Þriðjudagur 27. september, 2022
6.8 C
Reykjavik

Sólveig gerir stólpagrín að Hildi: „Fáránleg tillaga sem sýnir að hún skilur ekki nútímasamfélag“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, gerir stólpagrín á Facebook-síðu sinni að grein sem Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, birtir í Morgunblaðinu. Hildur kallar þar eftir því að Reykjavíkurborg hætti að ráða fleiri starfsmenn.

Sólveig bendir á að Hildur virðist ekki hafa hugsað það til enda, og spyr hvernig hjól atvinnulífsins eigi að snúast þegar leikskólar séu ekki starfhæfir vegna skorts á starfsfólki. Sólveig segir Hildi hafa raunar afhjúpað eigin vanþekkingu á hvernig nútímasamfélag virki.

Pistil Sólveigar má lesa í heild sinni hér fyrir neðan

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Hildur Björnsdóttir, skrifar grein í Morgunblaðið í dag, „Ráðningarbann í Reykjavík“. Í greininni fer Hildur yfir það hversu mörg starfi hjá borginni. Allt of mörg, finnst henni. Hún segir frá því hversu mikil fjölgun hafi verið á því sem hún kallar „launþega“ borgarinnar á síðustu árum. Allt of mikil, að hennar mati. Einnig rekur Hildur hversu mörg muni bætast við hóp „launþega“ borgarinnar á næstu tveimur árum. Aftur, allt of mörg.  Fjölgunin minnir Hildi á einhverjar stjórnkerfisbreytingar meirihlutans eða skýrslu um starfslýsingar í stjórnsýslu borgarinnar. Skýrslu-hugrenningatengslin vakna hjá borgarfulltrúanum vegna þess að svo margar blaðsíður voru í skýrslunni. Heilar 600 blaðsíður. Sem talar víst „sínu máli“. Vegna þess að áframhaldandi ráðningar hjá borginni eru „ósjálfbærar“ leggur hún til að borgin fari í ráðningarbann. Það er áhugaverð nálgun.

Segjum sem svo að Hildur réði ríkjum og gæti framkvæmt hugmynd sína um ráðningarbann í Reykjavík. Í þeirri veröld myndi kreppan verða lengri og dýpri þar sem að borgin myndi þá ekki gera sitt til að bjóða fólki störf í fjöldaatvinnuleysinu. Fleiri yrðu þá föst án vinnu, en almennt er talið að fátt sé verra fyrir samfélagið en langvinnt fjöldaatvinnuleysi. Færri hefðu ráð á að „neyta“; kaupa varning í búðum borgarinnar; þrátt fyrir að borgin borgi lægst setta vinnuaflinu sínu smánarlaun eru þau þó hærri en atvinnuleysisbætur. Draga myndi úr innlendri eftirspurn en slík eftirspurn er það sem heldur hagkerfinu gangandi um þessar mundir.

Hugleiðum svo við hvað stór hluti „launþega“ borgarinnar starfar. Jú, við það sem kalla má undirstöðustörf, t.d. umönnun aldraðara og annars fólks sem þarf aðstoð við daglegt líf. Hér má t.d. nefna heimaþjónustu, akstursþjónustu og dagdvöl. Einnig er töluverður fjöldi sem starfar við umönnun og menntun lítilla barna en eins og í það minnsta mörg okkar vita gera leikskólar borgarinnar foreldrum kleift að stunda vinnu, öruggum í þeirri vissu að börn þeirra eru í vistuð á samfélagslega reknum stofnunum þar sem fólk leggur sig allt fram til að veita þeim umhyggju og öryggi. Borgin rekur 63 leikskóla og í þeim dvelja ríflega 6000 börn á degi hverjum. Fjöldi „launþega“ starfar líka í grunnskólum borgarinnar en flest okkar eru sammála um að þeir séu kerfislega mikilvægir og mikilvægt sé að rekstrarskilyrði þeirra séu sem best. Borgin rekur 36 grunnskóla þar sem að um það bil 14.000 börn sækja nám. Borgin rekur líka 5 frístundaheimili þangað sem börn geta dvalið að skóladegi loknum, meðan að forsjáraðilar svokallaðir eru enn að snúa hjólum atvinnulífins.

Borgin sér líka um ýmsa sorphirðu, rekur almenningssamgöngur, heldur utan um hjólastíga-kerfið og tryggir ýmsa útvistar og íþrótta-iðkunnar-möguleika borgaranna.

- Auglýsing -

Ég læt hér staðar numið í upptalningunni, margt er þó ónefnt (bætum hér ýmsum söfnum við, sem mér í það minnsta finnst yfirleitt fínt að séu til staðar í þessari borg sem og öðrum). Ég vil stoppa vegna þess að hætt er annars við að ég endi sem höfundur 600 blaðsíðna skýrslu um starfsemi Reykjavíkurborgar og ég hef ekki tíma fyrir slíka skrif. Svo vil ég heldur ekki ólaunað gera það sem fólki sem sérhæft hefur sig í skýrslu-skrifum fær borgað fyrir að gera.

Það sem ég hef upp talið er hægt að flokka sem félagslega endurframleiðslu. Slík endurframleiðsla er mikilvæg í mannlegu samfélagi. Í þeirri mynd sem við þekkjum hana úr okkar nærumhverfi er hún hinn ómissandi grunnur að þeirri samfélagsskipan sem við búum við. Störf sem að áður voru unnin inn á heimilum eru nú unnin á sérstökum stofnunum sem hið opinbera svokallaða rekur. Viðhald mannlegrar tilveru er fjarska margt á ábyrgð launaðs vinnuafls. Svokallaðra „launþega“. Hvers vegna? Jú, vegna þess að mjög fólk er í vinnu við að gera allt mögulegt annað en að sinna fjölskyldu, heimili, öldruðum ættingjum. Sum vinna við að framleiða matvæli, sum við að framleiða nýsköpun, sum við að græða peninga, sum við skýrslugerðir, sum við mannauðsstjórnun, sum við að stjórna-peninga-gróða-vélunum og svo eru nokkur við borgarfulltrúastörf. Aftur er hér margt ótalið, ef manneskja hemur sig ekki í upptalningum er hættan ávallt fyrir hendi að enda með 600 blaðsíðna skýrslu.

Til að hjól atvinnulífsins megi snúast og ofnar verðmætasköpunar kyndast og arður eigenda atvinnutækjanna verða til er algjört lykilatriði að félagsleg endurframleiðsla sé tryggð. Ég get ekki lagt nógu mikla áherslu á hversu mikilvægt þetta atriði er. Svo ég segi sama brandarann einu sinni enn: 600 blaðsíður myndu ekki duga mér til þess þó að ég gjarnan væri til í að skrifa þær allar og fleiri um félagslega endurframleiðslu í kapítalísku samfélagi.

- Auglýsing -

Ef að draumur Hildar yrði að raunveruleika og ráðningarbann yrði sett á í Reykjavíkurborg myndi það gerast að ekki væri hægt að sinna ölum þeim börnum sem þarf að sinna á leikskólum. Borgin sæti t.d. upp í með nýjar leikskólabygginga sem voru byggðar til að taka við við sí-stækkandi barnahóp borgarbúa, sem ekki væri hægt að manna og þar með ekki hægt að reka. Biðlistar myndu lengjast og guð á himnum, hvað reiði og frústrasjónaróp foreldra barna án leiksskólapláss yrðu mikil og einbeitt. Ekki væri hægt að sinna þörfum hins sístækkandi hóps gamals fólks; borgarbúa-konurnar yrðu þá að taka að sér að sjá um umönnun aldraðra ættingja í meira mæli en þær gera þegar og ég hef vissar efasemdir um að þær hafi mikla löngun í slíkt. Ekki væri hægt að reka skóla með þeim hætti sem við viljum að þeir séu reknir, með nægilegum fjölda af starfsfólki til að börnin okkar lifi við nokkuð öryggi í sínu daglega lífi. Og svo framvegis og svo framvegis og svo framvegis.

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins hefur í raun skrifað dystópíska örsögu. Sögu af samfélagi þar sem mannlegar þarfir mæta afgangi vegna þess að exel-skjal er orðið Guð og öll þurfa að lúta vilja skjalsins. „Ó Skjal, við tilbiðjum þig en geturðu samt tekið tillit til þess að við erum mannfólk með þarfir og við búum í flóknu nútímasamfélagi og það er ekki gott ef að grunnþáttum samfélagsins er refsað vegna þess, fyrirgefðu okkur Skjal fyrir þetta skjala-guðlast, að tölurnar í þínum helgu dálkum valda þér reiði og uppnámi?“ og Skjalið svarar með því að einkavæða samstundis í bræði sinni alla innviði til þeirra sem hafa sýnt algjöra lotningu og tilbeiðslu á lögmálum hinna helgu texta Skjalsins.

Á þessum tímapunkti væri bókstaflega ekkert verra fyrir okkur borgarbúa en að hugmynd Hildar Björnsdóttur yrði að veruleika. Hún hefur í raun með þessari fáránlegu tillögu sýnt afdráttarlaus fram á það að hún skilur ekki nútímasamfélag, skilur ekki hlutverk borgarinnar og skilur ekki þarfir borgarbúa. Skilur ekki einu sinni hvernig verðmætasköpun kapítalismans er gerð möguleg með vinnu þeirra sem umannast mannlegt samfélag. Þetta skilningleysi hennar á einstaklega basic atriðum gerir það að verkum að ég skil bara alls ekki af hverju í ósköpunum hún er að sækjast eftir völdum í borginni. Ætli hún haldi í alvöru að fólk hafi áhuga á að búa í þeirri Thatcher-ísku ömurð sem hún hefur áhuga á að skapa

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -