2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Risauppsögn hjá WOW air – Skúli gengst við mistökum

Um það bil hundrað starfsmönnum var sagt upp störfum hjá WOW air í morgun. Flugvélum undir merkjum félagsins fækkar úr 20 í 11. Forstjórinn Skúli Mogensen viðurkennir að hann hafi gert mistök við stjórnun félagsins.

Starfsfólkinu sem var sagt upp fékk uppsagnarbréf í hendur í morgun og taka uppsagnirnar strax gildi. Uppsagnirnar þurfa í sjálfu sér ekki að koma á óvart enda reksturinn verið á vonarvöl undanfarna mánuði. Þótt viðræður við Indigo partners um kaup á WOW standa yfir var ljóst að hagræða þyrfti í rekstri félagsins enda rekstrarmódel félaganna tveggja gjörólíkt. Um 1.000 starfsmenn munu starfa hjá WOW air eftir uppsagnirnar. Boðað hefur verið til starfsmannafundar klukkan 13 í dag þar sem Skúli mun sitja fyrir svörum starfsmanna.

Í tölvupósti sem Skúli sendi starfsmönnum í morgun harmar hann að grípa hafi til þessara aðgerða. Þær séu hins vegar eina trúverðuga leiðin til að bjarga fyrirtækinu. Auk uppsagna fela þær í sér að fækka flugvélum í flota félagsins úr 20 í 11 auk þess sem félagið mun ekki veita fjórum A330 vélum viðtöku eins og til stóð.

Skúli segir að WOW air muni leita aftur til upprunans sem hafi gefist vel á fyrstu árum félagsins, það er að vera „ofurlággjaldaflugfélag“. Hann viðurkennir að hafa beygt af leið og misst sjónar á upphaflegu markmiði félagsins. Til að mynda þegar ákveðið var að bæta breiðþotum í flotann og bjóða upp á Premium sæti um borð.

AUGLÝSING


„Í stuttu máli þá misstum við fókusinn og fórum að haga okkur eins og hefðbundið flugfélag. Þessi mistök hafa nærri kostað okkur fyrirtækið og tap okkar hefur margfaldast á árinu. Það er mikilvægt að halda því til haga að ég get ekki kennt neinum öðum um nema sjálfum mér fyrir þessi mistök…“.

Skúli vonast til að yfirtaka Indigo muni hjálpa til við að færa félagið aftur til upprunans.

Svo gæti farið að þetta sé aðeins byrjunin á sársaukafullum aðgerðum hjá WOW. Fyrir liggur að rekstrarmódel Indigo er gjörólíkt, sé litið til þeirra félaga sem bandaríska félagið rekur, svo sem Wizz Air og JetSmart. Þetta eru hreinræktuð lággjaldaflugfélög þar sem rekstrarkostnaði er haldið í lágmarki, þar með talið launakostnaður. Erfitt er að sjá að íslenskt launaumhverfi falli inn í þá mynd og hefur Drífa Snædal, forseti ASÍ, þegar lýst yfir áhyggjum af aðkomu Indigo.

Þá birtist grein í vikunni á vef Forbes þar sem því var velt upp hvort WOW air yrði rekið áfram sem „sýndarflugfélag“, eða beinlínis ferðaskrifstofa undir merkjum WOW. Það er að farþegar kaupi farmiða hjá WOW en fljúgi með öðrum flugfélögum, til að mynda JetSmart og Wizz Air. Slíkt myndi kalla á enn frekari samdrátt.

Á sama tíma og fréttir bárust af uppsögnum hjá WOW tóku hlutabréf í Icelandair að rjúka upp og nemur hækkunin 15,5% það sem af er degi.

Uppfært 12:17: Í tilkynningu frá WOW er staðfest að 111 fastráðnum starfsmönnum hafi verið sagt upp í morgun. Að auki missa á þriðja hundrað verktakar og lausir starfsmenn störf sín. Enn fremur er tilkynnt um breytingar á leiðakerfi félagsins. Til að mynda verður hætt að fljúga til Delhi á Indlandi en ekki eru nema nokkrir dagar síðan fyrsta ferðin þangað var farin. Þá verður hætt að fljúga til nokkurra áfangastaða í Bandaríkjunum, svo sem Los Angeles og Chicago.

Ekki missa af þessum

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is