Föstudagur 19. apríl, 2024
1.8 C
Reykjavik

Sigmundur spáir dópi í bekkjarpartýum: „Hvað er‘idda maður, þetta er löglegt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir að ef frumvarp ríkisstjórnarinnar um að gera fíkniefnaneyslu refsilausa verði samþykkt þá verði Ísland Kristjanía heimsins. Hann sér fyrir sér að fíkniefni verði dregin upp jafnvel í bekkjarpartýum menntaskólakrakka. Þetta ásamt öðru segir hann í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

Sigmundur fullyrðir að hann hafi aldrei séð fíkniefni á ævinni, líkt og hann gerði á Alþingi. Margir efuðust um það þá. „Með því að banna eiturlyf senda stjórnvöld skilaboð um að þau séu hættuleg. Það að eitthvað sé ólöglegt er sterk hindrun. Með lögleiðingu fíkniefna eru stjórnvöld í raun að gefa leyfi til að prófa. Í ótal samkvæmum á námsárunum og á ólíkum vinnustöðum varð ég aldrei var við eiturlyf. Eflaust voru þau stundum skammt undan en fólk var ekki að flíka þeim vegna þess að þau voru ólögleg,“ segir Sigmundur.

Hann telur að ungt fólk verði líklegra til að luffa fyrir hópþrýstingi. „Því væri öðruvísi farið ef ríkisvaldið legði blessun sína yfir meðferð „neysluskammta“. Eftir það munu ungmenni ekki hika við að mæta með slík efni í samkvæmi enda gera þau það með leyfi stjórnvalda. Það verður þá freisting fyrir aðra að prófa og jafnvel erfitt að fylgja ekki ef vinirnir gera það. Það verður aukin hætta á „smiti“ í hverju bekkjarpartíi („hvað er‘idda maður, þetta er löglegt“). Fjöldi fólks sem ella hefði ekki komist í tæri við slíka freistingu eða hópþrýsting mun eiga á hættu að komast í kynni við fíkniefni og margir ánetjast þeim,“ segir Sigmundur.

Hann veltir því svo fyrir sér hvað neysluskammtur sé mikið af dópi, en það er ekki skilgreint í frumvarpinu. „Allir sem hafa orðið fíklar hafa byrjað á einum skammti. En hvað á ríkisstjórnin við þegar hún talar um neysluskammta? Hún virðist ekki vita það sjálf því samkvæmt frumvarpinu á að fela ráðherra að skilgreina það síðar í reglugerð. Það er með öðrum orðum verið að fara fram á að þingmenn samþykki eitthvað sem hvorki þeir né ríkisstjórnin vita hvað er. Í umræðu um frumvarpið kom fram að ráðherrann sem flytur málið veit ekki sjálfur hvað neysluskammtur er. Það stendur víst til að komast að því meðal annars með samtölum við fíkniefnaneytendur. En neysluskammtur eins getur verið banabiti annars. Þekkt eru dæmi um að ungmenni hafi látist eftir að hafa reynt eiturlyf í fyrsta skipti,“segir Sigmundur.

Hann fullyrðir að lokum að ef frumvarpið verði samþykkt þá verði Ísland með frjálslyndustu lög heimsins hvað varðar dóp. „Í frumvarpinu er vísað til reynslu annarra landa og meintra fordæma sem eru þó allt annars eðlis ef að er gáð. Raunin er sú að verði frumvarpið að lögum verður Ísland sér á parti varðandi frelsi til eiturlyfjaneyslu. Lög landsins munu þá ganga langt umfram það sem viðgengst í Kristjaníu í Kaupmannahöfn, hvort sem litið er til formlegra reglna eða raunverulegrar framkvæmdar þeirra.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -