Sunnudagur 25. september, 2022
11.8 C
Reykjavik

Róbert sakaður um hótanir og ofbeldi: „Ég mun eyðileggja þig og fjölskyldu þína“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Róbert Wessman , forstjóri Alvogen og Alvotech, sendi háttsettum stjórnendum í lyfjafyrirtækinu Actavis morðhótanir í janúar 2016. Í fjölda textaskilaboða er þeim og fjölskyldum þeirra hótað lífláti, auk fjölda annarra óviðeigandi skilaboða. Báðir eiga þeir farsælan feril sem stjórnendur í alþjóðlegum lyfjafyrirtækjum og báru vitni í dómsmáli á milli Róberts og Björgólfs Thor Björgólfssonar á Íslandi á þessum tíma. Vitnisburður þeirra virðist hafa komið Róbert í uppnám. Morgunblaðið fjallar um málið í morgun.

Halldór Kristmannsson, einn nánasti samstarfsmaður Róberts til 18 ára, stígur fram í dag og hefur gefið frá sér yfirlýsingu. Hann greinir frá morðhótunum og meintum líkamsárásum Róberts gagnvart samstarfsmönnum undir áhrifum áfengis. Auk þess er sagt að Róbert hafi beitt hann óeðlilegum þrýstingi, sem starfsmanns Alvogen, til að koma höggi á óvildarmenn sína. Þar á meðal eru háttsettir embættismenn, alþjóðlegur fjárfestir og íslenskur blaðamaður. Róbert er sagður hafa borið umrædda aðila þungum sökum og viljað koma höggi á þá í gegnum fjölmiðla og þannig gera atlögu að æru þeirra og mannorði. Því hafi uppljóstrari staðfastlega neitað, enda taldi hann ummælin ósönn og ærumeiðandi.

Greint er frá því að uppljóstrari hafi ekki sett fram neinar fjárhagslegar kröfur á hendur fyrirtækjunum. Hann hafi hinsvegar óskað eftir rannsókn á ósæmilegri hegðun Róberts, lagt fram ítarleg gögn, og viljað að Róbert víki sem forstjóri.

Stjórn Alvogen lét skoða stjórnunarhætti Róberts

Yfirlýsing frá Alvogen í síðustu viku vakti athygli fjölmiðla en hún var birt á vefsvæði Morgunblaðsins og Fréttablaðsins, en þar er tilkynnt að starfshættir Róberts Wessman hafi verið til rannsóknar hjá stjórn fyrirtækisins undanfarna tvo mánuði. Tilkynning fyrirtækisins kom fjölmiðlum í opna skjöldu og engin umfjöllun hafi verið um málið fram að þeim tíma. Rannsóknin er sögð eiga rætur að rekja til kvörtunarbréfs starfsmanns fyrirtækisins og málið hafi verið ítarlega rannsakað og sé nú lokið. Í yfirlýsingu segir meðal annars að „allir starfsmenn sem rætt var við hafi borið Róbert vel söguna“, og jafnframt segir… „Þá bentu engin gögn til þess að eitthvað væri athugavert við stjórnunarhætti Róberts.“ „Niðurstaðan er skýr og ljóst að efni kvartananna á sér enga stoð…….og engin ástæða til að aðhafast neitt vegna þessa máls,“ segir jafnframt í yfirlýsingunni.

RÚV fjallar einnig um ásakanirnar í dag og birtir SMS samskipti þar sem Róbert hefur í hótunum við við tvo stjórnendum í lyfjaheiminum og fyrrum samstarfsmenn hans hjá Alvogen. Um sé að ræða langa röð heiftúðugra smáskilaboða eftir að þeir höfðu borið vitni í máli sem rekið var á Íslandi og Róbert átti aðild að. Vitnisburðurinn var honum greinilega ekki að skapi, því hann hótaði þeim og fjölskyldum þeirra öllu illu. Hér má sjá dæmi af textaskilaboðum sem RÚV birtir:

„Ég mun drepa þig“
„Ég mun eyðileggja þig og fjölskyldu þína“
„Þú ert dauður, ég lofa þér því“

- Auglýsing -

Mannlíf hefur undir höndum upplýsingar og önnur gögn sem fjalla um fólskulega stjórnunarhætti Róberts. Til að leita svara við hinum alvarlegu ásökunum á hendur sér sendi Mannlíf spurningar á forstjórann en þaðan hafa engin svör borist önnur en að Róbert geti ekki tjáð sig um málið vegna trúnaðar. Mannlíf ræddi ítrekað við Láru Ómarsdóttur, talskonu Róberts, sem lofaði því að frá honum kæmu almenn svör vegna málsins. Þau hafa hins vegar ekki borist, fyrir utan vísanir í yfirlýsingu fyrirtæksins og rannsókn þess:

„Í byrjun árs barst Róberti Wessman og stjórn Alvogen bréf frá starfsmanni fyrirtækisins, þar sem fram komu kvartanir á hendur Róberti og athugasemdir gerðar við starfshætti hans. Þá fór starfsmaðurinn fram á að Róbert greiddi honum fjárbætur innan 14 daga frá dagsetningu bréfsins. Stjórn Alvogen tók þessum ásökunum mjög alvarlega og hrinti úr vör óháðri rannsókn á málinu. Róbert sagði sig jafnframt frá störfum stjórnar á meðan málið var til skoðunar.

Stjórnin fékk tvær óháðar lögfræðistofur til að fara yfir umkvartanir starfsmannsins, skoðaði fjölda gagna og talaði við tugi fyrrverandi og núverandi starfsmenn. Niðurstaðan er mjög skýr, það er ekkert sem bendir til þess að starfshættir séu eins og lýst er í þessum kvörtunum og ljóst að efni kvartanna átti sér ekki stoð. Þvert á móti er starfsfólkið ánægt með störf Róberts. Stjórnin ber fullt traust til Róberts og stjórnunarhátta hans.

- Auglýsing -

Allt sem viðkemur þessari könnun var á höndum stjórnar Alvogen og Róbert getur því miður ekki svarað fyrir hennar hönd,“ segir Lára.

Halldór er fyrrverandi útgefandi og eigandi Birtíngs útgáfufélags, sem gaf út Mannlíf og var um tíma eigandi að mannlif.is. Ekki náðist í Róbert Wessman við vinnslu fréttarinnar.

 

Hér að neðan má finna nokkrar spurningar sem Mannlíf sendi Róberti nýverið en við þeim fengust engin svör:

  • Getur þú staðfest og eftir atvikum veitt skýringar á því hvort þú hafir sent líflátshótanir til tveggja fyrrverandi samstarfsmanna þinna í lok janúar 2016, þar sem þeim og fjölskyldum þeirra var hótað lífláti?
  • Baðstu afsökunar á þessum hótunum og greiddir þú einhverjar fjárhagsbætur vegna málsins?
  • Geturðu sagt mér hvaða atriði voru til rannsóknar hjá stjórn félagsins sem nú er lokið?
  • Samkvæmt heimildum Mannlífs varð samstarfsmaður fyrir líkamsárás af þinni hálfu í vitna viðurvist árið 2015 í Austurríki, geturðu skýrt þá atburðarrás?
  • Er það rétt að myndbandsupptaka úr öryggismyndavél sé til vegna atburðar í Austuríki og hefur fyrirtækið þá upptöku undir höndum?
  • Hefur þú hótað eða beitt aðra starfsmenn fyrirtækisins (Alvogen / Alvotech) líkamlegu ofbeldi og ef svo er, hvernig má útskýra þá hegðun?
  • Hefur þú sjálfur, fyrirtækið sjálft eða þriðji aðili í umboði Alvogen, gert einhversskonar sátt eða greitt fyrrverandi stjórnanda hjá félaginu fjármuni vegna ásakana um ógnandi hegðun?
  • Hefur þú átt við áfengisvandamál að ræða og hefur þú á einhverjum tímapunkti leitað þér aðstoðar vegna þess, eða hyggst gera það nú þegar rannsókn er lokið?
  • Hafði uppljóstrari uppi einhverjar fjárkröfur gagnvart fyrirtækinu og mun hann snúa aftur til starfa hjá Alvogen?
  • Hringdir þú undir áhrifum áfengis í Sigurð Óla Ólafsson, fyrrverandi aðstoðarforstjóra hjá Actavis í ágúst 2008 og sagðir honum upp störfum? Er það rétt að Björgólfur Thor Björgólfsson hafi sagt þér upp störfum samstundis þegar honum varð þessi atbuðarrás ljós og ráðið Sigurð Óla í þitt starf?

 

Hér má finna yfirlýsingu Halldórs Kristmannssonar sem inniheldur ásakanir á hendur Róberti:

YFIRLÝSING FRÁ HALLDÓRI KRISTMANNSSYNI

Halldór Kristmannsson, náinn samstarfsmaður Róberts Wessman til 18 ára, hefur stigið fram sem uppljóstrari innan lyfjafyrirtækjanna Alvogen og Alvotech. Halldór sendi stjórnum fyrirtækjanna bréf þann 20. janúar 2021, þar sem vakin var athygli á stjórnunarháttum og ósæmilegri hegðun Róberts.

Halldór hefur verið framkvæmdastjóri hjá Alvogen og Alvotech frá stofnun fyrirtækjanna, og meðal annars borið ábyrgð á markaðs- og ímyndarmálum um allan heim, auk samskipta við fjárfesta og fjölmiðla. Hann hefur nú skorað á stjórnir Alvogen og Alvotech að gangast undir sátt í málinu, sem feli í sér að Róbert víki sem forstjóri. Engar fjárhagslegar kröfur eru gerðar á hendur fyrirtækjunum.

Í ítarlegri greinargerð er skorað á stjórnir fyrirtækjanna að taka líflátshótanir og ógnandi textaskilaboð Róberts til sérstakrar rannsóknar, en þar er fyrrverandi samstarfsmönnum og fjölskyldum þeirra ógnað. Jafnframt hefur Halldór lagt fram tugi tölvupósta og textaskilaboða, sem sýna hvernig hann var beittur óeðlilegum þrýstingi til að koma höggi á óvildarmenn Róberts, sem hann bar þungum sökum.

„Samstarf okkar Róberts hefur að mestu leiti verið farsælt. Það myndaðist hinsvegar alvarlegur ágreiningur á milli okkar sumarið 2018 og aftur í september 2020, þegar Róbert bar háttsetta embættismenn á Íslandi, alþjóðlegan fjárfesti og íslenskan blaðamann þungum sökum. Í tugum tölvupósta og textaskilaboða Róberts eru umræddir óvildarmenn bornir þungum sökum, sem ég tel að hafi í senn verið algjörlega ósannar og svívirðilegar. Ég hef lagt fram þessi gögn og óskað eftir því formlega við Róbert og stjórnir fyrirtækjanna að þau svari þessum ásökunum.  Ég hef jafnframt sett mig í samband við alla þessa aðila, sem ég tel rétt að Róbert biðji afsökunar.“

„Ég taldi fulla ástæðu til þess að setja fótinn niður og tjáði Róbert ítrekað, að ég myndi ekki beita mér fyrir því að koma höggi á umrædda aðila í fjölmiðlum og vega beinlínis að æru og mannorði þeirra, eins og hann vildi. Ég var um tíma útgefandi Mannlífs, sem Róbert fjármagnaði og átti, en þar myndaðist til að mynda mikill ágreiningur um ritstjórnarstefnu og sjálfstæði. Úr þessu skapaðist vaxandi ósætti okkar á milli, sem gerði það að verkum að ég steig nauðbeygður til hliðar tímabundið, og upplýsti stjórnir fyrirtækjanna um málavexti.  Ég vil standa vörð um ákveðin siðferðisleg gildi, og lét því ekki hagga mér í þessum málum.“

Halldór segir að sér hafi þótt dapurlegt að vita til þess að Róbert hafi sent fyrrum samstarfsfélögum sínum morðhótanir árið 2016 og honum hafi verið brugðið. Slíkar hótanir varði allt að tveggja ára fangelsi hér á landi. Þá sé enn sorglegra að viðurkenna, að hafa orðið persónulega fyrir líkamsárás og orðið vitni af annarri frá Róbert, þegar hann var undir áhrifum áfengis á viðburðum fyrirtækisins erlendis. „Þegar ég síðar nefndi þetta við Róbert sagðist hann hafa verið að grínast og við hefðum verið í kýlingaleik. Ég var beinlínis kýldur kaldur í andlitið án fyrirvara í vitna viðurvist. Mér var augljóslega ekki skemmt, og hef ekki orðið var við það almennt séð að forstjórar fari í kýlingaleiki við samstarfsmenn.“

„Ég er bundinn trúnaði um flest þau atriði sem ég lagði fram fyrir stjórnir fyrirtækjanna, en tel mig þó vera í fullum rétti sem uppljóstrara að greina frá persónulegum atriðum, sem ekki varða beinlínis hagsmuni fyrirtækjanna. Ákvörðun stjórnar Alvogen að stíga fram í síðustu viku, gerði það að verkum að ég á ekki annan kost en að upplýsa um ástæður málsins, sem ekki eru bundnar trúnaði. Ég hef ítrekað boðið sátt í málinu og að það verði leyst utan fjölmiðla.“

Alvogen tilkynnti um niðurstöður rannsóknar í síðustu viku, en þar er Róbert sagður hafa verið til rannsóknar í tvo mánuði og að Thomas Ekman, einn af eigendum CVC Capital Partners hafi leitt umrædda rannsókn stjórnarinnar. Í yfirlýsingu segir: „Allir starfsmenn sem rætt var við báru Róberti vel söguna og sögðu hann sanngjarnan og öflugan leiðtoga. Þá bentu engin gögn til þess að eitthvað væri athugavert við stjórnunarhætti Róberts.“ Halldór segir niðurstöðu rannsóknar, sem hann hafi fyrst heyrt af í fjölmiðlum, og ekki enn verið upplýstur um, sé augljós „hvítþvottur“ undir áhrifum Róberts.

„Ég tel að morðhótanir, líkamsárásir og svívirðilegar ásakanir, er varða meinta óvildarmenn og ærumeiðingar í þeirra garð, sé í raun óverjandi hegðun forstjóra alþjóðlegra fyrirtækja. Þetta hlýtur að vekja upp spurningar um hæfi hans sem stjórnanda.  Hinsvegar vona ég að þessi fyrirtæki blómstri í framtíðinni, þannig að ég sem hluthafi, geti verið stoltur af framgangi þeirra.“

 

Hér má síðan finna yfirlýsingu stjórnar Alvogen eftir sex vikna rannsókn á ásökunum á hendur Róberti:

Þann 20. janúar 2021 barst stjórn Alvogen bréf frá starfsmanni fyrirtækisins, þar sem fram komu kvartanir á hendur forstjóra fyrirtækisins, Róberti Wessman, og athugasemdir gerðar við starfshætti hans. Starfsmaðurinn gerði að auki fjárkröfu á forstjórann.

Stjórn Alvogen setti strax á fót óháða nefnd til að fara með málið fyrir hönd stjórnar. Róbert sagði sig jafnframt frá störfum stjórnar á meðan málið var til skoðunar.

Nefndin fékk alþjóðlegu lögfræðistofuna White & Case LLP til að fara ítarlega yfir kvartanirnar sem settar voru fram í bréfinu. Þá réði stjórnin Lex lögmannsstofu til að vera ráðgefandi varðandi það sem snýr að íslenskum lögum og íslenskri vinnulöggjöf.

Í athugun White & Case LLP á kvörtunum starfsmannsins fólst meðal annars að rýna fjölda gagna í málinu en að auki ræddi lögfræðistofan við starfsmanninn sem bar fram kvörtunina og tugi fyrrverandi og núverandi starfsmanna Alvogen. Allir starfsmenn sem rætt var við báru Róberti vel söguna. Þá bentu engin gögn til þess að eitthvað væri athugavert við stjórnunarhætti Róberts.

Niðurstaða White & Case barst stjórn Alvogen þann 9. mars 2021. Niðurstaðan er skýr og ljóst að efni kvartananna á sér enga stoð. Ekkert bendir til þess að starfshættir Róberts Wessman séu þess eðlis sem greint er frá í bréfinu og engin ástæða er til að aðhafast neitt vegna þessa máls. Stjórn Alvogen ber fullt traust til Róberts og hans stjórnunarhátta. Stjórnin telur mikilvægt að upplýsa um málið og þannig iðka fullt gagnsæi af hálfu fyrirtækisins og framfylgja þeirri stefnu sem fyrirtækið hefur sett sér um að tryggja öruggt og heilbrigt vinnuumhverfi.

Nánari upplýsingar veitir Andreas Rummelt, stjórnarmaður Alvogen.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -