Fimmtudagur 22. september, 2022
9.1 C
Reykjavik

Segja Kópavogsbæ hygla fyrirtækinu Árkór: „Það er nauðsynlegt að rannsaka sölu á eignum bæjarins“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Bæjarsjóður blæðir, fjárfestir græðir er yfirskrift greinar þeirra Hákons Gunnarssonar og Tryggva Felixsonar, sem fjallar um viðskipti Kópavogsbæjar við fjárfestafyrirtækið Árkór ehf.

Þeir félagar segja að „ef viðskipti Kópavogsbæjar við fjárfestafyrirtækið Árkór ehf. eru skoðuð vakna spurningar um hverjum bæjaryfirvöld í Kópavogi þjóna. Mánaðarlegar greiðslur úr bæjarsjóði Kópavogs nema nú um 6,7 m.kr. til nefnds fyrirtækis fyrir afnot hluta þess húsnæðis sem áður var í eigu bæjarbúa; húsnæði sem var selt í miklum flýti fyrir bæjarstjórnarkosningarnar vorið 2018. Þá nemur afsláttur sem bæjarfélagið veitir sama fyrirtæki á fasteignagjöldum á húseigninni Fannborg 2, gamla félagsheimilinu okkar Kópavogsbúa, um 6 m.kr. á ári.

Árlega gerir þetta tæplega 90 milljóna króna millifærslu á fjármunum úr sameiginlegum sjóði bæjarbúa yfir til fyrirtækisins Árkórs ehf. fyrir afnot af húsnæði sem áður var í eigu bæjarfélagsins.“

Að auki benda þeir Hákon og Tryggvi á að „þetta sama fyrirtæki (stofnað í mars 2018 og er án reynslu í bygginga- eða fasteignaviðskiptum) hefur fengið nokkuð frjálsar hendur um gerð deiliskipulags á svæðinu sem fasteignirnar sem félagið keypti af bænum eru staðsettar á. Það deiliskipulag hefur verið tilefni víðtækrar og alvarlegrar deilu og valdið miklum sársauka og angist íbúa á svæðinu.

Það er því eðlilegt að spurt sé: hverjum þjóna bæjaryfirvöld í Kópavogi? Íbúum eða fjárfestum sem vilja ávaxta sitt pund með fasteignaviðskiptum í hjarta bæjarfélagsins?“

Einnig færa þeir í tal að „um leið og Kópavogsbær gerði samninginn við Árkór ehf. 10 mínútum fyrir kosningar í maí 2018 samdi bærinn um leigu á Fannborg 6 (óbreytt starfsemi!) á 3 milljónir á mánuði í 5 ár. Sú upphæð var verðtryggð og nemur nú 3,7 milljónum og fer hækkandi í verðbólgu.

- Auglýsing -

Árkór reiddi fram 303 milljónir fyrir eignina og hefur fram til þessa fengið 200 milljónir króna úr bæjarsjóði sem leigugreiðslu. Með sama framhaldi tekur það Árkór ehf. 8 ár að borga eignina upp að fullu með þeim leigugreiðslum sem koma úr bæjarsjóðnum sem seldi fyrirtækinu eignina, en allt viðhald á eigninni er á kostnað Kópavogsbæjar.“

Bæta við:

„Kunnáttumenn um slíka samninga hafa upplýst okkur að þeir þekki engin slík fordæmi.

- Auglýsing -

Hið söguríka félagsheimili Kópavogsbúa að Fannborg 2 var af bæjaryfirvöldum fært á „fokheldisstig“ í júní 2019 og þar með lækkuðu útgjöld Árkórs ehf. til bæjarsjóðs um 6 m.kr. á ári. Byggingin var þó ekki í verra ástandi en svo að útleiga eignarinnar hélt áfram.

Núverandi leigjandi er sá sami Kópavogsbær sem taldi húsnæðið vera á „fokheldisstigi“. Húsnæðið var leigt af Kópavogsbæ fyrir kennslu (Kársnesskóli og Kópavogsskóli) en er nú nýtt sem athvarf fyrir fötluð börn. Úr bæjarsjóði eru mánaðarlega yfirfærðar um 3 milljónir króna til Árkórs ehf. fyrir að nýta hið fokhelda „félagsheimili“. Þá eru ótaldar leigutekjur Árkórs af samningum við aðra eins og verkfræðistofu sem þarna var og kvittaði upp á gögn varðandi sama deiliskipulag og Árkór hafði verið afhent samhliða sölu eignanna.“

Einnig:

„Þá má geta þess að hluti sjónvarpsþáttaraðarinnar „Verbúðin“ var tekinn upp í þessu húsnæði og Árkór hafði væntanlega af því tekjur líka. Fjölmiðlar hafa gert raunum íbúa í Fannborg 4 nokkur skil. Þar var opnað áfangaheimili fyrir fólk í vímuefnavanda án þess að húsnæðið stæðist kröfur um eldvarnir. Bæjaryfirvöld fóru ekki að ráðum starfsmanna um grenndarkynningu áður en heimild til starfseminnar var veitt. Ekki liggur fyrir hve miklar leigutekjur Árkór hlaut fyrir þá nýtingu hússins. Hitt er víst að aðkoma bæjaryfirvalda að málinu var þeim ekki til sóma og olli ómældum áhyggjum hjá íbúum.“

Að lokum benda þeir Hákon og Tryggvi á að „meirihluti bæjarstjórnar hefur eftir bæjarstjórnarkosningarnar sl. vor að stórum hluta verið skipaður nýju fólki. Nýir vendir sópa best, segir máltækið. Það er nauðsynlegt að rannsaka sölu á eignum bæjarins að Fannborg 2, 4 og 6 og hvernig bæjarfélagið hefur staðið að samningum við Árkór ehf. Örugglega má af því draga dýran lærdóm. Hugsanlega leiðir sú rannsókn til þess að sækja má bætur til þeirra sem bera ábyrgð á því hve illa hefur verið farið með fé í sameiginlegum sjóði bæjarbúa í framangreindum viðskiptum.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -