Skoða hvort Skúli hafi blekkt kröfuhafa

Deila

- Auglýsing -

Samkvæmt heimildum Mannlífs eru kröfuhafar WOW nú að skoða lagalega stöðu sína vegna útgáfu skuldabréfa fyrirtækisins í september 2018. WOW skilaði 22 milljarða króna tapi á síðasta ári og telja aðilar innan kröfuhafahóps fyrirtækisins ekki hafa fengið rétta mynd af fjárhagslega stöðu fyrirtækisins þegar þeir tóku þátt í skuldabréfaútgáfu WOW og lögðu um sjö milljarða króna til rekstursins (50 milljónir evra).

Umsjónaraðili útboðsins ásamt forstjóra WOW, Skúla Mogensen, kynntu framtíðarsýn WOW og fjárhagsáætlanir fyrir fjárfestum á þessum tíma. Mannlíf fjallaði fyrst um málið á þriðjudag að kröfuhafar myndu skoða lagalega stöðu sína.

Í hádegisfréttum RÚV var haft eftir Guðmundi Ingva Sigurðssyni lögmanni kröfuhafa WOW að of snemmt væri að segja til um hvort kröfuhafar skoði lagalega stöðu sína. Hann árettaði að umbreyting krafna í hlutafé gengi nú til baka, þannig að skuldabréfaeigendur geri nú kröfur í þrotabúið ásamt öðrum. Talið er að mun meira fé hafi þurft inn í rekstur WOW en gefið var til kynna við skuldabréfaútgáfu flugfélagsins.

Í september 2018 tilkynnti WOW um útgáfu skuldabréfaflokks, þar sem 50 milljónir evra voru seldar fjárfestum og tilkynnt var að 10 milljónir evra til viðbótar yrðu seldar. Skuldabréfaflokkurinn var til þriggja ára og vextir níu prósent ofan á þriggja mánaða Euribor vexti.

Í tilkynningu WOW á þessum tíma sagði: „Par­eto Securities hefur fyrir hönd WOW air umsjón með skulda­bréfa­út­boð­inu ásamt Arct­ica Fin­ance. Bréfin verða gefin út með raf­rænum hætti í Vær­dipap­ir­sentra­len ASA í Nor­egi og verða í kjöl­farið skráð til við­skipta í Nas­daq kaup­höll­inni í Stokk­hólmi. Þátt­tak­endur voru bæði inn­lendir og erlendir fjár­fest­ar.“

Skúli Mogensen, for­stjóri og eig­andi WOW air sagði við sama tilefni að niðurstaðan hafi verið mikil  hvatn­ing og þakkar fyrir þann góða stuðn­ing sem félagið hafi fengið í „gegnum þetta ferli sem og öllum þeim sem tóku þátt í útboð­in­u.“

22 milljarða taprekstur kom markaðsaðilum á óvart

Í kjölfar útboðsins var fljótlega ljóst fyrir markaðsaðilum að fjárhagsleg staða fyrirtækisins væri mun veikari en gefið hafði verið til kynna af stjórnendum WOW, bæði í fjölmiðlum sem og í kynningu til fjárfesta. Þá kom það mörgum markaðsaðilum á óvart þegar tilkynnt var um 22 milljarða króna tap WOW á síðasta ári sem gaf skýrt til kynna að mun meira fé hefði þurft inn í reksturinn en áður var gefið til kynna.

Stjórnendur Icelandair hafa komið í tvígang að samningaborðinu við WOW á síðustu vikum og mánuðum og ef marka má yfirlýsingar forstjóra og stjórnarformanns Icelandair þá virðist rekstrarstaða WOW hafa komið mönnum á óvart og mun meiri áhætta væri fólgin í aðkomu Icelandair að félaginu en talið var. Ef kröfuhafar telja sig hafa verið blekkta við útgáfu skuldabréfa með rangri upplýsingagjöf þá myndi sú málsókn væntanlega beinast að Skúla Mogensen forstjóra og stjórnarmönnum WOW.

Í viðtali við Fréttablaðið sagði Úlfar Steindórsson þann 30.nóvember 2018: „Annars vegar var ljóst að skilyrðin yrðu ekki uppfyllt og hins vegar teiknaðist upp sú staða að það var töluvert meiri áhætta en menn töldu þegar þeir lögðu af stað. Þegar þetta tvennt lagðist saman þá var niðurstaðan augljós.“

Við niðurstöðu skuldabréfaútboðs WOW í september fékkst ekki uppgefið hvaða fjárfestar tóku þátt í útboðinu en þó hefur Mannlíf áður fjallað að Skúli Mogensen hafi lagt nýja fjármuni inn á þeim tíma í formi persónulegs láns. Því til tryggingar hafi hann lagt heimili sitt og jörð í Hvalfirði að veði. Í viðtali við RÚV í gærdag sagði Skúli að hann hefði sett allt sitt í WOW: „Í setti aleiguna í þennan rekstur.“

790 milljónir króna í ný veð á fasteignir Skúla

Í umfjöllun Stundarinnar í desember var greint frá skuldastöðu Skúla Mogensen. Þar var sagt frá því að 5,7 milljónum evra (um 790 milljónum króna) hafi verið þinglýst á fasteignir í eigu Skúla og tengdum félögum í september 2018, á sama tíma og skuldabréfaútgáfa WOW fór fram. Arion banki á veð í helstu eignum Skúla samkvæmt heimildum Mannlífs.

Helstu kröfuhafar WOW air

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er eftirfarandi sundurliðin á stærstu kröfuhöfum WOW um síðustu mánaðarmót:

Skráð skuldabréf: 6,9 milljarðar króna

Lán frá Arion banka (þrjú aðskilin lán): 1,6 milljarðar króna

IBM Financing: 14,5 milljónir króna

Dell Financing: 4,6 milljónir króna

Isavia: 1,8 milljarðar króna

Avalon: 1,9 milljarðar

ALC: 1,7 milljarðar króna

ICBC: 400 milljónir króna

Goshawk: 250 milljónir króna

Rolls Royce: 446 milljónir króna

Títan Fjárfestingafélag: 769 milljónir króna

- Advertisement -

Athugasemdir