Fimmtudagur 18. apríl, 2024
3.1 C
Reykjavik

Þúsundir Íslendinga: „Geta látið manni líða vel eða jafnvel hræðilega“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Af hverju er það þannig að flestar nýjar byggingar – íbúðarhúsnæði, skrifstofur og aðrar stórar byggingar í borgum – þurfa að vera svona látlausar og ljótar? Hvers vegna erum við svona ákveðin í því sem samfélag að breyta borgum okkar í endalausa röð af gler- og stálkössum, þegar flestir vilja vera í og við eldri götur og hús, bæði Íslendingar og ferðamenn? Er það vegna þess að við erum með einhverskonar ímynd um það hvernig framtíðin eigi að vera? Þegar til dæmis við á Íslandi auglýsum  Reykjavík fyrir ferðamönnum sýnum við alltaf myndir af gamla bænum, en ekki af Hafnartorgi eða svæðinu í kringum Smáralind.“

Reynir Ragnarsson er 24 ára stjórnmálafræðingur frá Háskóla Íslands sem hefur látið arkitektúr og borgarskipulag sig varða. Hann fann enga síðu eða hóp á Íslandi sem var að ræða um þessi málefni og ákvað því að nýta samfélagsmiðla og grafíska hönnun til að höfða til Íslendinga og vonandi skapa einhverskonar umræðu:

„Það góða við Ísland er að þetta er lítið land og ef þú vilt virkilega koma hugmyndum þínum á framfæri þá getur þú gert það. Ég var líka bara forvitinn um hvað Íslendingum fyndist um hvernig borgin okkar hefði þróast og hvernig þeir myndu bregðast við instagram síðunni minni: arkitektur.island. Myndu þeir vera sammála mér, algjörlega á móti mér, eða væri þeim jafnvel alveg sama?“

Hann telur ekki nauðsynlegt að hafa sérstakan áhuga á arkitektúr til að sjá hversu margar byggingar hafa verið reistar frá sjötta áratugnum sem hafa elst mjög illa. Ekki er það út af því að þeim er ekki haldið við, heldur frekar útaf hönnuninni sjálfri, hvorki tímalausar né fallegar og slíkar byggingar verða strax ljótar eftir tískubreytingar, segir Ragnar. Hann veltir fyrir sér, af hverju?

Getur látið manni líða vel eða jafnvel hræðilega

- Auglýsing -

Reynir ólst upp á Íslandi til 9 ára aldurs, þar til hann flutti til Suður-Kaliforníu með fjölskyldunni sinni. Hann flutti frá Bandaríkjunum til Íslands 21 árs, árið 2018 til að læra við Háskóla Íslands. Hann segir að þótt hann sé ekki lærður arkitekt þá hafi hann alltaf haft auga fyrir umhverfinu og sé í raun mjög viðkvæmur fyrir því. Honum finnst umhverfið annaðhvort geta látið manni líða vel eða jafnvel hræðilega. Hann er mjög hrifinn af fínni list, fínum götum, fínum arkitektúr, náttúrunni og dáir það hvernig Svisslendingar hafa byggt upp sínar borgir. Hann telur Svisslendinga vita hvernig á að fegra landslag sitt og borgir, allt frá því hvernig þeir setja upp girðingar hjá sér í það hvernig þeir byggja upp þjóðvegina sína.

Eins og fyrr segir ólst Reynir upp í Bandaríkjunum, en þegar hann ferðaðist fyrst til Evrópu talaði hann um að honum hafi liðið eins og hann væri að stíga inn í einhvers konar „draumaland.“

„Þarna eru borgir sem voru hannaðir til að líta vel út, ekki bara til að þjóna tilgangi. Hver einasta bygging sem hann gekk framhjá var með ákveðna sögu. Jafnvel nýbggingar voru byggðar í ákveðnum stíl með menninguna í huga til að passa inn í umhverfi sitt.“

- Auglýsing -

Hann upplifði að byggingarnar hefðu einskonar „sjálfsmynd“ sem borgarar gætu verið stoltir af og fundið að þeir séu hluti af, samanborið við hina dæmigerðu bandarísku borg með sína verslunarmiðstöðvar, bílastæði, hraðbrautir og látlausa skýjakljúfra, sem eru eins í flestum borgum, aðeins til að komast frá húsinu sínu á skrifstofuna.

Neikvæð skilaboð frá arkitektum

Það sem kom Reyni mest á óvart voru viðbrögðin sem hann fékk við síðunni. 90% af skilaboðunum hafa verið mjög jákvæð og þá sérstaklega frá fólki sem hefur látið á sér kræla í þjóðfélaginu og í listaheiminum. Uppáhaldsskilaboðin eru þegar hann fær skilaboð frá fólki sem hefur upplifað sig sem þau einu sem hugsa á þessum nótum, en þau eru það alls ekki. Hann segist hafa liðið svona þegar hann bjó til síðuna í fyrstu. Af þeim fáu neikvæðu skilaboðum sem hann hefur fengið, hafa flest þeirra verið kurteis skilaboð frá arkitektum eða nemendum úr arkitektaskólum. Hann fagnar allri umræðu, en almennt séð eru flestir þakklátir fyrir að hafa loksins fundið síðu og hóp þar sem fólk getur tjáð sig um þessi mál. Flestir eru ekki með menntun í arkitektúr, á meðan margir arkitektar hafa litið á gagnrýni mína sem árás á þá persónulega.

Hvers konar samfélag viljum við?

Arkitektúr skiptir máli fyrir betra samfélag og eitt það mikilvægasta sem þarf að hafa í huga þegar hugsað er um hvers konar samfélag við viljum, því hvað er samfélag, ef ekki umhverfið sem við búum í?

„Húsið, gatan, hverfið…já borgin öll er það sem við búum í og er allt í kringum okkur. Ef arkitektúr og borgarskipulag er ekki fallegt þá verðum við öll að lifa með því og þess vegna er arkitektúr ekki bara eitthvað sem arkitektar ættu að hafa um að segja heldur allir borgarbúar. Ef þú vilt til dæmis ekki hlusta á hip-hop, þá þarftu ekki að gera það og ef þér líkar ekki við ákveðið málverk, þá þarftu ekki að hengja það upp á vegginn þinn. En arkitektúr er ekki þannig, vegna þess að ef meirihluti fólks finnst tiltekin bygging ljót, en þeir sem hönnuðu hana flott, þá höfum við ekkert slíkt val og verðum að lifa með því. Hafnartorg er eitt dæmi um það. Þar hefur það sýnt sig vel hvað almenningsálitið um fegurð hefur lítið að segja um hvernig umhverfið okkar þróast.“

Taka það besta úr fortíðinni og búa til eitthvað nýtt

Reynir talar um að; „arkitektúr sem myndi henta Íslandi betur er sá sem nýtir alla þá þætti sem rannsóknir hafa sýnt að fólki finnist fallegt og eykur á vellíðan okkar. Þá erum við að tala um að byggja með samhverfu í huga, hlýjum byggingarefnum fremur en gler og stál og huga að góðri notkun á smáatriðum og svo framvegis.“

Hann talar um að finnast ekki allt gamalt betra og allt nýtt verra, heldur er það þannig að eldri stílar nýttu þessa þætti vel og þess vegna eru þessar byggingar enn fallegar í dag.

„Þannig ættum við ekki að leitast við að afrita fortíðina, heldur taka það besta úr fortíðinni og búa til eitthvað nýtt. Það eru mörg dæmi um allan heim þar sem arkitektar hafa sótt innblástur frá stílum úr fortíðinni og bætt sínum eigin hugmyndum við til þess að búa til eitthvað nýtt. Svokallaðir endurvakningarstílar (e. revival styles).“

Reynir talar um að ríkjandi tískustraumar í arkitektúrnum í dag séu gjörólíkir þeim atriðum sem nefnd er hér að ofan:

„Það er að mestu leyti gler og stál, oft ósamhverf röð glugga og undarleg form og hönnunin virðist hafa orðið einstaklingsbundnara. „Það er að segja, það er meira um að arkitektinn sýni hversu undarlega hann getur hannað byggingu, í stað þess að reyna að búa til eitthvað sem flestum mun finnast fallegt.“

Hvaða hverfi eru fallegust á Íslandi?

Hvert eru flestir ferðamenn að fara til að taka myndir og hvert vilja flestir Íslendingar fara í göngutúr í Reykjavík og þá fáum við svarið okkar. Reynir spurði fylgjendur sína hvaða hverfi þeim fyndist fallegast á Íslandi og flestir sögðu gamla vesturbæinn, Oddeyri á Akureyri og gamla Hafnarfjörð. Þessir staðir deila sama almenna stílnum og það er engin ástæða fyrir því af hverju við getum ekki haldið áfram með þá þróun með öllum þeim auð og tækni sem Ísland hefur í dag, samanborið við 1921. Enn og aftur, ekki afrita fortíðina heldur byggja á því sem við höfum og búa til eitthvað betra.

Hvað hafa „klassískar“ byggingar sem nýjar eru ekki með?

Reynir hefur skoðað rannsóknir sínu máli til stuðnings og nefnir nýlega norska rannsókn þar sem vísindamenn notuðu sýndarveruleikatækni til að sjá hvers konar arkitektúr Oslóarbúum þótti fallegastur og völdu langflestir klassískt og hefðbundið umhverfi fram yfir það sem einkennist af nútímalegri byggingum. Spurningin er þá hvað hafa „klassískar“ byggingar sem nýjar eru ekki með? Rannsókninni sýnir að byggingar sem búa yfir samhverfu, réttri notkun á smáatriðum, náttúrulegu yfirborð (e.facades) eru allt þættir sem ýta undir vellíðan fólks.

Aukin breytileiki í útliti bygginga auki á vellíðan okkar

Hér á Íslandi hefur til dæmis Páll Jakob Líndal, doktor í umhverfissálfræði við HÍ, sýnt að aukið flækjustig í útliti bygginga eykur líkur á því að fólk upplifi sálfræðilega endurheimt í slíku umhverfi og að aukin hæð bygginga dragi úr þessum líkum. Með öðrum orðum má segja að aukin breytileiki í útliti bygginga auki á vellíðan okkar, en aukin hæð bygginga dragi úr henni. En bara upp að ákveðnu marki, því ef breytileiki í útliti verður of mikill þá fer hann að hafa neikvæð áhrif á líðan okkar. Önnur rannsókn frá honum sýndi að gróður í götum eykur líkur á upplifun sálfræðilega endurheimt – þar skiptir magn gróðurs máli; meiri gróður, meiri jákvæð áhrif.

Með allt þetta í huga getum við ekki lengur sagt að þetta sé bara „smekksatriði“ og algjörlega huglægt, við vitum hvað fólki finnst almennt flott og hvað er gott og hvað er slæmt. Þegar ég heimsótti Pál sýndi hann mér til dæmis niðurstöður frá nemendum sínum. Þeir urðu að fara út og taka myndir af því hvaða staður þeim þætti fallegastur í borginni fyrir gönguferðir og hver sá væri sá ljótasti. Nær allir fallegu staðirnir voru á götum sem einkenndust af eldri húsum með miklum gróðri en „ljótu staðirnir“ voru í hverfum eins og Borgartúni, Skeifunni og sumum nýrri úthverfum.

Þetta snýst bara um peninga

Þetta er vissulega margþætt mál og ekki hægt að benda á einn aðila varðandi þessa þróun.

„Sumir segja að þetta snúist bara um peninga, en það er aukaatriði því sparnaður hefur alltaf verið markmið í gegnum tíðina. Þannig að þessi rök segja okkur í raun ekki mikið.“

Reynir talar um að betra sé að horfa á söguna og virða fyrir sér hvernig vissir stílar eins og módernismi hafi orðið svona ráðandi innan arkitektúrsins síðan á sjötta áratugnum, en hann er nánast orðinn að samheiti yfir arkitektúr í dag. Ef þú prófar að leita eftir

„architecture“ í leitarvél google, þá er hægt að sjá hvað átt er við:

„Nútíma arkitektúr hefur lagt meiri og meiri áherslu á að nota færri smáatriði, minni samhverfu og bara minna af öllu. Þetta er ekkert sem er sérstakt fyrir Ísland. Við getum sagt að Ísland sé bara að fylgjast með þróuninni sem er í gangi í heiminum og herma eftir því. Kannski ættum við að reyna að búa til okkar eigin stíl, með okkar eigin efnum.“

Krafa um að íbúar fái að velja á mili mismunandi tillagna

Stjórnmálamenn með völd þurfa að taka upp þessa umræðu og nálgast arkitektúr eins og samfélagsmál. Arkitektúr og skipulagsmál hafa áhrif á vellíðan okkar og mótar veruleika okkar næstu áratugina. Þegar við byrjum á því getum við farið að krefjast þess að íbúar fái að velja á milli mismunandi tillagna á viðkvæmum og sýnilegum svæðum þannig að þeir sem eru með völd byggi ekki bara það sem þeir vilja án þess að nokkur segi neitt. Hvers konar samfélag myndum við þá fá smá saman? Stjórnmálaflokkar gætu jafnvel komið með sína eigin „arkitektúrstefnu“ segir Reynir.

Ekki litið á þessi mál sem pólítísk eða samfélagsmál

„Ég held að flestir finni það djúpt hjá sér að þróun borganna okkar gæti verið svo miklu betri. En vegna þess að þetta er mál sem hefur ekki verið litið á sem pólitískt samfélagsmál, þá sætta sig flestir við það og halda áfram með lífið. Ef skipulagsmál koma upp þá snýst málið aðeins í kringum þéttingu og þá sem eru með eða á móti því; en það sem ég er að segja er að byggðin sjálf skiptir jafn miklu máli og þéttingin og það er einfaldlega ekki nóg að tala aðeins um þéttingu, en ekki hvernig þessar nýju byggingar og hverfi verða. Það gæti líka fengið þá sem eru á móti þéttingu, til að styðja það, ef áætlunin er að búa til fallegt borgarumhverfi með arkitektúr, sem meirihlutinn vill.“

Fegurð er hugtak sem er ekki einu sinni rætt

„Mér finnst eins og við lifum á tímum þar sem útlit bygginga er ekki einu sinni á borðinu þegar stjórnvöld tala um áætlanir um að byggja eitthvað. Fegurð er hugtak sem er ekki einu sinni rætt vegna þess að það er einfaldlega haldið fram að fegurð sé einungis smekksatriði einstaklings. Við vitum frá rannsóknum að þetta er frekar villandi hugsun. Þannig já, við leggjum mikla áherslu á að byggja til dæmis þúsundir nýrra íbúða eða nýtt sjúkrahús á mjög stuttum tíma, en minni áherslu á hvernig það mun líta út.“

Voru mistök

„Það góða við borgarumhverfið er að við bjuggum það til og við getum breytt því ef við viljum. Og það fyndna er að flestar þessara ljótu bygginga sem voru byggðar á milli sjötta og sjöunda áratugarins voru ekki byggðar til að endast og geta verið teknar niður jafn hratt og þær voru byggðar. Við erum nú þegar að sjá þennan viðsnúning í Evrópu, þar sem fólk er að átta sig á því að hinar miklu breytingar sem áttu sér stað á seinni hluta 20. aldar, þar sem mörg gömul hverfi og byggingar voru teknar niður og einföld kassahverfi byggð í staðinn, voru kannski mistök. Nú þegar við á Íslandi og í vestræna heiminum erum komin á það stig sem við erum á í dag, þá getum við byrjað að hugsað um hluti eins og fegurð og við sjáum hvers konar fegurð er tímalaus og hvað er bara látlaust og eldist illa. Að þessu sögðu held ég að við verðum að byrja að leyfa fólki að kjósa um stórar tillögur. Auðvitað getur almenningur ekki kosið um hverja einustu byggingaráætlun, en við ættum að minnsta kosti að geta valið á milli mismunandi tillagna. Lítum til dæmis á það sem gerðist á Selfossi, þar sem sumar áætlanir voru um að miðbærinn yrði fullur af gler- og stálkössum sem gætu verið hvaðan sem er. Íbúarnir völdu áætlun í hefðbundnum íslenskum stíl. Ímyndaðu þér, ef við hefðum gert það sama með Hafnartorg, Höfðatorg og aðra mikilvæga staði.“

Ekki hægri eða vinstri mál

Því miður hefur enginn flokkur í raun talað um þetta vandamál, vegna þess að aðeins einn ákveðin stjórnmálamaður – og fyrrverandi forsætisráðherra – hefur talað um þetta áður, þá þýddi það einhvern veginn að þú værir aðdáandi hans ef þú varst með slíkar skoðanir um arkitektúr. Hann á auðvitað ekki málið og þetta er ekki hægri eða vinstri mál.“

Þurfum félagslega og lýðræðislega nálgun

Reynir segir að „það er lítið talað um þetta í fjölmiðlum vegna þess að áður fyrrr var ekki litið á arkitektúr eins og önnur samfélagsmál. Ef þú ert ekki arkitekt, hvers vegna ættir þú þá að hugsa eða tala um arkitektúr, hefur stundum verið sagt. Við þurfum félagslega og lýðræðislega nálgun á arkitektúr eins og með öll önnur mál sem snerta samfélagið. Þannig í grunnin held ég að það hafi ekki verið mikið rætt um þetta í fjölmiðlum einfaldlega vegna þess að það hefur ekki verið mikið rætt um þetta í samfélaginu. Blaðamenn, rétt eins og allir aðrir, virðast hafa sætt sig við það sem er í gangi og einbeitt sér að öðrum málum.“

Fengið mörg jákvæð skilaboð

„Ég stofnaði síðuna mína á instagram:arkitektur.island í maí 2021 og á þeim tíma hefur hann vaxið mjög hratt. Fjölmiðlar hafa sýnt síðunni athygli og ég hef persónulega fengið mörg jákvæð skilaboð sem gleðja mig svo mikið vegna þess að ég sá að það var ekki bara ég sem hugsaði svona heldur þúsundir Íslendinga.“

Hann nefnir að; „eftir að reikningurinn varð vinsæll þá gagnrýndu nokkrir arkitektar mig sem ákváðu að stofna reikning sem heitir @islenskur_arkitektur sem eins konar PR herferð gegn mér. Þar á meðal fyrrverandi borgarskipuleggjandi fyrir Reykjavík sem sakaði mig um að „þykjast vera arkitekt.“

En það undirstrikar aðeins það sem ég sagði um hvernig margir arkitektar fara í vörn, frekar en að spyrja sig hvað þeir geti gert betur fyrir okkur.“

 

Viðtalið er endurbirt.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -