2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Skrifar um gróft einelti

Rithöfundurinn Óttar M. Norðfjörð hefur lokið við nýja skáldsögu. Sagan kallast Dimmuborgir og er innblásin af óhugnanlegum sannsögulegum atburðum.

„Hún fjallar um strák sem er drepinn í eineltisárás árið 1997 og besta vin hans árið 2018 sem reynir að komast að sannleikanum um hvað gerðist í raun og veru,“ lýsir hann. „Þannig að bókin gerist á þessum tveimur tímasviðum, árið ’96-’97 þegar strákarnir eru að kynnast í 10. bekk og svo árið 2018 þegar nýjar vísbendingar koma fram um dauða annars þeirra sem sýnir að ekki var allt alveg eins og það sýndist.“

Dimmuborgir er fyrsta skálsaga Óttars í fimm ár og segir hann hana að ýmsu leyti frábrugðna fyrri verkum sínum. „Hún er til dæmis persónulegri því ég staðset strákana í sama grunnskóla og ég var í og á sama tíma og kveikjan er sannsögulegur atburður sem tengist eineltismáli í skólanum. Svo hef ég síðustu ár fengist við skrif kvikmyndahandrit sem kennir manni aðra hugsun, til dæmis þegar kemur að plotti og stíl og það laumaði sér inn í skáldsöguna.“

Að sögn Óttars hófst vinnsla á sögunni fyrir fimm árum. „Já ég byrjaði á henni þá en kláraði aldrei, það var ekki fyrr en nú í feðraorlofinu mínu sem ég gerði það og eiginlega bara alveg óvart,“ segir hann og kveðst vera mjög feginn með að hafa loksins klárað verkið.
En hvenær reiknar hann með að bókin komi út? „Líklegast verður hún ekki með í jólabókaflóðinu í ár. Ég býst frekar við að hún komi út á næsta ári,“ segir hann og því verða aðdáendur höfundarins að bíða þolinmóðir að sinni.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Ekki missa af þessum

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is