„Situr lengi í manni eftir að lestri lýkur“

Deila

- Auglýsing -

Gerður Kristný, rithöfundur og ljóðskáld, segir að bókasafn Norræna hússins sjái henni aðallega fyrir lesefni en hún les mest ljóðabækur, skáldsögur og góðar ævisögur. Eftirtalin verk segir hún hafa haft mest áhrif á sig.

Beckomberga-geðsjúkrahúsið

„Sara Stridsberg er stórkostlegur sænskur rithöfundur og ég mæli með Beckomberga-geðsjúkrahúsinu, sterkri, hrífandi og ljóðrænni skáldsögu sem kom út í eðalþýðingu Tinnu Ásgeirsdóttur í fyrra. Bókin fjallar um stúlku sem fer reglulega í heimsókn til pabba síns sem dvelur á fyrrnefndu sjúkrahúsi. Sagan situr lengi í manni eftir að lestri lýkur. Myndin á kápunni tengist bókinni ekki beint því þegar ég spurði Söru hvaða fólk þetta væri svaraði hún því til að þetta væri kærastinn hennar og barn nokkurt á gangi í Los Angeles. Henni hafði bara fundist þetta flott mynd og þess vegna viljað hafa hana framan á bókinni.“

Boken om Blanche och Marie

„Við erum enn stödd í geðbatteríinu því á Pitié-Salpêtrière-spítalanum í París dvaldi kona að nafni Blanche Wittman í lok 19. aldar. Hún varð mikil stjarna í vinsælum dáleiðslusýningum sem yfirlæknirinn Jean-Martin Charcot hélt á sjúklingunum. Þegar Blanche var útskrifuð gerðist hún aðstoðarkona á tilraunastofu Marie Curie.

Ljótleikinn í sögunni er vissulega ómældur en Enquist segir hana af fegurð og virðingu.

Sænski höfundurinn Per Olov Enquist skrifaði magnað verk, Boken om Blanche och Marie, um samband þessara tveggja kvenna. Lítið var vitað um skaðsemi geislavirkni á þeim tíma og stórsködduðust þær báðar. Taka þurfti báða fætur og annan handlegginn af Blanche en Marie annaðist hana þar til hún lést. Ljótleikinn í sögunni er vissulega ómældur en Enquist segir hana af fegurð og virðingu. Fyrir ættfræðiáhugafólk skal tekið fram að Jean-Martin Charcot var faðir Jean-Baptiste Charcot skipstjóra á Pourquois-Pas?“

Det er berre eit spørsmål om tid

„Nú hefur verið tilkynnt um tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Norðmenn leggja fram ljóðabálkinn Det er berre eit spørsmål om tid eftir Eldrid Lunden. Ég er hrifin! Bálkinn skrifar Eldrid í minningu eiginmanns síns sem lést fyrir nokkru. Þetta er kynngimagnaður og harmrænn bálkur, stráður óvæntum myndum. Svona yrkja aðeins þau bestu.“

Mynd / Hákon Davíð Björnsson.

- Advertisement -

Athugasemdir