Föstudagur 20. maí, 2022
8.8 C
Reykjavik

Róbert krefst tölvupósta og gagna um hótanir: Beitir lögfræðistofu Harveys Weinstein gegn Mannlífi

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Þessi frétt er ein þeirra frétta sem glæpamennirnir sem brutust inn á skrifstofur Mannlífs eyddu út en enn er unnið að því að ná öllum fréttunum til baka. Mannlíf mun birta þær aftur von bráðar.

Ritstjóra Mannlífs barst lögfræðibréf frá lögmannstofu Róberts Wessman, forstjóra Alvogen og Alvotech, gær þar sem þess er krafist að útgefandi Mannlífs, Sólartún, afhendi öll þau gögn sem kunna að snúa að Róbert. Ein harðsvíraðasta og umdeildasta lögfræðistofa heims, Boies Schiller Flexner, hefur tekið að sér að herja á Mannlíf fyrir lyfjaforstjórann. Bréfið kom í kjölfar greinar Mannlífs, „Þögnin um Wessman“ sem birt var síðastliðinn föstudag.

Róbert hefur verið í fréttum undanfarna daga eftir að hafa verið sakaður um að vilja þagga niður í blaðamanninum Andrési Magnússyni og að hafa sakað Pál Winkel fangelsismálastjóra og konu hans um að horfa á klám með börnum. Umræða fjölmiðla um um Róbert og ósæmilega hegðun hans virðist hafa farið illa í forstjórann. Vildi hann ekki svara spurningum Mannlífs um hvort einhverjar sannanir styðji ásakanir hans um meint klámhorf fangelsismálastjóra eða hvort hann tengist dæmdum barnaníðingi á einhvern hátt eins og Róbert hefur sjálfur fullyrt. Stjórn Alvogen sagði í yfirlýsingu á síðasta ári að „engar stoðir“ væru fyrir ásökunum um ósæmilega hegðun Róberts.

Spæjurum ísraelsku leyniþjónustunnar óspart beitt

Fyrrnefnd lögfræðistofa hefur starfað fyrir ýmis stórfyrirtæki í erfiðum málum og aðstoðaði til að mynda hinn fallna Hollywood-stórlax Harvey Weinstein þegar hann var sakaður um nauðganir, kynferðislega áreitni og aðra ósæmilega hegðun gegn tugum kvenna.

Harvey Weinstein var skjólstæðingur lögfræðistofunnar. Mynd / EPA

Lögfræðistofan þótti beita mikilli hörku í aðkomu sinni að málinu og í fjölmiðlum komu fram gögn um 42 milljóna króna greiðslu sem ætlað var að stöðva umfjöllun um málefni Weinsteins. Einn af hluthöfum stofunnar kom fyrir dóm í janúar árið 2020 og staðfesti aðkomu fyrirtækisins og að njósnasveit með tengingar við ísraelsku leyniþjónustuna hafi verið ráðin til aðstoðar. Allt að 100 lögmenn og háttsettir stjórnendur Boies Schiller Flexner eru sagðir hafa hætt störfum vegna aðkomu að málefnum Weinsteins og starfsmenn lýstu óspart vanþóknun sinni.

Halldór Kristmannsson, fyrrverandi hægri hönd Róberts og uppljóstrari innan Alvogen og Alvotech, sagði í yfirlýsingu á síðasta ári að „spæjarar“ Róberts hefðu veitt honum eftirför og tekið af honum myndir. Róbert hefur ekki viljað svara hvort hann hafi látið njósna um Halldór, en visir.is birti myndir af Halldóri og lögmanni hans á veitingastað í London í júní 2021 með Björgólfi Thor Björgólfssyni, mánuðum eftir starfslok Halldórs.

- Auglýsing -

Róbert krefst upplýsinga en svarar engu

Lögmannsstofa Róberts heldur fram í bréfi sínu að Mannlíf hafi fjallað um ásakanir á hendur honum sem séu ýmist villandi eða ósannar. Í samskiptum við Láru Ómarsdóttur, talsmann Róberts, eða í fyrrgreindum bréfaskriftum, hefur þó ekki verið bent á eitt einasta atriði í umfjöllun Mannlífs eða annarra fjölmiðla sem er ósatt eða ekki byggt á opinberum gögnum. Frá því að ásakanir Halldórs Kristmannssonar komu fram á síðasta ári hefur Mannlíf ítrekað leitað svara frá Róbert um ásakanirnar en án árangurs. Hann hefur ekki viljað tjá sig um líkamsárásir eða aðra ósæmilega hegðun undir áhrifum áfengis sem hann er sakaður um. Róbert ber fyrir sig trúnað og segir að um viðkvæm starfsmannamál sé að ræða.

Róbert Wessman

Róbert hefur krafist þess af Mannlífi að persónulegar upplýsingar um hann hjá eiganda þess, Sólartúni ehf., verði veittar lögfræðistofunni. Beiðnin byggir á lögum um persónuvernd og vísar til íslenskra laga um lögmæti slíkra beiðna. Ekki er vitað til þess að slíku úrræði hafi áður verið beitt gegn íslenskum fjölmiðli hér á landi. Ritstjórn Mannlífs hyggst svara lögmannsstofunni fyrir 17. febrúar 2022, sem er sá frestur sem gefinn er til gagnaöflunar. Gögn sem Sólartún ehf. kann að hafa undir höndum er varða persónuleg málefni Róberts verða vandlega skoðuð og spurningum svarað eins fljótt og kostur er.

- Auglýsing -

Hagsmunatengsl: Mannlíf var áður í eigu Útgáfufélagsins Birtíngs ehf., þar til Sólartún ehf. keypti útgáfuréttinn og lénið af Birtíngi á síðasta ári. Sigríður Dagný Sigurbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri Birtíngs, var á þeim tíma og er eigandi útgáfufélagsins sem gefur meðal annars út Vikuna, Gestgjafann og Hús og híbýli. Þá eru Reynir Traustason og Trausti Hafliðason eigendur Sólartúns og sá fyrrnefndi jafnframt stjórnarformaður. Fjárfestingafélagið Dalurinn ehf. sem áður var eigandi Birtíngs var í eigu Árna Harðarsonar, Halldórs Kristmannssonar, Hilmars Kristinssonar, Jóhanns Jóhannssonar og Róberts Wessman. Halldór var stjórnarmaður í Birtíngi, um tíma útgefandi og tímabundið eini hluthafinn þar til útgáfan var að lokum seld til framkvæmdastjóra Birtíngs í júlí 2020.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -