Sunnudagur 29. maí, 2022
12.1 C
Reykjavik

Rótgróið viðhorf að hampa dugnaði

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Í umræðum um yfirstandandi kjaradeilur Eflingar og Reykjavíkurborgar hefur farið æ meira fyrir þeirri skoðun að ekki beri að meta menntun til launa. Nú síðast tjáði Kári Stefánsson þá skoðun sína á Pírataspjallinu við góðar undirtektir. Hvað finnst forsvarsfólki háskólafólks um þessa umræðu? Mannlíf leitaði svara við því hjá Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands.

„Ég held að við séum á villigötum sem samfélag ef við erum farin að trúa því að menntun skipti ekki máli á vinnumarkaði og eigi ekki að meta til launa,“ segir hann. „Að mínu mati hefur frekar vantað upp á að háskólamenntun sé metin almennilega til launa en hitt. Fyrir ekki svo löngu síðan birti Hagstofan tölur sem sýndu að þeir sem hafa eingöngu lokið grunnmenntun á borð

við stúdentspróf séu að jafnaði með 86% af heildartekjum þeirra sem hafa lokið háskólaprófi. Nú skal ég ekki segja um hvort þetta sé lítill eða mikill munur. En Hagstofan benti á sama tíma á að þetta sé minni munur en í nokkru öðru Evrópuríki. Þetta er áhyggjuefni. Við byggjum ekki upp blómlegt samfélag nema við höfum yfir að búa vel menntuðu og framsæknu fólki. Ég held að við ættum miklu frekar að huga að því hvernig hægt er að meta menntun enn frekar með sanngjörnum hætti til launa heldur en að gera lítið úr mikilvægi háskólamenntunar.“

Spurður hvort hann sé sammála Þórunni um að það sé þjóðaríþrótt á Íslandi að tala menntun niður segir Jón Atli: „Það hefur lengi verið rótgróið viðhorf hér á landi að hampa dugnaði umfram öðru. Það þarf sannarlega ekki háskólapróf til að sýna dugnað í vinnu. Tölurnar sem ég vitnaði til áðan gefa til kynna að við séum kannski viljugri en aðrar þjóðir að horfa til fleiri þátta en háskólamenntunar þegar laun eru metin. Nú er náttúrlega, og kannski eðlilega, mikil umræða um lægstu launin og skiljanlegt að forystufólk stéttarfélaga láglaunahópa berjist fyrir bættum kjörum sinna félagsmanna. En það er varasamt að etja fólki eða hópum saman. Auðvitað á að borga fólki mannsæmandi laun, til dæmis fyrir umönnunarstörf, en það á líka að meta menntun til launa. Þetta eru ekki ósamrýmanleg sjónarmið, að mínu mati.“

„Ég held að við séum á villigötum sem samfélag ef við erum farin að trúa því að menntun skipti ekki máli á vinnumarkaði og eigi ekki að meta til launa.“

Gröfum undan okkur sjálfum

Í umræðunni er alltaf talað um að háskólamenntað fólk þurfi hærri laun vegna taps á lífeyrisréttindum á meðan það er í námi og skuldabaggans sem fylgir námslánunum, er menntun sem slík þá einskis virði?

- Auglýsing -

„Auðvitað þarf að taka tillit til þess að langt háskólanám hefur áhrif á ævitekjurnar,“ segir Jón Atli. „Fólk er að mestu leyti tekjulaust á meðan á námi stendur og greiðslubyrði námslána getur verið há. En fyrir mér snýst þetta fyrst og fremst um það hvers konar samfélag við viljum skapa. Ef við viljum stíga skrefið frá því að vera algjörlega háð sjávarútvegi, stóriðju og nú síðast ferðaþjónustu yfir í að vera samfélag sem byggir á nýsköpun og þekkingu, rannsóknum og vísindum þá krefst það einfaldlega ákveðinnar forgangsröðunar. Það kostar ákveðna fjárfestingu í menntun og við sjáum að nágrannaþjóðir okkar fjárfesta markvisst í háskólastiginu einmitt til að tryggja slíka framtíðarsýn. Ef við gerum lítið úr menntun hvað laun varðar, þá gröfum við undan þessari fjárfestingu og gröfum hreinlega undan okkur sjálfum og hagsmunum komandi kynslóða.“

Sjá einnig: Þjóðaríþrótt að tala gildi menntunar niður

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -