2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Rússar gætu dottið út í Eurovision í kvöld

Skandinavísku þjóðirnar Svíþjóð og Noregur komast upp úr öðrum undanúrslitariðlinum í Eurovision í kvöld ef marka má veðbanka og Eurovision-spekúlanta. Aðrar þjóðir sem komast áfram, ef eingöngu er stuðst við veðbankaspár, eru Moldóvía, Úkraína, Pólland, Ástralía, Holland, Danmörk, Ungverjaland og Lettland. Rússar og Rúmenar koma þar strax á eftir og því ekki inni í úrslitunum, eitthvað sem hefur aldrei gerst áður.

Ef veðbankar hafa rétt fyrir sér verður Ísland eina þjóðin í Skandinavíu sem keppir ekki í úrslitum Eurovision á laugardag, en Finnar komust upp úr fyrri undanriðlinum á þriðjudag á meðan Ari okkar Ólafsson sat eftir með sárt enni.

Fiðlusnillingurinn með ofurkraftana

Það er fiðlusnillingurinn Alexander Rybak sem keppir fyrir hönd Noregs með lagið That’s How You Write a Song. Hann hefur verið að fikra sig hægt og örugglega upp veðbankalistann og trónir nú á toppi þeirra flytjenda sem líklegastir eru til að fara rakleiðis í gegn í úrslit í kvöld. Ef litið er á líkurnar á vefsíðunni Eurovision World sést raunar að Alexander er spáð öðru sæti í allri keppninni, á eftir hinni eldfimu Eleni frá Kýpur sem við sáum loka fyrri undanriðlinum með hvelli.

Eins og flestir muna eftir fór Alexander með sigur af hólmi í Eurovision árið 2009 með lagið Fairytale. Þegar nýjasta lagið hans var kynnt var því misvel tekið en það er eins og þetta sjarmatröll hafi einhvern ofurkraft þegar kemur að Eurovision því eftir æfingar í Altice-höllinni hefur lagið hans verið talið æ líklegra til að vinna keppnina í ár. En það er annað sem hjálpar Norðmanninum knáa. Hann var í öðru sæti í rússnesku útgáfunni af Your Face Sounds Familiar þar sem hann fór meðal annars á kostum sem Eurovision-sigurvegarinn Dima Bilan, og á því dyggan aðdáendahóp í Rússlandi.

AUGLÝSING


Frábært atriði – lélegir söngvarar

Talandi um Rússland, þá lítur allt út fyrir það að hin rússneska Julia Samoylova, sem stígur sjötta á svið með lagið I Won’t Break, komist ekki áfram, þrátt fyrir tilþrifamikla sviðssetningu. Lagið er hins vegar langt frá því að vera jafnsterkt og fyrri framlög Rússa í keppninni og Julia umdeild eftir að henni var bannað að keppa í Úkraínu í fyrra.

Tríóið DoReDoS frá Moldavíu stígur á svið á eftir Juliu með stuðlagið My Lucky Day. Lagið er frekar fyndið, eins og lagahöfundurinn Philipp Kirkorov hefur sagt í viðtölum, og hefur það vaxið í áliti jafnt og þétt hjá Eurovision-aðdáendum síðan æfingar hófust í Lissabon. Atriði Moldovíu er afar hressandi og skemmtilega útfært, en söngvararnir í DoReDoS eru langt frá því að vera sterkir. Það er spurning hvort áhorfendur og dómnefnd fyrirgefi þeim það. Það verður að koma í ljós.

Svöl sviðssetning

Svo er það Svíinn Benjamin Ingrosso, sem er næstlíklegastur til að komast upp úr riðlinum, á eftir nágranna sínum Alexander Rybak. Hann býður upp á dansvæna poppsmellinn Dance You Off og flytur hann afar vel ef marka má æfingar. Benjamin er búinn að færa skemmtilega og svala sviðssetningu úr Melodifestivalen alla leið til Lissabon og á áhorfendum heima í stofu eftir að líða eins og þeir séu að horfa á tónlistarmyndband, sem er kærkomin tilbreyting.

Dananum Jonas Flodager Rasmussen með víkingalagið Higher Ground er spáð áfram í kvöld. Lagið er allt öðruvísi en önnur lög í keppninni og stóra spurningin er hvernig Evrópa tekur í víkingadramatíkina. Rasmussen býður uppá snjókomu, eins og Írinn í fyrri undankeppninni, og við munum öll hvernig það fór. Þetta er hugsanlega atriðið sem gæti komið hvað mest á óvart í kvöld, og ættu Íslendingar að leggja sérstaklega vel við hlustir til að heyra íslenskuna sem er sungin í laginu.

Sjá einnig: Ari komst ekki áfram í Eurovision.

Treystir á sig sjálfa

Hin ástralska Jessica Mauboy reynir að halda landi sínu í keppninni með lagið We Got Love og tekst það samkvæmt veðbönkum. Jessica lenti í því að slasa sig á æfingu í Lissabon, þó ekki alvarlega. Hún fékk tak í hálsi eftir að hún sveiflaði hári sínu aðeins of kröftuglega á æfingu. Jessia treystir á sjálfa sig og frábæra söngrödd á sviðinu og er atriðið fremur einfalt. Lagið er hins vegar grípandi, Jessica sjarmerandi og söngurinn óaðfinnanlegur.

Því hefur verið fleygt fram að þessi seinni undanriðillinn sé ekki jafn sterkur og sá fyrri, en ljóst er að hart verður barist til síðustu upphækkunar í kvöld til að komast í úrslitin þann 12. maí.

Bein útsending á seinni undanriðlinum hefst klukkan 19.00 á RÚV. Hér má sjá röð keppanda.

Ekki missa af þessum

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is