Rostungar eru sjaldséð sjón við Íslandsstrendur en í gær trúðu íbúar Hafnar í Hornafirði vart sínum eigin augum er þau sáu rostung sem hafði komið sér fyrir á bryggju í bænum.
Að meðaltali sjást rostungar á um tíu ára fresti við Ísland svo að gesturinn á bryggjunni var svo sannarlega óvænt sjón. Rostungar lifa á svæðum þar sem ís er að finna og því er Ísland að öllum líkindum of hlýr staður fyrir þá.
,,Þá séu rostungar, líkt og hvítabirnir, háðir ísnum í norðurhöfum og bráðnun hans geti hrakið þá á flakk.‘‘ Segir í viðtali við Ævar Petersen, dýrafræðing árið 2013, en það sumar sáust að minnsta kosti sex rostungar sem var mjög óvanalegt.
Töluverður fjöldi fólks hafði safnast saman niður á bryggju í gærkvöldi til þess að sjá rostunginn, sem kippti sér ekki upp við áhorfendurnar.
Þá lágu fiskar í kringum rostunginn en óvíst er hvort að rostungurinn sé í raun svo mikil veiðikló eða hvort bæjarbúar hafi boðið hann velkominn og fært honum fisk um leið.
Rostungurinn var enn á höfninni seint í gærkvöldi og var hinn rólegasti.