Fimmtudagur 28. mars, 2024
1.8 C
Reykjavik

Sjóarinn Steingrímur missti mömmu sína 11 ára: „Ég lifi fyrir strákinn minn“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Mamma mín lést af þessum fræga sjúkdómi, krabbameini, þegar ég var 11 ára gamall, og þetta tók vissulega mikið á okkur bræðurnar. Það var boðið upp á einhverja sálfræðitíma og maður tók sér sinn tíma að syrgja en þetta situr ennþá í manni í dag, það er alveg klárt mál,” segir Steingrímur Helgu Jóhannesson, sjómaður og vinnslutæknir, einnig þekktur undir nafninu, Sjóarinn en hann heldur úti vinsælu hlaðvarpi undir sama nafni.

Andlegt og sálarlegt áfall

Steingrímur er fæddur í Eyjum árið 1984. „Foreldrar mínir fluttu til Eyja, þar sem ég fæðist því pabbi, sem hefur alltaf verið a sjó, þurfi að klára skólann. Við voru fjögur í fjölskyldunni foreldrar mínir og einn bróðir, Hörður Þór, sem var tveimur árum eldri en ég”.

Steingrímur ætlaði aldrei á sjó. Síðan eru liðin 17 ár og hann er enn á sjó.

Eftir að faðir Steingríms kláraði námið í Eyjum fluttu þau norður til Akureyrar. Nokkrum árum síðar skilja foreldrar hans, og svo kemur að því að veikist móðir hans af krabbameini. Steingrímur og Hörður bjuggu þá hjá móður sinni, gengu með henni í gegnum veikindin og að því kom að þeir misstu hana langt um aldur fram. Steingrímur er þá í fjórða bekk grunnskóla.

„Þá fluttum við til pabba, hann bjó á öðrum stað og af einhverjum ástæðum er ég látinn sleppa einu skólaári og sendur beint upp í sjötta bekk. Ég missti mikið úr náminu og í dag finnst mér þetta hafi fokkað upp skólagöngunni minni. Maður missir einhvern vegin allt vit við svona áfall og það hefur mikil áhrif á allt batteríið, bæði andlega og sálarlega. En svo heldur lífið bara áfram”.

Er fínn bakari

- Auglýsing -

Svo liður árin og Steingrímur prófaði sig áfram í skólakerfinu. En hann var rótlaus og átti erfitt að finna sig í náminu.

„Ég er líka svo hvatvís að þegar ég fæ hugmynd, stekk ég bara á hana. Ég fór á almennu brautina, fór í málminn og bifvélavirkjann auk þess að fara á matvælabraut. Ég ætlaði mér reyndar alltaf að verða bakari og var á vinna í bakarí á yngri árum. Mér finnst alltaf gaman að baka þótt ég geri reyndar of lítið af því í dag. Ég tel mig aftur á móti vera fínan í því. Ég ætlaði alltaf í bakaranámið en svo gerist það að ég kynnist sjónum”.

Steingrímur hefur unnið sem vinnslustjóri um borð í 12 ár.

Steingrímur hafði aldrei hugsað sér að verða sjómaður þótt bróðir hans, faðir, báðir afar og langafar hefður allir verið sjómenn og með seltu í æðum. „En ég sá mig aldrei í því starfi, ekki séns. En þegar ég var tvítugur hringi ég í föður minn sem spyr hvort hann geti reddað mér túr á togaranum Snorra Sturlusyni, þar sem hann var, og fékk svarið: „Ætlar þú að verða sjómaður? Þú ert enginn sjómaður drengur, þú ert með saumaputta“. Þeir tvöfölduðust nú með tímanum reyndar”.

- Auglýsing -

Ástæðan fyrir því að Steingrímur vildi fara á túr var að hann var með yfirdráttarheimild sem hann vildi greiða upp. „En svo fékk ég túr, þótt óvanur væri. Þetta átti nú bara að verða einn túr og ég borgaði yfirdráttarheimildina eins og skot.

Síðan eru komin 17 ár”.

Seldi allt og fór til Noregs

Aðspurður að því hvað hafi haldið honum til sjós segir hann samfélagið hafa verið svo gott í þessum fyrsta túr, góður mórall og góður andi.

„Við vorum eins og ein fjölskylda. Og að fá millu inn launareikninginn sinn tvítugur, kallar auðvitað annan á túr“. Steingrímur fór síðan á Þór frá Hafnarfirði, sem þá var eitt aflahæsta skip flotans og var þar frá 2010 til 2011.

Steingrímur og fyrrverandi unnusta hans skildu árið 2011 og var Steingrímur þá tilbúinn að prófa eitthvað nýtt.

„Sambandi var lokið, mamma látin, bróðir minn bjó í Noregi og mig langaði að breyta til.” Svo fór að Steingrímur flutti til Noregs. „Það tók mig tvær vikur að fá pláss úti, ótalandi á norsku en reddaði mér á ensku og dönskuslettum. Svo kom norskan eins og skot”.

Þeir bræður Steingrímur og Hörður á góðri stundu.

„Þegar ég mæti um borð sé ég að það býr helmingurinn af áhöfninni út um alla Evrópu enda borgar útgerðin flug innan Evrópu. Og ég fer að hugsa með mér: „Steini? Af hverju flyturðu ekki bara til Spánar? Svo ég fer á einhverja síðu, finn hús á Costa Blanca og er búin að leigja það samdægurs. Fimm herbergi og þrjár hæðir, sameiginleg sundlaug og hvaðeina. Svo lét ég bara útgerðina vita að ég vildi miða til Alicante“.

Steingrímur bjó einn í þrjú ár á Spáni. Hann segir það hafa verið gott líf en hann hefði frekar kosið að búa þar með fjölskyldu. „Á Spáni er gott að djamma og djúsa og gerir kannski helst helst til mikið af því þegar maður er mánuð úti á sjó og mánuð heima. Þetta er eins og langt frí á mánaðarfresti. Ég kom mér vel fyrir og þetta var góður tími“.

Mikael Helgi er augasteinn föður síns.

Árið 2014 flutti Steingrímur til Íslands. „Ég komst að því að ég átti von á barni eftir í frí árið 2013. Ég vildi að sjálfsögðu vera með í þessu ferli með vinkonu minni og barnsmóður og sonur minn er ein mín almesta gæfa í lífinu”. Í dag er sonur Steingríms, Mikael Helgi, augasteinninn hans.

Árni liðu, Steingrímur hélt áfram á sjó og sá um uppeldið á syni sínum ásamt móður hans. Svo skall á annar sorgarviðburður.

Fékk þvílíka höggið

„Í fyrra var ég á frystitogaranum Tómasi Þorvaldssyni frá Grindavík þegar ég fékk sms í morgunkaffinu frá pabba um að hafa strax samband og það varðaði bróður minn. Ég hreinlega vissi hvað hafði gerst þegar ég fékk þessi skilaboð. Ég mun aldrei geta útskýrt það en ég fékk þvílíka höggið. Það tók mig nokkrar mínútur að hringja í pabba sem sagði prest hafa bankað upp á um nóttina og látið vita að Hörður væri dáinn”.

Hörður bjó úti á Spáni þegar hann hafði lést, hann hafði heimsótt Steingrím þangað og liðið vel. Þar bjó hann ásam þremur Scheferhundum sínum. „Það er að kvöldi 2. júní sem nágrannarnir fóru að hafa verulegar áhyggjur, enginn hafði séð Hörð, allt var dregið fyrir og hundarnir geltu stanslaust. Það var hringt á lögregluna sem braust inn og kom að Herði látnum og hafði hann þá dáið deginum áður, aðeins 39 ára gamall”.

Dánarorsök Harðar var hjartaáfall.

Öskraði úr mér líftóruna

Steingrímur beygir af, minningin er honum augljóslega afar sár.

„Fólk byrjaði að spyrja um einhverjar kjaftasögur, eiturlyf eða áfengi en það var aldrei neitt slíkt slíkt. Hann hafði lengi barist við asma en hvort það átti þátt í þessu veit ég ekki”.

Feðgarnir við gröf Harðar. Blessuð sé minning hans.

Steingrímur segir heiminn hafa hrunið í kringum sig við fréttirnar. „Ég var þarna um borð í nýju skipi, með 30 manna áhöfn sem varla þekkti mig en það var einstakt hvað þeir tók mig að sér og hugsuðu vel um mig. Skipstjórinn tók þá ákvörðun að koma mér strax í land, sem ég er mjög þakklátur fyrir, því þetta var ekki svona á árum áður. Þá var ekkert verið að fara með menn í land út af fæðingum barna eða fráföllum ástvina. Þú varðst bara að vinna þína vinnu, þetta er miklu mannlegra í dag. Fólki var ekki leyft að syrgja eins og gert er í dag”.

Steingrímur fór á land á Vestfjörðum og leigði sér bílaleigubíl til að komast til Reykjavíkur. „Það var helvíti á jörðu. Eg var svo reiður og sorgmæddur og sá ekki út úr augunum á mér fyrir tárum. Ég keyrði og öskraði og var hreinlega ekki meðvitaður um hvað ég var að gera, það er blessun að ég keyrði ekki út af enda í engu ástandi til aka bíl. Ég man að ég stoppaði bílinn, fór út í fjöru og öskraði úr mér líftóruna á meðan ég kallaði á bróður minn. Ég missti röddina í fjóra daga á eftir þetta. Þetta er mín stærsta sorg”.

Steingrímur segir það hafa bjargað sér að Sigrún, kærasta hans, ók á móti honum og stóð eins og klettur við hlið hans í gegnum þessa erfiðu tíma.

Sagnfræðilegar heimildir sem ber að viðhalda

Talið berst að hlaðvarpinu Sjóarinn.

„Afi minn móðurætt, Hörður Snorrason úr Hrísey, var sjómaður allt sitt líf og afi minn í föðurætt, Steingrímur Aðalsteinsson var það einnig en ég náði því miður aldrei að hitta hann því hann lést áður en ég fæddist. Ég hef alltaf haft gaman af sögum þeirra og oft hugsað út í hvað ég hefði viljað hlusta á sögurnar hans afa Steina því hann átti langan og merkilegan feril á sjónum. Núna er það svo magnað að ég er að fá menn í viðtöl til mín sem voru á sjó með honum og margir verða steinhissa við að frétta að að Steini var afi minn“.

Steingrím dreymir um að skrásetja sögur sjómanna fortíðarinnar, sögurnar sem eru að deyja út.

Steingrímur hafði lengi verið að hlusta á alls kyns hlaðvörp en fundist vanta að fjallað væri um sjómennsku. „Ég legg mestu áhersluna að fá menn inn sem voru á sjó í gamla daga, frá stríðsárunum og upp úr því því hér er um sögulegar heimildir að ræða. Ég er reyndar með blandaðan aldur og konur að sjálfsögðu líka, því þær hafa auðvitað líka verið á sjó en mér finnst eins þessi heimur á sjónum hér áður fyrir sé gleymdur. Það má aldrei gleyma því að það var sjómennskan sem byggði upp þetta land og það er lítið talað um fortíðina í dag og hvað mikið hefur breyst á skipunum. Þróunin til dæmis í fatnaði, aðbúnaði og öryggismálum er eins og svart og hvítt frá því sem áður var”.

Elsti viðmælandi Steingríms er Svavar Benediktsson sem er níræður. „Alveg magnaður sá maður, man allt og við þurftum tvo þætti”.

Dreymir um að viðtalshring

Steingrímur segist hafa gaman af tala við fólk, vissulega sé snúið að fá allt til að ganga upp þar sem hann er í fullri vinnu með hlaðvarpinu en það gangi vel að ná í viðmælendur og hann muni halda þessu áfram.

Feðgarnir njóta lífsins saman.

Hann dreymir um að fara um landið og safna sögum af sjónum alls staðar að.

„Mig langar virkilega að taka viðtalsferð um allt landið, það væri til dæmis geðveikt að fara á Vestfirðina og taka eitt viðtal í hverjum bæ. Það kostar aftur á móti en það kallar á fleiri styrktaraðila”.

„Það er magnað að fá þessa frábæru sagnfræði beint í æð frá mönnunum sem upplifðu hlutina, ekki bara frá öðrum, þriðja eða fjórða aðila. Við erum að missa þessa kynslóð og þurfum að heyra sögu þeirra áður en það verður of seint”.

Steingrímur nýtur þess sem hann er að gera í dag þótt hann telji ekki óhugsandi að fara að koma sér í land áður en langt um líður.

„Ég tek einn dag í einu, lífið er ósanngjarnt og ekki alltaf dans á rósum. En ég lifi fyrir fólkið mitt og strákinn minn. Það er það sem lífið gengur út á,” segir Steingrímur.

Það má heyra hlaðvarpsþætti Steingríms hér

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -