2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Skriðuflóðbylgjur afar fátíðar á Íslandi

Skriðuflóðbylgjur þar sem skriða fellur í vatn eða sjó, líkt og gerðist í Öskju, eru fátíðar á Íslandi og hingað til hefur ekki verið talin stafa mikil hætta af þeim.

Alla jafna stafar minni hætta af slíkum flóðbylgjum heldur en stórum bylgjum af völdum jarðskjálfta. Í janúar 1967 féll berg úr Steinholtsjökli niður í lón framan við jökulinn og olli flóðbylgju sem barst marga kílómetra niður Steinholtsdal og kom fram sem hlaup í Krossá og Markarfljóti. Einnig eru dæmi um að flóðbylgjur af völdum snjóflóða hafi valdið skemmdum hér á landi, til að mynda á Suðureyri við Súgandafjörð og á Siglufirði.

Hins vegar eru dæmi um mannskæðar skriðuflóðbylgjur erlendis. Í Noregi hafa skriður valdið stórum flóðbylgjum þegar þær ganga út í þrönga firði eða stöðuvötn og létust samtals 174 í þremur tilfellum, í Loen árin 1905 og 1936 og í Tafjord 1934. Árið 1963 féll skriða í Vajont-uppistöðulónið á Ítalíu og olli 250 metra hárri flóðbylgju sem grandaði tvö þúsund manns í þorpum neðan við stífluvegginn. Ein stærsta þekkta flóðbylgja af völdum berghlaups í sjó varð í Lituya-flóa í Alaska árið 1958. Risastórt berg féll í flóann eftir jarðskjálfta og náði flóðbylgjan sem myndaðist 520 metra upp í hlíðina gegnt upptökum skriðunnar.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is