Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, er komin með gjörsamlega nóg af hálaunamönnum í íslensku samfélagi. Hún segir málflutning þeirra í garð láglaunafólks bæði ógeðslegan og mannfjandsamlegan.
Skoðun verkalýðsforingjans kemur fram í nýlegri færslu Sólveigar á Facebook. Þar segir hún einfaldlega nóg komið eftir að hafa lesið umfjöllun Morgunblaðsins á innistæðulausum launahækkunum launamanna um áramótin. „Árásum hálaunamanna á láglaunafólk skal linna! Þvílík skömm er að því að hálaunamenn haldi áfram að ráðast á kjör láglaunafólks, með aðstoð áróðursmiðils hinna ríku. Á íslenskum vinnumarkaði er jafnframt hópur fólks sem vinnur á strípuðum töxtum. Þetta er lægst launaðasta fókið á íslenskum vinnumarkaði! Fólkið sem t.d. hefur þurft að vera í fleiri en einni vinnu eða í endalausri aukavinnu, en hefur nú í atvinnuleysinu ekki tök á slíku,“ segir Sólveig og heldur áfram:
„Þetta er fólkið sem er með 1807 krónur á tímann. Fólkið sem með tekjutryggingunni er með 335.000 krónur á mánuði. Og trúið mér: Að komast af á þessum launum á einu dýrasta landi í heimi er ekki auðvelt. Í raun er hægt að halda því fram að það að láta hlutina ganga upp á þessum launum sé einhverskonar afrek í útsjónasemi, seiglu og klókindum. En oft með alvarlegum afleiðingum fyrir heilsu fólks, líkamlega og andlega.“
Sólveig bendir á að á Íslandi séu kjarasamningar einfaldlega í gildi og þeir komi hálaunafólkinu ekki við. „Stöðugur áróður þeirra er aðför að friði á vinnumarkaði. Þeir virða ekki leikreglur íslensks vinnumarkaðar. Þeir skilja ekkert nema þær reglur sem þeir sjálfir hafa sett: Hinir ríku skulu verða ríkari og hin fátæku skulu halda áfram að halda kjafti og gera það sem þeim er sagt. En ég segi það hátt og snjallt: Reglur þessara manna eru reglur grimmdarinnar. Þeirra reglur eru reglur arðránsins. Þeirra reglur eru reglur kúgunarinnar. Ég fordæmi þær af öllu hjarta. Og ég neita að lifa eftir þeim,“ segir Sólveig.
„Þeir verða sér til háborinnar og innilegrar skammar með þessu ógeðslega mannfjandsamlega röfli.“
Verkalýðsforinginn bendir einnig á að árslaun bankamanna og hálaunafólksins hérlendis eru auðæfi í huga verkakonunnar. „Þrátt fyrir að vinnuaflið hennar, sviti hennar, kraftur hennar hafi farið í að búa hér til auðæfi hinni auðugu. Þrátt fyrir að hún hafi stritað í ferðamannabransanum, á kassanum í Bónus og í Hagkaup í en Finnur Oddsson, forstjóri Haga, tekur þátt í þessari svívirðilegu aðför ríkra manna að lífskjörum fátækra kvenna, þrátt fyrir að hún hafi gætt barna þessara manna, annast aldraða ættingja þeirra þá fær hún aldrei neitt nema einbeittan níðingsskap að launum!“
Sólveig segir það ekki mega gleymast að fólkið á strípuðu launatöxtunum séu fullgildir meðlimir í íslensku samfélagi. „Þau greiða sína skatta og sín gjöld. Þau eiga heimili og börn. Þau hafa kosið og samþykkt kjarasamninga. Þessar hækkanir eru þeirra. Þær verða ekki af þeim teknar. Og milljón-króna mennirnir, sem vita ekki aura sinna tal, sem lifa í vellystingum vegna vinnu vinnuaflsins ættu að sjá sóma sinn í því að þegja. Þeir verða sér til háborinnar og innilegrar skammar með þessu ógeðslega mannfjandsamlega röfli. En því miður virðist svo vera að sómi þeirra sé lítill. Kannski enginn. Völd þeirra eru í öfugu hlutfalli við sómakenndina. Það er ömurlegt. Völdin hafa þeir vegna stöðu sinnar og fjármagns. En þeir ráða ekki yfir okkur. Og við skulum tryggja að þeir fái loksins skilið það. Þeir geta argað sig hása en það mun ekki hafa nein áhrif. Þetta andlega ofbeldi er hætt að virka. Og mun ekki virka aftur,“ segir Sólveig ákveðin.