Laugardagur 24. september, 2022
9.2 C
Reykjavik

Róbert Wessman fjármagnaði rúmlega 100 milljón króna málsókn gegn Björgólfi Thor

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Róbert Wessman hefur frá árinu 2010 fjármagnað málarekstur fyrrum hluthafa Landsbanka Íslands, gegn Björgólfi Thor Björgólfssyni, fyrrum eiganda bankans, samkvæmt áreiðanlegum heimildum Mannlífs. Heildarkostnaður vegna málareksturs og kaupa á verðlausum hlutabréfum bankans er vel á annað hundrað milljónir króna. Þekktir einstaklingar hafa stigið fram í málinu fyrir tilstuðlan Róberts og má þar nefna Kristján Loftsson úr Hval og Vilhjálm Bjarnason fyrrverandi þingmann Sjálfstæðisflokksins. Lögmannsstofa Róberts hefur nú unnið að málinu samfleytt í nærri 10 ár en það hefur þvælst um öll stig dómskerfisins á Íslandi án endanlegrar niðurstöðu. 

Við skoðun málsins kemur í ljós að Róbert Wessman eða tengdir aðilar voru aldrei hluthafar í Landsbankanum, höfðu því enga beina lögvarða hagsmuni í málinu og urðu þar af leiðandi ekki fyrir tjóni við fall bankans. Kjarninn greindi fyrstur fjölmiðla frá því að fyrirtæki í eigu starfsmanns Róberts til fjölda ára, Árna Harðarsonar, hafi keypt verðlaus hlutabréf í bankanum fyrir tugi milljóna króna á haustmánuðum 2015 til þess að tryggja kröfur fyrir fyrirhugaða málsókn á hendur Björgólfi Thor. Þá fyrst kom fram vísbending um beina aðkomu Róberts að málinu. Í fyrsta sinn er nú varpað ljósi á fjármögnun málsóknarinnar og raunverulega bakhjarla frá haustmánuðum 2010 í umfjöllun Mannlífs um málið. 

Róbert lenti í alvarlegu reiðhjólaslysi og var lengi að jafna sig. Það kom ekki í veg fyrir áframhaldandi málareksturinn gegn Björgólfi.

Ólafur Kristinsson lögmaður reið á vaðið

Þann 16. september 2010 var Ólafur Kristinsson lögmaður, fyrrverandi samstarfsmaður Árna Harðarssonar hjá Deloitte, fenginn til að ríða á vaðið með aðsendri grein í Viðskiptablaðið. Ólafur þótti trúverðugur aðili til að koma fram sem almennur hluthafi í bankanum, sem hafði þó aðeins tapað óverulegum fjárhæðum við fall hans, en var reiðubúinn að veita „þjónustu og ráðgjöf“ sem myndi nýtast Róberti við að koma málinu í fjölmiðla.  Hann kom fram í fjölmörgum sjónvarpsviðtölum, lét birta greinar í fjölmiðlum undir sínu nafni og birti auglýsingar í dagblöðum. Var þess gætt að aðkoma Róberts Wessman væri hvergi sýnileg á meðan Ólafur og lögmenn Róberts undirbjuggu málið og vöktu á því athygli. Ólafur fékk milljóna greiðslur fyrir sína aðkomu að málinu, samkvæmt heimildum Mannlífs.  

Ólafur þvertekur fyrir allt ofangreint í samtali við Mannlíf. Hann fullyrðir að hann hafi allan tímann sjálfur staðið einn að málaferlunum og til verksins hafi hvorki Róbert né nokkur annar á hans vegum fengið hann til þess. Ólafur segist ekkert þekkja Róbert og aðspurður svarar hann því til að hann hafi alfarið staðið einn í slagnum í byrjun. „Ég stóð einn að því en síðan talaði ég við Jóhannes Bjarnason hjá Landslögum og Vilhjálm Bjarnason til að hjálpa mér þegar þetta var orðið mér ofviða. Það var alfarið ég sem ákvað að fara af stað og ég lagði eigin fjámuni, vinnu mína, í þetta í byrjun. Ástæðan er sú að mér blöskraði,“ segir Ólafur.

Þegar Ólafur er aftur spurður hvort Róbert, eða einhver á hans vegum, hafi fengið hann til að vera andlit málsóknarinnar vísar Ólafur því á bug. Hann neitar því jafnframt að hafa fengið sjálfur greitt fyrir aðkomu sína að málinu. „Nei. Ég skrifaði greinarnar og ég hef aldrei komið nálægt Róberti. Ég hef séð myndir af honum í blöðunum en aldrei verið í sama húsi og maðurinn.“

- Auglýsing -

Næstur var Vilhjálmur Bjarnason

Til að auka enn frekar slagkraft málsins, var Ólafi falið að fá Vilhjálm Bjarnason, þingmann Sjálfstæðisflokksins og framkvæmdastjóra Samtaka Fjárfesta til liðs við málareksturinn. Fyrir tilstuðlan lögfræðistofunnar Landslaga, var komið á fundi með Vilhjálmi og Ólafi. Málið var kynnt þannig fyrir Vilhjálmi að almennir hluthafar Landsbankans eins og Ólafur hafi orðið fyrir miklu tjóni við fall bankans og að þeir vildu sækja bætur. Þess vegna væri mikilvægt fyrir tugþúsundir fyrrum hluthafa bankans að fá liðstyrk Vilhjálms og samtaka hans. Vilhjálmi var sagt að til stæði að breiður hópur hluthafa kæmi að málinu og það var talið trúverðugra fyrir málið að Samtök Fjárfesta hefðu einhverja aðkomu að málinu fjárhagslega. Var því óskað eftir því að Viljálmur legði málsóknarfélaginu til um þrjár milljónir króna. Samkvæmt heimildum Mannlífs var Vilhjálmur meðvitaður um að miklir fjármunir stæðu á bakvið málareksturinn, sem var umfangsmikill frá upphafi.

Vilhjálmur Bjarnason, fyrrverandi þingmaður.

Við höfum lagt algjört smáræði í þessa málsókn, líklega eina milljón króna,“ segir Vilhjálmur í samtali við Mannlíf um aðild félagsins að málssókn vegna Landsbankans. Vilhjálmur segir að hann hafi vitað af aðkomu Róberts í málsókninni frá upphafi, sem stangast á við fullyrðingar Ólafs hér að ofan. Með beinni aðkomu Róberts hafi orðið straumhvörf. Þeir keyptu kröfur af lífeyrissjóðunum og komu að málinu,“ segir Vilhjálmur. 

- Auglýsing -

VIlhjálmur segir aðkomu Róberts og félaga hafa valdið straumhvörfum í málsókninni sem núna er tvíþætt. Annars vegar einkamál Hvals hef. og hins vegar málarekstur Málssóknarfélags Landsbankans. Vilhjálmur áréttar að nauðsynlegt sé að tryggja rétt sparifjáreigenda með því að ná fram niðurstöðu. 

Auglýsingar og kynningarfundir í boði Róberts

Heilsíðuauglýsingar voru keyptar í ýmsum prentmiðlum, kynningarfundur var haldinn fyrir hluthafa í Háskólanum í Reykjavík og lagt var í ýmsan kostnað til að vekja athygli á málinu. Róbert Wessman fjármagnaði þennan kostnað í gegnum sérstakt málsóknarfélag á meðan hluthöfum bankans var talin trú um að Ólafur Kristinsson, lítill hluthafi í bankanum, og Vilhjálmur Bjarnason þingmaður væru að vinna að málinu að eigin frumkvæði og að hluthafar bankans stæðu að fjármögnun málsins. Heimildarmenn Mannlífs sem þekkja til málsins fullyrða að Ólafur Kristinsson hafi ekki einu sinni skrifað innsendar greinar í sínu nafni í fjölmiðla, það hafi ráðgjafar Róberts gert. 

Björgólfur Thor Björgólfsson fjárfestir.

Hæstiréttur vísaði hópmálsókn frá dómi

Í maí 2106, vísaði Hæstiréttur hópmálsókn á hendur Björgólfi Thor frá en hópmálsóknin var höfðuð af 235 aðilum, sem áttu 5,27 prósent af útgefnum hlutabréfum í Landsbankanum. Snérist málið um að fá viðurkennda skaðabótaskyldu Björgólfs Thors vegna tjóns sem félagsmenn málsóknarfélags töldu sig hafa orðið fyrir  vegna hlutabréfaeignar sinnar. Síðar kom í ljós að Róbert Wessman, í gegnum starfsmann sinn hjá Alvogen, var eigandi að meirihluta hlutabréfa sem stóðu að málsókninni og hafði á þessum tíma greitt lungan af öllum kostnaði vegna málsins. Kjarninn komst á snoðir um málið og afhjúpaði þetta í umfjöllun sinni eins og áður segir. 

Björgólfur Thor neitaði ávallt sök og dómstólar komust að þeirri niðurstöðu að málið væri ekki tækt til fyrirtöku eins og það var lagt fram. Málsóknarfélagið ákvað þó að halda áfram með málið með nýrri stefnu og var það gert í október 2016, þegar tvö félag í eigu Kristjáns Loftssonar stefndu Björgólfi Thor. Byggði sú málsókn á sömu rökum og grundvelli og fyrri hópmálsókn en formið var þó annað og félögin Vogun hf og Fiskveiðifélagið Venus hf þingfestu nýtt mál 1. nóvember 2016. 

Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf.

Landslög, lögmannstofa Róberts og málsóknarfélagsins, vill meina að þegar bréf fyrirtækja Kristjáns í bankanum voru keypt, hafi Björgólfur Thor haldið frá honum og öðrum markaðsaðilum upplýsingum um að Samson eignarhaldsfélag færi með meirihluta atkvæða á hluthafafundum og að bankinn hafi stundað umfangsmiklar lánveitingar til félaga, sem voru undir stjórn Björgólfs. Þess vegna hafi Landsbankinn í raun átt að teljast sem dótturfélag Samsons og því verið skylt að gera öðrum hluthöfum yfirtökutilboð í hlutabréf þeirra. Lögmannstofan Landslög freistar þess að sýna fram að skaðabótaskyldu Björgólfs í málinu gagnvarts félögum Kristjáns og þeim málaferlum er enn ólokið.

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir náðist ekki í Róbert Wessmann við vinnslu greinarinnar.

 

Hver er Róbert Wessmann? 

  • Róbert er forstjóri samheitalyfjafyrirtækisins Alvogen, fyrrverandi forstjóri Actavis og hefur verið áberandi í íslensku viðskiptalífi um árabil. Hann var aðeins tuttugu og níu ára þegar hann var ráðinn forstjóri lyfjafyrirtækisins Delta, sem síðar varð Actavis. Á aðeins sjö árum var Actavis komið í hóp fjögurra stærstu samheitalyfjafyrirtækja heims undir stjórn Róberts.
  • Greint hefur verið frá því að árslaun Róberts nái upp í 350 milljónir króna á ári sem þýðir að hann er með nærri 30 milljónir í mánaðarlaun.
  • Hann er meðal efnamestu manna landsins og á fasteignir víða um veröld. Til að mynda á hann kastala í Bergerac í Frakklandi þar sem hann rekur vínrækt á 5.000 fermetra landsvæði. Þar framleiðir hanns bæði rauð og hvít léttvín en einnig kampavínið Wessman n. 1 sem hann framleiðir ásamt kærustu sinni, Ksenia Vla­dimirovna Shak­hmanova.
  • Róbert átti einnig íbúð í New York sem kostaði andvirði 3.3 milljarða króna og fasteign í Lundúnum sem keypt var á tæpa 3 milljarða. Nágrannar hans í Lundúnum eru Beckham-hjónin og Vilhjálmur bretaprins.
  • Á milli Róberts og Björgólfs Thors hefur ríkt áralöng óvinátta. Allt frá því að hann og hans nánasti samstarfsmaður, Árni Harðarson, hættu hjá Actavis hefur andað köldu á milli þeirra og Björgólfs.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -