Róbert Wessman rekið þrjá forstjóra Alvotech –Nánast öllum lykilstjórnendum „skipt út” á 18 mánuðum

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Lyfjafyrirtækið Alvotech hefur vaxið og dafnað undanfarin ár undir stjórn fjögurra forstjóra Alvotech. Róbert Wessman ræddi nýlega við Kastljós um framtíðarsýn fyrirtækisins og sagðist hann telja að útflutningur líftæknilyfja geti orðið ein stærsta atvinnugrein Íslendinga. Róbert var í þættinum kynntur sem forstjóri Alvotech, en samkvæmt heimasíðu fyrirtækisins er það Mark Levick sem sinnir því starfi. Hann mun vera sá fjórði í röðinni til að sinna því starfi á skömmum tíma. Ekkert hefur verið fjallað um tíð forstjóraskipti Alvotech í íslenskum fjölmiðlum og að nánast öllum lykilstjórnendum fyrirtækisins hafi verið „skipt út“ á síðastliðnum 18 mánuðum. Róbert er stofnandi Alvotech og stærsti hluthafi fyrirtækisins.

Tíð starfslok lykilstjórnenda Alvotech á Íslandi hafa vakið athygli en skipt hefur verið um nánast alla æðstu stjórnendur fyrirtækisins á síðastliðnum 18 mánuðum. Á árinu 2015 var Andreas Herrmann rekinn úr stóli forstjóra Alvotech, á árinu 2018 var Eef Schimmelpennink látinn taka poka sinn og við starfinu tók hinn danski Rasmus Rojkjaer, sem staldraði einnig stutt við og var rekinn vorið 2019 af Róbert Wessman. Rasmus hafði flutt til Íslands með fjölskyldu sína og skömmu fyrir starfslokin hafði hann fest kaup á fallegri lóð í Haukanesi, í Garðabæ, sem síðar var seld Antoni Þórinssyni afhafnamanni, fyrir um 130 milljónir króna, eins og Mannlíf hefur áður fjallað um.

Nánast öllum lykilstjórnendum Alvotech „skipt út“

En það eru ekki bara forstjórar Alvotech sem hafa verið látnir fara á síðustu misserum, heldur hefur mikil hreyfing verið meðal lykilstjórnenda, sem ýmist hafa verið reknir úr starfi eða óskað eftir starfslokasamningum við þá. Í undantekningatilfellum hafa stjórnendur sjálfir óskað eftir starfslokum samkvæmt heimildum Mannlífs. Þá hefur verið umtalsverð almenn starfsmannavelta hjá fyrirtækinu undanfarin ár og svo tíðar breytingar eru sjaldséðar á meðal samkeppnisaðila Alvotech.

Auk forstjóra hafa þrír framkvæmdastjórar starfsmannamála Alvotech og Alvogen á Íslandi látið af störfum, tveir framkvæmdastjórar gæðamála og nánast allt lykilstjórnendateymi Alvotech hefur verið „endurnýjað“ á síðastliðnum 18 mánuðum.  Svafa Grönfeldt, Jensína Böðvarsdóttir, Hildur Hörn Daðadóttir og Lasse Monsted hafa öll verið framkvæmdastjórar starfsmannamála eða starfsþróunar systurfyrirtækjanna Alvotech og/eða Alvogen og hafa öll látið af störfum á síðastliðnum tveimur árum. Þá hefur verið gengið frá starfslokum framkvæmdastjóra fjármálasviðs, framkvæmdastjóra rekstrarsviðs og framkvæmdastjóra upplýsingatæknisviðs á um 12 mánaða tímabili.  Núverandi stjórnendateymi Alvotech má sjá á heimasíðu fyrirtækisins, sem hafa öll gengið til liðs við fyrirtækið á tiltölulega skömmum tíma.

Verður að teljast einstaklega lágt

Mannlíf leitaði eftir svörum frá Róberti vegna tíðra mannabreytinga hjá fyrirtækinu. Óskað var eftir svörum forstjórans við erftirfarandi spurningum:

  1. Í nýlegum Kastljós þætti varst þú kynntur sem forstjóri Alvotech og gerðir við það engar athugasemdir. Hvaða hlutverki gegnir þú innan Alvotech?
  2. Geturðu gefið skýringar eða ástæður fyrir brottrekstri þriggja forstjóra Alvotech á undanförnum árum og hvort Mark Levick njóti trausts stjórnar Alvotech í sínum störfum? Samkvæmt heimasíðu fyrirtækisins virðist hann enn gegna því starfi.
  3. Er einhver sérstök ástæða fyrir því að Alvotech hefur aldrei tilkynnt til fjölmiðla eða á heimasíðu fyrirtækisins um brottrekstur þinn á forstjórum Alvotech?
  4. Eru einhverjar sérstakar skýringar á því hvers vegna nánast öllum æðstu stjórnendum Alvotech hefur verið skipt út á undanförnum misserum. Ef marka má heimasíðu fyrirtækisins eru þetta allt útlendingar og nýtt fólk sem gegnir stöðum lykilstjórnenda. Geturðu gefið okkur skýringar á því?
  5. Er það rétt að yfir 50 sérfræðingar og stjórnendur Alvotech á Íslandi hafi hætt hjá fyrirtækinu á síðastliðnum þremur árum?
  6. Þegar heimasíða fyrirtækisins er skoðuð, eldri tilkynningar um starfsmenn skoðaðar og rætt við starfsmenn sem hafa starfað hjá Alvotech á Íslandi en hætt störfum eru vísbendingar um gríðarlega starfsmannaveltu hjá fyrirtækinu. Þetta á við um bæði sérfræðinga sem og æðstu stjórnendur. Geturðu gefið okkur einhverja mælikvarða um starfsmannaveltu til að mynda síðustu þrjú árin og einnig ef þú hefur frekari skýringar á tíðum starfslokasamningum innan fyrirtækisins?

Til svara var Elísabet Hjaltadóttir, samskiptastjóri Alvotech, sem segir Róbert aðeins vera stjórnarformann félagsins:

„Frá því Alvotech var stofnað árið 2013, hefur fyrirtækið vaxið hratt. Í árslok 2020 voru um 540 starfsmenn hjá fyrirtækinu, þar af um 410 á Íslandi. Gert er ráð fyrir því að fjöldi starfsmanna hér á landi muni fara upp í 580, þegar stækkun hátækniseturs í Vatnsmýri er lokið og starfsemin þar komin í fullan gang,“ segir Elísabet og bætir við.

„Starfsmannavelta hjá fyrirtækinu var að meðaltali 4,1 prósent síðustu þrjú ár, sem verður að teljast einstaklega lágt fyrir fyrirtæki í jafn hröðum vexti og Alvotech og hefur þróast úr því að vera frumkvöðull í þróun líftækni, í að verða alþjóðlegt fyrirtæki með starfsemi um allan heim. Í slíku ferli þarf reglulega að huga að samsetningu og hæfni starfsmanna og stjórnenda.“

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -