Sunnudagur 22. maí, 2022
8.8 C
Reykjavik

Saklaus að innbrotunum í Ármúla og Úlfarsárdal: Auðmanninum Róberti Wessman svarað

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Róbert Wessman, stjórnarformaður Alvogen og Alvotech, hefur stigið fram og lýst yfir sakleysi sínu vegna innbrots í bifreið mína og á vinnustað. Því skal haldið til haga að því hefur aldrei verið haldið fram að hann eigi beina aðild að innbrotinu í Ármúla eða í bílinn í Úlfarsárdal. Svo vitlaus er Róbert Wessman ekki að hann vinni slík skítverk. Þetta mál er alls ekki þannig vaxið að hann tæki áhættuna af því að verða staðinn að slíku.
„Í gær var brotist inn á ritstjórnarskrifstofu Mannlífs. Ég vona svo sannarlega að lögreglan taki málið föstum tökum og nái þeim sem þetta gerðu sem allra fyrst. Árásir á fjölmiðla eru aðför að lýðræðinu og eiga ekki að líðast,“ segir Róbert í yfirlýsingu til DV

Þetta eru falleg orð sem lýsa vonandi réttu viðhorfi. Væntanlega mun Róbert leggja sitt lóð á vogarskálarnar til þess að upplýsa hver standi að baki glæpnum. Ég benti lögreglunni á líklega glæpamenn og jafnframt hugsanlegt mótíf þess að þeir gripu til þess að elta mig um endilanga borgina til að brjóta upp bílinn minn.

Róbert fann sig knúinn til þess að gefa DV yfirlýsingu um sakleysi sitt af innbrotunum og skemmdarverkunum. Ég er sannfærður um að Róbert var ekki sjálfur í myrkrinu í Úlfarsárdal þegar ég var rændur og bílinn minn skemmdur. Og ég er handviss um að hann stal ekki tölvunum á ritstjórnarskrifstofu Mannlífs eða sat við í fimm tíma við að eyða gögnum. Það voru aðrir.

„Ég er knúin til að tjá mig um málið þar sem að það hefur verið ýjað að því að ég hafi komið að þessu innbroti sem er fráleitt. Mér hefur þótt umfjöllun Reynis Traustasonar og Mannlífs um mig og þau fyrirtæki sem ég stýri afar óvægin, ófagleg og marg ítrekað ósönn. Ég hef ítrekað óskað eftir leiðréttingum á rangfærslum og að fá ákveðin persónugreinanleg gögn afhent. Hingað til hefur þó hvorki verið brugðist við óskum um leiðréttingar né afhendingu gagna,“ segir Róbert í samhengi við innbrotin og þá ógn sem hefur verið sköpuð.

Líflátshótanir viðurkenndar

Þær fréttir sem Mannlíf og fleiri fjölmiðlar hafa fjallað um eru varðandi líflátshótanir Róberts og líkamsárásir. Varðandi kýlingar forstjórans sem Halldór Kristmannsson hefur lýst þá hefur Mannlíf ítrekað beðið Róbert um að bregðast við og tjá sig um þau mál. Hann hefur hafnað því og játar hvorki né neitar. Líflátshótanirnar hefur hann aftur á móti viðurkennt og segist hafa beðist afsökunar á þeirri aðför gagnvart samstarfsfólki.

Andrés var sýknaður en Róbert vill refsa honum.

Aðrar fréttir eru um vilja hans til þess að refsa mönnum eins og Páli Winkel fangelsismálastjóra sem hann sakaði um að hafa horft á barnaklám með dæmdum barnaníðingi. Þá vildi hann refsa Andrési Magnússyni blaðamanni sem fjallaði harkalega um lögsókn hans gegn ritstjóra Viðskiptablaðsins. Róbert og Lára sendu Mannlífi dóm héraðsdóms frá 2002 þar sem fjallað var um Andrés. Hann var ákærður fyrir nauðgun og sýknaður fyrir dómi. Samt vilja þau refsa honum. Mannlíf hefur lagt sig í líma við að halda til haga því sem er satt og rétt í umfjöllun um Róbert Wessman en efnisleg gagnrýni frá honum hefur ekki komið fram. Morguninn eftir innbrotið sendi Lára Ómarsdóttir póst þar sem hún sagði beinum samskiptum okkar vera lokið og hér eftir væru það lögmenn sem myndu sjá um samskiptin. Þetta gerðist í framhaldi þess að ég spurði skriflega Róbert ítarlegra spurninga um þau mál sem Mannlíf hafði fjallað um. Á þeirri stundu var ekkert orðið opinbert um innbrotið í Ármúla en lögreglumenn voru á vettvangi að taka fingraför.
„Mér myndi aldrei koma í hug að beita nokkrum af þeim aðferðum sem nú er hermt upp á mig. Ég hef hins vegar kært umfjöllun Reynis og Mannlífs til Siðanefndar Blaðamannafélags Íslands því ég trúi því og treysti að þær leiðir sem fólk hefur til að verjast ósanngjarni umfjöllun sé í gegnum slíkt ferli þar sem bein samskipti hafa hingað til ekki dugað,“ skrifar Róbert.

Siðanefnd er fagnaðarefni

- Auglýsing -

Þetta er fagnaðarefni að Róbert Wessman kjósi að fylgja reglum samfélagsins og beina ásökunum sínum í réttan farveg, jafnvel þótt þær séu illa eða alls ekki rökstuddar. Ítrekað skal að það er alls ekki trú Mannlífs að auðmaðurinn hafi átt beina aðild að ránunum tveimur. Róbert hefur undanfarin misseri haft í hótunum við Mannlíf um lögsóknir og gert kröfur. Nú síðast réði hann illa þokkaða, fokdýra lögfræðistofu í London til að krefjast gagna sem ritstjórn Mannlífs kunni að búa yfir.

Heimildir um Róbert

Menn velta fyrir sér hvað vaki fyrir manninum í þeim efnum. Það skal upplýst hér að á seinasta ári hóf ég vinnu við að safna gögnum og taka saman sögu Róberts Wessman sem er auðvitað gríðarlega áhugaverð. Þetta er maðurinn sem ætlar að byggja upp fyrirtæki sem á að skapa meiri verðmæti en sjávarútvegurinn og hefur fengið til þess að hluta almannafé frá íslenskum lífeyrissjóðum. Ég hef rætt við samstarfsfólk hans, núverandi og fyrrverandi, og reyndi að fá hann sjálfan til að segja mér hluta að sögu sinni. Því erindi var hafnað. En gögn vegna verksins eru auðvitað til staðar, þótt það eigi eftir að vinna úr þeim og ákveða endanlega formið á útgáfunni. Glæpamennirnir í Ármúla náðu tölvunni minni og þeir náðu að eyða út tímabundið öllum fréttum af vef Mannlífs. Ekkert skal fullyrt um það að hvaða frumkvæði þeir gripu til þess glæps en þetta lítur ekkert sérstaklega vel út. Lögreglan mun væntanlega skoða allar tengingar í málinu og spyrja spurninga.

„Ég vona að Reynir fái öll sín gögn aftur og að tjón hans verði bætt,“ segir Róbert í lok greinar sinnar og bætir við „virðingarfyllst“.

- Auglýsing -

Ég þakka þau hlýju orð og vænti þess að Róbert gæti að virðingu sinni í darraðadansinum sem nú stendur og láti mig vita ef eitthvað af góssinu rekur á fjörur hans.

Virðingarfyllst
Reynir Traustason

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -