• Orðrómur

Skúli fann móður sína látna: „Þessi sjúkdómur tók hana alveg“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Skúli Isaaq Skúlason Qase er sonur Amal Rúnar Qase sem lést í janúar. Hann ræðir hér meðal annars um móður sína baráttukonuna, vanlíðan í gegnum árin vegna alkóhólismann sem hún barðist við, dauða hennar og sorgina. „Þessi sjúkdómur tók hana alveg. Gjörsamlega eyðilagði mjög sterka konu.“

 

- Auglýsing -

+

AMAL RÚN QASE

lést laugardaginn 23. janúar.

- Auglýsing -

Útförin hefur farið fram í kyrrþey

að ósk hinnar látnu.

Hún var drottning.

- Auglýsing -

 

Skúli Isaaq Skúlason Qase

 

 

Amal Rún látin? Svona ung?

 

Dánartilkynningin birtist um miðjan febrúar. Svarthvít mynd af glæsilegu sómölsku konunni sem flutti til eyjarinnar í norðri á 9. áratugnum. Óljósar minningar um hana í fjölmiðlum frá þeim tíma þar sem hún barðist gegn óréttlæti, fór í framboð og svo vissi maður að hún hafði eignast son með manni í viðskiptalífinu.

 

Dáin?

 

Nokkrum dögum síðar var blaðamaður beðinn um að taka viðtal við son Amal Rúnar, Skúla.

„Ræða rasismann og baráttuna.“

 

SMS. Væri hann til í viðtal um baráttu mömmu hans? Samúðarkveðja.

 

„Uuu jaja hvenær?“

 

Tími ákveðinn.

 

Þegar upp var staðið varð viðtalið strax á fyrstu mínútu um miklu meira en rasismann og baráttu móður hans.

 

Baráttukona

Hann er glæsilegur; líkur mömmu sinni.

 

Elskulegur.

 

Einlægur.

 

Einlægur í sorginni.

 

Andlátstilkynningin berst í tal. „Hún var ekki birt fyrr en það var búið að brenna mömmu. 10 dögum eftir útförina. Það var ekki alltaf „elsku mamma“ og valdi ég því að hafa að hún hafi verið drottning; ég vildi ekki að þetta kæmi út öðruvísi en þetta var í alvörunni. Auðvitað elskuðum við hvort annað. En æska mín var stundum mjög erfið því mamma var alkóhólisti. Því miður. Hún var alkóhólisti til margra ára; alveg frá því áður en ég fæddist. Samband okkar mömmu varð ekki gott fyrr en fyrir nokkrum árum; kannski 10 árum. Níu árum. Það var allt mjög erfitt á heimilinu okkar. Hún drakk svo heiftarlega til síðasta dags þannig að það var stundum mjög erfitt að tala við hana.“

 

Amal Qase fæddist í Sómalíu árið 1963.

 

„Allir í fjölskyldunni eru með eftirnafn afa míns í föðurætt en mamma ákvað að taka eftirnafn mömmu sinnar sem er eftirnafnið sem ég er með, Qase. Við djókuðum mikið með að við værum bara tvö eftir í ættinni með það nafn. Nú er ég bara einn eftir.

 

Ég veit mjög lítið um æsku mömmu. Ég man ekki hve mörg systkinin voru. Ég held að þau hafi verið sjö. Átta. Ég veit að afi var dálítið strangur. Ég hef aldrei séð ömmu mína og afa. Ég hef aldrei séð neinar myndir. Ég veit ekkert hvernig þau litu út. Ég hef bara hitt tvo bræður mömmu. Svo veit ég að systir hennar átti 10 börn úti í Sómalíu og samband þeirra var mjög fjárhagslegt; mamma sendi peninga til hennar og eftir að ég fæddist og alvarleikinn tók við þá gat hún kannski ekki sent jafnmikið og áður eða neitt yfir höfuð og þá dó sambandið á milli þeirra. Því miður.“

„Þesar konur voru oftar en ekki með börn og hún talaði meðal annars um réttindi þeirra en það er x mikið sem athvörf og stofnanir geta gert fyrir þær af því að þær þurfa líka að taka slaginn sjálfar.“

Hann talar svolítið um æskuár móður sinnar. „Hún sagði mér oft litlar sögur eins og þegar hún fann einu sinni strút og tók hann með sér heim. Þetta var ungi. Og hún fékk að eiga hann á meðan hún sá um hann. Ég vissi að þegar krakkarnir vildu leika sér saman þá fóru þeir upp á þak og gerðu flautu með höndunum og flautuðu og þeir sem heyrðu það komu og gerðu svo það sama.

 

Ég vissi til dæmis að þau þurftu að pissa úti og mamma talaði oft um það að ef hún þurfti að pissa á næturna þá pissaði hún frekar í eitthvert horn af því að hýenur löbbuðu í gegnum bæinn á kvöldin. Hún gat ekki treyst neinu.“

 

Það var erfitt að vera kona í Sómalíu. „Þetta voru ömurlegar aðstæður sem hún vildi ekki búa við og flúði eina nóttina þegar hún var 13 eða 14 ára til að fara til Saudí-Arabíu. Hún fór ein. Tók lest. Ég veit ekki hvort hún hafi verið á úlfalda hluta leiðarinnar. Þetta var svo hættulegt fyrir hana. Ef einhver karlmaður hefði fundið hana hefði henni getað verið nauðgað og hún drepin og skilin einhvers staðar eftir og enginn hefði blikkað augunum. Það voru þannig tímar. Því miður. Það var ekki búin að vera ríkisstjórn í Sómalíu í um 30 ár. Það var allt dálítið að fara í vaskinn. Enginn að græða almennilegan pening.

 

Hún bjó hjá frænda sínum og konunni hanas í Saudí-Arabíu sem var þá mekka eða Hollywood Miðausturlandanna. Þar þurfti ekkert að hylja sig og var fólk í litríkum fötum og allir hippar þannig séð. En svo ætluðu þau að gifta hana einhverjum gaur nokkrum árum síðar. Hún ákvað þess vegna að flýja aftur og fór í háskóla í London þar sem hún lærði stjórnmálafræði. Og vann með námi.“

 

Skúli heldur að móðir hans hafi búið í London í fjögur ár.

 

Baráttukona

Amal flutti til Íslands árið 1987.

 

Hvers vegna Ísland?

 

„Ég held hún hafi heyrt af okkur. Hún vissi að þetta væri góður staður til að lifa á. Miðað við aðstæðurnar sem hún var í þá þurfti ekki mikið til að vera góður staður til að lifa á. Ég held hún hafi fyrst ætlað að vera hérna í smátíma en svo leist henni svo vel á þetta að hún ákvað að vera eins og gerist hjá fólki.“

 

Amal vann hjá Hampiðjunni og síðan hjá Henson þar sem hún saumaði galla. Og hún lagði áherslu á að læra íslensku en hún hafði gott vald á tungumálinu. Hún lærði líka upplýsingatækni.

 

Amal var réttsýn. Eldklár. Og hún barðist fyrir réttindum annarra. Mannréttindum innflytjenda og einstæðra mæðra. Skúli segir að hún hafi haldið fyrirlestra sérstaklega fyrir konur af erlendum uppruna. „Þesar konur voru oftar en ekki með börn og hún talaði meðal annars um réttindi þeirra en það er x mikið sem athvörf og stofnanir geta gert fyrir þær af því að þær þurfa líka að taka slaginn sjálfar. Þetta gaf þeim tækifæri og hjálpaði þeim að aðlagast. Það hjálpaði þeim að mamma var næstum því í sömu stöðu og þær. Ég var mjög glaður að heyra þetta og líka mjög stoltur að vita það að hún sá hvað þurfti að gera fyrir einstæðar mæður. Hún sagði mikið frá sinni sögu og styrkti fólk í gegnum það.

„Ég var það eina sem hún átti og hef alltaf verið. Hún vakti yfir mér. Mér fannst það mjög krúttlegt að hún hafi „paranojað“; hafi ekki meikað það. Er það ekki alltaf þannig fyrstu dagana að fólk starir bara á barnið?“

Ég var að sjá í minningargrein sem einhver skrifaði að hún barðist fyrir réttindum stráka sem mér finnst vera mjög fyndið – að kona í algjörum minnihlutahópi skuli hafa barist fyrir réttindum karla. Mér finnst það vera ótrúlega kaldhæðið miðað við hvernig tímarnir voru. Það huggar mig að hún var með fullkomið sens af réttlæti; alveg sama af hvaða kyni fólk var. Það átti ekki að mismuna neinum. Þótt fólk til dæmis frá 3. heiminum sé með gráðu þá gildir hún mjög lítið á Íslandi. Mamma besta vinar míns, sem er frá Namibíu, er lögfræðingur. Hún fékk ekki lögfræðidjobb á Íslandi heldur fór að skúra. Hún eyddi tímanum sínum í eitthvað nám í Afríku og það gagnaðist henni ekkert á Íslandi.“

 

Amal fór í framboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn; reyndi að komast inn í borgarstjórn í kosningunum árið 1994. „Hún vildi ekki fara út í pólitík án þess að kunna íslensku vel,“ segir Skúli enda lagði móðir hans mikla áherslu á að ná góðu valdi á tungumálinu. „Hver var að fara að kjósa einhvern í einhverjum flokkskosningum eða öðru ef viðkomandi gat ekki sagt stakt orð? Hún nýtti allan tímann í að læra íslensku. Og hún kunni íslensku alveg í gegn. Það voru samt litlir hlutir. Mér fannst til dæmis vera ótrúlega fyndið að hún sagði alltaf ulpa. Ekki úlpa. Að klikka á svona litlum hlutum! Hún var basically að aðlagast fyrstu árin og hún vissi náttúrlega hvað hún vildi gera. Hún var með þetta nám á bakinu og fattaði hvað hún þurfti að gera. Hún var eitthvað í kringum stjórnmál eftir kosningarnar. Hún var með puttana einhvers staðar í einhverri pólitík. Svo held ég að hún hafi hætt. Ég held hún hafi fengið nóg. Svo fór hún að vinna á skrifstofu Landakotsspítala og vann meðal annars við að bóka tíma.“

 

Amal var baráttukona. „Hún vissi í hverju basic mannréttindi felast. Við eigum öll að vita hver réttindi okkar eru. Hún var búin að fá nóg eins og við öll við að sjá hvernig komið er fram við náungann. Það eru hins vegar ekki allir með hreðjarnar eða nennuna til að standa í svona en ég held að mælirinn hafi fyllst hjá henni og hún sagði hingað og ekki lengra.

 

Mamma sagði oft að ef einhver gerði grín að hárinu á mér eða húðlitnum þá ætti ég aldrei að svara. Aldrei að leyfa neinum að gera grín að mér. Og þannig horfði ég á heiminn. Ég gerði aldrei neitt. Hún var bara almennileg manneskja. Guð veit hversu mikið hún var búin að fara í gegnum út af hörundslit eða hári. Af hverju ætti ég að vera annars flokks þegn? Svartar konur slétta á sér hárið til þess að komast í starfsviðtal. Stanslaust. Stanslaust er þumall á þeim sem heldur þeim niðri. Mamma var svo sterk eftir alla þessa pressu. Því miður hefur fólk tekið sitt eigið líf fyrir töluvert minni hluti. Þetta var ótrúlega mikil pressa sem hún var með á sér frá fæðingu.“

 

Amal Rún varð oft fyrir fordómum á Íslandi. „Ég las nýlega gamalt viðtal við hana og hætti að lesa það þegar ég las að hún hefði lent í slagsmálum við karlmenn á börum niðri í bæ. Þeir voru að reyna við hana og þegar hún vildi að þeir létu sig í friði þá urðu þeir agressívir og gripu í hana og þá kýldi hún þá. Ég lokaði blaðinu strax. Ég spurði mömmu hvort að karlmenn hafi verið að leggja hendur á hana. Hún sagði: „Ástin mín, ég sýndi þeim bara nákvæmlega hvar Davíð keypti ölið.“ Ég bara „yes“! Þetta minnti mig á að reita hana aldrei aftur til reiði.“

 

Einstæð móðir

Amal Rún kynntist föður Skúla, viðskiptamanninum Skúla Þorvaldssyni, og fæddist sonurinn árið 1993. Skúli yngri segir að þau hafi aldrei verið par þannig séð. „Hún ætlaði aldrei í fóstureyðingu. Hún sagði við mig að hún hafi ekki viljað neinn pening.

 

Fyrstu sjö mánuðina í lífi mínu var ég ekki frá neinum stað út af því að börn sem fæðast á Íslandi fá þjóðerni móður sinnar og vegabréfið hennar mömmu var útrunnið og svo var ekkert sómalskt sendiráð hér eða sómölsk ríkisstjórn á þessum tíma. Þannig að hún var ekki frá neinu landi. Og ég ekki heldur.“ Hann var landlaus.

 

Einstæð móðir í nýju landi.

 

Amal Rún fékk stuðningsfjölskyldu eftir að Skúli fæddist til að hjálpa sér fyrstu mánuðina; hann segir að sú fjölskylda sé fjölskylda sín í dag og talar um ömmu sína og afa og frænku og frænda. Hann segir að stuðningsfjölskyldan hafi viljað vera hluti af lífi hans áfram.

„Ég sá mikið um mömmu upp úr fermingu. Þetta var allt mjög erfitt. Þessi sjúkdómur tók hana alveg. Gjörsamlega eyðilagði mjög sterka konu.“

„Mamma fékk þau upphaflega til að aðstoða sig af því að hún var svo hrædd eftir að ég fæddist. Hún fékk fyrst engan stuðning og hún þorði fyrst ekki að sofa á næturnar eftir að ég fæddist. Og eftir að hún fór aftur að vinna þá vann hún frá átta til fjögur og svaf svo frá fimm til níu og sótti mig svo til stuðningsfjölskyldunnar. Svo vakti hún á nóttunni af því að hún var hrædd um að hún myndi ekki vakna ef ég færi að gráta. Ég var það eina sem hún átti og hef alltaf verið. Hún vakti yfir mér. Mér fannst það mjög krúttlegt að hún hafi „paranojað“; hafi ekki meikað það. Er það ekki alltaf þannig fyrstu dagana að fólk starir bara á barnið?“

 

Skúli segist vera í sambandi við föður sinn sem býr erlendis. „Samband okkar er eins og það er. Það hefur verið betra síðustu ár. Hann hringir af og til svo sem á afmælisdeginum mínum. Þegar haldið var upp á sjö ára afmælið mitt sagði mamma að pabbi væri þarna. Ég benti á hann og spurði hvort þetta væri hann. Heimurinn minn var bara mamma. Við áttum bara hvort annað. Það vorum alltaf bara við tvö. Ég á hálfbróður sem er þremur árum yngri en mamma. Hann varð síðan mikið inn í lífinu mínu og hann var næstum því í föðurhlutverki. Hann gerði allt sem hann gat fyrir mig og hefur alltaf verið partur af lífi mínu. Og pabbi þannig lagað séð líka. Hann gerði það sem hann gat. Pabbi hjálpaði til dæmis mömmu að kaupa íbúð sem hún borgaði upp. Ég veit ekki hversu djúpt ég á að fara út í þetta. Það er helvíti mikið verk að vera foreldri en það þarf að vera present – setja plástur á hné og koma á píanóæfingar. Þetta hefur þó alltaf verið „in the distance“.“ Ég sagði aldrei fólki á unglingsárunum að ég væri Skúlason. Ég sagði alltaf Skúli Isaaq Qase. Þetta kenndi mér hvernig foreldri ég vil vera. Ég hlakka til að verða faðir þótt ég sé ekki tilbúinn núna – ég vil fá að gefa frá mér það sem vantaði hjá mér. Það er samt ekki eins og hann elski mig ekki.“

„Þetta voru ömurlegar aðstæður sem hún vildi ekki búa við og flúði eina nóttina þegar hún var 13 eða 14 ára til að fara til Saudí-Arabíu. Hún fór ein.“

Isaaq

Hann segir að Isaaq sé ættbálksnafn. „Það eru 24 fjölskyldur í Sómalíu með þetta nafn. Mamma sagði einu sinni þegar hryðjuerkagrúppur byrjuðu að fara í gegnum Afríku að ég þyrfti að taka út nafnið Isaaq af því að fjölskyldumeðlimir með þessu nafni væru drepnir. Ég hélt að hún væri eitthvað að fokkast í mér. Eitthvað að grínast. Svo sagði hún fyrir þremur eða fjórum árum að ég myndi ekki þurfa að breyta nafninu mínu. Jesús kristur. Ég skil af hverju hún fór frá Sómalíu.“

 

Fyrirsætan og baráttukonan fræga Waris Dirie er einnig frá Sómalíu en hún er meðal annars þekkt fyrir bók sína Eyðimerkurblómið og var kvikmynd um hana nýlega sýnd á RÚV. Þær Amal Rún þekktust. Dirie kom hingað til lands vegna útgáfu bókar sinnar og þá hittust þær.

 

„Amma, afi og mamma hjálpuðu Waris þegar hún var á götunni í Sómalíu í gamla daga. Mér finnst það vera mjög fallegt af þeim.“ Dirie hefur meðal annars vakið athygli á umskurði stúlkna. „Ég man að Waris var með stutt hár. Ég held hún sé fyrsta manneskjan í minningunni sem mér fannst vera dekkri heldur en mamma mín. Ég sá svo lítið af lituðu fólki. Ég man að hún var að segja mér einhverjar sögur og ég sat í kjöltunni á henni í Máli og menningu þar sem hún var að árita bækur. Þetta er samt meira tilfinning heldur en minning.“

 

Skúli er spurður hvaða áhrif það hafi á hann að vita hvernig er komið fram við konur sums staðar erlendis.

 

„Við vinirnir erum allir í listamannahópi; þetta byrjaði á þeim sem eru að gera tónlist en nú eru þetta líka tattúartistar og myndlistarmenn. Við köllum okkur OTEM – orð til einstæðra mæðra af því að einstæðar mæður ólu flesta okkur upp. Tvær af þremur af þeim stelpum sem ég þekki hafa til dæmis lent í einhverri misnotkun svo sem kynferðislegu áreiti niðri í bæ á djamminu. Ég ber virðingu fyrir konum og er kurteis; það er ekki sjálfsagt og það er góður eiginleiki að hafa. Ég vil ekki að mamma mín, systir mín, frænka, dóttir mín eða amma mín komist ekki nógu langt í lífinu bara út af kyninu sínu – alveg eins og mamma gerði út af kyni og lit. Konur verða fyrir constant áreiti. Að vera kona í hvaða samfélagi sem er er áreiti through og through. Þannig að ég tek bara hattinn minn af fyrir þér og öllum öðrum konum. Mamma var alltaf hetjan mín af því að hún var ein hérna, hún lærði tungumálið okkar bara til þess að taka okkur síðan í gegn í pólitík. Hún gerði allt. Hún var á undan sínum samtíma. Ég held að Ísland hafi ekki verið tilbúið fyrir hana. Hún var uppi í rassgatinu á þjóðinni að reyna að breyta hlutum og það var svo mikið mótlæti. Ég veit ekki hvernig hún fokking fór að þessu. Hún var með eitthvað sens á réttlæti. Það er bara alltaf hægt að gera suma hluti betur þó þeir gangi ótrúlega vel eins og á Íslandi. Það er mikið um fordóma á Íslandi. Ísland er þó góður staður fyrir innflytjendur. Og ég trúi því og bara veit að það er fólki eins og móður minni að þakka.“

 

Sjálfur hefur Skúli orðið fyrir fordómum á fullorðinsárum. „Algjörlega. Nógu oft. Stundum fattar fólk það ekki sjálft. Af hverju er það að bögga fólk ef aðrir eru litaðir? Hvernig nennir fólk þessu?“

 

Alkóhólismi

Skúli er spurður um fyrstu minninguna.

 

„Ég held að ein fyrsta minningin sé að ég var á leikskóla að borða hundasúrur. Svo fluttum við mamma á Hringbrautina. Þar var hóll, sem er búið að taka, og þar sátum við oft og sóluðum okkur.“

 

Hann segir að mamma hans hafi verið farin að drekka áður en hann fæddist. „Ég fór að taka eftir þessu þegar ég var um níu ára. Ég tók eftir því að það var ekki alltaf til matur. Kannski bara brauð. Þegar ég var 11 ára þá kunni ég að elda hafragraut og sjóða núðlur. Og það á ekkert 11 ára barn að standa yfir heitri hellu. Það var mikið sem kikkaði inn.“

„Guð veit hversu mikið hún var búin að fara í gegnum út af hörundslit eða hári. Af hverju ætti ég að vera annars flokks þegn?“

Hann dreymdi um að verða fótboltamaður. Var í KR. Hann lærði á píanó og gítar og segist síðan hafa kennt sjálfum sér á bassa.

 

„Mamma mætti aldrei á fótboltaæfingar. Mamma mætti aldrei á leiki hvað þá að koma með mér til Eyja eða Akureyrar á eitthvert Essó-mót.“

 

Hann gekk í Landakotsskóla. „Skóli var aldrei mitt thing. Ég vildi þó verða sagnfræðingur á tímabili en ég hef alltaf haft áhuga á sögu. Svo vildi ég fara í tölvunarfræði en ég fattaði að ég myndi ekki meika það; ég er ömurlegur í stærðfræði.“ Hann kláraði ekki menntaskóla heldur fór ungur á vinnumarkaðinn og er núna ásamt vinnu sem stuðningsfulltrúi í Melaskóla að fara að klára stúdentspróf í fjarnámi frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Svo semur hann tónlist. Hann er rappari og kallar sig M.V. Elyahsyn – og er í hljómsveit sem spratt upp úr listahópnum OTEM. Og það er búið að gefa út plötu. Þríeykið Regn gaf svo út plötu í hittifyrra. Platan kallast Úrkoma og er aðgengileg á Spotify.

„Hún var ótrúlega heilsteypt kona en þetta vín tók hana alveg. Þetta var orðið þannig að maður var næstum því að bíða eftir þessu – að hún dæi; ég pældi stundum í hvort skrokkurinn höndlaði þetta. Þetta var orðið of mikið. Þetta varð að falli hennar.“

„Svo varð maður táningur. Og það kom að því að mamma byrjaði að sofa mjög lítið og varð dálítið mikill nátthrafn. Hún byrjaði að taka svefnlyf og svona svefnlyf eru náttúrlega algjört bull, sérstaklega ef þetta er á svona háu stigi af því að hún var á sterkasta skammtinum. Hún var stundum samt að vakna og þá var hún í algjöru móki. Ef hún var að drekka með þessu þá sá ég hana stundum kannski labba fram og inn í stofu og hún vissi ekkert hvað var í gangi í kringum sig. Hún var kannski að tala við mig og hélt hún væri að tala við einhvern annan. Það var mikið af átakanlegu sjitti. Ef ég á að vera hreinskilinn þá var þetta ótrúlega erfitt. Það var í margar nætur sem var öskrað í koddann og hágrátið. En á sama tíma og eins mikið og ég átti það til að hata hana þá var þetta mamma mín og það mátti enginn vera dónalegur við hana. Fattar þú hvað ég meina? Bara ég mátti öskra á hana. Og það var mjög átakanlegt í mörg ár að reyna að fá hana í meðferð. Þetta var allt mjög erfitt. Hún var ótrúlega stygg og þrjósk. Ég fékk það frá henni. Ég skammaðist mín alltaf mjög mikið. Og ég hataði hana á tímabili þegar ég var yngri og táningur og þegar enginn skildi mig. Samband okkar var mjög erfitt. Mjög erfitt,“ segir Skúli með áherslu. „Ég skildi meira þegar ég varð eldri. Maður kannski fyrirgefur sumt en maður er aldrei að réttlæta neitt en maður skilur. Og í gegnum þetta allt þá gerði hún ennþá hlutina sem hún gerði áður en ég fæddist og ég gæti ekki verið stoltari af manneskjunni sem hún var. Ég hlakka til að segja börnunum mínum hvaða blóð rennur í þeim.“

 

Skúli segir að fyrir utan alkóhólismann hafi mamma sín verið mjög þunglynd. „Hún sagði við mig að hún hefði margoft hugsað um að taka eigið líf. Hún sagði líka að hún gæti það aldrei út af mér; ég vissi alltaf að hún væri ekki í suicidal risk. Þegar haldið var upp á sjö ára afmælið mitt kom ég að henni þar sem hún var búin að brjóta ljósakrónu, taka úr henni vír og hún sat grátandi með vírinn utan um hálsinn á sér. Ég skildi ekkert hvað væri í gangi. Það var dálítið fucked up að ég þurfti að horfa upp á þetta. Ég vona að barnið mitt þurfi ekki að fara í gegnum þetta. Ég þurfti að horfa upp á margt.

 

Ég sá mikið um mömmu upp úr fermingu. Þetta var allt mjög erfitt. Þessi sjúkdómur tók hana alveg. Gjörsamlega eyðilagði mjög sterka konu. Áfengið og þunglyndið tengist því að hún var að flýja eitthvað shit og drakk til að reyna að gleyma því. Svo varð þetta endalaus vítahringur. Svo varð hún öryrki. Ég er viss um að ég drykki örugglega jafnheiftarlega og hún ef ég hefði lent í sömu hlutum og hún. Maður skildi þetta alveg. Ég réttlætti aldrei hlutina sem hún gerði þegar hún var í glasi en ég skildi alveg af hverju hún drakk. Það var bara til að flýja suma hluti. Ég held til dæmis að hún hafi séð frænda sinn vera eitthvað að misnota yngri bróður hennar. Ég held hún hafi ekki lent í neinu en systkinin voru rassskellt og lamin. Þannig voru þau öguð á þessum tíma.

 

Hún lamdi mig aldrei. En þetta var mjög erfitt. Þetta var toxic samband. Þetta var andlegt ofbeldi án þess að hún fattaði það af því að þegar hún var edrú þá var ég heimurinn hennar; ég var náttúrlega heimurinn hennar sem gerði þetta svo leiðinlegt og sorglegt. Ég var mjög ungur þegar ég fattaði hversu mikil veiki þetta er. Ég á ekki að vera í kringum fermingaraldur og vita hvað alkóhólismi er og hvaða áhrif hann hefur. En ég myndi ekki skipta þessu út fyrir neitt. Þetta var tíminn okkar og ég er manneskjan sem ég er í dag út af þessu öllu. Við mamma rifumst mikið og ef það kenndi mér eitthvað þá er það að standa alltaf fyrir öllu því sem ég trúi á. Ég hef aldrei bakkað út úr neinu. Mamma kenndi mér líka að biðjast afsökunar ef ég hef rangt fyrir mér.

 

Ég man að ég fór í 9. bekk að byrja að útskýra fyrir strákunum í bekknum af hverju við hefðum ekki síðastliðin fjögur ár verið að tjilla heima hjá mér. Mér fannst ekki vera erfitt að segja þeim ástæðuna. Það var bara kominn tími til þess.

 

Ég var líka svo meðvirkur gagnvart mömmu. Mamma var veik þegar hún var þunn. Ég þurfti alltaf að læðast á tánum í kringum hana eins og ég hefði gert henni eitthvað af því að hún varð ósjálfrátt pirruð. Var bara með skæting við mig. Lét mér líða á certain way. Þá byrjaði ég að rífast eða öskra af því að ég what the fuck. Þetta gerðist meira með árunum þegar ég varð táningur; ég ætlaði ekki að þiggja þennan skít.“

„Ef ég á að vera hreinskilinn þá var þetta ótrúlega erfitt. Það var í margar nætur sem var öskrað í koddann og hágrátið.“

Áfengi

Skúli flutti þegar hann var í 7. bekk til frænku sinnar þar sem hann bjó í eitt og hálft ár og fór svo til ömmu sinnar og afa þar sem hann bjó um tíma. „Ég fékk nóg af að búa hjá mömmu. Ég gat ekki lengur verið í þessum aðstæðum. Við mamma elskuðum hvort annað en við gátum ekki búið saman. Við gátum ekki verið í aðstæðum þar sem við vorum að anda ofan í hálsmálið á hvort öðru af því að þá byrjuðum við að rífast. Við vorum þrjósk og stygg. Hún var líka mjög oft í glasi og þá vildi hún að við töluðum saman og ég nennti því ekki. Ég var fyrir löngu kominn með PDSD, áfallastreituröskun, út af henni þegar hún var full. Ég nennti þá ekki að tala við hana yfir höfuð. Það voru samt ekkert alltaf leiðinlegar samræður. Stundum hlógum við saman.

 

Þetta kenndi mér margt. Þetta kenndi mér að ég ætla ekki að láta einhvern valta yfir mig í rifrildi þótt ég viti að ég hafi rétt fyrir mér. Ég veit hvernig ég vil láta tala við mig sem manneskju. Og ég veit hvernig ég á ekki að tala við fólk. Þetta kenndi mér líka að vera ekki að eyða lífinu í að vera að pirra mig yfir einhverju sem ég annaðhvort gat ekki breytt svo sem fordóma; djöfull hlýtur það fólk að vera reitt allan daginn sem hatar litað fólk eða samkynhneigða. Alltaf. Ég myndi ekki nenna að vera rasisti. Þetta er of mikil vinna. Það er impressive hvað þeir nenna þessu.“

 

Skúli fór að drekka á unglingsárunum. Hann drakk of mikið og fór í meðferð um tvítugt. „Ég veit hvað áfengi getur gert fólki. Mér fannst ég verða dálítið eins og mamma. Ekki leiðinlegur heldur fucked. Ég tékkaði mig inn á Vog ef ég skyldi geta drepið þetta í fæðingu og það gerði ég.“

 

Hann hefur drukkið síðan. „Ég var edrú í fyrra í sjö mánuði. Ef mér finnst ég vera búinn að fá mér of mikið þá tek ég pásu.“

 

Hann fór í Tækniskólann en hætti eftir tveggja ára nám. Hann gerði ýmislegt næstu árin. Hann vann í mötuneytinu og við að selja áskrift hjá Stöð 2, hann vann á veitingastöðum, börum og í herrafaraverslun og svo vinnur hann sem stuðningsfulltrúi í grunnskóla.

„Ég ætla að leyfa henni að fara aftur í jörðina sem hún kom úr. Ég ætla að dreifa henni í sandinn. Það verður eitthvað.“

Látin

Skúli fór að fara til sálfræðings fyrir nokkrum árum til að vinna í sínum málum.

„En þetta situr í manni. Ég þurfti bara að vinna í gegnum þetta – það er of mikið sem ég er búinn að sitja á. Þetta hefur áhrif á skapið mitt og vellíðan. Bara af því að ég hef sætt mig við að þetta hafi gerst þá þýðir það ekki að ég sé hættur að vinna mig út úr þessu bara út af því að ég er hættur að gráta út af þessu. Mamma gerði margt ómeðvitað og mundi ekki eftir sumu og hélt ég væri stundum að ljúga upp á sig. Þegar ég var barn þá fór ég stundum að efast um sjálfan mig. Var þetta draumur? Þegar ég varð eldri fattaði ég að þetta var ekki fokking draumur; þá var þetta svo fokking sjúkt þegar ég hélt að ég væri að bulla. Þetta var mikið psychological warfare.“

 

Skúli er spurður hvaða áhrif sálfræðingurinn hefur sagt að drykkja móður hans og ástandið á heimilinu hafi haft á hann.

 

„Ég er stressaður. Allt mitt líf hef ég verið að vonast eftir því besta en búist við því versta. Og ég er smáþunglyndur. Ég fer núna til sálfræðingsins á tveggja mánaða fresti en ég fór fyrst einu sinni í mánuði. Þetta hjálpaði sambandi okkar mömmu. Það hefur ekkert nema gott komið út úr þessu. Ég er ennþá að díla við það sem gerðist í æskunni. Og nú þetta. Dauði mömmu. Hún var ótrúlega heilsteypt kona en þetta vín tók hana alveg. Þetta var orðið þannig að maður var næstum því að bíða eftir þessu – að hún dæi; ég pældi stundum í hvort skrokkurinn höndlaði þetta. Þetta var orðið of mikið. Þetta varð að falli hennar.“

 

Amal Rún Qase lést á heimili sínu laugaradaginn 23. janúar. Skúli fann hana látna.

 

„Þetta, drykkjan, var klárlega að falli hennar. Hún er á betri stað. Núna er þjáningin hennar búin.“

 

Skúli segist þurfa að fara út að reykja. Hann kveikir í.

 

„Ég hafði talað við hana kvöldið áður. Guði sé lof – það síðasta sem ég sagði við hana var: „Góða nótt, ég elska þig.“ Við ætluðum að hittast daginn eftir. Ég ætlaði í búð sem er rétt hjá heimili hennar. Hverfisbúð. Svo fann ég hana dána. Þetta er það erfiðasta sem ég hef upplifað. Sjúkraliðar komu og svo var sagt að hún væri látin. Ég fékk kvíðakast; andaði eins og hef aldrei andað áður. Þetta tók allt úr mér. Ég man að það fyrsta sem ég hugsaði var að mig langaði til að vera hræddur á almannafæri, vera lítill, hlaupa á bak við mömmu og biðja hana um að verja mig.“

„Allt sem ég er og allt sem ég geri er henni að þakka. Og allt sem ég mun gera verður gert í nafni hennar. Ég sá síðustu árin að hún gerði allt sem hún gat fyrir mig. Og hún skuldar mér ekki neitt.“

Hann þagnar. Berst við grátinn.

 

„Afsakið. Bíddu aðeins.“

 

Þögn.

 

„Þetta var mamma mín, sko.·

 

Andvarpar.

 

„Þetta var focking leiðinlegt.“

 

Þögn.

 

„Þetta breytir manni gjörsamlega. Breytir öllu. Completely.“

 

Þögn.

 

„Alveg sama hversu skítt ástandið var þá vissi ég að mamma elskaði mig.

 

Það leiðinlegasta var að díla við allt þetta jarðarfararkjaftæði. Fjölskylda mín hjálpaði mér en ég tók allar ákvarðanir en ég vissi hvernig mamma vildi hafa þetta. Þetta var allt eftir hennar óskum. Jarðarförin hefði ekki getað farið betur.

 

Það var enginn prestur. Enginn söngvari. Ég vildi ekki að einhver talaði sem vissi ekkert hver hún hafði verið og sem hefði bara fengið einhverjar staðreyndir frá mér. Það var ekkert show. Ég setti bara á lag. Það var enginn að syngja. Þetta var taktur sem var í gangi á meðan fólk kom inn; ég hafði beðið fólk um að koma ekki svartklætt heldur vera litríkt og flott – þetta var kveðjupartí; við vorum að fara að kveðja legend. Goðsögn. Drottningu. Móður mína. Fólk virti þær óskir mínar og kom í sínu fínasta; það var mjög flott og var klassi á því. Við gerðum gott úr þessu. Svo slökkti ég á tónlistinni og hélt ræðu. Og síðan bar ég kistuna út með öðrum. Svo var hún brennd.“

 

Engin erfidrykkja. Sumir vinir Skúla fóru á veitingahús að fá sér að borða. Hann fór heim ásamt vinkonu sinni. „Ég meikaði ekki að fara út að borða með vinum mínum. Það var erfitt að vera í kringum margt fólk. Ég og besta vinkona mín fórum heim eftir jarðarförina en við höfðum farið í ríkið daginn áður og fengum okkur bjór. Það var ógeðslega næs. Mjög huggulegt að geta einmitt orðið smá tipsí og aðeins cut loose. Þetta var búið að vera svo átakanlegt.“

 

Þögn.

 

Sorgin

Sorgin. Sorgin svíður.

 

„Ég er búinn að fá stuðing frá vinum, fjölskyldu og vinnuveitendum; þetta er allt búið að vera mjög huggulegt. Svo eru allir svo hræddir; maður má ekki vera einn. Stundum er næs að vera einn með sjálfum sér og hugsa til mömmu. Það er alveg nóg.

„Hver einasti dagur er ný áskorun. Ég þarf stundum að fara út úr aðstæðum; annars brotna ég niður. Maður er aldrei samur eftir að maður lendir í svona.“

Að missa hana er ótrúlega átakanlegt. Ég gæti alltaf verið uppi í rúmi, hætt að vinna og farið í þunglyndiskast en ég get líka gert eitthvað í þessu.

 

Fólk er búið að vera að spyrja mig hvernig ég sé og það eina sem ég get sagt er að ég er óraunverulegur. Stundum finn ég ekki neitt. Ég er að fá svo mikið af minnisglöpum út af sjokkinu. Ég er að klikka á litlum hlutum eins og að skrúfa fyrir og frá. Svo er ég að venja mig á ýmislegt svo sem að segja „hún hét“, „hún var“ „hún sagði“ og „hún gerði“.

 

Besta vinkona mín kom á vettvanginn þegar mamma dó en ég hringdi strax í hana. Hún var presturinn minn í gegnum þetta allt. Það hefur hjálpað mér mikið að vera með henni. Hún missti föður sinn þegar hún var ung þannig að hún þekkir þetta mjög vel. Þetta er einn dagur í einu með smáklípu af salti. Þetta er einn dagur í einu. Og sumir dagar eru betri en aðrir. Þetta er rússíbani af tilfinningum. Ég þori ekki að plana mig; ég veit ekkert hvernig ég verð á morgun.

„Svo er ég að venja mig á ýmislegt svo sem að segja „hún hét“, „hún var“ „hún sagði“ og „hún gerði“.“

Ég hef í gegnum lífið ekki verið nógu duglegur að vinna mig út úr eigin trauma í æsku og þess vegna hef ég alltaf verið mjög næmur; ég get tjillað með fólki en ég gæti líka brotnað niður. Ég er mjög unstable emotionally og svo dó mamma og mér finnst ég vera kominn aftur í sama farið þótt það sé ekki alveg þannig. Núna er sorgin komin aftur. Þetta er ekki eitthvað sem maður mun ekki komast í gegnum. Ég hef mætt í vinnu og talað við fólk og haft gaman og svo fer ég heim. Það besta sem ég geri er að gráta. Maður er búinn að vera svo duglegur að bæla hlutina niður, sérstaklega sem táningur og maður grét svo lítið þá. Ég reyni að tala um þetta eins mikið og ég get. Ég hef sálfræðinginn minn og það er bara fínt. Ég er ekki feiminn við að tala um tilfinningar mínar. Ég hef vinkonu mína og fjölskyldu til að tala við í dag. Ég tek einn dag í einu. En stundum er þetta svo átakanlegt. Það koma endurminningar í hugann. Flash.

 

Nú er allt búið að breytast. Nú þarf ég að aðlagast þessu. Og melta. Sjá hvernig ég ætla að takast á við þetta. Hver einasti dagur er ný áskorun. Ég þarf stundum að fara út úr aðstæðum; annars brotna ég niður. Maður er aldrei samur eftir að maður lendir í svona. Núna er boltinn hjá mér sjálfum. Mér er búið að líða illa nógu lengi. Þú getur ekki ímyndað þér hve oft ég var grátandi og öskrandi og hugsaði hvað ég hataði mömmu og pabba. Ég nenni því ekki lengur. Ég get það ekki. En ég skil þær tilfinningar á þeim tíma og ég skammast mér ekkert fyrir þær. Ég stend 100% á bak við þær. Ég get lifað lífinu mínu þannig og verið einhver mannfíla og félagsskítur restina af lífinu eða try to have a little fun. Það hljómaði hræðilega ef maður væri ekki að njóta lífsins.“

 

Skúli er beðinn um að lýsa móður sinni með nokkrum orðum burtséð frá því sem þegar hefur komið fram. „Hún var drottning. Hún er ástæðan af hverju ég er og ég gæti ekki þakkað henni nóg fyrir það. Hver ég er inni í kjarnanum. Allt sem ég er og allt sem ég geri er henni að þakka. Og allt sem ég mun gera verður gert í nafni hennar. Ég sá síðustu árin að hún gerði allt sem hún gat fyrir mig. Og hún skuldar mér ekki neitt.“

 

Askan með Amal Rún heitinni Qase er í duftkeri. Skúli segist ætla að dreifa öskunni í Sómalíu. „Ég ætla að leyfa henni að fara aftur í jörðina sem hún kom úr. Ég ætla að dreifa henni í sandinn. Það verður eitthvað.“

 

Amal Rún Qase var eins og eyðimerkurblómið sjálft sem þráði að blómstra annars staðar en þrátt fyrir næga vökvun visna sum blóm.

 

Blessuð sé minning hennar.

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -