Sunnudagur 2. október, 2022
9.8 C
Reykjavik

Sigmundur segist kallaður öllum illum nöfnum þó hann hjálpi – Óttast tugi þúsunda flóttamanna

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir í aðsendri grein í Morgunblaðinu að ef frumvarp ríkisstjórnarinnar verði samþykkt þá muni það setja Ísland á kortið hjá erlendum glæpagengjum. Hann segir að fjöldi hælisumsókna á Íslandi sé nú þegar margfalt meiri en í en í öðrum ríkjum Norðurlandanna miðað við fólksfjölda. Hann telur að þetta muni aukast enn því „íslensk stjórnvöld hafa tekið ákvarðanir sem auglýsa Ísland sem vænlegan áfangastað“. Að lokum segist hann kallaður öllum illum nöfnum þrátt fyrir að hann „leiti leiða til að hjálpa þeim sem þurfa mest á hjálp að halda“.

Sigmundur segir COVID ekki hafa dregið úr umsóknum. „Athygli vekur að þrátt fyrir verulegar ferðatakmarkanir vegna kórónuveirunnar hefur dregið mun minna úr hælisumsóknum á Íslandi en í fyrrnefndum nágrannalöndum. Í júlí síðastliðnum, eftir að lítillega var slakað á ferðatakmörkunum, kom mesti fjöldi sem komið hefur til landsins á einum mánuði frá því 2017 en það ár sóttu 1.096 manns um hæli hér á landi. Flestir þeirra sem leita hælis á Íslandi hafa þegar fengið hæli (alþjóðlega vernd) annars staðar, eiga ekki rétt á hæli eða áttu að sækja um í löndunum sem þeir fóru í gegnum á leiðinni til Íslands,“ segir Sigmundur.

„Það er þrátt fyrir að skilyrðin fyrir hælisveitingum hafi verið rýmkuð verulega á Íslandi að undanförnu. Það virðist ganga óhemju erfiðlega að afgreiða hinn mikla fjölda umsókna. Það er afleiðing af ákvörðunum stjórnvalda fremur en vinnu þeirra sem falið er að sjá um verkefnið. Á síðasta ári lagði Miðflokkurinn fram þingsályktunartillögu um hvernig bæta mætti þar úr m.a. með beitingu 48 tíma reglunnar svo kölluðu sem Norðmenn hafa beitt árum saman,“ segir Sigmundur.

Óttast tugþúsundir

Hann segir frumvarp ríkisstjórnarinnar aftur komið á dagskrá. „Viðbrögð íslensku ríkisstjórnarinnar ganga áfram þvert á það sem er að gerast í hinum Norðurlandaríkjunum. Nú birtist aftur frumvarp félagsmálaráðherra og ríkisstjórnarinnar um málefni innflytjenda. Það tókst að taka málið út af dagskrá síðasta þings og það var hvergi að finna á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar við upphaf þessa þings. Tilgangur málsins er sá að jafna stöðu þeirra sem leita til Íslands hvernig sem þeir koma. Hvort sem þeim er boðið hingað eftir að staða þeirra hefur verið metin í samráði við flóttamannastofnanir eða mæta sjálfir til landsins, löglega eða ólöglega,“ segir Sigmundur.

Að hans sögn mun þetta ekki fara fram hjá glæpagengjum. „Ef slíku fyrirkomulagi, með úthlutun húsnæðis og öðrum stuðningi, yrði komið á hér á sama tíma og nágrannalöndin fara í þveröfuga átt væri verið að setja stóran rauðan hring um Ísland sem áfangastað, meðal annars fyrir glæpagengi sem taka oft aleiguna af fólki með því að selja því væntingar um betra líf á nýjum stað. Eftir að breytingar voru gerðar á móttökukerfi flóttamanna í Finnlandi komu þangað fljótlega 50-60.000 flóttamenn frá tilteknu landi. Í ljós kom að straumurinn hefði áður legið til Belgíu en breytingin sem Finnarnir töldu smávægilega hafði fært hann til þeirra,“ segir Sigmundur og bætir við að ef þetta gerist þá verði flóttamenn jafnvel tugir þúsunda á ári:

„Breytingin sem íslensk stjórnvöld boða er hins vegar ekki smávægileg. Afleiðingin yrði sú að þúsund umsóknir á ári gætu margfaldast hratt. Ef ekki yrði stefnubreyting myndi umsóknum halda áfram að fjölga þangað til ekki yrði við neitt ráðið fyrir 350.000 manna þjóð. Reynsla nágrannalandanna sýnir að það er ólíklegt að gripið yrði til ráðstafana í tæka tíð. Á meðan mun kostnaðurinn við málaflokkinn margfaldast og geta okkar til að hjálpa þeim sem þurfa mest á hjálp að halda mun líða fyrir.“

Kallaður illum nöfnum

- Auglýsing -

Síðar í greininni segist Sigmundur vilja fara sömu leið og Danir. „Vilji menn raunverulega hjálpa flóttafólki er mikilvægt að líta á staðreyndir en falla ekki í þá gryfju að vilja sýna eigin dyggð heima fyrir með aðferðum sem oft geta reynst skaðlegar. Fyrir þingkosningar í Danmörku kynntu Sósíaldemókratar tímamótastefnu í innflytjendamálum. Þar var leitast við að læra af biturri reynslu og tekið á flestu því sem misfarist hefur á liðnum árum og áratugum. Lögð var áhersla á að Danir hefðu sjálfir stjórn á því hverjum væri boðið til landsins. Gerð var krafa um að þeir sem fengju hæli löguðu sig að samfélaginu og rakin atriði sem voru til þess ætluð að draga úr líkunum á því að glæpamenn seldu fólki Danmörku sem áfangasta,“ segir Sigmundur.

„Danir gera sér nú grein fyrir því að sterkt velferðarkerfi og opin landamæri fari ekki saman. Við ættum að líta til reynslu Dana og ígrundaðrar stefnu danskra jafnaðarmanna. Hverfum frá þeirri yfirborðsmennsku sem einkennt hefur umræðu um þessi mál. Umræðu þar sem þeir sem sem benda á staðreyndir og leita leiða til að hjálpa þeim sem þurfa mest á hjálp að halda eru kallaðir öllum illum nöfnum til að hindra rökræðu og viðhalda tálsýn. Fyrsta skrefið er að hætta að gera ástandið verra með frumvörpum eins og því sem ríkisstjórnin boðar nú.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -