2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Skiptar skoðanir um aðgerðir lögreglu við Austurvöll í gær

Margt fólk stendur með lögreglunni á meðan aðrir segja aðgerðirnar við Austurvöll í gær vera óafsakanlegar.

Aðgerðir lögreglu í gærkvöldi vegna mótmæla á Austurvelli, þar sem vakin var athygli á réttarstöðu hælisleitenda á Íslandi, hafa vakið hörð viðbrögð. Aðgerðir voru fullharkalegar að mati margra á meðan annað fólk telur aðgerðirnar hafa verið nauðsynlegar. Skiptar skoðanir eru augljósar þegar þráður á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er skoðaður.

Í þræðinum svarar lögreglan gagnrýni þeirra sem hafa sagt aðgerðirnar ofbeldisfullar og óþarfar. Tveir voru handteknir á mótmælunum.

Í færslu lögreglu segir meðan annars að ekki hafi verið sótt um leyfi fyrir mótmælunum á Austurvelli.

Þá segir meðal annars: „Á sjöunda tímanum lagði lögreglan hald á pappaspjöld og vörubretti úr fórum mótmælenda því hún taldi að verið væri að hlaða í bálköst. Mótmælendurnir reyndu að verja spjöldin og brettin með því að leggjast ofan á þau. Þurfti lögreglan þá að beita afli. Einn mótmælandinn sparkaði í lögregluþjón og var hann í kjölfarið handtekinn. Annar mótmælandi réðist þá að lögregluþjóninum sem sá um handtökuna og var sá einnig handtekinn.

Einn mótmælandinn sparkaði í lögregluþjón og var hann í kjölfarið handtekinn.

AUGLÝSING


Hluti mótmælenda gerði við það aðsúg að lögreglunni og var piparúða þá beitt. Beiting piparúðans var metið vægasta stig valdbeitingar við þessar aðstæður þar sem litið var svo á að verið væri að ráðast á lögregluna við skyldustörf,“ segir í færslunni.

Í færslunni kemur þá fram að skiljanlegt sé að það veki eftirtekt þegar lögregla neyðist til að verja sig með piparúða. „Það er ekki með ánægju sem slíkum meðölum er beitt. Lögreglan forðast þvert á móti í lengstu lög að fara valdbeitingarleiðina. Þegar hins vegar mótmæli færast yfir í skemmdarverk eða ef mótmælendur óhlýðnast beinum fyrirmælum lögreglumanna eða ráðast gegn þeim við skyldustörf þá er bæði öryggi bæði borgaranna og okkar sem störfum sem lögreglumenn, stefnt í hættu. Við því verður lögreglan ávallt að bregðast.“

Að þið skulið reyna að afsaka þessa viðbjóðslegu ofbeldishegðun.

Við færsluna lýsir fólk ýmist yfir stuðningi við lögregluna eða segir aðgerðir hennar svívirðilegar. Í ummælum segir meðal annars „Ykkar vinna er ekki öfundsverð en þið standið ykkur vel,“ og „Að þið skulið reyna að afsaka þessa viðbjóðslegu ofbeldishegðun sem nokkrir af ykkar mönnum sýndu í gær er með ólíkindum“.

Færsluna og ummælin má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.

Myndband af aðgerðum lögreglu, af Facebook-síðunni Refugees in Iceland:

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is