Sigursteinn Másson þáttagerðarmaður lítur ekki á Covid-19 sem óvin heldur alvarlega viðvörun um breytta hegðun því maðurinn hafi með atferli sínu skapað veiruna. Þetta kemur fram í hugleiðingum hans þar sem hann er fastur á Spáni.
Sigursteinn ritar þetta í færslu sinni á Facebook. Hann er nú innilokaður í Andalúsíuhéraði. „Ætlaði að vera 8 daga í Andalúsíu en þetta eru orðnar 8 vikur og sér ekki fyrir endan á veru minni hér. Nú búið að loka héraðinu í 10 daga. Enginn kemst inn né út nema í gegnum alþjóðaflugvellina. Það hefði mátt segja mér tvisvar fyrir ári síðan að ég ætti eftir að vera um kyrrt í sama héraðinu á Spáni mánuðum saman. Venjulega hefði ég sennilega verið búinn að flækjast vítt og breytt um Spán, til Portúgals og Marokko á mun styttri tíma. En það eru breyttir tímar og ég trúi því að ,,slow travel” sé komið til að vera,“ segir Sigursteinn.
„Ég trúi því að almættið sé að taka í taumana og að við verðum að grípa þetta tækifæri.“
Í sunnanblíðunni á Spáni hefur þáttagerðarmaðurinn náð að klára þriðju sjónvarpsþáttaseríuna Sönn íslensk sakamál ásamt því að hugsa um lífið og tilveruna upp á nýtt. „Ég stend á krossgötum rétt eins og ég held að við gerum öll. Heimsástandið og veiran neyðir mig til að hugsa hlutina upp á nýtt. Ég sé veiruna ekki sem óvin heldur alvarlega viðvörun um að við verðum að breyta lífsmáta okkar. Þetta er afleyðing þess hvernig við umgöngumst dýrin, heimkynni þeirra og náttúruna. Við höfum með atferli okkar skapað þessa veiru og þar með þetta ástand og hvert og eitt og í sameiningu þurfum við að snúa þróuninni við,“ segir Sigursteinn og bætir við:
„Tíminn er naumur því stóra málið- óafturkræfar loftslagbreytingar- er handan við hornið. Ég trúi því að almættið sé að taka í taumana og að við verðum að grípa þetta tækifæri, endurhugsa tilveru okkar í stað þess að hverfa aftur til þess sem var fyrir COVID19. Heimurinn allur situr í sömu súpunni og verður sameiginlega að bregðast við til lengri tíma. Trúi og vona að það muni nú gerast.“