Laugardagur 25. janúar, 2025
1 C
Reykjavik

Sigurður var við dauðans dyr í Rúmeníu: „Spítalinn sá sjúklingum ekki fyrir vatni né klósettpappír“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
Sigurður Páll Sigurðsson segir að það sé „merkileg reynsla að hafa verið á sjúkrahúsi í Rúmeníu og á sjúkrahúsi á Íslandi með sama sjúkdóminn; Covid.
Ég vissi að fengi ég sjúkdóminn, þá mundi hann leggjast hart á lungun í mér, þau hafa alltaf verið minn veiki punktur. En ég treysti frekar á mitt náttúrulega ónæmiskerfi heldur en tilraunalyf frá lyfjarisum sem taka enga ábyrgð á bóluefnunum sínum.“
Hann bætir við að hann hafi verið svo „óheppinn að vera staddur í Rúmeníu þegar ég smitast. Þar fer ekki gott orð af heilbrigðiskerfinu, og mér sagt að ef þú ferð á spítala þar með Covid, þá kemurðu líklega ekki aftur heim. Ég smitast líklega 15. sept, en leggst ekki í rúmið fyrr en 19. sept.
Eftir það hrakar mér hratt, og tek sjálfspróf 22. sept sem staðfestir Covid. Ég byrja að taka vítamín, steinefni og þau lyf sem læknirinn minn á Íslandi ráðleggur mér. Það var þrautaganga að nálgast sum lyfin vegna tungumála- og menningarþröskulda, en að lokum var ég kominn með grunnpakka.“
Næstu 7-10 daga var Sigurður „eiginlega með óráði, stöðugan höfuðverk, náði varla andanum og svitnaði eins og hross. Einföld klósettferð tók úr mér alla orku og loft. Ég byrjaði að fylgjast með súrefnismettun í blóði, og var í 7-10 daga með undir 80% mettun.
Þegar ég segi lækninum mínum það, þá brá honum og skipaði hann mér að hringja á sjúkrabíl og fá súrefni; ég væri að skemma heila og hjarta. 6. október leggst ég því inn á sjúkrahús í bænum Braila í Rúmeníu.“
Og heldur áfram:
„Rúmenía er mjög stórt land og ætti á alla vegu að vera mjög auðugt land. Ræktarlönd og auðlindir ættu alla jafna að gefa fólki mjög gott líf, en eftir kommúnismann hefur spilling og einkaaðilar rænt landið…og ræna enn!
Þetta kemur niður á alþýðu þannig að fátækt er almenn og mikill sjálfsþurftarbúskapur heldur lífinu í fólki. Öll þjónusta er af skornum skammti og rekin fjársvelt og undirmönnuð. Þar komum við að heilbrigðiskerfinu.“
Hann segir að „sjúkrahúsið var ótrúlega stórt og einfalt frá kommúnismanum, með gömul rimlarúm, ekkert heitt vatn, engri þrifaðstöðu (sturtan orðin að geymslu), fáu starfsfólki (nokkrar hjúkrunarkonur og restin “aðstoðarfólk”) sem var stöðugt hlaupandi áttavillt um gangana kallandi fyrirmæli á milli hæða og stundum hreinlega í rifrildum.“
Bætir þessu við:
„Á fyrstu 2 dögunum mínum á sjúkrahúsinu fyllist það af sjúklingum og starfsfólk virtist ekki ná að hafa undan. Öll vinnubrögð einkenndust af fári og stjórnleysi, hver hjúkkan grípandi inn í hjá hinum, hlaupandi fram á gang, komandi aftur inn reynandi að muna hvað hún var að gera, með 6-7 handskrifuð blöð með lyfjaskömmtum dagsins og blandandi lyfjakokteila hver ofan í aðra, þannig að líklega fengu einhverjir sjúklingar tvöfalda skammta og aðrir engan. Spítalinn sá sjúklingum ekki fyrir vatni né klósettpappír, matur bragðlaus og af mjög skornum skammti (konan færði mér vatn, mat og ávexti), einfalda grunnhluti sjúkrahúsa vantaði algerlega, t.d. grindur til að hengja upp drip-poka. Tveir læknar virtust starfa á öllu sjúkrahúsinu (annar byrjaði 2 dögum eftir að ég kom). Á nóttunni var öryggishurðum læst og sumar nætur lá sjúkrahúsið andvaka þar sem sjúklingar voru öskrandi og grenjandi, berjandi í hurðarnar að reyna að ná athygli einhvers (sjá vídeó). Þetta var eins og í lélegri bíómynd af geðspítala á 19. öld. En mitt aðaláhyggjuefni var að ég fékk nánast engar upplýsingar þar sem enginn talaði ensku og ég var raunverulega týndur á þessum risa-spítala og útlitið varð alltaf dekkra.
Sigurður fékk þá vondar fréttir.
„Eftir 7 daga af óvissu og verri líðan var mér tilkynnt að mér væri að hraka. Út um gluggann á stofunni minni voru líkbílar og ættingjar í röðum að sækja látna fjölskyldumeðlimi. Líklega dóu um 10 manns á dag á þessu sjúkrahúsi. Ég verð að viðurkenna að ég fylltist ekki bjartsýni á þessum tíma.
Herbert vinur minn hafði sett sig í samband á fyrsta degi innlagnar minnar við SOS Europe, þar sem ég er tryggður. Þeir gengu beint í það að fá upplýsingar um stöðu mína og meðferð, en fengu engin svör. Eftir viku af engum viðbrögðum og versnandi líðan minni ákváðu þeir að koma mér heim til Íslands, og var mér flogið heim eftir 9 daga á sjúkrahúsinu í Braila.“
Sigurður er þakklátur fyrir íslenska heilbrigðiskerfið eftir að hafa kynnst því rúmenska:
„Ég get varla lýst muninum á þjónustu, fagmennsku og aðstöðu á þessum tveimur löndum. Þetta var eins og að koma út úr miðöldum inn í nútímann.
Ég er búinn að fá fyrsta flokks þjónustu, allt gerist skipulega og yfirvegað, mér gefnar allar upplýsingar um leið og þær birtast og mér er sinnt af nærgætni og hlýhug. Mér hefur strax skánað töluvert og andinn er mun léttari. Bara það að komast í sturtu eftir 10 daga var frelsandi!! Ég get varla með orðum lýst þakklæti mínu að vera kominn heim og í heilbrigðiskerfi sem virkar, þó það séu deilur um það.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -