Síðastliðinn laugardag tilkynnti Sjálfstæðisflokkurinn að Erna Bjarnadóttir hafi ákveðið að fylgja Birgi Þórarinssyni yfir í flokkinn.
Birgir tók ákvörðun um að færa sig úr Miðflokknum og yfir í Sjálfstæðisflokkinn. Þá hefur hann sagt að margar ástæður séu fyrir þeirri ákvörðun, meðal annars Klausturmálið.
Erna staðfesti það í viðtali við Bítið á Bylgjunni í morgun að hún muni ekki fylgja Birgi.
Á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins mátti sjá tilkynningu þar sem flokkurinn bauð bæði Birgi og Ernu velkomin.
Tilkynningunni var deilt á Facebook síðu flokksins, en hefur nú verið breytt. Upphaflegt innlegg á Facebook síðu Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi hljóðaði svo:
„Stjórn Kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi býður Birgi Þórarinsson alþingismann og Ernu Bjarnadóttur varaþingmann velkomin til starfa fyrir flokkinn í kjördæminu og óskar þeim farsældar í störfum sínum á Alþingi.“
Þá telur Birgir að Erna hafi hætt við að fylgja honum yfir vegna umræðunnar sem skapast hefur vegna málsins.
„Hún tjáði mér það að hún ætlaði að koma með mér yfir. Hún hefur greinilega skipt um skoðun og ég held að það sé partur af þeirri hörðu umræðu sem hefur verið í samfélaginu og haft mikil áhrif á hana,“ sagði Birgir í viðtali í morgun en RÚV hefur greint frá málinu.