Mánudagur 30. janúar, 2023
0.1 C
Reykjavik

Safna reynslusögum um fitufordóma innan heilbrigðiskerfisins – Vilja opna umræðu en ekki stríð

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Í tilefni af degi líkamsvirðingar þann 13. mars fóru Samtök um líkamsvirðingu af stað með verkefni þar gerð verður tilraun til að opna umræðuna um fitufordóma innan heilbrigðiskerfisins. Samtökin safna nú reynslusögum fólks af fitufordómum sem það hefur orðið fyrir innan íslenska heilbrigðiskerfisins.

„Maður er alltaf að heyra svona sögur og við hjá Samtökum um líkamsvirðingu höfum gengið með þessa hugmynd í smátíma,“ segir Tara Margrét Vilhjálmsdóttir, formaður Samtaka um líkamsvirðingu, spurð út í hvernig hugmyndin að verkefninu kviknaði.

Hún segir tilgang verkefnisins vera að varpa ljósi á skaðann sem hlýst af fitufordómum innan heilbrigðiskerfisins. „Mín upplifun er sú að almenningur veit ekkert endilega að þetta vandamál sé til staðar. Við viljum sýna að þetta er kerfisbundinn vandi.“

Tara segir að nú þegar hafi samtökunum borist á milli 20-30 reynslusögur. Hún segir að söfnunin muni standa yfir í nokkra mánuði þannig að fólk hafi nægan tíma til að setjast niður og skrifa sína reynslusögu. „Við höfum fullan skilning á því að fólk þarf að fá góðan tíma til að setja sína reynslu niður á blað,“ útskýrir Tara.

„…allt frá óviðeigandi og smánandi athugasemdum frá læknum upp í mál sem hafa haft mjög alvarlegar afleiðingar.“

Hún segir reynslusögurnar sem samtökunum hafa borist á þessum fimm dögum frá því að verkefnið hófst vera fjölbreyttar. „Þær eru á öllum skalanum. Þetta er allt frá óviðeigandi og smánandi athugasemdum frá læknum upp í mál sem hafa haft mjög alvarlegar afleiðingar,“ útskýrir Tara.

Enginn nafngreindur

- Auglýsing -

Aðspurð hvað verði svo gert við reynslusögurnar sem samtökunum berast segir Tara að á einhverjum tímapunkti verði þær birtar opinberlega. „Sögurnar verða birtar ásamt undirskriftalista, eins og gert var með #MeToo. Við munum afhenta heilbrigðisráðherra og landlækni sögurnar ásamt tillögum að úrbótum.“

Tara Margrét og Samtök um líkamsvirðing ætla að afhenta heilbrigðisráðherra og landlækni reynslusögurnar ásamt tillögum að úrbótum. Mynd / Aldís Pálsdóttir

Tara tekur fram að tilgangurinn sé alls ekki að fara í stríð við heilbrigðisstarfsfólk. „Það er mikilvægt að taka það fram. Þetta fólk vinnur af miklum heilindum og það stendur sig eins og hetjur, sérstaklega núna,“ segir Tara. Hún segir að heilbrigðisstarfsfólk verði ekki nafngreint í sögunum. „Það verður enginn nafngreindur. Við viljum ekki fara að úthrópa einstaka lækna og hjúkrunarfræðinga heldur viljum við sýna að vandinn er kerfisbundinn. Hann er rótgróinn og þess vegna hvetjum við til umræðu.“ Tara vill þá taka fram að fordómar fólks innan heilbrigðisgeirans séu oftar en ekki ómeðvitaðir.

Fordómarnir fæla fólk frá

- Auglýsing -

Tara bendir á að ef fólk verði fyrir fitufordómum innan heilbrigðiskerfisins einu sinni þá hiki það gjarnan við að leita aftur til læknis og það geti þá haft alvarlegar afleiðingar. „Það er partur af vandamálinu. Ef við ætlum að tala um offitu sem heilsufarslegan vanda þurfum við líka að viðurkenna að fordómarnir sjálfir hafi heilsufarslegar afleiðingar.“

Spurð út í hvort hún sjálf hafi orðið fyrir fordómum innan heilbrigðiskerfisins svarar Tara játandi. Hún gefur Mannlífi góðfúslegt leyfi til að birta sögu sína:

Ég fór fyrir nokkrum árum til heimilislæknis vegna mikilla verkja í kviðnum. Ég fékk eitt til tvö verkjaköst á dag sem voru svo svæsin að þau tóku frá mér allan mátt og ég var eiginlega ekki vinnufær á endanum vegna verkjanna og kvíða þar sem ég sá ekki neitt mynstur eða hvað það var sem olli verkjunum. Þetta voru verkir sem leiddu út í bakið og lýstu sér helst sem gallsteinaköst.

Ég reyndi í eitt skiptið að fara á bráðamóttöku þar sem gallblaðran var ómuð en ekkert kom út úr því. Þannig að mér var vísað á heimilislækni. Ég fór á mína heilsugæslustöð og þar tók á móti mér afleysingarlæknir fyrir minn fasta heimilislækni. Ég settist á stól fyrir framan hana, lýsti vandanum og örvæntingu minni. Hún skannaði líkama minn upp og niður með augunum og sagði mér síðan að ég þyrfti að draga úr óhollustu í mataræði. Þyrfti að hætta að borða brauð, drekka sykraða gosdrykki, bakarísbakkelsi og önnur sætindi.

Hún spurði mig aldrei hvernig mataræði mitt væri til að byrja með, hún bara dró ályktanir út frá holdafari mínu. Hún framkvæmdi aldrei á mér líkamlega skoðun eða spurði mig nánar út í heilsufar mitt eða lífsvenjur.

Þrátt fyrir að mataræði mitt væri alls ekki á þann hátt sem hún gerði ráð fyrir upplifði ég svo mikla niðurlægingu og skeytingarleysi að ég fór buguð út án þess að hreyfa við mótbárum.

Þessi verkjaköst hurfu á endanum. Einu til tveimur árum síðar komu þau hins vegar aftur. Ég var lengi að telja í mig kjark að fara aftur til heimilislæknis en þarna var ég komin á aðra heilsugæslustöð þannig að ég ákvað að láta slag standa.

Sá læknir taldi mig vera að lýsa einkennum svæsinnar magabólgu sem orsakaðist af miklu álagi og streitu. Hann bauðst til að sjúkraskrifa mig á staðnum og útbúa tilvísun fyrir mig á Reykjalund. Ég afþakkaði það en gat loksins farið að vinna með vandann, streitustjórnun o.fl. Það er langt síðan ég upplifði þessa verki þó að þeir poppi upp af og til.

Leiðir til að senda inn sögu

Tara bendir áhugasömum á nokkrar leiðir til að senda samtökunum reynslusögu:

1. Hópurinn á Facebook undir heitinu „Fitufordómar innan heilbrigðiskerfisins-reynslusögur“: Sækja má um inngöngu í hópinn og setja sögu sína þar inn undir nafni. Að öðrum kosti má senda hana til stjórnenda (administrators) sem setja hana nafnlaust í hópinn

2. Facebook-síða Samtaka um líkamsvirðingu: Senda má einkaskilaboð til okkar í gegnum hana.

3. Tölvupóstur Samtaka um líkamsvirðingu: [email protected]

4. Google Docs-skjal: shorturl.at/dBR24

5. Samtök um líkamsvirðingu: Pósthólf 8782

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -