Sunnudagur 25. september, 2022
6.8 C
Reykjavik

Samherji sakar blaðamenn um að „vera á ferðinni“ og herja á Akureyringa eins og undirheimahrottar

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Samherji hefur látið gera tölfræðilega samantekt á hversu oft Stundin hefur fjallað um fyrirtækið síðustu ár. Líkt og flestir Íslendingar vita hefur Samherji verið til umfjöllunar vegna mála tengd Seðlabankanum og þá hefur fyrirtækið verið sakað um spillingu og glæpsamleg athæfi í Namibíu.

Í ómerktri grein á heimasíðu sjávarútvegsfyrirtækisins er því haldið fram að alvarlegt ójafnvægi sé í umfjöllun Stundarinnar og tilgangur útgáfunnar virðist fyrst og fremst að ráðast á Samherja. Þá eru blaðamenn Stundarinnar sakaðir um að „vera á ferðinni á Akureyri“ til að þefa uppi neikvæðar fréttir um Samherja. Líkja Samherjamenn vinnubrögðum blaðamanna Stundarinnar við vinnubrögð undirheimahrotta.

Jón Trausti Reynisson, ritstjóri Stundarinnar, svarar Samherjamönnum fullum hálsi í yfirlýsingu sem hann birtir á samfélagsmiðlum. Segir hann ásakanir um framferði blaðamanna á Akureyri vera þvætting. Þá færir Jón Trausti rök fyrir því af hverju Samherji sé oftar á síðum Stundarinnar en önnur sjávarútvegsfyrirtæki.

Blaðamenn sagðir helteknir af Samherja

Á heimasíðu Samherja birtist löng yfirlýsing með alvarlegum ásökunum í garð Stundarinnar og blaðamanna sem þar starfa. Blaðamenn Stundarinnar eru sakaðir um að vera helteknir af félaginu. Á heimasíðu Samherja segir:

„ … nú þegar þeir eru orðnir uppiskroppa með umfjöllunarefni hafa þeir sent útsendara sína á Eyjafjarðarsvæðið þar sem þeir hafa dvalið dögum saman og freistað þess að ná fram neikvæðum ummælum Norðlendinga um félagið.“

Samherji sakar einnig Inga Frey Vilhjálmsson um að hafa horn í síðu Samherja frá þeim árum er hann starfaði á DV. Stundin er sögð hafa Samherja á heilanum og hefur kortlagt skrif Inga Freys, sem þykir einn besti rannsóknarblaðamaður í faginu og margverðlaunar sem slíkur. Þar segir að Ingi Freyr hafi skrifað 143 fréttir og fréttaskýringar í prentútgáfu Stundarinnar og 60 þeirra eða 41,9% hafi fjallað um Samherja. Í yfirlýsingu Samherja segir:

- Auglýsing -

„Það eru mörg stórfyrirtæki á Íslandi en Ingi Freyr virðist lítið fjalla um þau enda er áhugasvið hans mjög þröngt eins og þessi tölfræði sýnir. Hversu hátt þarf hlutfall að vera til að teljast þráhyggja? Hversu regluleg þurfa skrifin að vera til þess að geta talist einelti?“

Segir blaðamenn þefa uppi neikvæðni

Á öðrum stað segir á vef Samherja að hlutverk fjölmiðla sé að veita aðhald en valdinu fylgi ábyrgð og fjölmiðlar því ekki hafnir yfir gagnrýni. Telur Samherji það ekki eðlilegt hversu oft Samherji hafi verið til umfjöllunar á síðum Stundarinnar.

„Að reyna að verja slíkt og segja það eðlilegt gengur í berhögg við heilbrigða skynsemi,“ segir á vef Samherja sem segir þráhyggju Stundarinnar eiga sér ýmsar birtingarmyndir.

- Auglýsing -

„Að undanförnu hafa blaðamenn Stundarinnar verið á ferðinni á Akureyri í því skyni að finna neikvæðar fréttir um Samherja. Þannig hafa þeir sótt á bæjarstjóra og bæjarfulltrúa með hringingum úr óskráðum símanúmerum eins og tíðkast í undirheimum, mætt óboðnir á starfsstöðvar fjölmiðla með fyrirspurnir um rekstur þeirra og sótt á fólk á förnum vegi við dagleg störf.

Virðist sú yfirgengilega umfjöllun Stundarinnar, sem verið hefur í blaði og vefmiðli og áður var rakin, vera komin á nýtt stig eineltis og ofstækis.“

Unnið í samstarfi við Wikileaks, Kveik og Al Jazeera

Jón Trausti Reynisson, birtir yfirlýsingu á Facebook ásamt meðritstjóra sínum, Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur, ritstjóra Stundarinnar og Inga Frey Vilhjálmssyni rannsóknarblaðamanni Stundarinnar. Þar útskýrir Jón Trausti hvenær og hvernig umfjöllun um Samherja kom til. Meirihluta ársins 2019, vann Ingi Freyr umfjöllun um greiðslur Samherja til embættis- og stjórnmálamanna í Namibíu, meðal annars í gegnum net aflandsfélaga. Jón Trausti útskýrir:

„Umfjöllunin var unnin í samstarfi við Wikileaks, Kveik og Al Jazeera. Stundin hefur þá sérstöku ritstjórnarstefnu að kafa dýpra ofan í mál og veita valdamiklum aðilum aðhald, ekki síst þegar þeir gefa tilefni til þess með athæfi sínu. Hugmyndin með því er að sterk rannsóknarblaðamennska sé mótefni við spillingu og auki heilbrigði og seiglu samfélagsins.“

Þá spyr Jón Trausti hvað það þýði að eitt stærsta fyrirtæki Íslands dæli peningum í vasa stjórnmálamanna og embættismanna til að fá vilja sínum framgengt og hagnast enn frekar. Þá bendir Jón Trausti á að Samherji hafi gefið stóran hlut í Morgunblaðinu til Eyþórs Arndal, oddvita Sjálfstæðisflokksins í borginni. Jón Trausti segir:

„Hversu náin tengsl eru milli stofnanda fyrirtækisins og ráðherra málaflokksins, sem var staddur fyrir tilviljun á fundi með mútuþegunum? Fjölmargar spurningar vakna og blaðamenn hafa eftir bestu samvisku reynt að varpa ljósi á þær. Ein af spurningunum sem er ósvarað er félagsfræðileg áhrif slíks stórfyrirtækis á nærsamfélag sitt.“

Borga fyrir umfjöllun á Youtube

Jón Trausti bendir síðan á einfalda staðreynd og segir hana skýra af hverju Samherji hafi oft veið til umfjöllunar á síðum Stundarinnar. Það tengist annars vegar stefnu Stundarinnar og hins vegar framferði Samherja hér heima og í erlendis sem og völdum þeirra. Jafnframt bendir Jón Trausti á að Samherji hafi framleitt heimildarmyndir sem hafa verið birtar á Youtube. Myndbandaveitunni hefur verið greitt sérstaklega fyrir að koma efninu sem víðast. Þannig hafa íslenskir notendur vitnað um það að myndskeið Samherja hafi byrjað að spilast á eftir barnaefni á Youtube. Eftir að hafa greitt fyrir birtingu hefur Samherji hreykt sér af áhorfi, sem enginn veit þó hvað er mikið í raun og veru. Í myndböndunum eru fjölmiðlamenn gerðir tortryggnir.

Lygar um Akureyri

Jón Trausti sakar Samherja um að fara með ósannindi um meinta veru blaðamanna á Akureyri og vísar þeim frásögnum til föðurhúsanna.

„Í meðfylgjandi „Samherjafrétt“ er Stundinni líkt við undirheimastarfsemi og færð fram ósannindi um að ritstjórnarmeðlimur Stundarinnar hafi mætt óboðinn á skrifstofu fjölmiðils á Akureyri. Þannig er Samherji að stilla saklausu og heiðvirðu fólki upp sem glæpamönnum af því að það hentar málstaðnum,“ segir Jón Trausti og bendir á að lokum:

„Það er hins vegar Samherji sem er í rannsókn yfirvalda í tveimur löndum vegna framferðis síns, ekki Stundin fyrir að fjalla um Samherja eftir aðferðum og siðareglum blaðamennsku.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -