Föstudagur 9. júní, 2023
8.8 C
Reykjavik

Saga Sigmundar – Glímdi við hjartavandamál og greindist á sama tíma með krabbamein: „Er þakklátur“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Sigmundur Stefánsson segir lækna hafa sagt sig kolruglaðan eftir að hann ákvað að hlaupa ítrekað maraþon í kjölfar hjartaáfalls og krabbameins. Sigmundur, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar hefur afrekað ótrúlega hluti á efri árum þrátt fyrir mikið mótlæti:

„Þegar ég var að undirbúa mitt fyrsta maraþon 47 ára gamall var ég stoppaður snögglega af. Það var í hádeginu á venjulegum miðvikudegi sem ég ætlaði að hlaupa 7 kílómetra að eitthvað gerðist. Ég kláraði hlaupið, en fann að ég var óvenjulega slappur. Ég fór í búðina að ná mér í mat, en þegar ég ætlaði að byrja að vinna aftur fann ég að eitthvað var ekki alveg í lagi. Ég fór heim og ætlaði að leggja mig, en fann að ég yrði að láta líta á mig og fór á heilsugæsluna eftir að hafa talað við konuna mína. En það endaði á því að ég var fluttur með bláum ljósum til Reykjavíkur í sjúkrabíl. Þá hafði ég fengið hjartaáfall og æðin var orðin alveg stífluð.

Eftir þræðingar og fleira tilheyrandi var mér sagt að ég ætti að leggja drauminn um að hlaupa maraþon alveg á hilluna og læknarnir voru alveg harðir á því að það myndi ekki gerast. Mér var sagt að ég myndi aldrei hlaupa maraþon og ekki heldur hálfmaraþon, ég gæti í mesta lagi hlaupið 10 kílómetra rólega,” segir Sigmundur, sem hefur heldur betur sýnt fram á að það er ýmislegt hægt:

,,Ég ákvað mjög fljótt að ég ætlaði að gefa mér það í fimmtugsafmælisgjöf að hlaupa maraþon og gefa mér þannig þessi þrjú ár til að ná markmiðinu. Það tókst og núna er ég búinn að hlaupa á milli 30 og 40 heil maraþon og enn fleiri hálfmaraþon og þannig hef ég í raun sýnt fram á að það er hægt að gera ýmislegt ef viljinn er fyrir hendi.”

Sigmundur byrjaði að hlaupa reglulega eftir að hafa greinst með sýkursýki 2 upp úr fertugu og hann vildi ekki sjá þá hugmynd að hann myndi leggjast flatur eftir hjartaáfallið og hætta lífsstílnum:

,,Ég hafði byrjað að hreyfa mig mikið eftir að ég var greindur með sykursýki og fannst það hjálpa mjög mikið. Þannig að ég var búinn að venjast þeim lífsstíl að hreyfa mig og gat ekki hugsað mér að hætta því. Fyrst sögðu læknarnir við mig að ég væri ruglaður að taka þessa áhættu og hlaupa þessi maraþon eftir hjartaáfallið. En svo hafa árin liðið og núna segjast læknarnir nota mig sem skólabókardæmi um það sem er hægt að gera ef fólk lendir í mótlæti. Í raun geti fólk gert það sem það vill, svo framarlega að það þekki sín eigin takmörk. Það er nákvæmlega það sem ég geri. Ég fer upp að þeim mörkum sem ég tel mig þola og rúlla áfram á því. Það hefur alltaf verið mitt leiðarljós og hefur gengið vel hingað til. Ég hef alltaf verið mikill keppnismaður og finnst fátt betra en að sigra sjálfan mig og það gefur mér mikla sátt. En að sama skapi þekki ég mín mörk og það er lykilatriði í þessu öllu. En ég segi við alla þá sem hafa lent í einhverju svona löguðu að hreyfingin er allra meina bót.”

- Auglýsing -

Þegar tveir áratugir voru liðnir frá hjartaáfallinu fór hann aftur að finna fyrir eymslum, en eftir þrjár tilraunir á hjartaþræðingu var hann sendur í opna hjartaaðgerð. Það var ekki allt, því að á meðan leitað var lausna á hjartavandamálum hans, greindist hann með krabbamein í blöðruhálskirtli. En eftir geislameðferð og aðgerð á hjarta náði hann aftur heilsu. Sigmundur er sannfærður um að það hafi hjálpað sér að takast á við þessi áföll að vera í góðu líkamlegu formi:

,,Þegar menn eru búnir að fara í hjartaaðgerð eru manni í raun allir vegir færir, af því að þá er búið að opna vel fyrir allt saman. Ég er alveg sannfærður um að það sé lykilatriði að vera í góðu formi þegar maður lendir í svona mótlæti. Ef þú ert í góðu formi verður þetta mun auðveldara á allan hátt. Ef maður er á núllinu í slæmu formi er örugglega mjög erfitt að koma sér af stað og ætla að komast í form eftir hjartaáfall. Það hjálpar mikið ef þú hefur reynt á líkamskerfin og líkaminn er almennt í góðu formi.”

Sigmundur hefur nú hlaupið maraþon, farið í þríþrautir og járnkalla um allan heim. Auk þess hefur hann gengið um Grænland með allt á bakinu, skíðað niður Hvannadalshnjúk og fjölmargt fleira. Hann segir að maraþonhlaup á Kínamúrnum standi upp úr:

- Auglýsing -

,,Það var allt öðruvísi en að hlaupa venjulegt maraþon. Það var farið á múrinn rúmlega klukkutíma fyrir utan Peking og hlaupið um svæði sem eru fyrir utan þessa mestu túristastaði. Þrepin eru mishá og misdjúp og mikið um ójöfnur, þannig að maður verður að vera með mikla athygli allan tímann. Það var alveg stórkostleg upplifun að hlaupa þarna á þessu ævaforna mannvirki og fara svo um sveitirnar. Það var eins og maður væri kominn 100 ár aftur í tímann. Þetta var eitt það magnaðasta sem ég hef upplifað á allri minni ævi,” segir Sigmundur, sem er þakklátur fyrir öll ævintýrin:

,,Ég er með fullt af félögum, maka og börn og fleiri sem hafa stutt við bakið á mér í þessu öllu saman. Þannig að maður gerir þetta ekki einn, en þetta hefur gefið mér og konunni minni gríðarlega mikið og ég get ekki verið annað en þakklátur. Að fara í öll þessi ferðalög og takast á við okkur sjálf og náttúruna. Það er toppurinn á tilverunni.”

Viðtalið við Sigmund og öll viðtöl og podcöst Sölva Tryggvasonar má nálgast inni á solvitryggva.is

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -