Föstudagur 19. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

Sigurbirni krossbrá í sturtunni eftir að honum var bjargað: „Typpið var nánast horfið“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sigurbjörn Þórmundsson, háseti á togaranum Snorra Sturlusyni RE, lenti í lífsháska þegar hann féll í ískalt hafið í Smugunni á milli Íslands og Noregs. Kraftaverk og samstillt átak félaga hans varð honum til lífs. 

„Það var rosalegt sjokk að lenda allt í einu í köldum sjónum. Ég fór á bólakaf en náði að komast upp á yfirborðið. Þá voru félagar mínir búnir að kasta til mín björgunarhring og ég náði að skríða upp á hann,“ sagði Sigurbjörn í viðtali við DV um miðjan september árið 1996.

Óhappið varð um tíuleytið að kvöldi fimmtudagsins 5. september. Sigurbjörn lýsti því að veður hafi verið fremur gott en sjórinn í úthafinu var ískaldur, aðeins um 3 gráður á Celsíus. Sigurbjörn var um fjórar mínútur í sjónum. Segir í DV að við þetta hitastig sjávar sé gert ráð fyrir að menn lifi af í þrjár mínútur í mesta lagi.

„Ég hugsaði bara um að halda á mér hita og reyna sem minnst á mig. Ég varð mjög smeykur þegar ég fjarlægðist skipið í myrkrinu og var kominn 80–100 metra burtu frá því. Mér var farið að kólna mjög mikið þegar ég sá bátinn koma í áttina til mín og þá vissi ég að lífi mínu var borgið,“ segir Sigurbjörn um björgunina.

Hann lýsti atburðarásinni. 

- Auglýsing -

„Við vorum fjórir félagarnir uppi á dekki að láta trollið fara þegar ég flæktist með annan fótinn í keðju. Skyndilega strekktist á keðjunni og við það kastaðist ég í sjóinn. Félagarnir voru fljótir að bregðast við. Tveir hlupu í björgunarhringina og köstuðu þeim útbyrðis. Þegar þeir sáu að ég var búinn að ná hringnum hlupu þeir til að gera bátinn kláran. Þeir voru mjög fljótir að setja bátinn niður og ná í mig. Björgunaraðgerðin gekk fullkomlega upp og hver sekúnda var nýtt til hins ýtrasta. Það hefði ekki mátt muna miklu því í svona aðstæðum er þetta spurning um sekúndur. Félagar mínir fá toppeinkunn fyrir björgunarstarfið og það er þeim að þakka að ég er á lífi.“

„Eftir að ég kom aftur um borð var ég mjög sjokkeraður. En ég náði sem betur fer að jafna mig fljótlega á öllu saman og allir félagar mínir um borð gerðu sitt til að láta mér líða betur. Mórallinn er einstaklega góður um borð í skipinu og það hjálpaði mér mikið. Það kom fljótlega læknir úr varðskipinu um borð og skoðaði mig,“ sagði Sigurbjörn í DV fyrir 24 árum. 

Stundin ræddi við Sigurbjörn um þess lífsreynslu árið 2006 eða þegar 20 ár voru liðin frá óhappinu,

- Auglýsing -

„Ég man þetta atvik mjög vel. En ég hélt ró minni allan tímann og upplifði mig ekki í lífsháska,” segir Sigurbjörn Þórmundsson, fyrrverandi háseti á Snorra Sturlusyni RE.

Helkaldur í sturtu

Sigurbjörn, sem starfaði sem stálsmiður, segir að atvikið hafi ekki haft nein sérstök áhrif á hann. Hann hafi þó seinna gert sér grein fyrir því að hann hafi verið í lífsháska. Læknir sem kom frá varðskipi til að skoða Sigurbjörn taldi það vera kraftaverki nær að hann skyldi lifa af í fjórar mínútur í ísköldum sjónum. Sjálfur man hann atvikið mjög vel.

„Við vorum að láta trollið fara þegar ég flæktist í dauðalegg og kastaðist út fyrir og lenti á bakinu í skutrennunni. Þaðan rann ég síðan í sjóinn. Ég reyndi að grípa um vírana en náði ekki taki. Aftur á móti tókst mér að komast í björgunarhring sem félagar mínir köstruðu til mín. Svo sá ég skipið fjarlægjast,” segir hann.

Skipverjar á Snorra voru fljótir að bregðast við og sjósettu léttabát. Tengdafaðir Sigurbjörns, sem starfaði sem vélstjóri á skipinu, sigldi bátnum að tengdasyni sínum og bjargaði honum. Sigurbjörn segist hafa verið björguninni feginn þótt hann hefði allan tímann trúað á björgun.

„Ég var lengst af óhræddur og brást því rétt við. Ég er of kærulaus til að óttast. Þegar búið var að kippa mér um borð í bátinn grínaðist ég með það að við yrðum að leita að vettlingunum mínum sem voru nýjir. Hann hélt að ég hefði ruglast við volkið,” segir hann og hlær.

Sigurbjörn var helkaldur og dreif sig strax í heita sturtu við komuna um borð í skipið. Þá brá honum óskaplega. Kuldinn hafði haft sýnileg áhrif

„Þegar ég horfði niður sá ég að ég var orðinn eins og kona um miðjuna. Typpið var nánast horfið,” segir hann og skellihlær að minningunni.

Sigurbjörn fékk svo sjóðheita súpu hjá kokknum og fór síðan í koju.

„Ég var marinn eftir að hafa skollið í skutrennuna. Að öðru leyti var allt í lagi með mig. Ég mætti til vinnu á næstu vakt,” segir hann,

Nokkru eftir atvikið í Smugunni hætti Sigurbjörn á sjónum og fór í land þar sem hann starfaði meðal annars sem tryggingaráðgjafi.

„Sjómennskan hentaði mér ekki til lengri tíma. En þetta atvik hafði ekkert með það að gera. Eftirköstin voru í sjálfu sér engin þótt ég muni þetta eins og það hefði gerst í gær,” sagði hann við Stundina.

Þessi baksýnisspegill birtist áður á Mannlif.is sjötta september 2021.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -