru til þess að geta lært flamenco. Þeir tala ekki ensku þarna.“

- Auglýsing -

Hann bjó í Granada. Sjálfri ævintýraborginni í Andalúsíu þar sem konungshjónin Ferdinand og Isabel, „los reyes católicos“, réðu ríkjum; þau unnu Spán frá Márum með því að leggja undir sig Granada 1492.

„Borgin er ótrúlega falleg og rosalega sögufræg. Það er mikil saga í þessari borg. Fyrir mér var þetta eins og að ganga um á safni sem samt iðaði af lífi á sama tíma. Þetta var merkilegt tilfinning.“

 

Eins og vertíð

Það var einmitt í Granada sem Íslendingurinn kynntist Jerónimo Maya gítarleikara. Sígauna. „Hann var þar mikið að spila og við urðum mjög góðir vinir. Hann tók mig að sér sem lærling; ég var eini lærlingurinn hans. Hann er sennilega færasti flamenco-gítarleikari samtímans. Það er eiginlega bara öruggt. Það eru allir á því. Hann var undrabarn en hann byrjaði að vinna sem gítarleikari þegar hann var 10 ára gamall; sem atvinnumaður. Og var með debut tónleika í Carnegie Hall í Bandaríkjunum þegar hann var 12 ára. Hann er búinn að vera að útsetja þessi íslensku lög með mér yfir í flamenco. Þannig að við erum að blanda saman menningarheimi mínum – þessum íslenska og þjóðlögum okkar – og svo líka menningarheimi hans sem er flamenco. Þannig erum við að mætast.“

Svo skall heimsfaraldurinn á og Reynir þurfti eins og fleiri að vera innilokaður meira og minna í nokkra mánuði á heimili sínu.

Ég var innilokaður í þrjá mánuði og ég gat ekkert samið tónlist á þessum tíma.

„Ég gat ekki farið strax til Íslands þegar Covid skall á af því að þá bjó ég með stelpu í Granada. Ég gat ekki skilið hana eftir því ég vissi ekki hvað myndi gerast. Þannig að ég var innilokaður í þrjá mánuði og ég gat ekkert samið tónlist á þessum tíma. Það vantaði að fara út og opna hugann. Maður sat bara inni og dagurinn bara leið. Ég gat spilað á gítarinn en ég gat ekki búið til neitt nýtt. Það var engin frumsköpun. Þá tók ég eftir hvað það er mikilvægt að fara út og opna augun og eyrun.

Svo kom glufa í Covid og ég kom heim til Íslands og var með fullt af tónleikum og það var mjög næs. Svo kom haustið og þá kom ný bylgja og þá fór ég að vinna í sláturhúsi á Sauðárkróki. Fór á vertíð.“

Ef maður ætlar að vera tónlistarmaður á Íslandi þá þarf maður að vera frekar fjölhæfur.

Jú, hann er eins og á vertíð. Alltaf hreint. Flutti til Madrid í fyrrahaust og segist síðan hafa komið fimm sinnum til Íslands. Nú síðasta dag maímánaðar flaug hann einmitt til landsins með félögum sínum vegna tónleikanna sem fram undan eru. Svo er hann í gítartríói með Birni Thors gítarleikara. „Þar spilum við djass. Gypsy-djass. Svo er ég líka í salsabandi á Íslandi og verðum við með stóra tónleika í Iðnó 19. ágúst; salsaball. Svo er það hitt og þetta. Ef maður ætlar að vera tónlistarmaður á Íslandi þá þarf maður að vera frekar fjölhæfur. Geta gengið inn í hitt og þetta. Ég spila líka mikið undir söng; mér finnst það vera mjög gaman. Ef það dettur inn gigg á Íslandi þá fer ég þangað.“

Jú, hann er kominn heim. „Þeir verða í viku á Íslandi, strákarnir, og ég verð áfram á Íslandi. Að lágmarki í allt sumar. Það er nóg að gera í sumar. Ég tími ekki að sleppa sumrinu á Íslandi. Ég vil vera á Íslandi á sumrin. Mér finnst fínt að sleppa við slabbið og fárviðrið; ég er feginn að vera sem minnst í því og þá er fínt að vera á Spáni.“

Reynir Hauksson
(Mynd: Kolla Jóns.)

Hann flakkar. Er svolítið eins og sígauni.

„Þegar ég fæ frí þá finnst mér mjög næs að ferðast ekki. Þá er fínt að vera á sama staðnum og slappa aðeins af.“

Hann segist vera mikill Íslendingur í sér. „Ég sakna alltaf Íslands. Þetta er landið mitt. Mér líður hvergi betur í heiminum en á Íslandi. Ég held að það erfiðasta við að vera á Spáni sé heimþráin.“

Björt sumarkvöld og dirrindí lóunnar.

Og fólkið.

„Fyrst og fremst fólkið mitt sem ég elska. Að vera með því.“

 

Ástin

Ástin. Þessi ást.

Hann talaði um sambýliskonu sína í Granada við upphaf heimsfaraldursins. Þau eru ekki lengur saman. „Það eru nokkrar konur síðan þá.“

Er gítarleikarinn Casanova í sér? Don Juan?

„Já, svolítið. Það má segja það. Það hefur reynst mér erfitt að vera í föstu sambandi því það er svo mikið flakk á mér. Þá er þetta svolítið snúið. Það erfiðasta við þetta flakk er að ég er alltaf að kveðja fólk. Og ég veit aldrei nákvæmlega hvenær ég sé það aftur. Planið hjá mér nær ekki mjög langt fram í tímann. Ég er bókaður kannski þrjá fjóra mánuði fram í tímann en svo veit ég ekki hvernig þetta verður á næsta ári. Það gæti verið að ég komi aftur til Madrid í haust en kannski ekki fyrr en á næsta ári. Það verður svolítið mikið að gera á Íslandi og ég þarf að fylgja vinnunni; þar sem hún er. Það er mikil vertíðarvinna að vera í tónlist. Það erfiðasta við þetta er að vera alltaf að kveðja. Það er alltaf söknuður strax og ég fer frá Íslandi. Ég tala nú ekki um ef ég er með kærustu á Íslandi.“

Ég elska ástina og er kannski pínu ástsjúkur ef maður getur orðað það svoleiðis.

Hann segist vera „alger sökker fyrir rómantík. Ég fíla rómantík. Ég elska ástina og er kannski pínu ástsjúkur ef maður getur orðað það svoleiðis. Ég er mikill rómantíker. Og stundum er bara staður og stund einhvern veginn þannig.“

Hann er fljótur að ná sér eftir sambandsslit. „Ég er með mjög hraða brennslu í líkamanum og það er ómögulegt fyrir mig að bæta á mig; ég þarf að stunda líkamsrækt til að halda mér í vigt. Þannig að ég er með hraða úrvinnslu í líkamanum og ég held ég sé líka með frekar hraða tilfinningaúrvinnslu. Ég verð líka fljótt ástfanginn.“

Núna á hann íslenska kærustu.

Þetta er eitt það fallegasta sem einhver hefur gert fyrir mig.

„Við hættum saman fyrr á árinu og ég fór út og hún kom út til þess að vinna mig aftur. Það var mjög fallegt en hún kom fyrirvaralaust; lét mig vita með tveggja daga fyrirvara að hún kæmi en ég hafði ekki búist við að sjá hana aftur. Hún kom og náði mér aftur í Madrid. Mér finnst þetta mjög fallegt; þetta er eitt það fallegasta sem einhver hefur gert fyrir mig. Ég var til í að gefa þessu séns og svo náði hún að töfra mig aftur.“

Hvert er rómantískasta lagið í huga hans sem viðurkennir að hann sé svolítill Casanova í sér? Don Juan.

Það er Draumalandið.

Ó leyf mér þig að leiða,
til landsins fjalla heiða,
með sælu sumrin löng.
Þar angar blómabreiða
Við blíðan fuglasöng.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -