Rokkuð og án mikillar dramatíkur

Deila

- Auglýsing -

Hljómsveitin Dúkkulísurnar sem hefur starfað í yfir 30 ár sendir nú frá sér jólaplötu og fylgir henni eftir með tónleikum. Gréta Jóna Sigurjónsdóttir gítarleikari segist persónuleg í textagerð á plötunni enda hafi hún verið á erfiðum stað í lífinu við gerð hans.

„Þetta verður vínyll og diskur, frekar gamaldags að stússast í svoleiðis útgáfu, en platan kemur líka út á Spotify. Í fyrra héldum við nokkra jólatónleika og tókum upp tvö lög í aðdraganda þeirra. Þegar við hittumst svo á æfingum á nýju ári kom í ljós að við áttum fleiri jólalög í handraðanum og þá var ekki aftur snúið,“ segir Gréta sem býr á Fljótsdalshéraði og rekur Bókakaffi Hlöðum í Fellabæ. Jólaplata Dúkkulísanna ber heitið Jól sko!

„Hugmyndina má rekja til 2008 þegar við sömdum jólalag fyrir þýðingarfyrirtækið Islingua sem var jólakveðja í nafni þess fyrirtækis. Ég held að Gugga trommari hafi á þeim tímapunkti slegið fram þessari hugmynd sem við hlógum að og grínuðumst með en það hefur líklega verið til þess að okkur fannst þetta ekki svo fjarlægt þegar við fórum að ræða þetta í alvöru.“

Á plötunni eru sex lög, þrjár ábreiður sem þær settu íslenskan texta við með dyggri aðstoð Kristjáns Hreinssonar og Magnúsar Þorkelssonar og þrjú frumsamin lög. „Áðurnefnd Jólakveðja sem við sömdum við texta eftir Börk Vígþórsson, lag eftir Hörpu hljómborðsleikara með texta eftir Hörpu, Erlu söngkonu og mig og lag eftir Erlu söngkonu með texta eftir mig. Ég held að lagið hennar Hörpu sé mjög persónulegt fyrir hana og textinn við Frostnótt er mjög persónulegur fyrir mig en aðallega vegna þess að ég var á erfiðum stað í lífinu þegar hann varð til,“ segir Gréta og bætir við að meiningin hafi samt fyrst og fremst verið að gera dálítið rokkaða og skemmtilega plötu án mikillar dramatíkur.

Mættust á milli bæja með pakka

Aðspurð segist Gréta ekki mikið jólabarn hún líti frekar á jólin sem afslöppunartíma með góða bók og konfekt. „Ég tapa mér alls ekki í undirbúningi enda fæ ég þann skammt dálítið í vinnunni. Á ákveðnum tímapunkti eða við ákveðnar aðstæður hellist yfir mig söknuður eftir þeim sem eru farnir en um leið get ég glaðst yfir stjörnuprýddum himni á köldu vetrarkvöldi, og dáðst að fegurð náttúrunnar og alheimsins. Það er lítið um hefðir á mínu heimili, ég á 11 ára strák, Sigurjón Torfa, og ég reyni að búa til notalega jólastemningu fyrir okkur tvö. Ég vinn mikið þannig að mér finnst tíminn sem ég á með honum afskaplega dýrmætur og reyni að gera hann innihaldsríkan og kósí. Oft förum við út á lóð, leikum okkur í snjónum, komum inn, kveikjum í kamínunni og fáum okkur kakó. Stundum fáum við okkur göngutúr um grafreitinn hér í Fellabæ með kerti og ræðum þá jafnvel hverfulleika lífsins. Svo má ekki gleyma að mér finnst bók algjörlega nauðsynleg um jól og þreytist ekki á að ýta bókum að Sigurjóni Torfa.  Ég reikna með að þessi jól verði í sama dúr.“

Á ákveðnum tímapunkti eða við ákveðnar aðstæður hellist yfir mig söknuður eftir þeim sem eru farnir en um leið get ég glaðst yfir stjörnuprýddum himni á köldu vetrarkvöldi, og dáðst að fegurð náttúrunnar og alheimsins.

Áttu einhverja eftirminnilega jólahefð úr æsku? „Ein af ljúfustu minningum úr bernskunni í Jökulsárhlíðinni var að yfirleitt á Þorláksmessu eða daginn fyrir Þorláksmessu fórum við Jóna Torfhildur, uppeldissystir mín á Skriðufelli þar sem ég ólst upp, með jólapakka í poka áleiðis í Torfastaði þar sem faðir minn bjó. Um fimm kílómetrar eru á milli bæjanna og á móti komu Svandís og Heiða systur mínar líka með pakka. Við mættumst á miðri leið og skiptumst á pökkum við stóran stein sem við kölluðum alltaf Eplasteininn. Ef vont var veður þá var keyrt með jólapakkana á snjósleða og þá misstum við af þessum Eplasteinshittingi, sem var afleitt en ekkert við að gera.“

Pálmi fyrsti kostur

Fram undan er annasamur tími en það er alltaf eitthvað spennandi að gerast á Bókakaffi Hlöðum. Dúkkulísurnar verða með þrenna tónleika, þá fyrstu 1. desember í Valaskjálf á Egilsstöðum. Næstu verða svo í Bæjarbíói Hafnarfirði þann 5. desember og þeir síðustu á Græna hattinum Akureyri 6. desember. „Pálmi Gunnarsson var með okkur í fyrra og var alveg til í að koma aftur. Þegar við vorum að velta fyrir okkur í fyrra að fá gest með okkur þá gerðum við óskalista og þegar við vorum búnar að ræða allt niður í kjölinn vorum við allar sammála um að hann væri okkar fyrsti kostur. Hann hefur gefið út og sungið svo falleg jólalög að öllum hlýnar þegar hann syngur þau og fyrir okkur sem hljóðfæraleikara er ómetanlegt og algjör forréttindi að fá að spila með honum,“ segir Gréta að lokum.

Myndir / Ólöf Erla Einarsdóttir

 

 

 

- Advertisement -

Athugasemdir