Miðvikudagur 24. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

„Ríkisstjórnin hafði stór orð um að ráðast í aðgerðir gegn verðbólgu, þar var mikið gert úr engu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, lagði til ívilnun til uppbyggingar á Alþingi í dag — að húsnæðisfélög án hagnaðarsjónarmiða fái 60% niðurfellingu á virðisaukaskatti af uppbyggingu nýrra íbúða.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra tók vel í hugmynd Kristrúnar.

Fyrirspurn Kristrúnar og svar Bjarna má lesa hér fyrir neðan:

Fyrirspurn Kristrúnar til fjármálaráðherra:

Kristrún Frostadóttir.

„Virðulegi forseti. Þegar ríkisstjórnin hafði stór orð um það í vetur að nú ætti loksins að ráðast í aðgerðir gegn verðbólgu, þá kom á daginn að þar var mikið gert úr engu. Aðeins ein aðgerð sem var kynnt átti að taka gildi á þessu ári. Og það var lækkun á endurgreiðslum virðisaukaskatts vegna framkvæmda við íbúðarhúsnæði — úr 60% í 35% — sem á að taka gildi núna um mitt ár. Þetta felur í sér ákveðið aðhald á ríkisfjármálahliðinni. En hægir um leið á uppbyggingu húsnæðis — og vinnur meðal annars gegn markmiðum ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu á hagkvæmum íbúðum. Markmiðum sem eru reyndar víðs fjarri því að nást.

Og nú sjáum við skýr merki um samdrátt í húsnæðisuppbyggingu í nýjustu hagtölum — enda bætist þetta ofan á hækkun vaxta og hækkun á ýmsum kostnaði. Þannig að — virðulegi forseti: Það eina sem ríkisstjórnin getur náð saman um til að taka á verðbólgunni, núna, er að grípa til aðgerða sem draga úr hvata til húsnæðisuppbyggingar. Og það bítur auðvitað í skottið á sér — því að hömluleysið á húsnæðismarkaði er bæði rót verðbólgu í dag og helsta ástæðan fyrir ólgu á vinnumarkaði.

- Auglýsing -

Þetta höfum við í Samfylkingunni ítrekað bent á og kallað eftir markvissum aðgerðum til að taka á verðbólgunni og til að verja heimilisbókhaldið. Við höfum biðlað til ríkisstjórnarinnar að beita aðhaldinu þar sem þenslan er í raun og veru og hörfa ekki frá íbúðauppbyggingu.

Virðulegi forseti. Við höldum áfram að leggja til lausnir, og vil ég því kanna hug fjármálaráðherra til eftirfarandi tillögu Samfylkingarinnar: Við viljum leggja til ívilnun til uppbyggingar: Að húsnæðisfélög án hagnaðarsjónarmiða, eins og til dæmis Bjarg íbúðafélag og aðrir uppbyggingaraðilar í almenna íbúðakerfinu, fái áfram ívilnun með 60% endurgreiðslu á virðisaukaskatti. Svo húsnæðismarkmið ríkisstjórnarinnar færist ekki enn fjær. Þetta er hugmynd sem stjórnarþingmenn hafa skrifað um í greinum. Gætum við mögulega náð saman um þetta, ívilnun til uppbyggingar á almennum íbúðum?“

Svar Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra við fyrirspurn Kristrúnar:

- Auglýsing -
Bjarni Benediktsson.

„Virðulegi forseti, ég verð nú fyrst að bregðast við þessum stóru orðum um að ríkisstjórnin hafi skilað í raun og veru bara auðu í þeim aðstæðum sem eru uppi og rifja það upp að núna um áramótin þá hækkuðum við bætur almannatrygginga um 9% ofan á 7,4% hækkun í fyrra; að við hækkuðum frítekjumark atvinnutekna örorkulífeyrisþega um áramótin um helming upp í 200.000 krónur; að húsaleigubætur voru hækkaðir um fjórðung frá miðju síðasta ári og tekjumörkin hækkuð; að eignamörk voru hækkuð í vaxtabótakerfinu um 50%; að barnabótakerfinu var breytt — það var fært yfir í samtímagreiðslur og greiðslur hækkaðar; fleiri njóta bóta; persónuafsláttur hækkaður um 10,7% um áramótin.

Þetta var að gerast núna í janúar á þessu ári. Og þar fyrir utan þá já, lögðum við fram fjármálaáætlun þar sem við aukum aðhaldið og bætum afkomuna. Við boðum frekari aðhaldsaðgerðir í opinbera rekstrinum, setjum aukið aðhald á Stjórnarráðið og ætlum áfram að vinna að bata í ríkisfjármálunum þannig að ríkisfjármálin haldi áfram að styðja við markmið um lækkandi verðbólgu.

Þannig að það er alrangt þegar sagt er að það sé ekki neitt í gangi. Ein aðgerðin sem við höfum lagt til við þingið er að draga úr endurgreiðslum vegna nýbygginga og viðhalds á íbúðarhúsnæði og það er aðgerð sem m.a. tengist því að eins og hlutirnir stóðu núna á fyrsta ársfjórðungi þessa árs þá var mjög mikill kraftur í uppbyggingu nýrra íbúða og framlegðin af byggingu íbúðarhúsnæðis hefur verið mjög há.

Hvort það kemur til greina að undanskilja þennan hluta íbúðamarkaðarins? Ég er alveg til í að hugsa það og það getur vel verið að það geti gagnast fyrir þennan hluta. En það er fleira sem mundi gagnast fyrir þennan hluta. Það væri t.d. það ef Reykjavíkurborg mundi skila lóðum til að það væri hægt að byggja slíkar íbúðir. Og síðast í dag þá sjáum við fréttir af því að Reykjavíkurborg er ekki að greiða fyrir hugmyndum um að stórauka framboðið af ódýru húsnæði í borginni, á höfuðborgarsvæðinu.

Þvert á móti hefur Samfylkingin í Reykjavík fyrst og fremst verið að beita sér fyrir þéttingarstefna sem er allt annað heldur en að tryggja mikið framboð á ódýru húsnæði.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -