Miðvikudagur 27. mars, 2024
2.8 C
Reykjavik

Róbert stóð frammi fyrir dauðanum en fer nú fram fyrir VG: „Ég bað til guðs; ekki núna!“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Róbert Marshall, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar og fjallagarpur, hefur ákveðið að bjóða sig fram í forvali VG á Suðurlandi fyrir Alþingiskosningar í haust. Hann talar hér meðal annars um sprangið í Eyjum, Íraksfréttina sem varð til þess að hann sagði lausu starfi sínu á Stöð 2, stjórnmálin, náttúruna, vélsleðaslysið, Bakkus, Covid og eldinn innra með sér.

„Við systkinin erum af Mackay-klaninu sem er með sína liti í pilsinu og sitt eigið skjaldarmerki.“

Róbert Marshall – Róbert með „ó“ – er sonur Fríðu Eiríksdóttur og Anthony Marshall sem var skoskur. „Foreldrar mínir kynntust í London í kringum 1967 þar sem mamma var au pair. Systir mín fæddist í London og svo fluttu þau til Íslands þar sem ég fæddist og síðar bróðir minn.“

Fjölskyldan flutti til Vestmannaeyja þegar Róbert var þriggja ára, ári eftir að gosið hófst í Eyjum.

„Ég ólst upp fyrstu árin í jaðri nýja hraunsins en húsið sem við bjuggum í er um 50 metra frá hraunjaðrinum. Það rauk upp úr jörðinni alls staðar í kringum mig.“

Róbert segist hafa átt hefðbundna Vestmannaeyjaæsku. „Það var mikið frelsi, ég var í skátunum og ég var mikið úti í náttúrunni og í fjöllunum og klettunum að spranga. Það er í raun og veru mesta furða að maður skyldi hafa komist á legg. Ég var alræmdur hrakfallabálkur. Ég held ég hafi 14 sinnum fengið gat á höfuðið í æsku og mér tókst að brjóta á mér höfuðkúpuna við það að spranga. Ég var mjög slysgjarn; kannski er það einhver birtingarmynd af einhverjum athyglisbresti og hvatvísi. Ég var að taka ákvarðanir sem enduðu ekki allar vel.“

Róbert er spurður hvort hann sé með ADHD. „Ég hef ekki fengið slíka greiningu og ég er ekki með ADHD miðað við það sem ég hef lesið um hefðbundið ADHD en ég kannast við margt. Ég þarf til dæmis að vanda mig sérstaklega við að fókusera á það sem ég er að reyna að taka inn og er mjög „easily distracted“. Ég var alltaf mjög aktívur og ævintýragjarn og já, öll mín ævi hefur síðan verið þannig.“

- Auglýsing -
„Ég hef ekki fengið slíka greiningu og ég er ekki með ADHD miðað við það sem ég hef lesið um hefðbundið ADHD en ég kannast við margt.“

Róbert er svo spurður út í höfuðkúpubrotið. „Ég var að spranga þegar ég var 12 eða 13 ára gamall. Sprangan er þannig að það er ákveðið kerfi af sillum og stöðum þar sem hægt er að klifra og sveifla sér frá. Ég og vinir mínir vorum auðvitað svolítið búnir að tæma alla möguleika í þeim efnum og vorum frekar hugaðir og kaldir. Síðan var ákveðið að prófa eitt stökk sem var eiginlega þannig að maður hélt sér í kaðalinn, stökk fram af og hrapaði fyrstu þrjá til fjóra metrana og síðan sveiflaðist maður með fram klettunum á ógnarhraða. Þetta tókst einu sinni hjá mér. Ég gerði þetta síðan aftur og rak þá fótinn í jörðina, hringsnerist upp í bergið og steinrotaðist. Ég rankaði síðan við mér í sjúkrabíl. Það kom sprunga á höfuðkúpuna og ég hefði náttúrlega hæglega getað drepist þarna. Í Eyjum er svo auðvitað ákveðinn hópur sem heldur því fram að ég hafi hlotið þarna varanlegan skaða.“

Skoski arfurinn

Foreldrar Róberts slitu sambandi sínu og hann eignaðist stjúpföður, Jóhann Friðriksson. Hann segist engin tengsl hafa við föðurfjölskylduna í Skotlandi þar sem pabbi sinn hafi þegar misst foreldra sína og sinn eina bróður í kringum þann tíma sem hann sjálfur fæddist. Róbert heitir í höfuðið á föðurbróður sínum sem hét Robert – auðvitað með „o“. „Það er svolítið merkilegt að ég hef í seinni tíð sótt svolítið í skoska arfinn. Ég hef farið talsvert til Skotlands og ferðast þar um og farið á fjöll og hjólað um á fjallahjóli enda stutt að fara. Ég finn til mikillar tengingar við þetta land, þessa þjóð og þessa menningu. Náttúran er gríðarlega falleg. Við systkinin erum af Mackay-klaninu sem er með sína liti í pilsinu og sitt eigið skjaldarmerki. Við Tommi bróðir höfum svolítið farið í að kynna okkur þetta og nördumst í þessu; förum til dæmis í skotapils til hátíðarbrigða.“

- Auglýsing -
„Ég var alræmdur hrakfallabálkur. Ég held ég hafi 14 sinnum fengið gat á höfuðið í æsku og mér tókst að brjóta á mér höfuðkúpuna við það að spranga.“

Róbert eignaðist gítar upp úr fermingu og hann fór í kjölfarið að spila og syngja Eyjalög. „Ég held að Minning um mann sé fyrsta lagið sem ég spilaði undir þannig að aðrir væru að syngja með. Síðan hefur það verið hluti af lífi mínu að vera í einhverri tónlist og eftir því sem ég hef orðið eldri hef ég áttað mig á því hversu mikilvægt það er fyrir mig. Ég hef alltaf reynt að vera að sýsla eitthvað við tónlist með öllu sem ég hef verið að gera.  Ég gæti sennilega tekið gítarinn núna og spilað svona 20 Eyjalög án æfingar. Það hjálpaði líka að ég og félagi minn réðum okkur einhver sumrin á pöbbinn úti í Eyjum og spiluðum um helgar og höfðum af ágætis tekjur.“ Þess má geta að Róbert sá um brekkusönginn á Þjóðhátíð fyrir nokkrum árum. 

Blaða- og fréttamennskan

Róbert fór í starfskynningu á Helgarpóstinum þegar hann var 14 eða 15 ára. „Ég hafði þá þegar verið búinn að sjá fyrir mér að það væri eitthvað spennandi við blaðamennsku og mér fannst eftir starfskynninguna blaðamennska vera eitthvað sem ég sá fyrir mér að ég gæti fengist við. Ég hafði mikinn áhuga á stjórnmálum og ég vissi að blaðamennskan væri mikið að spegla þau og maður gæti þá verið svolítið í áhorfendasæti að sögunni. Ég hafði séð kvikmyndina All the President’s Men sem fjallar um Watergate-hneykslið; ég er ennþá svona – ég fæ þráhyggju gagnvart ákveðnum málum eins og Guðmundar- og Geirfinnsmálinu og tilteknum sögulegum atburðum sem ég les allt um. Síðan hafði ég og hef enn mjög gaman af því að skrifa; ég er mikill textamaður. Ef ég væri spurður í hverju ég væri góður þá myndi ég segja að ég hefði hæfileika til að vinna með texta.“

Róbert viðurkennir að Íraksfréttin sitji ennþá svolítið í sér. „Á þessum árum var þó voða lítið sem gat beyglað sjálfsmynd mína.“

Róbert vann á menntaskólaárunum úti í Eyjum við fiskvinnslu, netagerð og sjómennsku og stúdentshúfan fór á kollinn árið 1993. Hann hóf nám í lögfræði við Háskóla Íslands haustið 1994 og vann með fram námi við blaðamennsku á Vikublaðinu. Hann hætti í lögfræðinni eftir eitt ár; segir að sér hafi þótt námið vera leiðinlegt. 

Róbert stundað síðan nám í stjórnmálafræði við HÍ á árunum 1995-1997 en á háskólaárunum vann hann í hlutastarfi í blaðamennsku auk þess á Mannlífi og Degi-Tímanum. Hann kláraði heldur ekki stjórnmálafræðinámið. „Ég hafði bara enga eirð í mínum beinum til að klára stjórnmálafræðina þó ég hefði gaman af henni. Ég starfaði sem blaðamaður samhliða náminu og ég hugsaði oft með mér að að loknu námi færi ég að vinna við nákvæmlega það sem ég var að vinna við. Ég var mjög fókuseraður á að gera það sem mér þótti vera skemmtilegt. Ég hef svo í framhaldinu sótt mér þá þekkingu sem mig hefur skort hverju sinni og gjarnan án þess að ljúka einhverjum prófum.“

Róbert var formaður Verðandi, landssamtaka ungra alþýðubandalagsmanna, á árunum 1995-1997 og hann var í stjórn Grósku, samtaka félagshyggjufólks um sameiningu jafnaðarmanna, á árunum 1997-1998.

Róbert vann hjá Degi-Tímanum í eitt ár eftir að hann hætti í stjórnmálafræðináminu og hóf síðan störf á Stöð 2 þar sem hann var fréttamaður til ársins 2005. Hann var forstöðumaður fréttasviðs 365 miðla 2005-2006.

„Það sem stendur upp úr á Stöð 2 er að hafa fengið að kynnast öllum þessum sviðum; ég varð fljótlega mjög viljugur til að læra allar tæknilegar hliðar í sjónvarpsfréttamennskunni – ég klippti mikið sjálfur og ég var oft líka að taka upp og þetta hefur skilað sér síðan í því að ég fór að gera sjónvarpsþætti um útivist fyrir RÚV á síðustu árum þar sem þekking mín á þessum mörgu sviðum er öll að koma saman í einhverja eina afurð.“

Róbert fjallaði um allt á milli himins og jarðar eins og blaðamanna og fréttamanna er siður. „Ég var í slori, glæpum og pólitík og elskaði þetta starf. Mér þótti alltaf skemmtilegast að fjalla um pólitíkina. Hún togar alltaf í mig.“

Róbert hitti ástina á árunum á Stöð 2 en eiginkona hans er Brynhildur Ólafsdóttir fjallaleiðsögumaður sem þá var einnig fréttamaður. Róbert átti tvö börn af fyrra hjónabandi og hún eitt og eiga þau tvö börn saman. 

„Úrið mitt sýndi mig einu sinni með púls upp á 130 í þingsalnum en venjulegur hlaupapúls hjá mér er svona i kringum 100.“

Róbert er spurður hvað hafi heillað hann við Brynhildi. „Hún er auðvitað sjúklega sæt. Og náttúrulega frábær manneskja. Það vita allir sem þekkja hana. Hún er einstök og ég elska hana út af lífinu. Hún er með frábæra kímnigáfu og hláturmild. Hún er sálufélagi minn og besti vinur. Það fór allt eins og það átti að fara. Kolla Bergþórs sagði við mig þegar hún heyrði að við værum byrjuð saman að Brynhildur væri ein gáfaðasta kona landsins! Hvernig ætlaði ég eiginlega að láta þetta ganga upp?!

Við Brynhildur höfðum unnið saman í fjögur eða fimm ár og verið góðir vinir áður en við urðum par. Þetta gerðist með eins eðlilegum og náttúrulegum hætti og hugsast gat. Við erum bæði tvíburar; við þurfum mjög aktíft líf og erum mikið fyrir það að ferðast og vera á fjöllum. Okkur líður hvergi betur heldur en á ferðalagi. Á ferð og flugi.“

„Hún er auðvitað sjúklega sæt. Og náttúrulega frábær manneskja.“

Íraksfréttin

Róbert er spurður hvaða frétt sem hann vann við hafi haft mest áhrif á hann. „Það sem hefur setið kannski mest í mér er þegar ég fór upp í Veiðivötn á vettvang hræðilegs slyss sem hafði átti sér stað daginn áður. Ég tengist svæðinu miklum tilfinningaböndum en þetta er eitt uppáhaldssvæðið mitt á landinu. Og það var bara gríðarlega erfið frétt og erfitt og sorglegt mál sem sat lengi í mér. Svo átti ég frétt um ákvarðanatöku ríkisstjórnarinnar um stuðning við innrásina í Írak. Það er ákvörðun sem Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson tóku sem þá voru leiðtogar ríkisstjórnarinnar sem var mikið deilt um. Heimildir mínar bentu til þess að ákvörðunin hefði verið tekin og tilkynnt fyrir þann ríkisstjórnarfund sem þeir héldu fram að hefði fjallað um málið. Ég sagði síðan fréttina eftir að hafa stuðst við frásagnir erlendra miðla sem virtust vera frá því fyrir fyrrnefndan ríkisstjórnarfund en flaskaði á því að misræmi var á timasetningu birtingarinnar vegna tímamismunar; mjög vandræðaleg handvömm sem ég bar einn ábyrgð á.“ 

Róbert sagði sjálfviljugur upp starfi sínu á fréttastofu Stöðvar 2 daginn eftir birtingu fréttarinnar. Hann segir að hann hafi tekið ábyrgð á því að vinna frétt sem ekki hefði verið hægt að sanna og taka ábyrgð á mistökum sem lágu fyrir að hann hefði gert.

„Þetta var eins og að setjast á bak ótemju. Ég gat ekkert alltaf vitað hvar þessi útreiðartúr myndi enda.“

Róbert segir að þremur árum síðar hafi birst í Morgunblaðinu frétt sem sýndi fram á að frétt hans hafi verið rétt og að ákvörðunin hefði verið tekin áður en þessi fyrrnefndi ríkisstjórnarfundur var haldinn. „Ég vissi það allan tímann en ég gat bara ekki sannað það. Þannig að sú atburðarás og saga öll situr í mér. Hún hafði líka mjög jákvæð áhrif á starfsferil minn vegna þess að ég fékk tækifæri til þess að fara út úr daglegri ritsjórn, úr daglegum fréttaflutningi. Ég fór að vinna útvarpsþætti, fékkst eitthvað við almannatengsl og sinnti svolítið störfum fyrir Blaðamannafélagið,“ segir Róbert en hann var formaður Blaðamannafélags Íslands á árunum 2003-2005. „Ég er því miður, öllum þessum árum síðar, enn jafn lélegur á klukku.“

Róbert viðurkennir að Íraksfréttin sitji ennþá svolítið í sér. „Á þessum árum var þó voða lítið sem gat beyglað sjálfsmynd mína. Ég hafði mikið sjálfstraust og örugglega ekki innistæðu fyrir því öllu saman eins og oft er með unga menn. En það hjálpaði að mörgu leyti. Ég hef oft sagt að svona sjálfsöryggi og sterk sjálfsmynd geti farið ótrúlega langt með fólk. Ég get þess vegna ekki sagt að þetta hafi haft mikil áhrif á mig á þessum tíma. Þetta var auðvitað ákveðið högg. Ég ég náði einhvern veginn að komast sterkari út úr því og náði að vinna bara úr því þannig að þetta varð að jákvæðri reynslu. Það sem skiptir einna mestu máli í lífinu er að maður taki öllu því sem gerist og breytir því í eitthvað sem maður getur byggt á en láti það ekki rífa sig niður. Kannski var sjálfsöryggið gríma og kannski var sjálfsmyndin ekki jafnsterk og hún leit út fyrir að vera.

„Ég er ekki sami maðurinn og ég var, hvorki í blaðamennsku né þegar ég var í pólitíkinni.“

Ég held að ég átti mig betur á því núna hverjir styrkleikar mínir og veikleikar eru. Og það kemur með aldrinum að maður verður minna viðkvæmur fyrir því að viðurkenna hvar styrkleikar manns liggja og hvar maður er ekki sterkur.“

Róbert er spurður um styrkleika og veikleika sína.

„Styrkleikar mínir í dag byggja á því að ég hef þroskast. Ég er ekki sami maðurinn og ég var, hvorki í blaðamennsku né þegar ég var í pólitíkinni. Ég átta mig betur á því hvað það er sem skiptir mig máli og ef eitthvað er sagt um mig með neikvæðum hætti þá hef ég held ég burðina til þess að greina hvað af því ég tek til mín og hvað ekki.“

Hvað svo með veikleika? „Ég er mjög dreifður í því sem ég hef áhuga á. Ég hef áhuga á mjög mörgum, ólíkum sviðum; ég veit ekki hvort það er veikleiki. Þannig er ég bara. Það eru ákveðir hlutir sem ég er ekki góður í. Ég get verið góður í að búa til nýja hluti og finna ferla, finna leiðir til þess að gera það sem þarf að gera en ég er ekki góður í því að vera í rútínuvinnu. Ég væri ekki góður í því að gera sömu hlutina dag eftir dag. Ég hef meira að segja forðast slíka vinnu í minni fjallamennsku.“

Róbert er spurður hvort það sé óróleiki inni í honum. „Já, ætli það ekki. Ég þarf alltaf að hafa eitthvað nýtt fyrir augunum. Ég er frægur í fjölskyldunni fyrir það að klára ekki hluti. Ég hef samt alveg getuna og eirðina í mér til þess að setjast niður og klára heila ævisögu út af því að mér finnst hún vera áhugaverð. Ég geri það. Það er búið að vera eilífðarverkefni hjá mér að klára bílskúrinn; bara hafa hann þannig að hann sé kominn í einhverja varanlega mynd. Það verður alltaf svona. En ég var að vinna í honum í gær. Þetta mjakast.“

Róbert er spurður nánar út í áhuga á ákveðnum málum. „Ég get fengið þráhyggju fyrir því að geta til dæmis skíðað á Telemark-skíðum með lausan hæl. Þetta er ekkert grúsk heldur ákveðin tegund af líkamsbeitingu og jafnvægi. Ég geti líka fengið æði fyrir einhverju tilteknu lagi; einhverju rokklagi og vil þá sjá fyrir mér á allan hátt hvernig þetta er gert, spilað og tekið upp. Núna æfi ég á saxófón á hverjum degi og er ákveðinn í að ná góðum tökum á því magnaða hljóðfæri.“

Róbert og Gunnar Smári Egilsson stofnuðu fréttastofu NFS sem tók við af fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar í nóvember 2005. Róbert var forstöðurmaður en Gunnar Smári var forstjóri 365. „Þetta leiddi til mikilla breytinga á aðkomu minni að faginu af því að ég kom þarna inn sem stjórnandi inn á fréttastofuna. Ég tók þátt í að sameina ólík svið, bæði framleiðsludeild og dagskrársviðið, og ólíka þætti sem höfðu verið reknir með aðskildum hætti. Þetta var mikill skóli fyrir mig persónulega og faglega – að fara í gegnum þetta og að hafa mikil forráð, bera mikla ábyrgð og vera í mikilli stefnumótun.“

NFS hætti útsendingum á eigin rás í september 2006 og var 20 starfsmönnum sagt upp. Róbert hafði nokkrum dögum áður skrifað opið bréf til eins af aðaleigendum 365, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, þar sem hann biðlaði til hans að beita sér fyrir því að stöðinni yrði áfram tryggður rekstrargrundvöllur. Róbert var einn þeirra 20 sem hættu störfum.

„Ég hefði ekki viljað missa af NFS-ævintýrinu. Það var gríðarlega dýrmæt reynsla fyrir mig. Það rauf ákveðna kyrrstöðu sem hafði verið á íslenskum fjölmiðlamarkaði, bjó til fullt af nýjum fréttamönnum og tæknifólki og fólki sem vann kannski svolítið öðruvísi.“

„Ég er ekki að segja að það sé allt mér að þakka – ég er bara að segja að dropinn holar steininn.“

Uppteknir af sjálfum sér

Jú, pólitíkin heillaði og var Róbert á árunum 2007-2009 aðstoðarmaður samgönguráðherra. Hann var í október-nóvember 2007 varaþingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi og frá október-nóvember 2008. Hann var alþingismaður Samfylkingarinnar, utan flokka, 2009-2013. 

„Ég var á þannig krossgötum í lífinu 2006 að það passaði mér að fara í framboð. Þá var ég hættur hjá 365 og hugsaði um hvað ég ætti að gera næst. Ég hafði lengi séð fyrir mér að ég myndi á einhverjum tímapunkti stíga inn í stjórnmálin. Ég var á þessum tíma orðinn mikill náttúruverndarsinni; útivist og aðdráttarafl náttúrunnar var orðið stór þáttur í lífi mínu á þessum tíma. Það höfðu á þessum tíma verið miklar deilur og umræður um Eyjabakka fyrir austan og Kárahnjúkavirkjun var svo í algleymi á þessum tíma og ég vildi láta til mín taka á þessum vettvangi; aðallega á sviði náttúruverndar og umhverfismála. Það var það sem togaði í mig. Síðan hef ég alltaf verið mikill vinstrimaður; mikill jafnréttissinni. Og mér hefur fundist mér renna blóðið til skyldunnar að taka þátt og láta ekki mitt eftir liggja.“

Róbert segir að það hafi verið lærdómsríkt að komast inn á þing. „Það var allt öðruvísi en ég hafði búist við. Starfið er að mörgu leyti ekki starf – það er í raun og veru hlutverk þar sem maður er að túlka vilja kjósenda sinna, stuðningsmanna sinna, í hverju málinu á fætur öðru. Á sama tíma er persóna manns svolítið mikið andlag starfsins; hvort maður komist í fjölmiðla og það sem maður segir þann daginn er eitthvað sem fólk fókuserar mikið á. Ég held að það sé að mörgu leyti ekki heppilegur fókus en það er  bara því miður þannig. Ég held að það sé mjög heppilegt fyrir þá sem veljast til trúnaðarstarfa á Alþingi að hafa aðeins verið áður í opinberri umræðu; að vera ekki fyrst að lenda í henni þegar þeir koma inn á þing. Þetta hefur þær afleiðingar fyrir marga þingmenn að þeir verða svolítið uppteknir af sjálfum sér og það er ekkert í sjálfu sér sem kemur á óvart við það að þegar persóna viðkomandi er jafnbundin því sem hún gerir. En þetta verður til þess að fólki hættir kannski til að verða fullt af sjálfu sér í öllum skilningi þess orðasambands. Ég held þess vegna að það sé gríðarlega hollt að hafa unnið svolítið í sér; vita nákvæmlega hvað það er sem maður vill koma til leiðar og á hvaða sviðum maður vill vinna og reyna frekar að fókusera á það að mynda tengsl sem síðan geta orðið að áhrifum og komið hlutum til góðs og fært þá til þess vegns sem kjósendur hefðu viljað að þeir færu.“

Erfitt andrúmsloft

Róbert var einn þeirra sem stofnuðu Bjarta framtíð og sat hann á Alþingi fyrir þann flokk á árunum 2013-2016. Hann er spurður hvers vegna hann hafi ákveðið að segja skilið við Samfylkinguna og stofna nýjan flokk.

„Mér líður vel þegar ég kemst út í náttúruna og fæ að hreyfa mig úti í náttúrunni. Og ég held að þetta sé rosalega dýrmætt okkur öllum sem eigum þessa tengingu.“

„Það hafði bæði að gera með stjórnmálamenninguna heilt yfir á þeim tíma og stjórnmálamenninguna innan Samfylkingarinnar. Ég fann mig engan veginn þar. Þar er gríðarlega mikill átakakúltúr og að mörgu leyti mjög erfitt andrúmsloft og það passaði mér ekki. Ég vildi ekki vera hluti af því lengur. Björt framtíð var ákveðin tilraun til að brjóta upp mikla átakahefð sem hafði myndast upp úr hruni og koma með áherslur þar sem fólk mættist úr mismunandi áttum. Þannig að þar var bæði mjög vinstrisinnað fólk eins og ég og fólk sem var hinum megin við miðjuna, hægra megin. Ég vildi nálgast hlutina með öðruvísi vinnubrögðum.“

Aþlingismaður fyrir þessa tvo flokka á árunum 2009-2016. Róbert er spurður hverju honum finnist hann hafi komið til leiðar.

„Maður gæti ímyndað sér þegar maður horfir til baka að maður hafi ekki komið neinu til leiðar en ef maður horfir á heildarsamhengi hlutanna þá hefur afstaða okkar allra og þá meina ég samfélagsins til umhverfismála og náttúruverndar gjörbreyst á þessum 12 árum sem liðin eru síðan ég fór þarna fyrst inn sem og afstaða okkar til jafnréttismála og réttinda allra kynja til þess að njóta sín og fá að vera eins og þau eru hefur gerbreyst á þessum þremur kjörtímabilum sem síðan eru liðin. Ég er ekki að segja að það sé allt mér að þakka – ég er bara að segja að dropinn holar steininn. Þegar maður er ein af röddunum sem talar í þessa átt þá hefur það allt saman áhrif.

Ég var auðvitað mikill gerandi í stjórnarskrármálinu; ég var formaður Allsherjarnefndar þegar vinnan fór af stað varðandi stjórnlagaþingið, en hún vann lögin um þjóðfundinn, stjórnlagaþing og stjórnarskrárnefndina sem var stofnuð. Ég starfaði auk þess í umhverfis- og samgöngunefnd þegar núgildandi náttúrulög voru sett. Mér hefur fundist að síðan ég fór út af þingi og sérstaklega hvað varðar núverandi þingmeirihluta að enginn sé á þinginu sem hafi sömu tengingu við ferðamennsku, fjöllin og náttúruna og ég.“

Gefur kost á sér fyrir VG

Róbert hefur ákveðið að bjóða sig fram í forvali VG á Suðurlandi fyrir Alþingiskosningarnar í haust. 

„Nú er ég í VG. Og ég hef náttúrlega um árabil verið samferða VG í mörgum málum. Þegar ég fór upphaflega fram þá kom það jafnmikið til greina fyrir mig að fara í VG eins og að fara í Samfylkinguna. Ég er úr Alþýðubandalaginu upphaflega og hef kosið báða þessa flokka og ég hef bæði flakkað á milli þeirra sem þátttakandi og sem kjósandi. Og í mínum huga er ekki langt á milli þeirra. En það er mikill kúltúrmunur. Og Samfylkingunni hefur að mínu mati aldrei tekist að verða græn.“

Róbert segir að ef hann kemst aftur á þing muni hann halda áfram að vera rödd náttúruverndar og umhverfisins í pólitíkinni. „Það sem er gríðarlega stórt mál í huga mínum og stórmál í suðurkjördæmi er stofnun miðhálendisþjóðgarðs. Mér finnst vera mikilvægt að við náum því í gegn og ég vil tala fyrir því máli þar. Ég þekki þarna hverja þúfu og hef kynnst mörgum þarna sem eiga allt sitt undir vel skipulögðum innviðum til upplifunarferðamennsku. Mér finnst líka skipta mjög miklu máli að passað sé upp á upplifun okkar sem unnum íslenskri náttúru, hálendinu og frelsinu sem fylgir því að ferðast um þessi svæði. Ég skil að mörgu leyti ótta þeirra sem eru í andstöðu við það mál. En á móti því kemur upplifun og reynsla margra þjóða sem hafa einmitt á síðustu árum upplifað það að mjög dýrmætar náttúruperlur hafa spillst. Við verðum að fara varlega með þetta fjöregg sem við eigum í hálendinu. Við þurfum að skipuleggja það, passa upp á það og við þurfum að ákveða hvernig nýtingin er og hvað það er sem við viljum fá út úr þeirri nýtingu.

„Það sem er gríðarlega stórt mál í huga mínum og stórmál í suðurkjördæmi er stofnun miðhálendisþjóðgarðs.“

Fólk hefur síðan sagt mér síðastliðin ár að það sakni mín af þingi og hefur hvatt mig áfram til þess að fara aftur. Mér finnst að drenglynt fólk sem vill láta gott af sér leiða eigi að gefa kost á sér og það er í raun og veru það sem ég er að gera. Ég er ekki í einhverri sókn eftir metorðum eða vegtyllum eða neinu slíku; það er ekki það sem ég tikka fyrir. Ég hins vegar finn til ábyrgðar gagnvart samfélagi mínu, umhverfinu og heiminum og þess vegna er ég að upplifa að ég er að gefa kost á mér núna aftur með allt öðrum hætti en ég gerði áður fyrr. Þá var þetta spurning um svolítinn persónulegan sigur eða ósigur. Núna er ég að bjóða fólki sem brennur fyrir sömu málum og ég að vinna fyrir það. Það getur valið eða hafnað.“

Rödd náttúruverndar

Róbert vill halda áfram að vera rödd náttúruverndar og umhverfisins í pólitíkinni. Hann er spurður hvað íslensk náttúra sé í huga hans. „Hún er fyrst og fremst skjól. Þetta fullkomna skjól fyrir amstri hversdagsins. Hún er líka uppspretta gríðarlegrar fegurðar og frelsistilfinningar. Það eru ótrúleg verðmæti að geta verið kominn út í óbyggðir eftir hálftímakeyrslu úr höfuðborginni. Mér líður vel þegar ég kemst út í náttúruna og fæ að hreyfa mig úti í náttúrunni. Og ég held að þetta sé rosalega dýrmætt okkur öllum sem eigum þessa tengingu. Ég er ekki að segja að það eigi allir að vera á fjöllum eða sveiflandi ísöxum; fyrir suma getur göngutúr úti við sjávarsíðuna verið jafnnærandi. Það skiptir þá máli að það sé ekki sjávarsíða sem sé þakin plasti, úrgangi og mengandi aðskotahlutum. Náttúran er gríðarlega dýrmæt á öllum sviðum og þetta er veganestið okkar. Þetta er það sem við höfum fengið frá fyrri kynslóðum. Þetta tengir okkur við fyrri kynslóðir af því að þetta er alveg eins og það var þegar þær voru hérna. Við getum gengið um Kálfatinda og bent á staðina þar sem Flosi fór til og frá Þingvöllum í Njálu. Þar hefur ekkert breyst í þúsund ár. Og kannski og vonandi geta afkomendur okkar eftir þúsund ár gert það sama.“

„Þegar ég lít til baka þá held ég að maður hafi ekki gert sér grein fyrir hættunni á þessum tíma; verið einum of saklaus og einfaldur.“

Vélsleðaslysið

Róbert sprangaði í klettum í Eyjum á æsku- og unglingsárunum. Hann fór lítið í göngur og á fjöll á milli tvítugs og þrítugs en svo fékk hann veiðigræjur í þrítugsafmælisgjöf, fór að veiða og þá fór náttúran að toga í hann af miklu afli. Síðan hefur ekki verið aftur snúið. Róbert hefur í mörg ár unnið sem fjallaleiðsögumaður og gerði það líka á meðan hann sat á þingi. Þá gefur hann og eiginkona hans, Brynhildur, út tímaritið Úti, ásamt Guðmundi Steingrímssyni, og þau hafa framleitt sjónvarpsþætti um göngur og útivist sem sýndir hafa verið á RÚV. 

„Ég fór á Hvannadalshnjúk árið 2002 og réði varla við það. Ég var grindhoraður reykingamaður og það var mér næstum því ofviða að komast þangað upp. Þar fór þó boltinn að rúlla. Þó þetta hafi verið erfitt þá sat það lengi í mér að hafa gert þetta. Ég fór síðan upp á Kilimanjaro árið eftir og síðan hef ég sennilega farið um 25 sinnum upp á Öræfajökul og upp á hnjúk sem leiðsögumaður fótgangandi, á gönguskíðum eða á skíðum sem og á fjallabretti. Náttúran kallaði bara á mig.“

Náttúran getur verið hættuleg og slysin gera ekki boð á undan sér. Róbert lenti í alvarlegu vélsleðaslysi árið 2014.

„Ég og félagi minn, Ingólfur Eldjárn, vorum að fara á vélsleðum ofan af Skjaldbreið og vorum að keyra í áttina að Þingvöllum þegar ég keyrði fram af bergi og hrapaði ásamt vélsleðanum niður um átta metra og lenti á vegg hinum megin. Þetta var hruninn hraunhellir. Ég rankaði við mér liggjandi við hliðina á sleðanum. Hjálmurinn var brotinn og fullur af snjó. Ég var allur lemstraður og var vinstri höndin út á hlið og öll snúin en hún hafði farið úr lið. Mig grunaði strax að ég væri með innvortis blæðingar.“

Félagi Róberts hringdi í Neyðarlínuna og bjó um hann þannig að honum yrði ekki kalt á meðan beðið var eftir þyrlu. „Svo lá ég þarna og horfði upp í bláan himininn.“

Róbert segir að það hafi flogið í gegnum hugann að þetta gæti verið hans síðasta. „Ég fann eiginlega fyrst og fremst til þakklætis. Ég hugsaði með mér að ef þetta væri stundin þá væri ég búinn að vera gríðarlega lánsamur að eiga öll þessi börn, þessa fjölskyldu, og hafa lifað þessa ævi. Ég átti um þessar mundir fimm ára edrúafmæli og var gríðarlega ánægður með að hafa verið án áfengis þennan tíma og náð að taka út þann andlega þroska sem fylgir því. Þetta var það sem fór í gegnum hausinn á mér. Auðvitað vonaði ég að hjálp kæmi hratt og örugglega og þetta yrði allt í lagi og innst inni trúði ég því að þetta myndi bjargast. Ég þurfti bara að vera kyrr og vera ekki að reyna að rembast neitt. Ég bað til guðs; „ekki núna“.“

Þyrla kom eftir um klukkuktíma og kortér frá því félagi Róberts hringdi í neyðarlínuna og var flogið með hann til Reykjavíkur. Í ljós kom að 17 bein höfðu brotnað. „Ég fór nærri því að brjóta á mér hrygginn. Það voru þrjú sködduð líffæri og innvortis blæðingar og höndin var í svolitlu maski. Það tók við tími hægfæra bata og endurhæfingar. Ég hef í dag náð öllu því sem ég hafði fyrir til baka. Ég finn ekki fyrir neinu sem má rekja til þessa slyss. Ég sé þó að brjóstkassinn er aðeins skakkur; maður gekk svolítið til en ég braut það mikið af rifbeinum og hryggjatinda. Læknirinn sem púslaði saman brotunum í hendinni á mér mælti með því að ég spilaði mikið á gítar. Og ég hef gert það. Það varð til þess að ég eignaðist annað líf í tónlistinni. Ég fór að spila það mikið að ég hugsaði með mér að ég yrði að vera í hljómsveit. Við stofnuðum í kjölfarið nokkrir hljómsveitina Lizt og æfum í hverri viku og höfum spilað töluvert. Það er nauðsynleg viðbót í líf mitt að fá að vera rokkari.“

„Ég fór nærri því að brjóta á mér hrygginn. Það voru þrjú sködduð líffæri og innvortis blæðingar og höndin var í svolitlu maski.“

Svo er það andlega hliðin sem fékk á sig ör eftir slysið. „Þetta var auðvitað þannig áfall að maður þufti að fá áfallahjálp. Ég fann fyrir ótta um að ég væri mögulega orðinn ónýtur fyrir lífstíð og að halda að maður sé mögulega að fara að deyja er eitthvað sem maður þurfti að jafna sig á. Ég fann vel fyrir því að tilfinningalífið var í uppnámi á eftir. Ég sveiflaðist á milli þess að vera gríðarlega þakklátur fyrir það að vera á lífi og bara drakk í mig lífið af áfergju og svo yfir í það að vera óttasleginn og kvíðinn og finnast ég geta lent í slysi og eitthvað skelfilegt gæti gerst hvenær sem væri. Ég þurfti að vinna í því. Það þurfa bara allir að gera sem verða fyrir svona upplifunum. Þetta gerði mig líka svolítið óttalausan í pólitík. Þetta gerði það að verkum að ég fann það þarna 2016 þegar það var boðað til kosninga að ég vildi prófa að stíga út af þeim vettvangi; ekkert endilega fyrir fullt og allt heldur sjá hvort þetta myndi toga ennþá í mig, hvort það væri ennþá löngun í mér til þess að fylgjast með þessu og hvort þetta væri ennþá ástríða.

Slysið breytti stefnunnin að því leytinu til. Mér fannst eins og pólitíkusinn í mér hafi dáið í þessu slysi. Ég upplifði mig ekki lengur sem mjög framagjarnan í pólitík ef það „meikar einhvern sens“. Ég er ennþá þar. Mér finnst ég ekki þurfa að fara í pólitík út af mér persónulega eða út af einhverjum sérstökum vegtyllum eða frama. Og ég þarf þess ekki vinnunnar vegna.“

„Ég fór á Hvannadalshnjúk árið 2002 og réði varla við það. Ég var grindhoraður reykingamaður og það var mér næstum því ofviða að komast þangað upp.“

Róbert hugsaði um dauðann. Hann segist ekki óttast hann. „Ég held að það að deyja sé eins og slökkt sé á sjónvarpi sem var það sem gerðist bæði þegar ég var að spranga og í vélsleðaslysinu. Það verður bara allt svart og kyrrt. Auðvitað vill maður fá að vera samferða fólkinu sínu eins lengi og maður getur. Það er það sem skiptir mestu máli í lífi mínu. En auðvitað áttar maður sig á því að þetta er hverfult. Þetta er ekki sjálfgefið. Og við erum ótrúlega lánsöm. Þessi ævi er eins og eitt andartak í eilífðinni. Og það þarf að reyna að fá eins mikið út úr því og hægt er. Reyna um leið að verða að einhverju gagni. Muhamed Ali, ég er mikill aðdáandi hans og hitti hann einu sinni, sagði að þjónusta við aðra væri leigan fyrir jarðvistina. Ég er þessu hjartanlega sammála.“ 

Bakkus

Bakkus. Jú, Bakkus fylgdi Róberti um árabil. Hann segist hafa fengið sér fyrsta sopann sennilega um 14 til 15 ára gamall á Þjóðhátíð.

„Áfengi var aldrei neinn hluti af lífi mínu fyrr en svona við 18 ára aldur. Ég drakk frá 18 til 37 ára. Það var alltaf svolítið partur af mér að vera svolítið mikið fyrir bjór og hvítvín. Eftir á að hyggja fór þetta mér aldrei vel. Eftirsjá mín hefur kannski einna helst verið sú að hafa ekki áttað mig á því fyrr og hætt fyrr að drekka.

Alkóhólismi var hluti af æsku minni. Pabbi, blóðfaðir minn, var mikill drykkjumaður og réði illa við áfengið. Hann flosnaði út úr lífinu út af sinni drykkjumennsku og endaði á götunni. Hann dó einn og yfirgefinn í Bretlandi. Þar sem ég ólst upp við þessar aðstæður þá drakk ég auðvitað aldrei án þess að hafa þetta einhvers staðar á bak við eyrað. Það var eitthvað sem sagði mér að fara varlega. 

Ég var svolítið farinn að hugsa fram í tímann; hvaða áfengi ég ætti og hvort það væri búið að kaupa. Þannig að þetta var mjög hál braut.“

Róbert segir að SÁÁ skilgreini dagdrykku miðað við að fólk drekki fjórum sinnum í viku. „Ég var klárlega þar. Þetta var eins og að setjast á bak ótemju. Ég gat ekkert alltaf vitað hvar þessi útreiðartúr myndi enda. Ég var ekki túramaður eða fullur í marga daga en ég gat ekki sagt hvenær ég myndi koma heim um nóttina. Þetta var þó oft í góðu lagi. En þetta var sjúkdómur sem var í þróun og þetta fer alltaf niður á við. Þetta verður alltaf verra og verra. 

„Það er ekki þægileg reynsla að vera með sjúkdóm sem við vitum eiginlega ekkert um og maður veit að fullt af fólki deyr úr þessum út um allan heim.“

Ég var í þokkalegu starfi, átti gott fjölskyldulíf og það kom öllum í kringum mig á óvart þegar ég sagðist vera alkóhólisti. Það tók Brynhildi alveg tvö ár að segja „já, þetta var góð ákvörðun hjá þér“; henni fannst ég ekki eiga við vandamál að stríða. Ég fann þetta bara inni í mér að þetta var um það bil að fara illa. Ég lenti sem betur fer vel á fótunum eftir göngudeildarmeðferð hjá SÁÁ. Ég hef síðan verið aktívur innan 12 spora samtakanna sem eru hluti af lífi mínu og lífsstíl mínum. Og það er grundvöllur þeirrar persónu sem ég er í dag. Þetta er allt annað líf. Líf mitt og upplifun mín á lífinu er svo miklu stærri og meiri og það eru fleiri litir í henni heldur en voru áður.“

Fékk Covid

Róbert fékk Covid-19 í mars í fyrra. 

„Við Brynhildur vorum með skíðaferð í nágrenni Mývatns helgina áður en fyrstu fjöldatakmarkanir tóku gildi. Við tókum þá ákvörðun að 25 manna ferð til Mývatns stæði og fólk skyldi hafa sóttvarnaráðstafnir í huga. Þetta var löngu áður en fólk var orðið meðvitað um tveggja metra regluna og hvað það skiptir miklu máli að vera með grímu. Það kom upp smit á hótelinu sem við gistum á og af 24 í hópnum þá smituðust 19. Það var alveg ótrúlegt hvað þetta fór hratt yfir allan hópinn.“

Brynhildur smitaðist líka og segir Róbert að einkenni sín hafi verið minni en hennar. „Ég slapp vel. Ég missti strax bragð- og þefskyn. Ég var með netta hálsbólgu, höfuðverk og beinverki og var smáslenaður á 8. eða 9. degi. Ég var með mild einkenni og fékk ekki mikinn hita.

„Við Brynhildur höfðum unnið saman í fjögur eða fimm ár og verið góðir vinir áður en við urðum par. Þetta gerðist með eins eðlilegum og náttúrulegum hætti og hugsast gat.“

Þetta hópsmit vakti hneykslun og var eiginlega fyrsta dæmið um smitskömm á landinu. Það var sérstakt að upplifa það því ekkert okkar fór á svig við reglur. Þær höfðu verið boðaðar en höfðu ekki tekið gildi. Þegar ég lít til baka þá held ég að maður hafi ekki gert sér grein fyrir hættunni á þessum tíma; verið einum of saklaus og einfaldur. Ég var tiltölulega nýbúinn með Vasa-skíðagönguna í Svíþjóð þar sem hátt í 20 þúsund manns kepptu á gönguskíðum í einum hnapp og þótti ekki tiltökumál. Síðar hefur svo komið í ljós að Svíar tóku þetta ekki sömu tökum og aðrir.  

Ég var leiðsögumaður á Snæfelli í maí eftir að ég var búinn að ná mér og þegar ég var að leiða hópinn upp á Snæfell sem er erfitt fjall og hæsta fjall utan jökla á Íslandi þá fannst mér þetta vera svo erfitt að ég sagði við sjálfan mig að ég væri hættur þessu; þetta væri ekki gaman og ég yrði að segja þetta gott. Ég hef síðan komist að því að margir sem hafa smitast hafa einmitt verið máttlausir eftir veikindin og glímt við síþreytu. Ég hef ekki verið þar en bragðskynið hefur verið lengi að komast í samt horf. Ég get til dæmis ekki borðað eggjahvítu; hún hefur bragðst stórfurðulega og poppkorn er ekki sérlega gott. Þá finn ég ekki mikinn mun á vondu kaffi og því sem ég veit að er gott kaffi. Þannig að miðað við það sem maður hefur heyrt og lesið þá er ég gríðarlega heppinn því fólk veit ekki hvaða spil það dregur þegar það færi Covid.“

Róbert segir að það sé sérstök lífsreynsla að hafa fengið Covid. „Það er ekki þægileg reynsla að vera með sjúkdóm sem við vitum eiginlega ekkert um og maður veit að fullt af fólki deyr úr þessum út um allan heim. Þannig að það er ekki þægileg tilfinning. 

Síðan hefur það verið að mörgu leyti gagnlegt fyrir mig í starfi að geta til dæmis alltaf mætt í vinnuna af því að ég er með mótefni. Ég passa mig samt á að sótthreinsa af því að ég gæti samt borið snertismit á milli.“

Róbert situr í Covid-teymi forsætisráðuneytisins. „Ég hef verið gríðarlega meðvitaður um mikilvægi þess að við stígum varlega til jarðar og að við vöndum okkur. Þessir árangur sem við höfum náð er því að þakka að við höfum öll verið á sömu blaðsíðu gagnvart þessu. Það er gæfa okkar. Það hefur bjargað tugum ef ekki hundruðum mannslífa.“

„Við erum ótrúlega lánsöm sem höfum fæðst á þessari eyju og fyrir náttúruunnendur og fjallafólk er hvergi betra að vera.“

Besta land í heimi

Róbert vill gera Íslandi, íslenskri náttúru og Íslendingum gagn. Hann er spurður hvað Ísland sé í huga hans.

„Ísland er í huga mínum besta land í heimi. Við erum ótrúlega lánsöm sem höfum fæðst á þessari eyju og fyrir náttúruunnendur og fjallafólk er hvergi betra að vera. Hérna erum við með náttúru sem er óspillt og fjölbreytt. Það er allt í seilingarfjarlægð. Við erum þrátt fyrir allt gríðarlega samheldin þjóð og þó við skiptum okkur í ólíka stjórnmálaflokka þá er miklu styttra á milli okkar heldur en við viljum oft vera láta þegar við reynum að aðgreina okkur frá öðrum í pólítík. Það getur oft myndast góð samstaða í pólitíkinni og meðal þjóðarinnar. Ég held að árangur okkur í Covid sé gott dæmi um það hversu öflug við getum verið þegar við stöndum saman. Þannig að fyrir mér er Ísland heimili mitt, land mitt, náttúra mín og þjóð mín. Það er það sem skiptir öllu.“

Æskuheimili Róberts Marshall, Íslendingsins og Skotans, er í eyjunni þar sem rauk upp allt í kringum hann á tímabili. Segja má að eldar logi og það rjúki upp allt í kringum stjórnmálin þegar mikið er um að vera. Róberti er bent á þetta.

„Þegar ég var á þingi á sínum tíma þá má segja að það hafi oft ólgað í mér blóðið þegar ég fylgdist með ákveðnum málum. Úrið mitt sýndi mig einu sinni með púls upp á 130 í þingsalnum en venjulegur hlaupapúls hjá mér er svona i kringum 100. Það má segja að það rjúki stundum úr mér þegar ég hugsa um pólitík. Og það er auðvitað mjög gott að vita að þetta brennur inni í manni. Þetta er einhver neisti sem er þarna og ég finn fyrir honum. Hann er ekki slokknaður. Maður væri ekkert að þessu með öllu þessu sem þessu fylgir nema að það væri eldur í manni gagnvart þessu; alveg eins og í jörðinni í kringum mann þegar ég var að alast upp.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -