2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Snjórinn, jólaljósin og samveran best

Laura Elena Cervera Magallanes, kennari hjá Hjallastefnunni og túlkur, flutti til Íslands frá Mexíkó ásamt eiginmanni og tveimur sonum sumarið 2011. Hún segir fyrstu jólin á Íslandi hafa verið ógleymanleg og þar hafi snjórinn átt stærstan þátt.

„Upphaflega ætluðum við bara að vera á Íslandi í eitt og hálft ár svo við gerðum ráð fyrir því að jólin 2011 yrðu einu íslensku jólin okkar og vildum gera þau sem eftirminnilegust,“ útskýrir Laura. „Synir okkar, sem voru þá fjögurra og fimm ára, voru yfir sig spenntir yfir því að fá gjafir frá jólasveinunum í skóinn og vöknuðu fyrir allar aldir til að gá hvað væri í skónum. Stundum vöknuðu þeir klukkan tvö á nóttunni og ég var að verða örmagna af því að passa að koma gjöfunum í skóinn áður en þeir vöknuðu. Þetta var allt svo nýtt og framandi. Meira að segja myrkrið var spennandi fyrir okkur þessi fyrstu jól. Við bjuggum áður í Cuernavaca, Morelos sem er stundum kölluð borg hins eilífa vors svo þú getur ímyndað þér viðbrigðin! En snjórinn, jólaljósin og myrkrið, auk samveru við fjölskyldu eiginmanns míns sem er hálfíslenskur, gerðu þessi jól einhver þau eftirminnilegustu sem við höfum átt.“

Meira að segja myrkrið var spennandi fyrir okkur þessi fyrstu jól.

Þótt jólahefðir í Mexíkó séu ólíkar þeim íslensku segir Laura jólin þar og hér líka að því leyti að þau snúist fyrst og fremst um samveru með fjölskyldu og vinum og að borða góðan mat saman. Ein tegund af íslenskum jólamat vekur þó ekki hrifningu hennar.

„Þessi siður að borða illa lyktandi skötu á Þorláksmessu hefur ekki fallið í góðan jarðveg hjá mér,“ segir hún og hryllir sig. „Ég get alls ekki borðað hana. En allur annar íslenskur jólamatur finnst mér mjög góður; hangikjöt, rjúpa, laufabrauð, reyktur lax og bara allt. Mjög ólíkur jólamatur frá þeim sem ég er vön frá Mexíkó, en alveg jafngóður.“

Þessi siður að borða illa lyktandi skötu á Þorláksmessu hefur ekki fallið í góðan jarðveg hjá mér.

Laura segir mesta muninn á íslenskum og mexíkóskum jólum felast í jólahefðunum. „Í Mexíkó fögnum við jólunum frá 12. desember til 6. janúar og frá 16. desember fram á aðfangadagskvöld eru skrúðgöngur á hverju kvöldi til að minnast leitar Maríu og Jóseps að gistingu á gistiheimilum. Börnin ganga milli húsa með kerti og syngja söngva sem greina frá þessari leit við hverjar dyr, en er alltaf vísað í burtu. Göngunni lýkur svo á hverju kvöldi með veislu á mismunandi heimilum sem gegna hlutverki fjárhússins þar sem María og Jósep fengu loksins inni, og þar er borðað og drukkið, farið í leiki, flugeldum skotið upp og börnin fá fullt af sælgæti úr leirkrukku sem vanalega hangir niður úr lofti hússins og þau þurfa að brjóta með því að berja í með bundið fyrir augun. Á aðfangadagskvöld er svo settur upp pallur með Maríu og Jósep við jötuna og þegar rétta húsið er fundið er Jesúbarnið sett í jötuna. Svo fara allir í messu til að fagna komu jólanna.“

AUGLÝSING


Laura viðurkennir að hún sakni jólanna í Mexíkó stundum, sakni fjölskyldu sinnar og vina, en sem betur fer eigi fjölskyldan stóra fjölskyldu á Íslandi líka sem komi saman um jólin svo þrátt fyrir allt sé upplifunin ekki svo ólík. Það besta sé þó hve allir séu glaðir á jólunum.

„Það besta við jólin á Íslandi er hvað allir eru í góðu skapi,“ segir hún hlæjandi. „Svo dýrka ég líka öll jólaljósin utan á húsunum. Ég vona virkilega að það verði hvít jól í ár, það er hátíðlegast og við vorum svo ótrúlega heppin að fá jólasnjó fyrstu jólin okkar á Íslandi. Það var ógleymanleg upplifun.“

Mynd / Heiðdís Guðbjörg

 

Ekki missa af þessum

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is