Mánudagur 27. mars, 2023
0.8 C
Reykjavik

„Sjónvarpsguðirnir voru með okkur í liði“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Sjónvarpsþættirnir Mannlíf, samstarfsverkefni man.is, Mannlífs, tímarita Birtíngs og Sagafilm, eru komnir inn á Sjónvarp Símans Premium og fara í línulega dagskrá 23. mars. Stjórnandi þáttanna er Eva Ruza Miljevic sem segir vinnslu þáttanna eitt það skemmtilegasta sem hún hefur gert og lofar áhorfendum góðri skemmtun.

 

„Undirbúningur fyrir tökur þáttanna byrjaði síðasta haust,“ segir Eva spurð hvað þættirnir hafi verið lengi í vinnslu. „Þá fórum við að leggja drög að útliti þeirra og skrá niður viðmælendur og svona. Það var mjög skemmtilegt. Ég hef aldrei gert sjónvarpsþætti þannig að ég var eins og álfur út úr hól á fyrstu fundunum, en ég vann með svo ótrúlega góðu fólki hjá Sagafilm og Birtíngi þannig að ég var í mjög góðum höndum.“

Þekkja allir einhvern sniðugan

Tökur þáttanna byrjuðu í nóvember á síðasta ári og alls hafa verið gerðir átta þættir, sem Eva segir að séu að sjálfsögðu bestu sjónvarpsþættir í gjörvallri sjónvarpssögunni. „Svona ef ég tek hógværðina á þetta og legg á það kalt mat,“ segir hún og skellihlær. „Þættirnir heita Mannlíf og eru bara um mannlífið á Íslandi,“ bætir hún við spurð hvað sé svona skemmtilegt við þættina.

„Við förum um víðan völl og í hverjum þætti er eitt aðalviðtal, svona forsíðuviðtal innan gæsalappa. Þá tölum við við fólk sem er ótrúlega áhugavert og er að gera eitthvað skemmtilegt, breyta lífi sínu á einhvern hátt. Einn viðmælandinn ákvað til dæmis allt í einu að hann vildi verða þyrluflugmaður, skráði sig samdægurs í skóla úti í Svíþjóð og var floginn út að læra þyrluflug nokkrum dögum síðar. Hann hafði einhvern tímann verið að vinna kvikmyndaverkefni með Kim Kardashian og Kanye West þar sem hann fór í þyrlu í fyrsta sinn og heillaðist svona gjörsamlega.“

Hvernig funduð þið viðmælendurna í þættina? „Við bara notuðum heilann,“ segir Eva og skellir aftur upp úr. „Við köstuðum hugmyndum á milli okkar og ég spurði fjölskyldu mína og vini hvort þeim dytti einhver skemmtilegur í hug. Það þekkja allir einhvern sniðugan sem hefur gert eitthvað spennandi. Ég hef líka rosalega frjótt ímyndunarafl og frjóan huga þannig að ég var með minnisblað í símanum mínum sem var orðið stútfullt af alls konar viðmælendum og hugmyndum til að þetta gæti orðið sem fjölbreyttast. Svo var ég auðvitað undir stjórn framleiðandans Þórs Freyssonar hjá Sagafilm sem er náttúrlega bara goðsögn í bransanum og snillingur og veit nákvæmlega hvað virkar í sjónvarpi og hvað virkar ekki. Ég hneigi mig í auðmýkt fyrir honum.“

- Auglýsing -

Páskalambið varð að kolamola

Einhvers staðar hefur komið fram að meðal efnis í þáttunum sé að kenna þér eldamennsku, sem sé nánast vonlaust verk, er eitthvað til í því? „Sko, ég elska að elda!“ segir Eva. „Skápurinn minn er fullur af matreiðslubókum og ég er alltaf að halda matarboð og skrifa niður uppskriftir. Málið er bara að ég legg alltaf af stað eins og ég sé Jamie Oliver og viti nákvæmlega hvað ég er að gera. En því miður hefur það sýnt sig í gegnum tíðina að ég er ekki Jamie Oliver og ég á margar skrautlegar sögur af mér og mislukkaðri eldamennsku. Ein sú nýjasta er síðan á páskunum í fyrra, sem var í fyrsta sinn sem mamma og pabbi ætluðu ekki að elda páskamatinn ofan í fjölskylduna og treystu mér fyrir því, af einhverjum óskiljanlegum ástæðum.

„Þannig að klukkan hálfsjö á páskadagskvöld var ég í Krónunni að kaupa kótilettur.“

Ég hélt að þetta væri nú ekki mikið mál, henti lambalærinu á grillið og hafði það þar á fullum hita í fjóra klukkutíma. Það er skemmst frá því að segja að þegar ég opnaði grillið og allir á leiðinni til mín í páskasteikina var þar bara samanskroppinn kolamoli. Þannig að klukkan hálfsjö á páskadagskvöld var ég í Krónunni að kaupa kótilettur. Ég held að ég sé ekkert ein um þetta og í þáttunum erum við með Valtý Svan Reynisson, yfirkokk á Matarkjallaranum, sem fékk það stóra verkefni að kenna mér undirstöðuatriðin í eldun svona grundvallarrétta í íslensku eldhúsi; hvernig á til dæmis að gera ýsu í raspi stökka sem mér hefur aldrei tekist, hún er alltaf eins og leðja, sama hvað ég geri. Valtýr kennir okkur líka að gera grjónagraut og pönnukökur og fleira sem er ótrúlega einfalt og alla langar að gera vel, en heppnast kannski ekki alltaf, og það gerist sko alveg hjá fleirum en mér! Daginn eftir tökurnar ætlaði ég aldeilis að slá í gegn og elda stökka ýsu í raspi heima hjá mér, en það tókst nú ekki alveg. Ég verð bara að bíða eftir að sjá þættina, ég man ekkert hvernig á að gera þetta þannig að ég bíð spennt með glósubókina eftir að þættirnir komi út.“

- Auglýsing -

Veðurofsinn tók sér pásu á upptökudag

Kom eitthvað óvænt fyrir við upptökur á þáttunum, lentuð þið í einhverju klúðri? „Nei, þetta gekk allt saman ótrúlega vel, enda vorum við mjög vel skipulögð,“ segir Eva og hljómar dálítið hissa. „Það var sérstaklega skemmtilegt að þegar við vorum að taka viðtalið við þyrluflugmanninn í byrjun janúar, akkúrat þegar allar lægðirnar voru að koma yfir landið, hafði verið stormur og rauð eða appelsínugul viðvörun alla daga, en einmitt daginn sem við hittum hann var heiðskírt og fullkomið logn, eina daginn í janúar, held ég. Veðrið var svo gott að við enduðum í þyrluflugi uppi á Esjunni þar sem viðtalið var tekið. Daginn eftir var svo komin appelsínugul viðvörun og ekkert flugveður.“

Mynd / Unnur Magna

Þannig að veðurguðirnir hafa staðið með ykkur í þessu? „Já, og bara flestir sjónvarpsguðir og öll máttarvöld almennt voru með okkur í liði,“ segir Eva og skellihlær.

Akkúrat í miðjum þægindarammanum

Þurftirðu ekkert að ganga nærri sjálfri þér og stíga út fyrir þægindarammann svona í fyrsta skipti í sjónvarpi? „Ég á nú mjög auðvelt með að vera fyrir framan myndavélar,“ segir Eva og brosir sínu blíðasta. „Þannig að það vafðist ekkert fyrir mér, en þetta tók samt rosalega orku, ég var farin að finna það undir lokin að þetta hafði gengið mikið á orkubirgðirnar en ég fann eiginlega ekkert fyrir því á meðan við vorum að taka upp því þetta var svo ógeðslega skemmtilegt. Ég renndi auðvitað blint í sjóinn með þetta þegar við vorum að byrja en ég var í rauninni akkúrat í miðjum þægindarammanum mínum allan tímann, miðpunktur athyglinnar með myndavélarnar á mér.“

Ertu samt ekki með nokkur fiðrildi í maganum á meðan þú ert að bíða eftir viðtökunum? „Jú, ég er með mjög mikið af spennufiðrildum í maganum,“ segir Eva. „Ég hef svo sem engar áhyggjur af því að fólk muni ekki skemmta sér vel við að horfa á þættina, því auk aðalviðtalanna er fullt af minni innslögum sem munu grípa athyglina hjá áhorfendum. Ég held að þetta séu alveg gulltrygg Edduverðlaun, sko,“ bætir Eva við og hlær enn einu sinni sínum dillandi hlátri.

„Ég hef svo sem engar áhyggjur af því að fólk muni ekki skemmta sér vel við að horfa á þættina…“

Eru fleiri seríur í undirbúningi? „Ekki eins og er, en það eru allar dyr opnar,“ segir Eva. „Við komumst að því þegar við vorum að gera þættina að það er af nógu að taka og við erum sko alls ekki búin. Ég á enn þá listann sem ég gerði í upphafi og aldrei að vita nema við eigum eftir að nota meira af honum. Það kemur bara allt í ljós. Ég er alla vega alveg viss um að fólk á eftir að fíla þessa þætti í botn, sem mér þykir mjög vænt um því þetta var draumaverkefnið mitt.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -