Miðvikudagur 10. ágúst, 2022
9.8 C
Reykjavik

Sigrún Dóra lét börnin sín fjögur frá sér: „Ég verð heimilislaus í enn eitt skiptið um áramótin“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Jólin nálgast og ekki geta allir haldið áhyggjulaus jól meðal annars vegna fjárhagsvandræða og húsnæðisáhyggna. Sigrún Dóra Jónsdóttir er ein af þeim. Hún birti í gær, 2. desember, texta á Facebook-síðu sinni sem er eftirfarandi en með fylgdi mynd af greiðsluskjali frá Tryggingastofnun ríkisins. Upphæð greiðslu 208.700 krónur:

* Deilist af vild*
Með því að sýna ykkur þetta er ég ekki að vera neikvæð. Ég er að sýna ykkur staðreyndir.
Ég á rétt á tilvist eins og allir hinir. Ég hefði svo oft getað verið skynsamari með aurana mína en hvernig er hægt að ætlast til þess að fólk beri virðingu fyrir því sem hvort sem er klárast um leið og aldrei er til nóg af?
Síðasta sem ég þrái er að vera rík enda gæti ég það ekki, ég myndi alltaf gefa með mér. En *andsk..* hafi það! Í rauninni vill kerfið mig dauða, börnin mín móðurlaus, allavega gefur ríkið mér EKKI tækifæri á að hafa efni á að einu sinni taka þau til mín yfir helgi einu sinni.
Ég hef alla tíð lifað á hnefanum og ég er orðin hundþreytt á því. Það er desember og ég á enn eina ferðina að vera upp á Guð og lukkuna komin. Ég hef flestar aðventur þurft nánast að fara í vændi til að hafa efni á jólum.
Mamma mín og pabbi þurftu líka að leggja mikið á sig og ef það er eitthvað sem mamma mín og pabbi minn mega vera hreykin af þá er það að þau sáu sko til þess að ég og mín systkini ættum gleðileg jól. Sama þó svo að jólin væru þeim sennilega erfiðasti tími ársins.
Ég hef aldrei átt hlutabréf, ekki þau heldur. Ég hef aldrei veðjað eða tekið áhættu, ekki þau heldur. Það gerði ekkert okkar neitt sem hægt væri að tína til sem ástæðu fyrir fátæktinni. Af hverju áttu þau og núna ég ekki sama rétt á jólum og aðrir?
Ég drep mig aldrei en ef ég drepst fyrir aldur fram getur ríkið átt mitt líf, að auki við öll hin á samviskunni. Ekkert hafa þau gert til að ég lifi svo mikið er víst.
Ég á fjögur börn. Það er LANGT síðan ég ákvað að reyna ekki einu sinni að gefa öðrum en þeim jólagjafir þetta árið. Endilega segið mér hvernig ég á að fara að því að kaupa fjórar þegar ég þarf að greiða 200 þús í leigu? Ég verð heimilislaus í ENN eitt skiptið um áramótin og miðað við framfærsluna er enginn staður sem ég hef efni á annar en dauðinn. Hver nennir að lifa svona? Ég hef gert það í eitt og hálft ár. Með minna af því að þarna eru þó tíkallsvirði af desemberuppbót.
Langflestir þeirra sem eru öryrkjar er fólk sem ætti að halda á lífi sem lengst því þau gætu kennt ykkur hinum mest!
P.S. Ég fæ húsaleigubætur og ég er lánsamari en margir á mínum aldri af því að ég hef rétt á smotteríi í lífeyrissjóðsgreiðslur. Ég er hér að gagnrýna ríkið, tryggingastofnun og sýna fram á staðreyndir örorkubóta. Ég á ekki að þurfa að útskýra né réttlæta útgjöld mín. Þið sjáið svart á hvítu að innkoman er ekki neinum bjóðandi!“

Það er desember og ég á enn eina ferðina að vera upp á Guð og lukkuna komin

Sigrún Dóra segist setja á síðuna sína efni sem gefur og gleður og áhugasamir geta fylgst með henni. https://www.facebook.com/spakonan.spil.5

Sigrún Dóra Jónsdóttir

 

Í formi orða, samkenndar og samstöðu

- Auglýsing -

„Mér finnst að við eigum öll að eiga tækifæri til tilurðar,“ segir Sigrún Dóra. „Tilurð fyrir mér er eftirfarandi: Ég er eins og ég er, ég er mótuð af því hvaðan ég kem, ég er ekki eins og aðrir en það sem ég er hefur sama rétt til að vera og aðrir.

Mér finnst að fyrst við á annað borð höldum jól og ef jólin eiga að vera gleðitími ættum við sem samfélag að taka höndum saman um að hann verði það hjá öllum. Ekki að við ættum að keppast við að kaupa flottustu jólin, sama hvað felst í þeim kaupum, heldur setja okkur það markmið að gleðja, gefa, þakka og njóta sem best. Við getum gefið það meðal annars í formi orða, samkenndar og samstöðu.

Mér finnst að fyrst við á annað borð höldum jól og ef jólin eiga að vera gleðitími ættum við sem samfélag að taka höndum saman um að hann verði það hjá öllum

Ég gæti vel setið hér og sagt sorgarsögu mína. Ég gæti líka þulið upp tölur um peningana sem ég hef úr að moða og það væri samfélagslega samþykkt hegðun af mér að höfða til samvisku fólks og taka við styrkjum. Áhersla mín er bara ekki að kalla eftir vorkunn né ölmusu. Ég er tilbúin enn eina ferðina að vera dæmisaga um ranglæti og ég þarf ekkert að græða á henni. Ég vil ekki vera fórnarlamb. Ég vil vera dæmi um það sem er bannað. Ég hef gengið í gegnum margt og mætt mörgum hindrunum á leiðinni. Saga mín er bara enn ein sagan um tækifærismissi.

- Auglýsing -

Ég er öryrki af ástæðu sem og allir hinir. Þeir sem halda því fram að fólk leiki sér að því að vera á örorku ættu að prófa að sækja um hana og eins klár og betri þau telja sig vera en við öryrkjarnir ættu þá klárlega að geta sjálf skautað í gegnum örorkumat og á spena hjá ríkinu. Það er svo ósköp einfalt að dæma og ákveða. Sérstaklega fyrir þá sem kunna ekki að setja sig í spor annarra eða hafa samkennd og skilning með því að við erum ekki öll eins. Öll eigum við rétt á að vera.“

 

Lét börnin frá sér

Sigrún Dóra segir að aðstæður sínar og staðreyndir séu gjörólíkar aðstæðum og staðreyndum annarra. „Ég er samt til og ég á og hefði átt að hafa sama rétt og tækifæri til tilurðar og allir hinir sem fæddust aðra daga á öðrum árum og í fang annarra foreldra. Ég hef aldrei átt sama rétt og ég er ekki sú eina. Við erum þúsundir sem erum tækifærislaus í dag og höfum verið dæmd til þeirrar tilurðar að fá ekki tækifæri.“

Hún lét börnin sín fjögur frá sér.

„Þegar ég tók þá ákvörðun að setja börnin mín frá mér og fjarlægja mig þeim gerði ég það þeirra vegna. Sú staðreynd að ég ákvað að þetta væri öllum fyrir bestu og að ég hafi beðið aðra um að hugsa um börnin mín er nútímasamfélagi nánast ógerlegt að trúa. Í þeim samtíma sem við búum í skiptir álit og samfélagsstaða meira máli en líðan barna. Foreldrar eru saman eða með börnin sín í harki og hörmungum fremur en taka ábyrgð á stöðunni og bæta hana. Ég er mamma allra minna fjögurra barna og því breytir enginn alveg sama hvar við búum.

Þegar ég tók þá ákvörðun að setja börnin mín frá mér og fjarlægja mig þeim gerði ég það þeirra vegna

Samfélagið hefur samt sem áður aldrei gefið mér tækifæri til að standa mig sem móðir frá bankahruni sem ég á enga sök á og þaðan af síður foreldrar mínir eða aðrir forfeður og mæður, enda hvergi að finna efnað fólk eða fólk sem á annað borð lék sér að bankainnistæðum, hlutabréfum og annars konar leikjum gerðum til að græða sem mest.“ Sigrún Dóra lenti illa í kjölfar hrunsins og nefnir fasteignakaup með 100% láni. Hún varð síðan einstæð móðir með tvö börn undir fjögurra ára aldri sem hún segir að hafi oft verið veik. „Ég missti svo vinnuna til sex ára í fjöldauppsögn enda ekkert skrítið, alltaf heima með veik börn. Í 14 ár hef ég verið dæmd til eymdar. Vanskilaskrá sem aldrei hverfur. Yfir mér er svart ský áhyggja, samviskubita og vonleysis. Ég hef lifað á hnefanum, hreinlega hnúanum, barist með kjafti og klóm fyrir því aleina að vera til og veita börnunum mínum skjól.

Ég þróaði með mér alkóhólisma og ég þróaði með mér þunglyndi og kvíða. Alkóhólismi er alþekkt leið til að vera fyrir þá sem skiljanlega eru þunglyndir og kvíðnir; að leita í efni til að líða betur er leið til að lifa, ekki til að drepa sig, enda eru alkóhólistar sennilega best gefna fólkið. Við erum ekki fædd í fyrradag og ef við vildum deyja, gerðum við það. Við leituðum í efni og vín til að vera því ekki yfirgefum við þá sem við elskum. Alkóhólismi er afleiðing sem samfélagið svo dæmir og úthýsir sem er alveg merkilegur andskoti af því að samfélagið leikur sér að því að þröngva fólki þangað. Allir sem ekki falla í meðalmennskuformið verða gróðrarleið meðalmennskunnar. Þeir sem áttu auðvelt með bókina og/eða fengu aura/tækifæri í vöggugjöf enda í stöðum sem svo græða á okkur sem féllum utan þess ramma. Fólk sem er klárt að kroppa peninga, fólk sem verða læknar og stjórnmálamenn, bankastjórar, yfirmenn, fyrirtækjaeigendur, braskararnir sem gátu keypt, selt og grætt. Þeir sem áttu grundvelli til gróða. Fólkið sem fer út í daginn eða fór til að hafa lifibrauð af eymdum annarra. Sumir viljandi en aðrir óvart. Hverja höfum við hin til að græða á? Varla hvoru öðru.“

Sigrún Dóra Jónsdóttir

Kærleikurinn og samstaðan

Sigrún Dóra talar um aðventuna. „Aðventan snýst um gjafir. Kærleika. Ótrúlegasta fólk verður auðmjúkt og gefandi á þessum tíma. Auðvitað væri lítið varið í jólin ef þau væru alltaf. Af hverju þarf samt að koma að jólum svo við sjáum að kærleikurinn og samstaðan er það sem skiptir máli?

Ég lofa þér því að þeir sem eiga peninga eiga aðrar ástæður til eymda. En ef þeir sem peningana eiga gæfu þeim sem í eymd eru peninga af sínum, yrðu eymdir þeirra minni og eigið virði myndi aukast. Að gefa, gefur þér til baka. Sumir eiga pening en aðrir eiga orð eða ást. Gjafir eru faldar í því að sem sá sem við gjöfinni tekur sé betri á eftir. Gjafir eru til að bæta á, ekki kaupa sér ást né til að sýnast betri.“

Nei, Sigrún Dóra segist ekki hafa efni á að halda jól eins og flestir gera hér á landi.

„Ég hef margoft bakað sörur í þúsundatali á aðventu, margoft hef ég gengið svo langt að það nánast kallist hórdómur til þess eins að halda jól. Desember er dýrasti mánuður ársins. Það skiptir samt engu máli hvað mánuðurinn heitir, ég hef ekki efni á honum. Ég hef ekki efni á að leigja íbúð, borða eða fá börnin mín yfir helgi á þeim bótum sem ég hef fullan rétt á og eru því miður mitt eina öryggi. Íslenska ríkið og íslenskt samfélag, því miður, ef við segjum hlutina eins og þeir eru, vilja mig dauða. Það hlýtur að vera því ekkert gera þau til þess að ég lifi sem er mjög sorglegt af því að manneskjan sem ég hef að geyma, lærdómurinn sem ég hef þurft að draga af lífinu, reynsla mín sem og ásýnd á lífið er eitthvað sem fólk ætti að borga mér fyrir að miðla áfram. Ég bý yfir svo mörgum hæfileikum og þekkingu að ef samfélagið vildi græða á því sem skiptir máli ætti það að eyða aurunum sínum í fólk eins og mig.“

Hún vitnar í Magnús Eiríksson.

„Ofmetnastu ekki af lífsins móðurmjólk. Kirkjugarðar heimsins geyma ómissandi fólk.”

Af hverju þarf samt að koma að jólum svo við sjáum að kærleikurinn og samstaðan er það sem skiptir máli

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -