Þriðjudagur 19. mars, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Sá ekki dóttur sína í átta ár

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í nýjasta tölublaði Mannlífs ræðir Kristinn Þór Sigurjónsson um andlát eiginkonu sinnar, Ingveldar Geirsdóttur, sem lést úr krabbameini í apríl. Í viðtalinu talar Kristinn einnig um erfiða forræðisdeilu sem hann stóð í þar sem hann sá ekki dóttur sína í átta ár.

Hér að neðan er brot úr viðtalinu.

Eftir allt sem á undan er gengið leggur Kristinn áherslu á tvennt, að vera sáttur við lífið og að vera til staðar fyrir börnin. „Að koma í veg fyrir algjört hrun, því ég hef gert það áður,“ segir Kristinn og vísar þar í mál sem hann hefur aldrei áður viljað tala opinskátt um. Árið 1991 eignaðist Kristinn dóttur, Steinunni Helgu, með þáverandi sambýliskonu sinni. Þau slitu samvistum og þremur árum síðar flutti barnsmóðir hans til Bandaríkjanna en Steinunn varð eftir hjá honum á Íslandi. Árið 1997 var gerð dómsátt um að Kristinn fengi fullt forræði en að Steinunn væri hjá móður sinnni í Bandaríkjunum yfir sumartímann. Það gekk eftir fyrstu árin en í ágúst 2000 fór af stað atburðarás sem leiddi til þess að hann fékk ekki að sjá dóttur sína í átta ár.

„Á föstudagskvöldinu áður en ég ætlaði að sækja hana út á Keflavíkurflugvöll hringdi mamma hennar í mig og sagði að hún kæmi ekki aftur. Ég var alltaf viss um að þetta myndi gerast á einhverjum tímapunkti en þarna fór ég í algjöra afneitun. Ég var staddur í sumarbústað á Búðum á Snæfellsnesi og ég brunaði af stað til Keflavíkur og ætlaði að sækja hana út á flugvöll. Ég var þar í 6-7 tíma, bara að bíða eftir að hún kæmi út um hliðið. Ég fór bara í mók.“ Kristinn stóð uppi algjörlega bjargarlaus. Þetta var fyrir tíma samskiptamiðla og í árdaga Internetsins þar sem upplýsingar voru af skornum skammti og allar samskiptaleiðir mun hægari en í dag. „Ég hringdi í sýslumann og þar var bara spurt hvort hún hefði það ekki fínt hjá mömmu sinni. Ég hringdi út um allt – í lögfræðinga, þingmenn, sendiherrann í Bandaríkjunum. Þessi vetur fór í algjört mók hjá mér og ég man satt best að segja ekkert eftir honum. Heimurinn bara hrundi.“

Þessi vetur fór í algjört mók hjá mér og ég man satt best að segja ekkert eftir honum. Heimurinn bara hrundi.

Úr varð að Kristinn fór til Bandaríkjanna þar sem hann fékk að hitta dóttur sína á hótelherbergi undir eftirliti. Hann talaði við lögfræðing sem útskýrði fyrir honum að hann væri í afar þröngri stöðu. „Bandaríkin viðurkenndu ekki Haag-sáttmálann og Texas [þar sem barnsmóðir Kristins bjó] alls ekki. Hún sagði að ef ég færi með málið í gegnum dómskerfið í Bandaríkjunum myndi ég líklega vinna það en til þess þyrfti ég að vera í dómsal í átta ár. Þá yrði hún orðin 18 ára. Þannig að ég gerði samkomulag um að snúa þessu við, að hún myndi búa í Bandaríkjunum og koma til mín á sumrin.“

Úr varð að Steinunn kom til Íslands vorið 2001 en Kristinn segir að andlegt ástand hans hafi verið þannig að hann muni lítið eftir þessum tíma. „Ég man ekki eftir þessu sumari nema á myndum og af þeim að dæma var þetta ágætis sumar. Eftir þetta sumar fékk hún ekki að koma aftur og hún kom ekkert aftur fyrr en 2009 þegar hún var orðin 18 ára og ákvað að koma sjálf. Ég heyrði eða sá lítið af henni í átta ár. Síðan hefur hún komið í heimsóknir og hún bjó hérna hjá okkur einn vetur í hitteðfyrra, hún og afastrákurinn Alan. Það var mjög góður tími. Hún er náttúrlega fullorðin kona núna og kemur bara þegar hún vill koma.“

Allt viðtalið má lesa hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -