Laugardagur 26. nóvember, 2022
4.1 C
Reykjavik

Skúli fór á hausinn með látum: „Þetta er ákaflega sársaukafullur lærdómur“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Flugfélag athafna- og ævintýramannsins Skúla Mogensen, WOW Air, fór á hausinn með látum í mars mánuði árið 2019. Þá hafði félagið háð langvinnt dauðastríð fyrir opnum tjöldum og reynt ýmsar leiðir til bjargar.

Eftir mik­inn upp­gang árum saman lenti íslenska lág­far­gjald­ar­flug­fé­lagið hans Skúla í veru­legum vand­ræð­um. Innan við hálfu ári fyrir endanlegt fall WOW Air réðist félagið í skuldabréfaútboð þar sem 50 milljónir dala söfnuðust. Þær dugðu þó skammt.

Þá voru gerðar tilraunir til að renna félaginu undir Icelandir en þær viðræður sigldu í strand. Íslenska ríkið taldi sig heldur ekki hafa neinar for­sendur til að ganga inn í rekstur WOW air. Og að morgni 28. mars 2019 fór félagið í þrot.

Skúli ætlaði sér stóra hluti með WOW Air en endaði í risastóru gjaldþroti.

Svakalegt tap

WOW air óx mjög hratt á skömmum tíma og átti ekki sjóðs­stöðu til að takast á við þær sveiflur sem félagið lenti í. Flugfélagið hans Skúla tap­aði 2,4 millj­örðum króna á árinu 2017 og um mitt ár 2018 átti fyr­ir­tækið of lítið eigið fé til að takast á við þá stöðu sem var uppi.

Fjöl­miðlar birtu gögn um veru­lega dapra fjár­hags­stöðu WOW air haustið 2018 og virtist félagið þá í líf­róðri. Þrátt fyrir margra mán­aða leit og ótelj­andi fundi með fjár­festum fékkst eng­inn til að leggja WOW air til það fé sem vant­aði upp á. Á end­anum voru það leigusalar WOW air sem kyrr­settu vélar félags­ins sem leiddu til þess að það fór í þrot.

- Auglýsing -

Blikur voru á lofti á þónokkurn tíma áður en WOW féll og varð margra milljarða tapa á rekstri flugfélagsin undir það síðasta.

Hópuppsagnir

Þetta er ákaflega sársaukafullur lærdómur,“ sagði Skúlí í bréfi til starfsfólks á aðventunni árið 2018. Þann 13. desember var hundrað og ellefu fastráðnum starfsmönnum félagsins sagt upp. Uppsagnirnar voru þvert á deildir og svið félagsins. Á sama tíma lá fyrir að miklar breytingar yrðu gerðar á leiðakerfi félagsins og var til dæmis nýtilkynntu flugi til Nýju-Delí blásið af. Einnig var hætt við flug til ýmissa áfangastaða vestanhafs, þar á meðal Los Angeles og Chicago. Fjöldi hlutastarfsmanna og verktaka var einnig tekinn af launaskrá á sama tíma og var heildarfjöldi uppsagna 237. Í bréfi til starfsmanna sagðist Skúli vera algjörlega miður sín.

- Auglýsing -

Daginn eftir hópuppsagnirnar sendir WOW frá sér tilkynningu þar sem fram kom að bandaríska fjárfestingafélagið Indigo Partners myndi fjárfesta í flugfélaginu. Fjárfestingin átti að geta numið allt að 75 milljónum Bandaríkjadala, sem samsvaraði nærri 9,3 milljörðum íslenskra króna.

Þetta gekk ekki eftir og síðla mars 2019 tilkynnti WOW að viðræðum þess við bandaríska fjárfestingafélagið hafi verið slitið Á sama tíma samþykkti stjórn Icelandair að hefja viðræður um aðkomu að rekstri WOW. Þær viðræður runnu einnig út í sandinn þar sem slæm fjárhagsstaða WOW kom í veg fyrir að forsvarsmenn Icelandair treysti sér til að halda áfram.

Vildi ríkisábyrgð

Um miðjan febrúar 2019 bað Skúli um frest fram í miðjan mars 2019 til að gera upp ógreidd lendinga- og farþegagjöld á erlendum flugvöllum. Skömmu síðar óskaði hann eftir því að íslensk stjórnvöld veittu félaginu ríkisábyrgð á lánafyrirgreiðslu frá Arion banka til þess að tryggja rekstur félagsins til skemmri tíma. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, sagði það af og frá og að það væri ekki hlutverk ríkisins að koma fyrirtækjum til hjálpar vegna rekstrarvanda.

Aðeins tveimur dögum fyrir fall WOW, þann 26. mars 2019, samþykktu kröfuhafar félagsins að breyta skuldabréfum sínum í hlutafé og hófust á sama tíma viðræður við fjárfesta um mögulega aðkomu að rekstri félagsins. Aðeins tveimur dögum síðar var allt flug WOW til og frá landinu stöðvað. Farþegar WOW sem áttu bókað flug með félaginu voru því strandaðir og var ekki ljóst hvenær næstu flug WOW færu í loftið, ef þau myndu gera það yfir höfuð. Tveimur klukkutímum eftir að þetta var tilkynnt lá fyrir að WOW Air var farið á hausinn.

Icelandair flaug um 7.500 strandaglópum WOW til síns heima í kjölfar gjaldþrots WOW. Áhafnarmeðlimir sem strandaðir voru víða voru um hundrað talsins og var þeim flogið heim þeim að kostnaðarlausu. Í kjölfar falls WOW misstu ellefu hundruð einstaklingar vinnuna.

Play verður til

Þúsundir gerðu kröfu í þrotabú flugfélags Skúla Mogensen. Þegar kröfulýsingaskrá var lokað námu kröfur í þrotabúið 128 milljörðum króna og voru 5.964 einstaklingar og lögaðilar sem lýstu kröfu í búið.

Hópur fjárfesta og tveir fyrrverandi stjórnendur hjá WOW hófu vinnu við stofnun nýs íslensks lággjaldaflugfélags á grunni WOW Air. Síðla árs 2019 var svo flugfélagið Play Air kynnt til leiks.

Michelle Ballarin.

Þá keypti bandaríska fyrirtækið Oasis Aviation Group allar rekstrartengdar eignir úr þrotabúi WOW Air. Eigandi fyrirtækisins, Michelle Ballarin, er bandarísk athafnakona og á sér skrautlega sögu.

Í dag eru því tæp fjögur ár liðin frá falli WOW Air og hafði fall félagsins mikil áhrif á atvinnu- og efnahagslíf á Íslandi. Skúli Mogenssen hefur hins vegar ekki setið aðgerðarlaus og hefur hann meðal annars opnað sælustað í Hvammsvík í Hvalfirði.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -