Fimmtudagur 12. desember, 2024
4.8 C
Reykjavik

Sigvarður var stimplaður vonlaust keis en svo tók lífið óvænta stefnu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þann 6 janúar árið 2000 hófst nýtt líf sem mig hafði ekki órað fyrir. Þennan dag fór ég í mína fyrstu og einu meðferð sem ég hef farið í. Ég er komin lengra en mig gat dreymt um. Ég hugsaði með sjálfum mér þennan dag. Kannski næ ég 6 mánuðum og þá lætur löggan mig kannski í friði. Þegar ég horfi til baka og sé hvernig ég sjálfur var. Að þá er lífið mitt í dag andstæðan á því sem það var þá. Ég var búin að vera daglega undir áhrifum áfengis og suma daga eiturlyfja. Áfengi var mitt stöff eins og það er orðað.“

Svo hefst edrúsaga Sigvarðar nokkurs sem deilir sögu sinni á Facebook-síðu góðgerðarsamtakanna Það er von sem berjast fyrir fólk sem glímir við fíknivanda. Saga hans hefur vakið mikil viðbrögð og snert hjörtu margra. Hann lýsir því hvernig hann náði botninum um aldamótin:

„Í apríl 1999 kom upp tímabil þar sem ég fann að það vantaði eitthvað í líf mitt. Ég hafði allt sem ég þarfnaðist. En gerði mér ekki grein fyrir því afhverju þessi tómleiki kom upp. Ég fékk þá hugmynd að fyrst það er svona gaman að vera fullur, að þá ætla ég alltaf að vera fullur. Hófst þá 8 mánaða tímabil af daglegri drykkju og notkun eiturlyfja með. Lífið fór strax í stjórnleysi. Sumir dagar í black outi, vaknandi í fangaklefa og vita ekki hvað gerðist daginn áður. Eða vakna á stöðum sem ég myndi allrei fara á undir venjulegum kringumstæðum. Ég drakk og gat ekki haft stjórn á neinu. Eftir að hýrast á götunni, sofa á stigagöngum, plastkömrum, ræna mat í búðum. Að þá kom ákveðin tímapunktur. Þar sem mig langaði að stoppa en gat það ekki. Ég horfði til baka og hugsaði um meðferð. En varð hræddur við tilhugsunina að verða edrú.“

Sigvarður hélt að líf sitt væri búið þarna. „Ég hélt að ég gæti þetta aldrei. Það var jú búið að vera mata mig á þvi frá þvi ég var barn. Að ég gæti ekki gert neitt rétt, að það væri engin jafn slæmur og ég, og það yrði alldrei neitt úr mér. Þarna voru þessi orð sem töluð voru yfir mig orðin uppfyllt. Lífið var búið. Mig langaði ekki að lifa lengur. Ég sá enga leið út úr þessu myrkri sem ég var fastur í. Ég gat ekki verið undir áhrifum og ekki verið edrú. Áfengið var hætt að virka og vanlíðanin og vonleysið tók stjórnina,“ lýsir hann og bætir við að um tíma hafi hann íhugað sjálfsvíg.

„Það voru nokkur kvöld í röð þar sem ég var með snöruna fyrir framan mig og langaði að enda líf mitt. Mér fannst ég vera misheppnaður og það væri engin leið út. Mér fannst ég vera búin að klúðra öllu. Ég var búin að særa og skaða marga. Tilgangurinn með lífinu var horfinn og lífslöngunin farin að fjara út.“

Svo til að bæta gráu ofan á svart þá tók hann inn eitraðar e-pillur. „Til að kóróna þetta allt saman tók ég inn eitraðar e pillur og overdósaði. Þetta var skrítin lífsreynsla. Lífið fjaraði úr mér og mér fannst ég vera komin út úr líkamanum og á hraðri leið til heljar. Ég kallaði eftir hjálp til Guðs þar sem mig langaði ekki að deyja. Á sömu stundu fékk ég meðvitund aftur. Þar hófst tímabil þar sem ég þorði ekki að fara sofa, hélt að hjartað væri að fara útúr líkamanum. Og að ég myndi ekki vakna aftur,“ segir Sigvarður.

- Auglýsing -

En svo tók lífið óvænta stefnu. „Óttinn við allt sem ég hafði gert öðrum myndi elta mig og refsa mér heltók mig. Það var svo ekki fyrr en ég fór inn á Hlaðgerðarkot 6 jan 2000. Að lífið tók óvænta stefnu sem mig gat ekki órað fyrir. Ég fór að geta sofið og óttinn við að vakna ekki aftur var tekin frá mér. 15 jan gerðist svo kraftaverkið. Þann dag fékk ég slæmar fréttir sem urðu til þess að mig langaði að rjúka út úr meðferðinni og hefna mín á einum aðila. En það var eins og það hefði verið settur spotti í hnakkadrambið á mér. Áður en ég vissi af , var ég komin upp í kapellu og skildi ekkert hvað ég væri að gera þar. En þetta kvöld fékk ég andlega vakningu og kynntist mínum æðri mætti. Á einu augnabliki varð 180 gráðu snúningur. Lífslöngunin kom aftur. Ég fór að taka leiðsögn í fyrsta skiptið á ævi minni. Tilfinningar sem ég hafði ekki fundið áður fóru að koma. Ég var tilfinningalega frosin og skemmdur þegar ég fór í meðferð. En þarna opnaðist fyrir þær,“ lýsir Sigvarður og heldur áfram:

„Óttinn við að fólki myndi ekki líka við mig, ef ég segði satt til um hver ég væri var tekin frá mér. Ég opnaði mig í fyrsta skiptið á ævinni og burðarpokinn á öxlinni var tekin frá mér. Það var eins og mér hefði verið afhent verkefni fyrir hvern dag til að takast á við.“

Hann segir líf sitt hafa tekið stakkaskiptum. „En svo að þetta sé ekki of langt. Að þá breyttist lífið enn meir þegar ég fór að vinna 12 sporavinnu. Öryggi fyrir því að ég þyrfti ekki að drekka aftur kom aftur. Áhugi á þvi að að hjálpa öðrum kom til staðar. Auðmýkt að viðurkenna að ég gæti haft rangt fyrir mér kom. Gleði við að hjálpa örðum kom. Nýr tilgangur kom með lífinu og von um nýtt og bera líf. Einn dag í einu er orðin að 21 ári af lífi án hugbreytandi efna. Líf sem hefur tekist á við margar áskoranir og raunir, en alldrei þurft að drekka eða nota. Fyrst ég sem var stimplaður vonlaust keis, stend ennþá í dag. Að þá vil ég segja við þig sem lest þetta. Að það er von fyrir alla. Einn dag í einu. Tíminn sjálfur er aukaatriði. Það sem skiptir máli er dagurinn í dag, að í dag erum við edrú og þakklát fyrir vonina sem okkur hefur verið gefin.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -