„Sökker fyrir sjálfshjálparbókum“

Deila

- Auglýsing -

Séra Skúli S. Ólafsson, sóknarprestur í Neskirkju segist hafa mest gaman af því sem heitir í erlendum bókarekkum ,,non-fiction books“. Skáldsögur þurfi að hafa mikið aðdráttarafl til að halda honum við efnið. En hvaða bækur skyldu hafa haft mest áhrif á Skúla?

Húslestrarbók Jóns Þorkelssonar Vídalín
„Fyrsta ritið sem kemur upp í hugann í flokki áhrifaríkra bóka er Húslestararbók Jóns Þorkelssonar Vídalín (1666-1720). Postillan kom fyrst út á árunum 1718 og 1720 og var einnig nefnd Vídalínspostilla. Höfundur lauk meistaraprófi með láði, frá Kaupmannahafnarháskóla og var hann eftir það kallaður Meistari Jón. Hann var rómaður fyrir mælsku og andagift og hafði auk þess á yngri árum unnið fyrir sér með erfiðisvinnu, ólíkt öðrum fyrirmönnum þess tíma. Mögulega hafði það einhver áhrif á vinsældir hans, en bókin féll óðara í kramið hjá Íslendingum og eftirprentanir hennar eru fimmtán, hin síðasta frá 1995. Sú mun vera löngu uppseld og nokkurt fágæti. Halldór Laxness lýsir því í Brekkukotsannál að við húslestra hafi fólk nánast tónað textana úr postillunni en þar er lagt út af biblíulestrum hvers helgidags ársins. Sjálfur þaullas ég Vídalínspostillu er ég var að ljúka guðfræðinámi og skrifaði um hana lokaritgerð. Þrátt fyrir að síðari tíma fræðimenn hafi talið sig geta fundið henni og höfundinum ýmislegt til foráttu er bókin mögnuð og fólk getur skemmt sér við að glíma við innblásinn barokktextann.“

Í nafni heilagrar guðdómsins þrenningar
„Næst langar mig að nefna rit sem er einnig tengt meistara Jóni og heitir Í nafni heilagrar guðdómsins þrenningar. Það hefur að geyma dóma sem biskupinn felldi ásamt ráðgjöfum sínum er hann gegndi embætti Skálholtsbiskups frá árinu 1698 til dánardags. Dómskjöl þessi birta lýsingar af lífi fólks um aldamótin 1700 og fyrir þolinmóðan lesanda opnast þar horfinn heimur og mergjaðar lýsingar af lífi fyrirfólks og alþýðu. Már Jónsson sagnfræðingur bauð mér að taka þátt í útgáfu ritsins og var það ferli að sönnu lærdómsríkt.“

Succeed
„Loks langar mig að benda á bókina Succeed eftir sálfræðinginn Heidi Grant Halvorson. Ég er sökker fyrir sjálfshjálparbókum og þessi nýttist mér vel þegar ég var á lokasprettinum í doktorsnámi mínu sem tengdist einmitt Meistara Jóni.“

- Advertisement -

Athugasemdir