2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Segir umræðu um aukna lyfjanotkun Íslendinga byggja á mistúlkun

Varaformaður ADHD-samtakanna segist orðinn þreyttur á að leiðrétta rangfærslur.

Vilhjálmur Hjálmarsson, varaformaður ADHD-samtakanna á Íslandi, segist langþreyttur á neikvæðri umfjöllun fjölmiðla um aukningu í notkun Íslendinga á metylfenídatlyfjum sem notuð eru við ADHD. Conserta er til dæmis eitt slíkra lyfja.

Nýverið birti Mímir Arnórsson, lyfjafræðingur hjá Lyfjastofnun, grein um almenna notkun geðlyfja á Íslandi þar sem fram kemur að mikil aukning hefur orðið á notkun þessara lyfja hérlendis. Vilhjálmur vill meina að hér sé um mistúlkun á tölum að ræða og kveðst vera þreyttur á að leiðrétta það.

Þau rýna í ákveðna hluti og sjá ekki heildina, senda þetta rangt frá sér síðan kemur einhver annar og mistúlkar líka.

„Starfsmenn landlæknis hafa verið mjög duglegir að mistúlka en það er nýtt að sjá þetta koma úr þessari átt, þ.e. Lyfjastofnun,“ segir hann og bendir á að það sé hreinlega verið að lesa rangt í tölfræðina. „Þau rýna í ákveðna hluti og sjá ekki heildina, senda þetta rangt frá sér síðan kemur einhver annar og mistúlkar líka.“

Vilhjálmur segir of algengt að sjá neikvæða umfjöllun um samanburð við Norðurlöndin í þessu samhengi og bendir á að í grein Mímis sé Svíþjóð ekki tekið með í þeim samanburði, það veki upp spurningar hjá honum.

AUGLÝSING


„Það er alltaf verið að tala um hvað notkun á metylfenídatlyfjum hafi aukist miklu meira hér á landi en annars staðar á Norðurlönd unum og það er alveg rétt. Við erum að nota meira af þessum lyfjum en ef maður skoðar grafið og færir Norðurlöndin til um svona fimm ár, þá erum við að sjá nákvæmlega sömu sveifluna, við erum einfaldlega á undan Skandinavíubúum,“ segir hann.

Vilhjálmur bendir á að íslenskir geðlæknar fari mikið til Bandaríkjanna til að sækja sína menntun og kynnast því þessum málum fyrr, það geti verið ein ástæða þess að sveiflan mælist fyrr hér á landi.

„Þess utan bjóða Norðurlöndin fleiri leiðir, inngrip fyrr í ferlinu, niðurgreidda sálfræðiþjónustu og ýmislegt fleira. Hér á landi bráðvantar þessa þjónustu.  Þó að lyfin sýni bestan árangur miðað við allt annað, þá verður sá árangur betri ef sálfræðiþjónustu er beitt með.“

Flestir þurfa bara lyf í skamman tíma en ekki endilega ævilangt.

Þá leggur Vilhjálmur áherslu á að lykilatriði sé að einstaklingar með ADHD fái greiningu sem fyrst. „Því fyrr sem einstaklingur fær greiningu, því fyrr fær hann hjálp við að skilja sitt ADHD. Þá minnka einnig líkurnar á að sá einstaklingur þurfi að taka lyf. Flestir þurfa bara lyf í skamman tíma en ekki endilega ævilangt. Það er svo margt annað sem spilar inn í og er í rauninni fylgifiskur ADHD, t.d. kvíði og þunglyndi.

Ef þú ert með ADHD þá hjálpar ekkert að taka þunglyndislyf nema þú ráðist fyrst á örsökina,“ útskýrir hann en algengt er að einstaklingar með ADHD séu fyrst greindir með kvíða eða þunglyndi og meðhöndlaðir samkvæmt því. Annar angi á því er varðar túlkun á aukningu í notkun ADHD-lyfja, þá er einungis verið að bera saman lyf sem byggja á metýlfenidati. Ef lyf sem byggja á amfetamíni eða afleiðum eru tekin með í slíkan samanburð þá minnkar þessi munur.

„Við erum að nota mun minna af amfetamínlyfjum en Skandinavar og Bandaríkjamenn. Í umræðunni hér á landi er bara metýlfenidat tekið fyrir og það skekkir að sjálfsögðu myndina. Það er margbúið að benda á þetta en samt gera menn alltaf þessi mistök,“ segir Vilhjálmur Hjálmarsson í samtali við Mannlíf.

Mynd / Atli Már Hafsteinsson

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is