Miðvikudagur 27. mars, 2024
4.8 C
Reykjavik

Sextán ára Hvergerðingur búinn að gera upp tvo jeppa – Bíður spenntur eftir bílprófinu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég keypti fyrsta bílinn fyrir fermingapeningana mína þegar ég var 14 ára gamall. Pabbi hafði áður eignast Suzuki jeppa sem hann ætlaði að gera upp og ég varð heillaður af þessum litlu en mögnuðu jeppum,“ segir Sigurjón Arek Sigurjónsson 16 ára bíladellustrákur í Hveragerði.

Nú er hann búinn að gera upp tvo Suzuki jeppa og bíður spenntur eftir að verða 17 ára og geta notið jeppanna sinna.

Sigurjón stoltur við Súkkurnar sínar sem nú bíða þess að kappinn fái bílpróf.

„Þegar ég var að gera upp Suzuki Jimny jeppann var ég svo heppinn að Þráinn Ævarsson í Stáliðjunni hérna í Hveragerði tók mig upp á arma sína og leyfði mér að vinna í bílnum inni hjá sér.
Hann kenndi mér að sjóða sem var eins gott því bíllinn var töluvert ryðgaður og því þurfti mikið að sjóða í hann.
Þráinn kenndi mér líka jeppabreytingar og að smíða þá hluti sem vantaði. Hann er góður leiðbeinandi því hann kennir mér en gerir hlutina ekki fyrir mig, ég verð sjálfur að gera allt og á því læri ég auðvitað mest.“

Soðið í Súkku. Sigurjón Arek að sjóða í fjallabílinn sinn. Eins og sjá má eru mörg handtök falin í svona breytingum og uppgerð.

Bíladella í blóðinu

Katarzyna Narloch og Sigurjón Jóhannsson foreldrar Sigurjóns Areks segja þolinmæði Þráins í Stáliðjunni engu líka og ótrúlegt hvað hann sé búinn að kenna drengnum að gera.

Óhætt er að segja að Sigurjón hafi bíladelluna í blóðinu, afi hans var bílakall sem breytti bílum og rútum og sama má segja um föður hans sem hefur gert upp ófáa bíla og rútur að hætti pabba síns og er nú að gera upp gamlan Jaguar bíl.

- Auglýsing -

„Nú er Jimny bíllinn tilbúinn fyrir fjallaferðir, búið að breyta honum og setja á stór dekk. Ég á eftir að setja í hann loftlæsingar en það liggur ekkert á því fyrr en fyrir næsta vetur. Svo verð ég að setja í hann úrhleypibúnað til að komast um á fjöllum.
Núna er ég að setja í hann öfluga loftdælu og svo er ég búinn að kaupa á hann ljóskastara þannig að skammdegið mun aldrei verða dimmt hjá mér.“ Segir þessi duglegi bílasmiður og hlær innilega.

Hér standa yfir breytingar fyrir stór hjól. Það er töluvert handtak að gera götubíl að fjallatrukk.

Fann bíl á Fáskrúðsfirði

Í fyrrasumar fór fjölskyldan hringferð um landið á húsbíl sem fjölskyldufaðirinn hafði smíðað. Á Fáskrúðsfirði fór Sigurjón í gönguferð um bæinn, eftir að hann hafði verið fjarverandi ansi langa stund fóru foreldrarnir að velta fyrir sér hvað hafði orðið um þennan 15 ára dreng þeirra.
Þremur tímum seinna kom hann til baka og tilkynnti þeim að hann hefði fundið gamlan Suzuki Fox sem hann ætlaði að gera upp.
„Pabbi ég keypti hann, maðurinn ætlar að koma með hann heim þegar hann kemur næst suður“ Það gekk eftir að Sigurjón fékk bílinn og hóf á ný að ryðbæta, smíða og breyta.

- Auglýsing -

„Nú gat ég ekki verið inni hjá Þráni svo að ég varð að gera þetta allt úti á plani. Það var óþægilegt að sjóða allt úti en það var ekkert annað í boði og ég vildi umfram allt klára bílinn fyrir veturinn því hann átti líka að verða tilbúinn áður en ég fengi bílpróf. Það þurfti líka að ryðbæta hann miklu meira en ég bjóst við en það er allt búið.“

Sigurjón verður 17 ára í mars og er með böggum hildar af eftirvæntingu eins og ungra manna er háttur þegar beðið er eftir bílprófinu. Hann hefur ekið æfingaakstur og er langt kominn með ökuskólann.
Meðfram því að gera upp bíla er hann í Fjölbrautraskóla Suðurlands á Selfossi og stundar tvö störf með skólanum því það kostar að gera upp svona bíla.

Vantar stuttan Fox

„Ég er að sleppa ódýrt í gegnum þetta, fyrsta bílinn minn reif ég að lokum í varahluti og átti því töluvert af þeim. Sumt fæ ég notað, auglýsi bara eftir því á Netinu, það eru margir að rífa, bæta og breyta Suzuki jeppum þannig að varahlutir eru til um allt land.
Svo má ekki gleyma því að umboðið er ótrúlega gott og sanngjarnt. Þeir hafa reynst mér mjög vel og verið mér hjálplegir. Það er ódýrara að fá þá til að panta varahluti að utan en að gera það sjálfur. Svo er margt af þessu sem ég smíða bara sjálfur.“

Suzuki Jimny bíll Sigurjóns tilbúinn í hvað sem er.

Það getur hver séð sjálfan sig í því að vera með tvo bíla á planinu en ekkert ökuleyfi, það er óhætt að segja að strákurinn sé með fiðring í fingrum eftir að komast af stað. Tilfinningatengslin við bílana eru mikil enda með fádæmum að hafa smíðað sér fjallajeppa 15 ára gamall og annan götujeppa 16 ára. Það er því að vonum að óþreyjan sé mikil.

„Ég ætla að nota Jimny jeppann á fjöll og mun fara eitthvað þegar ég verð kominn með próf, þó ekki væri nema bara á Langjökul eða eitthvað svoleiðis.
Foxinn verður meiri götubíll, get farið á honum í skólann þegar ég fer ekki með Strætó“ segir þessi glaðlindi og kraftmikli bíladelludrengur í Hveragerði og vill vekja athygli á að hann vanti stuttan Fox í viðbót ef einhver á.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -