Sunnudagur 23. janúar, 2022
-2.1 C
Reykjavik

Sandra Dís missti annað fóstrið og fylltist ofsageðshræringu: „Mér var aldrei boðin áfallahjálp“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Sandra Dís Sigurðardóttir og eiginmaður hennar, Sigmar Örn Aðalsteinsson, sem eru bændur á Suðurlandi, eignuðust sitt fyrsta barn saman árið 2007. Sandra Dís átti fyrir stúlku sem fæddist árið 2005 sem Sigmar Örn ættleiddi svo og var Sandra Dís 18 ára þegar frumburður hennar kom í heiminn.„Hún kom eftir eðlilega meðgöngu og allt gekk vel nema fyrir utan grindargliðnun.“

Sandra Dís varð svo ófrísk tveimur árum síðar.„Meðgangan sem slík byrjaði strax brösuglega,“ segir Sandra Dís en á 11. viku missti hún fóstur. „Ég greip það á klósettinu heima. Ég hringdi í ofsageðshræringu upp á spítala þar sem mér var sagt að það væri ekkert við þessu að gera.“

Hún fór í sónarskoðun daginn eftir og þá komu í ljós tveir belgir; annar var tómur, þar sem fyrrnefnt fóstur hafði farið út daginn áður, en í hinum var lifandi fóstur. Hjónunum var sagt að útlitið væri ekki bjart og Sandra Dís spurð hvort hún myndi ekki vilja láta enda meðgönguna og svo gætu þau reynt að eignast annað barn.

Hún fór í sónarskoðun daginn eftir og þá komu í ljós tveir belgir; annar var tómur, þar sem fyrrnefnt fóstur hafði farið út daginn áður, en í hinum var lifandi fóstur.

„Ég afþakkaði. Mér var boðið að ljúka þessu af því að það var klárt mál að þetta yrði vesenismeðganga og ég varð að taka ábyrgð á því hvort sem ég vildi halda áfram eða stoppa meðgöguna. Þegar maður vissi að þetta væri barn með tifandi hjarta þá átti maður mjög erfitt með tilhugsunina um að ljúka þessu og prufa svo aftur. Mér fannst það ekki vera náttúrulegt.“

Sandra Dís segir að það hafi alltaf verið blæðing frá belgnum sem hitt fóstrið hafði verið í sem þýðir að það blæddi það sem eftir var meðgöngunnar.

„Ég fór að fá mikla verki á 15. viku vegna þess að líkaminn var í raun að reyna að hreinsa sig og þar af leiðandi var stundum erfitt að ganga af því að verkirnir voru svo miklir en ég var svo þrjósk að ég ætlaði að halda þessu barni. Á þeim tímapunkti var mér sagt að liggja fyrir.

- Auglýsing -

Mér var sagt á 17. viku að belgurinn, sem fóstrið var í, væri orðinn svolítið veikur vegna blæðingarinnar sem gerði það af verkum að belgurinn þynntist á þeim stað þar sem belgirnir lágu saman og að ég mætti búast við því að ég gæti misst vatnið hvenær sem væri. Ég fór út frá lækninum í „robot mode“ og einhvern veginn meðtók þetta ekki.“

Vatnið fór svo þegar Sandra Dís var gengin tæplega 24 vikur. „Eða akkúrat um miðnætti, gengin þá slétt 24 vikur.

Ég fór á Landspítalann og fékk strax sterasprautu og var okkur sagt að við ættum að vera undir það búin að barnið kæmi á næstu klukkutímum.“

- Auglýsing -

Sandra Dís fékk hríðir en fékk lyf til að stoppa samdrættina.

„Svo leið annar dagur og þá var ennþá mikið vatn að fara; ég vissi hreinlega ekki að hægt væri að missa svona mikið vatn. Ég upplifði geðshræringu á öðrum degi af því að þá fór ég að gera mér grein fyrir hvað væri í gangi og raunveruleikinn var að skella á. Ég var sett í hjólastól og mér ekið á vökudeildina, okkur var sýnd aðstaðan þar og okkur tjáð hverju við ættum von á. Þar sá ég pínulítil kríli sem voru að berjast fyrir lífi sínu. Andlega var ég orðin peppuð í að þetta myndi allt fara vel.

Svo leið þriðji dagurinn og svo fjórði og aldrei kom barnið. Ég vissi þá ekki kynið. Ég var þá búin að fá tvær sterasprautur. Mig minnir að ég hafi fjórum sinnum farið af stað á þessum tíma en mér voru alltaf gefin lyf til að stöðva samdrættina.“

Sandra Dís lá á sjúkrahúsi næstu níu vikurnar og átti að hreyfa sig sem minnst.

„Þessar vikur voru svolítið magnaðar. Fyrstu tvær vikurnar voru lengi að líða en svo var það orðið að vana að liggja í sjúkrarúmi. Ljósmæðurnar trilluðu reglulega inn blóðprufukassanum af því að ég þurfti að fara í blóðprufu á hverjum degi upp á sýkingarhættu þannig að þetta var rútíneruð dagskrá. Það var morgunmatur í rúmið, hádegismatur í rúmið og kvöldmatur í rúmið og það eina sem ég mátti gera var að fara á klósettið, en ég þurfti náttúrlega að spara þær ferðir, og svo fékk ég að fara í sturtu einu sinni í viku. Þess á milli var kattaþvottur. Þannig að í rauninni var allt gert til að halda barninu inni eins lengi og hægt var.“

Sandra Dís segir að myndast hafi himna yfir belginn. „Það seytlaði vatn allan tímann og það blæddi svo sem en það náðist alltaf að myndast pollur fyrir andlitið og bossann en fóstur þurfa náttúrlega legvatn til að drekka og pissa. Þetta er hringrásin. Þannig að það náði í rauninni að mynda nægilegt legvatn á móti því sem ég missti en það var aldrei mikið. Við vorum undir það búin að höfuðið myndi falla saman af því að það var ekkert vatn í kringum fóstrið þannig að hreyfing þess var voða lítil.“ Öll hreyfing fóstursins var sársaukafull fyrir Söndru af því að það var nánast ekkert vatn. „Það var engin mótstaða.“

Þannig að það náði í rauninni að mynda nægilegt legvatn á móti því sem ég missti en það var aldrei mikið.

Vikurnar liðu.

„Svo missti ég vatnið aftur með hvelli þegar ég var komin 32 vikur og ég gerði mér grein fyrir hvað væri að gerast og þá var útvíkkun byrjuð.“ Sandra Dís náði þó að ganga með í viku í viðbót og fæddist sonurinn, Arnór, þegar hún var gengin 33 vikur.

Sandra Dís Sigurðardóttir
Nýfæddur

 

Mótefnaskortur og sjúkraþjálfun

Arnór var 2,2 kíló og 45 sentímetrar að lengd þegar hann kom í heiminn.

„Hann var ótrúlega duglegur. Hann átti erfitt með að anda sjálfur til að byrja með en hann fékk þó ekki súrefni nema í tvo klukkkutíma og svo var hann í hitakassa fyrstu fjóra dagana og hann fór svo aftur í hitakassa í ljós í þrjá daga og komst alveg úr kassanum eftir viku. Hann var dúðaður í ullarföt til að hjálpa honum að halda á sér hita. Hann stóð sig vel á vöggudeildinni og fengum við að fara heim eftir þrjá og hálfa viku. Hann er eina barnið mitt sem var rosalega gott á brjósti þannig að brjóstagjöfin gekk vel.“

Sandra Dís segir að þar sem sonur hennar er fyrirburi hafi hann fengið mótefnaskort. „Hann framleiddi ekki nógu mikið af mótefnum þannig að hann var svolítið mikið lasinn sem ungabarn. Hann er 14 ára í dag og er enn með mótefnaskort en þó í öðrum flokki heldur en þegar hann fæddist en þetta gengur mjög vel hjá honum.“

Sandra Dís segir að sá mótefnaskortur sem sonur hann var með sem ungabarn tengist mótefnum sem verndar gegn til dæmis lungnabólgu og eyrnabólgu. „Hann var þar af leiðandi mjög viðkvæmur en um leið og hann fór af vökudeild byrjaði hann að veikjast; hann var þá ekki lengur í þessu verndaða umhverfi. Hann fór sex mánaða á fyrirbyggjandi sýklalyfjameðferð og var á henni þangað til hann var um þriggja ára. Hann lagðist reglulega inn á barnaspítalann með alls konar veirur, flensur og lungnabólgu. Hann var eiginlega alltaf með hita. Það var á tímabili pælt í hvort hann ætti að fá mótefnagjöf en um leið og byrjað er á slíku þá er ekki hægt að snúa til baka. Í dag er hann með mótefnaskort sem tengist meltingarveginum sem er viðkvæmari en ella.“

Hann fór sex mánaða á fyrirbyggjandi sýklalyfjameðferð og var á henni þangað til hann var um þriggja ára.

Sandra Dís segir að þar sem legvatnið hafi verið svo lítið á meðan hún gekk með Arnór hafi vöðvarnir í honum verið svolítið linir.

Sandra Dís Sigurðardóttir
Heimferðardagur.

„Hann þurfti sjúkraþjálfun og alls konar örvun til þess að virkja alla vöðva líkamans. Hann var svolítið seinn að byrja að ganga og það var ekki fyrr en hann var tveggja ára sem var sagt að þá þyrfti að fara að gera eitthvað. Við skráðum hann í fótbolta þegar hann var sex ára og það var ekki fyrr en þá sem hann fór að styrkjast almennilega því hann hafði brennandi áhuga á fótbolta. Svo var hann svolítið lengi að læra að synda og þá skráðum við hann í sund fyrir tveimur árum og er hann alsyndur í dag. Hann þarf svolítið að hafa meira fyrir hlutunum heldur en kannski margir aðrir. Mér finnst að það mætti hlusta meira á foreldra þegar þeir ræða um ungviðin sín sem eru fyrirburar. Ég upplifði svolítið að það ætti alltaf að bíða með og sjá hvernig hlutirnir þróuðust. Ég er viss um að ef það hefði verið fyrr gripið inn í þetta hjá honum svo sem varðandi sjúkraþjálfun og annað þá hefði hann orðið styrkari fyrr. Það eru meiri líkur á að það þurfi að aðstoða fyrirbura varðandi sjúkraþjálfun og talþjálfun en Arnór fór í talþjálfun þriggja ára. Ég tel að þetta vatnsleysi í móðurkviði hafi gert það að verkum að hann hafi í rauninni ekki haft sömu getu til að þroskast í móðurkviði og ella.“

Hann þurfti sjúkraþjálfun og alls konar örvun til þess að virkja alla vöðva líkamans.

Pabbinn að halda á syni sínum í fyrsta skipti.

 

Áfallastreituröskun

Sandra Dís segir að það hafi ekki verið fyrr en hún var komin heim af fæðingardeildinni með drenginn sinn sem hún hafi upplifað áfall.

„Mér var aldrei boðin áfallahjálp í öllu þessu ferli. Það var aldrei boðin sálfræðimeðferð. Ef ég grét í rúminu á sjúkrahúsinu, á kvennadeildinni, áður en hann fæddist þá var aðallega pælt í því hvort ég væri þunglynd. Ég var sjaldan hrædd á meðan ég gekk með hann; ég var oft með verki en ég var alltaf með von. Ég tók oftast einn dag í einu.“

Mér var aldrei boðin áfallahjálp í öllu þessu ferli.

Jú, þegar heim kom var tveggja ára dóttir hjónanna ánægð með að fá mömmu sína loksins heim eftir níu vikur.

„Hún tók samt rosaleg reiðiköst sem tengdust mér. Ég hafði farið af heimilinu í níu vikur. Ég kom ekki heim bara með nýfætt barn sem var fyrirburi heldur var heima fyrir lítil stelpa sem var eiginlega í losti. Þar sem við erum bændur þá var ekki möguleiki á að hún og pabbi hennar heimsóttu mig reglulega heldur komu þau einu sinni í viku. Við vorum í kjölfarið dugleg að leita okkur aðstoðar í tengslum við hegðun hennar og vorum fljót að laga traustið aftur. Ef foreldri gufar svona upp á augabragði þá er ekkert skrýtið að barn fái áfall.“

Sandra Dís varð ófrísk í þriðja skipti þemur árum eftir að Arnór kom í heiminn.

„Ég gekk þá með fulla meðgöngu en ég var líklega með meðgöngusykursýki miðað við einkenninn og stærð barnsins. Ófrískar konur geta fengið þunna útferð og ég var alltaf sannfærð um að vatnið væri að fara. Ég var mjög taugaveikluð ef svo má að orði komast. Það var ákveðinn fögnuður eftir því sem ég gekk lengur með en hver einasta vika var lengi að líða. Ég fór svo af stað þegar ég var gengin 33 vikur mögulega vegna þess að ég var búin að vera undir streitu alla meðgönguna. Það var ekkert sem benti til þess að það væri eitthvað að. Ég var stoppuð af og fékk að fara heim með því skilyrði að ég ætti að vera í rúminu það sem eftir væri meðgöngunnar.“

Og Sandra Dís fór heim og lá að mestu í rúminu næstu vikurnar.

„Svo kom settur dagur og þá bara hágrét ég af því að barnið kom ekki. Þá var ég orðin svo lúin og þreytt. Þetta var bara orðið gott og hann mátti bara koma.“

Svo fæddist sonurinn Hrafnkell.

„Og alltaf legg ég í þetta aftur og varð ófrísk aftur og missti það fóstur á 11. viku. Ég varð aftur ófrísk sex mánuðum seinna af yngri dóttur minni, Rakel Ýr, sem er sex ára. Það var líka tvíburaþungun en ég missti hitt fóstrið nógu snemma til að það náðist að eyðast af sjálfu sér þannig að það olli engum vandræðum. Það var kvíðvænlegt fyrstu tvær vikurnar eftir að við vissum að það væri annar belgur en fóstrið hafði farið í um fimmtu viku. Það var pínu sjokk að uppgötva að það væri annar belgur. Ég fór í reglulegt tékk og hann eyddist svo af sjálfu sér. Ég lýg því ekki að ég var líka dauðhrædd á þeirri meðgöngu. Ég var alltaf sannfærð um að ég myndi missa barnið. Mér bara leið illa en vissi ekki af hverju. Ég var alltaf að ýta í bumbuna til að tékka á hvort barnið myndi ekki örugglega hreyfa sig. Fólk tók eftir þessu. Það var á þessum tíma hægt að kaupa monitor til að hlusta sjálfur á hjartsláttur fóstursins og ég keypti mér svoleiðis og reyndi eins og ég gat að hlusta bara einu sinni á dag. Þannig að mögulega var ég pínu taugaveikluð.“

Sandra Dís fékk meðgöngusykursýki og mátti því ekki ganga mikið lengur en 38 vikur og því sett af stað eftir 38 vikur  og þrjá daga. Dóttirin, Rakel, greinist svo með næringavanda og var með sondu til átta mánaða aldurs.

Sandra Dís segir að eftir að Arnór kom í heiminn hafi hún oft upplifað hræðsluna. Talar um áfallastreituröskun.

„Ég var svolítið fyrstu árin eftir að hann fæddist að endurupplifa tilfinningarnar. Ég hef verið dugleg að leita mér aðstoðar fagaðila og er mjög opin með tilfinningar mínar og vanlíðan. Meðgöngur fyrir mér voru ekki einhver dásamleg upplifun; ég upplifði þetta ekki sem dásamlegan tíma. Þetta var meira skylduverk: Af því að mig langaði í barn þá var það skylduverk að ganga með barnið. Ég upplifði aldrei þessa gleði og hamingju af því að vera ófrísk. Ég var það ung þegar ég gekk með eldri stelpuna, var unglingamamma, að ég naut kannski ekki fyrstu meðgöngunnar eins og ég hefði getað gert.“

Ég var svolítið fyrstu árin eftir að hann fæddist að endurupplifa tilfinningarnar.

Sandra Dís segir að sér líði vel í dag.

„Mér finnst skipta máli að fólk vinni úr hlutunum og ég held ég hafi gert það, enda lífið of stutt til að takast á við allt á hnefanum.“

Sandra Dís Sigurðardóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -