Miðvikudagur 24. apríl, 2024
9.1 C
Reykjavik

Sjóðheitur Bjarni Ben á stefnumótasíðu: „Gert í algjörum hálfkæringi og af léttúð“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það var í júlí árið 2015 sem að hópur tölvuhakkara sem kallaði sig „The Impact Team“ stal gögnum af vefsíðu sem ber nafnið Ashley Madison og sérhæfir sig í er að tengja saman einstaklinga sem leita náinna kynna utan hjónabands. Segir í kynningartexta vefsins að þar sé að finna „kvænta menn og leiðar húsmæður”. Meðal þessara kvæntu manna og leiðu húsmæðra var að finna 128 Íslendinga og stóð eitt nafn sérstaklega upp úr.

Kynferðislegar óskir opinberaðar

Móðurfélag Ashley Madison hefur löngum fiskað í tjörn einstaklinga í leit að kynlífi utan hins hefðbunda ramma. Það rekur einnig meðal annars vef sem gerir eldri konum kleyft að komast í náin kynni við yngri menn, og annan sem gerir fjáðum mönnum mögulegt að hitta ungar konur með „gagnkvæma hagsmuni” í huga.

Nú telst það ekki til tíðinda að internetið sé notað í leit að lystisemdum holdsins en eðli málsins samkvæmt kjósa flestir að halda því út af fyrir sig. Með árásinni stóðu milljónir einstaklinga frammi fyrir því að nafn þeirra, netfang, notendanafn og lýsingar á kynferðislegum óskum yrði birtar opinberlega.

Daginn eftir innbrotið birti hakkarahópurinn yfirlýsingu og hótaði að birta upplýsingarnar nema að síðunni yrði lokað. Ekki mun hafa verið um siðferðislega köllun að ræða heldur vildi hópurinn sýna fram á að notendaöryggi væri áfátt.

Forsvarsmenn Ashley Madison urðu ekki að kröfum hakkarana sem létu vaða og settu notendaupplýsingar um 37 milljón manns inn á það sem almennt er kallað „svarta vefinn”. Svarti vefurinn er sá hluti internetsins sem ekki er unnt að finna með hefðbundnum leitarvélum og gefur enga auðkenningu.

- Auglýsing -

Saumaklúbbar nötra

Íslendingar voru að sjálfsögðu fljótið að þefa upp lekann og fóru, eins og fastlega mátti búast við, að leita uppi landa sína, enda ekki flókið fyrir þá sem til þekkja að vafra um hinar dekkri lendur internetsins. Íslenskir notendur reyndust vera 128 talsins, sumir hverjir landsfrægir einstaklingar. Saumaklúbbar landsins nötruðu í kjölfarið.

Í ljós kom að háttvirtur fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, var skráður notandi með notendanafnið ,,Icehot1” og var skráningin undir netfanginu [email protected]. Eins og menn ef til vill muna hafði Bjarni, ásamt fleiri Engeyingum og fjárfestum, fengið kúlulán hjá Íslandsbanka árið 2006 til kaupa á olíufélaginu Esso sem síðar fékk nafnið N1.

- Auglýsing -

Fjölmiðlar gengu umsvifalaust á Bjarna og kröfðu skýringa. Hann kvaðst ekkert muna eftir að hafa skráð sig sem notanda á vefnum en aftók með öllu að hafa verið þar virkur eða nýtt sér þjónustu vefsins. Eiginkona hans, Þóra Margrét Baldvinsdóttur, tók í sama streng og birti fljótlega yfirlýsingu á Facebook þar sem sagði: „Við heyrðum um þennan umdeilda vef í erlendum fréttum fyrir um sjö árum (2008). Í framhaldi af því skoðuðum við vefinn fyrir forvitnisakir, en til þess þurfti að fylla út þar til gert form, skrá netfang, erlent póstnúmer og fleira sem við gerðum í algjörum hálfkæringi og af léttúð. Við höfum aldrei síðan farið inn á þennan vef. Það var aldrei greitt fyrir skráningu eða aðgang að vefnum. Þessi heimsókn hefur ekki leitt til samskipta við nokkurn mann, hvað þá trúnaðarbrots af neinum toga,“ skrifaði Þóra Margrét.

Bjarni á vegg í Tælandi

Það var enginn skortur á Icehot1 bröndurum á meðal landsmanna. Samfélagsmiðlar fóru á kostum og ísbúðin Valdís bauð upp á sérstakan Icehot1 ís sem samanstóð af hvítu súkkulaði og chili. Hann náði miklum vinsældum. Að sjálfsögðu fékk Icehot1 greinargóða úttekt í áramótaskaupinu það árið. Icehot1 stimplaði sig aftur inn þegar að nektarbar í eigu Íslendings, opnaði undir nafninu í Pattaya í Tælandi en borgin hefur löngum haft orð á sér fyrir vændisstarfsemi. Þar á vegg var að finna veglega mynd af Bjarna og fór gjörningurinn misvel í fólk svo vægt sé til orða tekið. Ekki er vitað hvort umræddur bar sé enn starfandi.

Aðspurður síðar um Icehot1 málið gerði Bjarni grín að því og hvatti fólk til að skipta reglulega um lykilorð og fara varlega á netinu. Hann virðist þó hafa lært sína lexíu í samskiptum við internetið eins og fram kom í viðtalið við Loga Bergmann þar sem Bjarni sagði:  „Ímyndaðu þér hvað það er rosalegt hvað mikið af gögnum eru geymd í langan tíma og maður veit aldrei, í þessu samfélagi sem við búum í í dag, hvenær eitthvað sem maður sagði eða gerði, einhver samskipti sem maður átti, birtast fyrir allan almenning. Það er magnað,” sagði Bjarni Benediktsson, Icehot1.

Móðurfélag Ashley Madison þurfti að greiða háar upphæðir í skaðabætur og skipti um nafn í kjölfarið. Ashley Madison og systursíður lifa aftur á móti enn góðu lífi.

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -