Revíusöngkonan Soffía Karls er látin. Soffía var langþekktust fyrir að hafa sungið lagið, Það er draumur að vera með dáta. Lagið er einn af stærstu smellum íslenskrar dægurtónlistar. Á meðal annarra smella hennar eru Bílavísur og Það sést ekki sætari mey. Soffía kom fram í revíum með Brynjólfi Jóhannessyni leikara og fleirum úr hópi þjóðþekktra leikara. Soffía „snarhætti“ í leiklistinni, eins og segir í Morgunblaðinu, þegar hún giftist Jóni Jónssyni og flutti til Keflavíkur þar sem hún bjó til æviloka. Þau hjónin eignuðust 9 börn og eitt fósturbarn.
Soffía lét sig leiklist varða alla ævi. Hún var einn af stofnendum Leikfélags Keflavíkur og var formaður þess um árabil. Þá var hún formaður í Kvenfélaginu og starfaði með Lionsklúbbnum í Keflavík.