Fimmtudagur 12. desember, 2024
4.8 C
Reykjavik

Sólveig fokill: „Ef þetta væri ekki svona ógeðslegt væri þetta auðvitað fyndið“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, er segir málflutning Morgunblaðsins og Samtaka atvinnulífsins viðbjóðslegan í pistli sem hún birtir á Facebook. Hún segir það taka út yfir allan þjófabálk að saka verkalýðshreyfinguna um núverandi kreppu.  Sólveig vísar í Staksteina Morgunblaðsins á Facebook-síðu sinni og skrifar:

„Staksteinar mæra aðstoðarframkvæmdarstjóra SA fyrir að halda áfram að agitera fyrir því að „launin séu þungur baggi“ eins og Frjáls verslun komst að orði og því sé best að standa ekki við gerða samninga. Því er svo haldið fram að „viðsemjendur SA og fleiri fulltrúar launþega á vinnumarkaði láta sem hér ríki enn góðæri“. Pæliði í því hvað þetta er galið. Síðan að faraldurinn nam land á eyjunni hafa fulltrúar svokallaðara launþega fátt annað gert en að bregðast við afleiðingum sóttvararaðgerða stjórnvalda. Baráttan hefur verið stöðug mánuðum saman, til dæmis fyrir því að fá stjórnvöld til að hækka atvinnuleysisbætur í fjöldaatvinnuleysinu; það reyndist erfiður og langdreginn slagur. Hvers vegna? Jú, vegna þess að SA stóðu gegn því; ekki mátti letja fólk til vinnu. Þegar þetta tímabil verður gert upp í annálum mun sagan sannarlega dæma.“

Morgunblaðið vitnar í Ásdísar Kristjánsdóttur, aðstoðarframkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, í umræddum Staksteinum. Hún segir laun of há í ferðaþjónustunni. Morgunblaðið bætir svo við það: „Ásdís lýsir þarna grafalvarlegri stöðu en vandinn er sá að viðsemjendur SA og fleiri fulltrúar launþega á vinnumarkaði láta sem hér ríki enn góðæri. Launahækkanirnar sem Ásdís nefnir halda áfram eins og ekkert hafi í skorist og því miður er fyrirsjáanlegt að þeim muni fylgja meira atvinnuleysi og auknir erfiðleikar fjölskyldnanna í landinu.“

Sólveig segir þetta viðbjóðslegan málflutning. „Baráttan hefur einnig verið stöðug fyrir því að SA gæti ekki sagt upp samningum og með því dýpkað kreppuna, og fært enn þyngir byrðar á verka og láglaunafólk. Fulltrúar vinnandi fólks hafa setið undir stöðugum árásum meðan að fulltrúar eignastéttarinnar hafa fengið ógrynni af sjónvarpsviðtölum, forsíðufréttum, útvarpsviðtölum í sinni einbeittu baráttu fyrir því að lægst setta fólkið á landinu beri eitt fórnarkostnað hinna efnahagslegu hörmunga. Og nú segir maður sem býr inn í viðvarandi góðærinu sem hann skapaði fyrir sjálfan sig og stéttbræður sína að verkalýðshreyfingin haldi að enn ríki „góðæri“. Ef þetta væri ekki svona ógeðslegt væri þetta auðvitað fyndið,“ segir Sólveig.

Hún segir aðstæður ótrúlega margra séu skelfilegar nú korter í jól. „Fjöldi fólks er án atvinnu. Ráðstöfunartekjur fólks hafa hrapað. Stór hópur greiðir allar sínar ráðstöfunartekjur í leigu. Aldrei hafa hjálparsamtök tekið á móti fleira fólki til að aðstoða. Vegna þess að fólkið sem nú er atvinnulaust upplifiði ekkert helvítis góðæri, átti enga sjóði til að leita í þegar að það gat ekki lengur selt aðgang að vinnuaflinu sínu,“ segir Sólveig.

Hún segir það lágkúrulegt að kenna verkalýðshreyfingunni um atvinnuleysið. „Í góðærinu upplifði margt af þessu fólki launaþjófnað og illa framkomu. Það hafði ekki aðgang að góðu húsnæði á eðlilegu verði. Það svitnaði fyrir hagvöxtinn. Það fékk ekkert gefins, vann baki brotnu fyrir hverri einustu krónu. Maður sem um langt skeið var valdamesta persóna landsins dirfist að halda því fram að fulltrúar vinnuaflsins láti eins og enn ríki góðæri þegar að mánuðum saman hefur allt snúist um að fá íslenska valdastétt til að sjá og viðurkenna að ekki er hægt að kasta risastórum hópi af fólki í ruslið þegar ekki er lengur hægt að arðræna það. Þetta bætist við ógeðslegan áróðurinn um að atvinnuleysið sé verkalýðshreyfingunni að kenna,“ segir Sólveig og bætir við að lokum:

- Auglýsing -

„Þvílík lágkúra. Þvílík heimska. Þvílík forherðing. Þegar við förum að trúa því að ekki sé hægt að sökkva á lægra plan er ávallt einhver úr framvarðasveit íslenska hægrisins tilbúinn til að sýna okkur að það er bókstaflega enginn botn til í hugmyndafræðilegu lífi þeirra. Vont getur ávallt versnað.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -