Sigríður Andersen hleypur ekki frá málunum í helgarviðtali Mannlífs: „Þarf ekki ráðherrastól“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur gagnrýnt sóttvarnaaðgerðir, hún vill að útlendingalögum sé breytt og stemma stigu við tilhæfulausum umsóknum um alþjóðlega vernd. Hún sté til hliðar sem dómsmálaráðherra í kjölfar þess að dómur féll í Strassborg í Landsréttarmálinu og segist í grundvallaratriðum vera ósammála stefnu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. „Ég er ekki hneykslunargjörn og ég hleyp ekki frá málum í geðshræringu. Það herðir mann auðvitað að vera í pólitík.“

Andlit Sigríðar Á. Andersen, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, birtist á tölvuskjánum en vegna Covid-19 eru samskipti á netinu orðin algengur samskiptamáti. Örlítill hluti af Austurvelli sést út um gluggann.

„Við reynum á þinginu að halda uppi þingstörfum en það fer mikið í gegnum fjarfundarbúnað og svo hafa verið teknar upp nýjar reglur í þingsalnum. Ég hef bent á að mér finnist þetta ekki vera heppilegt enda hefur þingið verið undanþegið öllum reglum. Menn hafa þrátt fyrir það gripið til ýtrustu aðgerða á þinginu að mínu mati. Ástæðan fyrir því að ég segi það og ég hef goldið varhug við þessu er að þótt þetta hefti ekki málfrelsi þingmanna þá er annar bragur yfir þingsalnum; til dæmis fyrir stjórnarandstöðuna að ræða við ráðherra þegar ráðherrar og aðrir þingmenn sitja ekki í þingsalnum heldur í hliðarsölum. Þetta hefur áhrif á hina lýðræðislegu umræðu sem þarf að vera á Alþingi. Nefndarfundirnir ganga nú sjálfsagt ágætlega fyrir sig en þó er það þannig að menn takast kannski minna á í gegnum fjarfundarbúnað heldur en ef þeir væru staddir saman. Þannig að þetta hefur auðvitað langtímaáhrif á störf þingsins þó menn reyni að láta þetta ganga og afgreiða mál sem þarf að afgreiða.“

Hefur gagnrýnt sóttvarnaaðgerðir

Sigríður segist hafa frá því snemma í vor haldið því sjónarmiði á lofti að fólk þurfi að átta sig á að allar þessar sóttvarnaaðgerðir séu mikið inngrip inn í grundvallarréttindi manna; frelsi borgaranna á Íslandi. „Við höfum nú stjórnarskrá einmitt í þeim tilgangi að standa vörð um það og stjórnarskráin tekur ekki fyrir það að það sé gripið inn í frelsi einstaklinganna. Það er hins vegar kveðið á um það í stjórnarskránni eins og í öllum öðrum lýðræðisríkjum að komi til þess að það þurfi að skerða réttindi borgaranna þá sé það gert með hnitmiðuðum lögum. Og ég hef bara verið að benda á það að þótt við höfum gefið stjórnvöldum, ríkisstjórn og þeim sóttvarnaaðgerðum sem gripið var til ákveðið svigrúm þegar um var að ræða óvænt ástand eins og við stóðum frammi fyrir á þessu ári þá gildir það sjónarmið ekki þegar á líður. Undir þetta sjónarmið hefur verið tekið í álitsgerð Páls Hreinssonar, dómara hjá EFTA-dómstólnum, sem gaf út álit á þessum valdmörkum stjórnvalda og þingsins þar sem hann komst að þeirri niðurstöðu að það sé brýnt að endurskoða sóttvarnalögin í þessu sambandi og sú endurskoðun stendur yfir. En hann bendir líka á að það sé ekki hægt að bíða þessarar endurskoðunar heldur sé mjög aðkallandi að löggjafinn láti tiltekna þætti til sín taka nú þegar. Þannig að ég hef verið að hvetja þingið til þess að fjalla efnislega um þessi mál. Og þegar ég segi efnislega þá á ég við það að menn fái fram umræðuna og upplýsingar um forsendur sóttvarnaaðgerða, hverju þær eiga að ná fram en líka upplýsingar um afleiðingar og áhrif aðgerða sem gripið hefur verið til. Þetta þarf allt að liggja fyrir skýrt og skorinort þannig að þingið, löggjafinn, geti vegið það og metið hvort að það sé þannig ástand uppi að það réttlæti að sett séu lög sem skerða réttindi borgaranna með jafnmiklum hætti og núgildandi reglugerð gerir. Núgildandi reglugerð kveður á um þær hörðustu aðgerðir sem hafa verið frá því að veiran kom upp. Og það kallar á vangaveltur löggjafans í ljósi þess að núna vitum við miklu meira um veiruna. Við vitum að almenningur tekur mjög vel í tilmæli frá sóttvarnayfirvöldum, hefur gætt að persónulegum sóttvörnum og lagt lóð sín á vogarskálarnar. Aðgerðir almennings virðast hafa virkað vel án þess að til hafi þurft að koma jafn íþyngjandi reglur og nú eru í gildi.

Þetta kallar á lögfræðilegar spurningar um meðalhóf, að það sé ekki gripið til harkalegra aðgerða en nauðsynlegt er. Ég hef bara verið að benda á að það sé tilefni til þess að þingið láti sig þetta varða með hliðsjón af þeirri grundvallarreglu sem meðalhófsreglan er.“

Í stjórn Heimdallar

Sigríður er dóttir Brynhildar Kristinsdóttur Andersen og Geirs R. Andersen, fyrrverandi blaðamanns á DV. Hún er gift Glúmi Jóni Björnssyni efnafræðingi og eiga þau tvær dætur.

„Það herðir mann auðvitað að vera í pólitík. Ætli ég myndi ekki segja að það hafi komið mér á óvart hvað maður róast við hvert ruglið sem maður verður vitni að í stjórnmálunum; með hverju nýju ruglinu herðist maður og slakar því meira á.“

Hún ólst upp í Vesturbænum og gekk 15 ára gömul í Heimdall, félag ungra Sjálfstæðismanna í Reykjavík. „Ég kem kannski ekki af rosalega pólitísku heimili en þó þannig að móðir mín tók þátt í félagsstarfi Sjálfstæðisflokksins. Ég sat í stjórn Heimdallar í eitt ár og kynntist síðan kærastanum mínum þar, Glúmi, sem var samtíða mér í MR. Við giftum okkur árið sem við eignuðumst eldri dóttur okkar. Áhugi minn ekki bara á pólitík heldur líka þjóðmálum almennt og stefnumótun í tengslum við pólitíkina jókst svo með árunum. Það var þó ekki þannig að ég hafi gengið með einhvern þingmannsdraum í maganum frá unga aldri. Alls ekki, enda hef ég alltaf lagt áherslu á það og geri enn við ungt fólk sem hefur áhuga á stjórnmálum að benda því á að leiðin til þess að hafa áhrif á stjórnmál eða þjóðmálaumræðu er ekki endilega að gerast þingmaður. Menn geta haft mikil áhrif á umræðuna og stefnu sem er mörkuð á ýmsum sviðum með þátttöku í atvinnulífi og með þátttöku í alls konar öðruvísi starfi heldur en beint í pólitík.“

Sigríður vann í nokkur ár með skóla á hjúkrunarheimilinu Grund og segist enn búa að þeirri reynslu að hafa starfað við umönnun. Hún vann síðan á sumrin á menntaskóla- og síðar háskólaárunum á DV meðal annars sem blaðamaður. Hún skráði sig síðan í nám í lögfræði við Háskóla Íslands og var Erasmus-skiptinemi á 4. ári við Complutense-háskólann í Madrid.

„Ég fór að vinna eftir útskrift hjá Verslunarráði Ísland sem heitir núna Viðskiptaráð Íslands. Ég vann þar náið með Vilhjálmi Egilssyni sem þá var þingmaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis og fékk þar mikla reynslu og góða sýn inn í þingstörfin af því að þar var meginhlutverk mitt að veita umsagnir um þingmál sem vörðuðu atvinnulífið. Ég skrifaði umsagnir og mætti síðan fyrir þingnefndir til að fylgja þeim úr hlaði. Það var mjög lærdómsríkur tími. Þar vann ég þangað til ég eignaðist yngri dóttur mína og fór í fæðingarorlof.“

Sigríður hóf störf á lögmannsstofunni LEX eftir fæðingarorlofið en þar vann hún á árunum 2007-2015 þegar hún settist á Alþingi.

Sigríður var í ristjórn Vefþjóðviljans á árunum 1995-2006 og í stjórn útgáfufélagsins Andríkis á árunum 1995-2006. „Vefritið Andríki, sem er vefrit um þjóðmál, var gefið út daglega í yfir 20 ár. Við sem stóðum að því og stöndum reyndar enn að því finnum að pistlar þar vekja upp alls konar umræðu í samfélaginu sem hefur leitt inn á þingið. Andríki er ekki í eins fullu fjöri og áður en það birtast pistlar af og til sem ég held að eigi mikið erindi í umræðuna.“

Algerlega óásættanlegt

Sigríður segir að hugmyndir sínar um stefnumótun eða hugsjónir lúti að takmörkun ríkisafskipta en þó þannig að hér strengjum við öryggisnet fyrir þá sem á því þurfa að halda. „Ég hef bent á að aðstoð við þá sem minna mega sín og til dæmis heilbrigðisþjónustan getur verið innt af hendi jafnvel af einkaaðilum í stað ríkisins. Og ég held reyndar í mörgum tilvikum miklu betur af hálfu einkaaðila heldur en af hálfu ríkisins. Ég nefni sem dæmi hjúkrunarheimilin sem ég þekki af eigin störfum. Rekstur þeirra er eitt dæmi um einkarekstur sem er okkur ómissandi. Ég hef líka barist fyrir lágum sköttum og auðvitað að ekki sé verið að hækka þá og skattpína fyrirtæki og heimilin og þar fram eftir götunum. Ég myndi segja að þetta séu hefðbundnar skoðanir fólks hægra megin við miðju í stjórnmálum.“

Pilsfaldakapítalismi er sá kapítalismi kallaður sem starfar alfarið undir merkjum markaðarins þegar vel árar, og er að mestu á móti öllum ríkisútgjöldum, en vill svo að ríkið hjálpi þegar illa árar. Sigríður segist vara við þessu sjónarmiði. „Menn vilja kannski meina að það sé eitthvað meira til hægri en almennt þykir en mér þykir mikilvægt að menn axli líka ábyrgð með því frelsi sem þeim er veitt, bæði atvinnulíf og einstaklingar.“

Sigríður nefndi elliheimili. Athygli hefur vakið að undanförnu mál Margrétar Sigríðar Guðmundsdóttur, tæplega sextugrar konu með MS-sjúkdóminn sem hefur verið á stofnunum í tæpt ár vegna úrræðaleysis í húsnæðismálum. Hún hefur frá því í ágúst verið í hvíldarinnlögn í bráðabirgðavistun á Droplaugarstöðum. Fréttastofa Stöðvar 2 hefur fjallað um mál hennar og óskað eftir svörum frá ráðuneytum og stofnunum en þar virðist hver vísa á annan og engin endanleg lausn vera í sjónamáli.

„Þetta er óásættanlegt,“ segir Sigríður. „Menn hafa líka verið að nefna að það vanti úrræði fyrir yngra fólk sem örkumlast og það er allt of mikið um að fólk verði að fara á hjúkrunarheimili sem ætluð eru eldri borgurum. Ungt fólk á þar ekkert erindi. Þetta er nokkuð sem við verðum að gera bragarbót á. Þetta er angi af miklu stærra máli sem því miður frestast alltaf. Þetta er hluti af nauðsynlegri endurskoðun á öllu heilbrigðiskerfinu sem þarf að fara fram.“

Þótti vera hörð

Sigríður segir að hún og fleiri í Sjálfstæðisflokknum hafi talað fyrir því að Íslendingar þurfi að gæta þess að loka ekki landinu fyrir fólki utan EES sem vill koma og vinna hér á landi. „Það er nokkuð sem ég tók upp í fyrri ríkisstjórninni sem ég sat í við samráðherra mína um að hefja endurskoðun á vinnulöggjöfinni hér á landi með það í huga að hingað geti komið fólk utan EES í atvinnuleit, á eigin ábyrgð en ekki fyrst í gegnum verndarkerfið.“ Atvinnuástandið getur breyst eins og til dæmis núna vegna Covid-19 þar sem atvinnuleysi hefur aukist hratt. „Þetta yrði gert í samhengi við vinnumarkaðinn á hverjum tíma og endurskoðun vinnulöggjafarinnar í þessum tilgangi þarf auðvitað að miða að því að það sé svigrúm fyrir þetta eftir því hvernig vinnumarkaðurinn er hér á hverjum tíma.“

Sigríður hyggst gefa kost á sér fyrir næstu kosningar að ári. Hún segist ekki vita hvort það verði prófkjör innan Sjálfstæðisflokksins en segist munu sækjast eftir því að vera í framvarðarsveit Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík eins og hún hefur verið.

Sigríður mælti í maí 2018 þegar hún var dómsmálaráðherra fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um útlendinga og lögum um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi. Hún sagði þá að við framkvæmd á nýjum lögum um útlendinga, nr. 80/2016, sem tóku gildi 1. janúar 2017, hafi komið í ljós að lagfæra, endurskoða og breyta þyrfti allmörgum ákvæðum laganna svo að framkvæmd þeirra og málsmeðferð þeirra mála sem undir þau falla væri skýr og gagnsæ. Í frumvarpinu, sem samþykkt var sem lög, var boðun umsækjanda um vernd í viðtal hjá Útlendingastofnun gerð skilvirkari. Þá voru tímafrestir á heimild umsækjanda um dvalarleyfi til að dvelja á landinu á meðan umsókn hans er í vinnslu skýrðir auk þess sem tiltekið var að dvalarleyfisumsóknir sem væru í vinnslu hjá Útlendingastofnun þegar umsækjanda hefur verið brottvísað, eða tilkynnt um hugsanlega brottvísun, yrðu felldar úr gildi.

Sumum þótti Sigríður í embætti dómsmálaráðherra vera hörð þegar kemur að umsækjendum um alþjóðlega vernd. Þess má geta að ekki er búið að afgreiða frumvarp núverandi dómsmálaráðherra til breytinga á útlendingalögum og þykir sumum það frumvarp vera í takt við annað frumvarp sem Sigríður kynnti stuttu áður en hún hvarf úr embætti.

„Það eru ýmsar lagabreytingar enn nauðsynlegar í þessum málaflokki en það hefur bara ekki náðst samstaða um það á Alþingi eða hjá ríkisstjórnarflokkunum að koma þeim í gegn. Vilji menn auka enn á skilvirkni í þágu þeirra sem þurfa á vernd að halda þá er alveg ljóst að það þarf frekari breytingar á lögum. Sú þróun sem á sér stað núna varðandi hælisleitendur gengur ekki upp til lengri tíma. Mér tókst í minni tíð sem dómsmálaráðherra að minnsta kosti að stemma stigu við tilhæfulausum umsóknum um alþjóðlega vernd frá öruggum löndum sem létti mjög á kerfinu og ég skoðaði líka ýmsa möguleika varðandi landamæraeftirlit í þessum efnum. Núna þegar í rauninni er búið að koma á landamæraeftlirliti á Íslandi vegna Covid-19 og segja má að landamærin séu lokuð, en hingað koma kannski ein til tvær vélar á dag, þá hefði mér fundist vera upplagt að nota tækifærið til þess að leita allra leiða til að stöðva komu fólks sem hyggst sækja hér um alþjóðlega vernd að tilhæfulausu, jafnvel áður en það stígur upp í vélarnar erlendis. Þannig gætum við tekið upp skilvirkara eftirlit á landamærunum. Ég vona að það sé ekki útséð með að menn geri það og nota tækifærið á hálftómum flugvöllum þessa dagana til að koma í veg fyrir tilefnislausar og tilhæfulausar umsóknir um alþjóðlega vernd hér á landi. Síðan er ESB að íhuga mikla endurskoðun á sínum reglum og í Schengen-samstarfinu og eru uppi áform um að efla enn frekar ytri landamæri Schengen-svæðisins og það er jákvætt.

Ég hef tekið eftir að það gengur svolítið hægt að flokka lönd sem örugg lönd. Við fengum til dæmis á tímabili furðulega bylgju af umsóknum um alþjóðlega vernd frá Venezuela. Auðvitað er ástandið þar hörmulegt vegna kommúnismans sem þar ríkir en í hefðbundum flóttamannaskilningi þá held ég að það séu ekki forsendur til að veita fólki frá Venezuela hæli á Íslandi.“

Sigríður segir að hún vilji að Íslendingar einbeiti sér að móttöku flóttamanna sem koma hingað eftir undirbúning og í samstarfi við Alþjóða flóttamannastofnunina og sambærilegar stofnanir sem Ísland vinnur með í þessum málaflokki. „Við getum staðið okkur vel í því og eigum að taka á móti flóttamönnum. En fólk sem er að leita sér að betra lífsviðurværi á ekki erindi inn í verndarkerfið í kringum flóttamenn og þá sem óska eftir dvalarleyfi vegna mannúðarsjónarmiða. Það er ósanngjart gagnvart þeim sem raunverulega þurfa á verndarkerfinu að halda og einnig ósanngjarnt gagnvart þeim sem hér búa og hafa fallið milli skips og bryggju í velferðarkerfinu okkar og þurfa oft að bíða lengi lausn sinna mála. Móttaka flóttafólks og jákvæð afgreiðsla umsókna um alþjóðlega vernd, sem nú er orðin miklu umfangsmeiri en móttaka flóttafólks, er mikil áskorun fyrir velferðarþjónustuna. Það verður ekki fram hjá því horft. Við viljum standa okkur vel gagnvart þeim sem eiga rétt á þjónustu á hverjum tíma. Áhlaup á þessa þjónustu gagnast engum. “

Umsókn um alþjóðlega vernd kallar á mikla rannsókn stjórnvalda. Það þarf að sannreyna að fólkið sé það sem það segist vera en þess má geta að sumir eru ekki með skilríki eða koma jafnvel með fölsuð eða stolin skilríki. Sigríður segir að þeir sem framvísa fölsuðum eða stolnum skilríkjum séu ákærðir en það hefur ekki komið í veg fyrir að umsóknarferli um alþjóðlega vernd sé hætt. „Hinn langi dráttur á afgreiðslu þessara mála má oft rekja til þess að menn eru ekki samvinnuþýðir með að veita upplýsingar um hverjir þeir eru. Oft líður líka langur tími þar til niðurstaða fæst vegna þess að fólk kærir niðurstöðuna og málin ganga fram og til baka í kerfinu. Þetta þarf auðvitað að laga.

Ef fólk segist til dæmis vera frá Sýrlandi þá er gengið mjög langt í því að sannreyna það og njótum við aðstoðar erlendra rannsóknastofa í þeim efnum. Ég tala nú ekki um ef börn eru í spilinu en þá er mjög brýnt að sannreyna að börnin séu þau sem foreldrarnir segja að þau séu og að það sé hafið yfir allan vafa að barnið sé raunverulega barn fólksins sem kom með það. Það er ekki hægt að slá neitt af kröfum í þeim efnum. Þetta getur tekið tíma og útskýrir stundum þennan óhóflega langa drátt. Stundum er það þannig þegar fréttir eru fluttar af óhóflega löngum drætti á afgreiðslu einhverrar umsóknar að þá er það ekki svo; fólk hefur kannski komið til landsins á öðrum forsendum og dvalið hér á landi kannski í nokkur ár þegar það svo loks sækir um hæli.“

Börn hælisleitenda sem fæðast hér á landi verða ekki sjálfkrafa íslenskir ríkisborgarar eins og er sums staðar annars staðar. Þess má geta að í frétt á ruv.is 5. nóvember í fyrra segir: „Kjartan Hreinn Njálsson, upplýsingafulltrúi embættis Landlæknis, segir að læknisskoðanir á þunguðum hælisleitendum sé orðinn stór hluti af þeirri vinnu sem fari fram á Mæðravernd.“

„Það að umsækjandi um alþjóðlega vernd eignist barn á Íslandi á meðan málið er til umfjöllunar veitir engan sérstakan rétt sjálfkrafa, jafnvel þótt börn hafi dvalið hér í nokkur ár þótt vissulega sé litið til hagsmuna barna í hverju tilviki fyrir sig. Það þarf að vera eitthvað mjög sérstakt til að börn fái sérafgreiðslu. Það er stundum talað um að börn hafi sérstök tengsl við landið. Íslendingar eignast börn út um allan heim, dvelja erlendis við nám eða vinnu í mörg ár en það skapar ekki börnum sérstakan rétt eða þvílík tengsl við landið að það sé hægt að réttalæta það að umsækjendur um alþjóðlega vernd séu í einhverri stöðu þess vegna til að fá frekar vernd, eða ríkisborgararétt, vegna tengsla við landið.“

Hátt í fjórir milljarðar í hælisleitendur

Árin 2016 og 2017 streymdu hælisleitendur frá Makedóníu og Albaníu til Íslands með tilhæfulausar hælisumsóknir og var áætlaður kostnaður vegna hælisumsókna árið 2016 2,2 milljarðar króna og jókst kostnaðurinn töluvert vegna þessa hóps frá þessum tveimur löndum. Tilhæfulausar umsóknir árið 2016 voru um 60% og voru flestir í þeim hópi frá Makedóníu og Albaníu. Þessi tvö ríki teljast til öruggra ríkja og var öllum synjað um hæli að lokinni skoðun. Yfirvöld þar sögðu að þessi fjöldi fólks frá þessum löndum tengdist því að það hafi virkað hvetjandi þegar hælisleitendur fengu hér fæðispening á meðan unnið var úr umsóknum þeirra. Þeirri framkvæmd var svo breytt. Útlendingastofnun fékk svo þær upplýsingar um mitt ár 2016 að í Albaníu væri fullyrt að fólk þaðan gæti sest að á Íslandi án mikillar fyrirhafnar en fjallað var í fjölmiðlum í þessum tveimur löndum um málefni tveggja albanskra fjölskyldna með langveik börn sem Alþingi veitti íslenskan ríkisborgararétt árið 2015 í kjölfar þess að Útlendingastofnun hafði synjað þeim um hæli.

Saso D. Andonov, ræðismaður Makedóníu hér á landi, sagði í 2. tbl. Frjálsrar verslunar árið 2017 að mikið hafi verið fjallað um þessi mál í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum bæði í Makedóníu og í Albaníu og stundum rangt sagt frá því hvernig kerfið virki hér á landi. „Það að fjölskyldurnar skyldu fá íslenskan ríkisborgarétt var túlkað sem merki um að íslensk stjórnvöld myndu bjóða velkomið fólk í svipuðum aðstæðum. Ég var í Makedóníu á þessum tíma og heyrði margar sögusagnir um kerfið á Íslandi en samkvæmt þeim var Ísland rétta landið til að fara til.“ Þá sagði Andonov að íslenska velferðarkerfið virkaði hvetjandi og að þessi hópur hafi einnig viljað nýta sér það að hælisleitendur hér á landi gætu safnað þeim peningum sem þeir fengju frá íslenskum stjórnvöldum meðan hælisumsókn þeirra væri tekin fyrir auk þess sem þeir fengju ókeypis húsnæði og læknisþjónustu. Í sama blaði er viðtal við Kai Blöndal, yfirlækni göngudeilar sóttvarna- og hælisleitenda. Hún sagði meðal annars að heilbrigðisþjónustan sé í rauninni fín í Makedóníu og Albaníu og að íbúar þar borgi ekki fyrir læknisþjónustu nema ef um sérfræðiþjónustu sé að ræða.

Sigríður segir að árlegur kostnaður nú í tengslum við hælisleitendur sé hátt í fjórir milljarðar króna. „Eitt er kostnaður við hælisleitendurna sjálfa. Svo þegar þeir eru búnir að fá alþjóðlega vernd þá kemur annar kostnaður sem er ekki í þessari tölu.“ Sigríður segir að þegar fólk hefur fengið umsókn sína um vernd samþykkta fái það til dæmis húsnæðisbætur ef það fer á leigumarkaðinn. „Það er óhægt um vik fyrir íslensk stjórnvöld að kanna hvort þetta fólk eigi einhverjar eignir annars staðar í heiminum.“ Hún segist halda að það sé erfitt fyrir suma sem hafa fengið hér alþjóðlega vernd að finna vinnu og fara þeir þá á einhvers konar framfærslubætur.

Mál sex manna egypskrar fjölskyldu sem sótti um hæli hér á landi vakti í haust mikla athygli. Vísa átti fjölskyldunni úr landi eftir að endanleg niðurstaða fékkst í málinu en komið var að tómum kofanum þar sem fjölskyldan hafði falið sig. Hún fékk svo vernd eftir að ósk kom upp að taka málið upp enn einu sinni. „Þau voru búin að fá mál sitt skoðað á öllum stigum stjórnsýslunnar, oftar en einu sinni, og búin að fá neitun um alþjóðlega vernd við hvert fótmál. Svo í lokin þá leggja þau fram málsástæðu sem þau sögðu nýja til að málið yrði skoðað enn einu sinni. Þetta er auðvitað vandinn í þessu kerfi, að fólk geti komið með enn aðra málsástæðu við lok ferilsins. Það á auðvitað ekki að vera hægt. Þetta hlýtur að vera til skoðunar í dómsmálaráðuneytinu.“

Landsréttarmálið

Sigríður var dómsmálaráðherra frá 11. janúar 2017 til 14. mars 2019 en hún sté til hliðar í kjölfar dóms í Landsréttarmálinu svokallaða frá Mannréttindadómstól Evrópu. Hún hafði áður ákveðið að nýta heimild í lögum til að sneiða hjá fjórum tillögum hæfisnefndar við skipan dómara í nýtt millidómsstig, Landsrétt. Meginreglan í lögum er sú að dómsmálaráðherra skipi dómara þann umsækjanda sem hæfnisnefnd hefur metið hæfastan. Lögin gera þó ráð fyrir því að ráðherra geti vikið frá álit hæfnisnefndar en þarf þá að bera tillöguna undi Alþingi. Það gerði Sigríður. Alþingi samþykkti tillögur hennar um tiltekna 15 einstaklinga. Síðar komst Hæstiréttur að því að þessir 15 einstaklingar væru löglega skipaðir dómarar og ekki tilefni til þess að telja þá vanhæfa á neinn hátt er laut að skipun þeirra. Mannréttindadómstóll Evrópu féllst hins vegar á kröfu sakbornings sem hélt því fram að einn dómarinn sem dæmdi manninum refsingu, fyrir brot sem hann hafði játað, hefði verið vanhæfur í ljósi aðdragandans að skipun hans. Það mál velkist enn um í Strassborg og er ekki lokið.

„Stjórnmálin eru bara þess eðlis að sumir í stjórnmálum nota hvert tækifæri til þess að höggva í pólitíska keppinauta þannig að það kom ekkert á óvart. Ég steig frá til að gefa stjórnvöldum kost á að taka ákvörðun um hvort þau ætluðu að óska eftir frekari umfjöllun um þetta mál í Strassborg eða ekki.“

„Ég hef nefnt það að með þessu pólitíska ati í Strassborg var nokkurs konar frati lýst á íslenska stjórnskipan. Þetta var eins og hefðbundin pólitísk ágjöf. Ég ætla ekkert að draga úr því. Menn nota allt sem hægt er til að að koma höggi á pólitíska andstæðinga og það þarf ekkert að koma neinum á óvart sem er í pólitík. Og ef menn geta ekki staðið í því þá eiga menn ekki að vera í pólitík. Ég játa það alveg að þetta var ekki skemmtileg reynsla þar sem menn notuðu svona tilefni til að höggva í trúverðugleika minn sem stjórnmálamanns. Maður getur þó huggað sig við að tíminn mun draga hið rétta fram í dagsljósið. Menn stigu fram sem ekki höfðu gert það áður og lýstu yfir stuðningi við mig og margir hafa lýst yfir vonbrigðum sínum með hvernig þetta mál þróaðist.“

Hún er spurð hvort henni finnist hún vera svikin vegna málsins. „Það þýðir ekkert að dvelja við slíkt í stjórnmálum. Stjórnmálin eru bara þess eðlis að sumir í stjórnmálum nota hvert tækifæri til þess að höggva í pólitíska keppinauta þannig að það kom ekkert á óvart. Ég steig frá til að gefa stjórnvöldum kost á að taka ákvörðun um hvort þau ætluðu að óska eftir frekari umfjöllun um þetta mál í Strassborg eða ekki.

Í þessu tilfelli ákváðu menn að nota niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu sem gengur í berhögg við Hæstarétt Íslands. Menn hafa ekki ennþá svarað því hvað þeir eru þar með að segja um íslenska dómstóla, Hæstarétt Íslands og íslenska stjórnskipan þegar menn missa fótana við þetta álit Mannréttindadómstóls Evrópu. Þær eru orðnar margar niðurstöðurnar frá Strassborg sem finna sitthvað að í íslenskri löggjöf. Þetta verður allt skoðað og rætt í betra tómi. Nú er beðið niðurstöðu frá svokölluðum yfirrétti.“

Sigríður segist ekki hafa gert kröfu um að koma aftur inn í ríkisstjórn. „Ef ég á að segja alveg eins og er þá held ég að það skipti ekki neinu máli fyrir stöðu mína innan flokksins. Ég finn fyrir miklum stuðningi frá flokkssystkinum mínum um land allt.”

Sigríður bendir á að dómstólar og skipun dómara sé ekki eitthvað sem almenningur hafi mikinn áhuga á. „Ég held þess vegna að mörgum hafi fundist þetta mál vera eins og einhver kallaði það „elítuvandamál“. Fólk vill bara að dómarar séu hæfir til þess að leysa úr ágreiningsefnum og treystir löggjafanum og framkvæmdavaldinu til þess að búa svo um hnútana. Þetta er ekki það sem almenningur horfir til sem stóra málið í stjórnmálum enda ber þetta mál aldrei á góma þar sem ég er, hvorki á pólitískum fundum, í samtölum fólks né í fjölmiðlum. Þetta er ekki mál sem skiptir almenning í landinu máli. Þó held ég því til haga að það þarf að gera breytingar almennt á fyrirkomulagi við skipun dómara. Ferlið þarf að verða gagnsærra og þrákelkni og geðþótti hæfnisnefnda þarf að heyra sögunni til.“

Ríkisstjórnin

Sigríður er spurð hver henni finnst vera afrakstur núverandi ríkisstjórnar.

„Þessi ríkisstjórn var sett á laggirnar einkum og sér í lagi með það að markmiði að koma á ákveðnum stöðugleika í stjórnmálin og þingstörfin. Það var með því leiðarljósi sem við Sjálfstæðismenn tókum saman við flokk lengst til vinstri en okkur fannst nokkuð til þess vinnandi að fá þennan stöðugleika fram. Ríkisstjórnir höfðu staðið stutt við eftir hrunið og það tók okkur alllangan tíma að komst upp úr fjármálahruninu. Þannig að það var heilmikið til þess vinnandi að reyna aðeins að kæla hinn pólitíska hita sem kraumaði viðstöðulaust. Við Sjálfstæðismenn áttuðum okkur alveg á því að þetta yrði ekki tími stórkostlegra breytinga í þágu aðalmarkmiða okkar og sjónarmiða í stjórnmálum og ég var alveg búin að sætta mig við að hér yrði ekki mikið af skattalækkunum eða einkavæðingaráformum í þessari ríkisstjórn. En um leið gerðum við auðvitað kröfu um að það yrði þá ekki farið í hina áttina og skattar yrðu hækkaðir eða það yrðu búnar til nýjar ríkisstofnanir og þar fram eftir götunum. Við höfum reynt að halda í horfinu með þetta.

Ég hef nefnt það að ríkisstjórnin byrjaði ekki vel hvað stöðugleikann varðar þegar tveir þingmenn VG lýstu ekki yfir stuðningi við þessa ríkisstjórn þannig að óstöðugleikinn var skrifaður í skýin frá upphafi. Mér hefur samt fundist ágætlega hafa tekist þrátt fyrir þetta að halda friðinn. Ég reyndi nú að leggja mitt lóð á vogarskálarnar þegar ég sté til hliðar vegna þessa pólitíska upphlaups sem Landsréttarmálið var allt saman og var mál frá fyrra kjörtímabili. En ég skynjaði það að menn ætluðu sér að láta það mál snúast um mína persónu en ekki málið sjálft og ekki taka málefnalega afstöðu. Þannig að mér fannst það nú í þágu til dæmis þessa markmiðs þessarar ríkisstjórnar sem Sjálfstæðisflokkurinn ber auðvitað ábyrgð á. Nú er svo komið í ljós að málið er eins og önnur mál sem valda oft miklu fjaðrafoki tímabundið en er í rauninni hvorki fugl né fiskur og var alls ekki tilefni þeirrar geðshræringar sem sumir leyfðu að ná tökum á sér.“

Sigríður segir að sér finnist þess vegna ágætlega hafa tekist til í þessari ríkissjórn við að reyna að láta hlutina ganga. „Ég held að flokkarnir hafi verið heilir í því svo sem að reyna að láta þetta ganga. Auðvitað eru mönnum mislagðar hendur í því eins og gengur og gerist en það er alveg ljóst og örugglega finnst þingmönnum allra flokkanna þeirra flokkur ekki hafa fengið mikið fyrir sinn snúð. Það er alltaf þannig í stjórnarsamstarfi en þetta hefur gengið svona þokkalega.

Við stöndum núna hins vegar frammi fyrir þessum aðstæðum út af Covid-19 þar sem hlutirnir breytast mjög hratt og þarf í framhaldinu kannski svolítið aðrar áherslur heldur en bara það að hér starfi ríkisstjórn einhvers konar stöðugleika. Núna þurfa stjórnmálamenn aðeins að taka á sig rögg, stinga út hausnum í umræðunni og lýsa skoðun sinni á því hvernig menn ætla að koma sér út úr þessu ástandi sem er að skaða okkur öll dag frá degi.“

Sigríður segir að það þurfi ekki að koma neinum á óvart að hún sé auðvitað í grundvallaratriðum ósammála stefnu VG. „Innan VG eins og í öllum öðrum flokkum finnst ágætis fólk sem ágætt er að starfa með.“

Hún er spurð hverjir ættu að vinna saman ef hún réði stjórnarmynstri. Hún segir að það yrðu flokkar sem næðu að koma sér saman um framfara- og umbótaskref á Íslandi. „Það þarf að byggja upp atvinnulífið á ný og gefa fyrirtækjum í öllum greinum svigrúm til að koma sér upp á fæturna aftur og í fullan rekstur. Það blasir við að við þurfum að koma ferðaþjónustunni upp sem fyrst ef það á að vera hér einhver efnahagsbati í augsýn. Ég myndi segja að þeir flokkar sem ættu að stýra landinu næstu fjögur til átta árin séu þeir sem gætu sammælst um að gera þetta fljótt og örugglega og átta sig á að hvorki skattahækkanir né flóknar reglur eru innlegg í umræðuna næstu árin.“

„Menn nota allt sem hægt er til að að koma höggi á pólitíska andstæðinga og það þarf ekkert að koma neinum á óvart sem er í pólitík. Og ef menn geta ekki staðið í því þá eiga menn ekki að vera í pólitík.“

Sigríður segist eiga gott samstarf við alla þingmenn. „Ég er formaður í utanríkismálanefnd og þar sitja þingmenn úr öllum flokkum og ég á gott samstarf við þá. Þingmenn eru jafnólíkir og þeir eru margir. Mér finnst kannski vanta meira fyrirvaralausa umræðu á þingi um þau mál sem eru til umræðu eða þjóðmál og pólitíkina almennt. Menn koma í þingsal með ræður á blaði sem þeir lesa upp en það vantar að menn kasti boltanum á milli sín; kannski finnst sumum þingmönnum ekki vera nógu gaman á þingi. Kannski finna þeir sig ekki í því að vera að lýsa yfir málefnalegum ágreiningi við næsta þingmann. En það er einmitt hlutverk þingmanna að gera það – að opinbera að minnsta kosti skoðanir sínar og ræða við þingmenn af kurteisi og yfirvegun og auðvitað með málefnalegum hætti við þá þingmenn sem eru ekki sömu skoðunar og velta upp málunum. Mér finnst skorta þetta í þinginu.“

Sigríður hyggst gefa kost á sér fyrir næstu kosningar að ári. Hún segist ekki vita hvort það verði prófkjör innan Sjálfstæðisflokksins en segist munu sækjast eftir því að vera í framvarðarsveit Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík eins og hún hefur verið.

„Ég hef ennþá áhuga á að starfa á þessum vettvangi enn sem komið er þótt tækifærin séu auðvitað mýmörg utan þingsins. Ég tala nú ekki um í þessu árferði sem nú blasir við þar sem það verður auðvitað mjög spennandi fyrir marga að taka þátt í uppbyggingunni sem fram undan er. Ég hef hins vegar tekið ákvörðun um að reyna að standa að baki öllu því athafnafólki sem ætlar að henda sér í það verkefni og standa vörð um frelsi þess og efnahagslíf sem getur borið það velferðarkerfi sem við viljum hafa hér á Íslandi. Þeirri öflugu heilbrigðisþjónustu sem við höfum haft verður til dæmis ekki haldið öðruvísi við en að það verði öflugt atvinnulíf hér og efnahagsbati. Hann verður að vera hraður og öruggur á næstu mánuðum. Það er alveg ljóst.“

Með ólíkindum

Bandaríkjamenn kusu sér nýlega nýjan forseta og er Sigríður spurð út í tilvonandi forseta.

„Þetta var mjög áhugavert. Manni finnst vera með ólíkindum að þessir tveir kandídatar hafi verið þeir sem á endanum slógust um embættið. Maður fylgdist auðvitað gáttaður með kosningabaráttunni, umræðunni og ekki síður umræðu fjölmiðla um kosningabaráttuna. Ég held að það hafi nú lítil áhrif á okkur Íslendinga hvor þeirra hefði endað í þessu húsi.

Biden er augljóslega eitthvað heilsuveill en er auðvitað hokinn af reynslu. Það deilir enginn um það. Hann verður ekkert til skammar sem forseti þótt ég sé ósammála honum í megindráttum í stjórnmálum. Hann boðar alveg gríðarlega aukningu ríkisútgjalda, eitthvað sem enginn hefur séð áður og menn draga í efa að sé möguleg nema náttúrlega að keyra allt einhvern veginn í kaf. Þannig að ég held að bandarískir skattgreiðendur þurfi að hafa áhyggjur og sérstaklega þeir sem verr eru staddir ef þetta leiðir til einhvers konar áframhaldandi frosts í atvinnulífi. Þrátt fyrir þetta held ég að Biden sé með þannig ráðgjafa að ég held að hann geti stýrt þessu ágæta landi.“

Kamala Harris verður varaforseti, fyrst kvenna í Bandaríkjunum. „Hún á áhugaverðan feril að baki sem dómsmálaráðherra og saksóknari í Kaliforníu; menn hafa nefnt að hún hafi rekið þar harða refsisefnu. Það er kannski í stíl við stefnu sem John Biden hafði á árum áður þegar hann meðal annars studdi og kom í gegn á sínum tíma mjög hertri refsilöggjöf í Bandaríkjunum. Þeir sem minna mega sín mega sín oft lítils í réttarsalnum þegar kemur að sakamálum. Mér finnst það vera ljóður á réttarfari Bandaríkjanna.“

Biden þykir vera talsmaður alþjóðasamstarfs innan alþjóðastofnana. „Eitt get ég fullyrt en það er að John Biden og Kamala Harris munu ef í harðbakkann slær taka sömu afstöðu og Donald Trump tók sem er sú að koma Bandaríkjunum alltaf í 1. sæti. Þannig að ef það verður eitthvað reipitog í alþjóðlegum samskiptum, innan alþjóðastofnana eða utan, þá munu þau að sjálfsögðu ekki láta Bandaríkin lúta í lægra haldi þar.“

Á fjöllum

Sigríður segist ekki eiga mörg áhugamál en að þau séu aðallega pólitíkin og þjóðamálin, hlusta á tónlist og vera með fjölskyldunni.

Hún gengur í og úr vinnu, hleypur stundum, lyftir lóðum og fer af og til á fjöll. Hún segir að sér finnist til dæmis vera gaman að fara í eina langa gönguferð á hverju sumri en slíkt var þó ekki þetta sumarið. Hún byrjaði á fjallgöngum þegar hún vann á lögmannsstofu á sínum tíma en þá fóru vinnufélagarnir saman í göngu almennt í hverri viku. „Við fórum til dæmis á Eyjafjallajökul og Fimmvörðuháls. Það var ómetanlegt að hafa farið og ég mæli með að fólk fari í eina svona góða göngu ef það getur einu sinni á ævinni. Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir alla sem geta að fara að minnsta kosti í gönguferðir innan borgarmarkanna og ganga á hverjum degi.“

Ganga – hvort sem það er innanbæjar eða á fjöllum – er góð fyrir líkama og sál og er án efa góð fyrir þingmanninn sem vinnur krefjandi starf og þarf oft að hlusta á óvægar raddir í þingsal og á kommentakerfum.

„Ég held ég hafi róast með árunum; ég veit ekki hvort fjölskyldumeðlimir og vinir eru sammála því. Svo ég nefni nú ekki þingflokkinn. Ég á þó við að það er fátt sem kemur mér á óvart í dag. Ég er ekki hneykslunargjörn og fátt sem kemur mér úr jafnvægi þótt ég hafi sterkar skoðanir á sumum hlutum. Það herðir mann auðvitað að vera í pólitík. Ætli ég myndi ekki segja að það hafi komið mér á óvart hvað maður róast við hvert ruglið sem maður verður vitni að í stjórnmálunum; með hverju nýju ruglinu herðist maður og slakar því meira á.“

Texti: Svava Jónsdóttir.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -